Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er Grænsápubiblían siðferðilegur grunnur lífs okkar?

"Biblían er sá siðferðilegi grunnur sem líf okkar grundvallast á - hvort sem okkur líkar betur eða verr." skrifaði Páll Baldvin Baldvinsson nýverið í Fréttablaðinu. Þessi undarlega staðhæfing hans er röng og það sést um leið og málið er athugað. Þegar hugmyndasagan er skoðuð sjáum við að hugmyndir grískra heimspekinga um siðfræði hafa miklu meiri áhrif á okkur en þær hugmyndir sem koma fram í biblíunni. Það er líka gott því að biblían inniheldur siðferðisboðskap sem er ekki bara slæmur heldur á köflum beinlínis skaðlegur. Þetta á ekki bara við um Gamla testamentið sem flestir eru sammála um að innihaldi margt vafasamt heldur gildir þetta einnig um Nýja testamentið. Jesús sagðist sjálfur ekki færa frið heldur sverð (Matt 10:34). Hann tók líka fram að til þess að fylgja sér þyrfti fólk að hata foreldra sína (Lúk 14:26).

En reyndar get ég ekki verið viss um að Jesús segi þetta lengur. Þessu gæti allt eins hafa verið breytt í nýju Grænsápubiblíunni sem mikið er fjallað um þessa daganna. Það er nefnilega þannig að í nýju þýðingunni virðist alla vega sumum hlutum hafa verið breytt án þess að taka tillit til frumtextans með það að markmiði að laga boðskapinn svo að hann passi betur við siðferðishugmyndir samtímans, það líkist því helst að grænsápa hafi verið notuð til að skrúbba burt óhreinu blettina.

Besta dæmið um þessa hreinsun textans er væntanlega fordæming Páls postula á samkynhneigð í Fyrra Korintubréfi. Í gömlu þýðingunni var talað um hórkarla og kynvillinga en í nýju Grænsápubiblíunni stendur nú "karlmaður sem lætur misnota sig eða misnotar aðra til ólifnaðar." Nýja útgáfan er alveg laus við að endurspegla frumtextann. Gríski frumtextinn bendir einfaldlega til þess að hér sé verið að tala um samkyhneigð [samkynhneigð] (sbr. Sjötíumannaþýðinguna). Í nýju þýðingunni er líka búið að breyta textanum til að endurspegla hugmyndir nútímans um jafnrétti kynjanna. Það er einfaldlega verið að falsa textann.

Ef biblían væri sá siðferðilegi grunnur sem líf okkar byggist á þá þyrfti ekki að laga hana að siðferðishugmyndum nútímans. Frá þeim tíma að síðasta biblíuþýðing kom fram þá hefur viðhorf samfélags okkar til samkynhneigðar breyst gríðarlega. Ríkiskirkjan bregst við með þessum kattarþvotti. Kristin trú mótar ekki siðferðishugmyndir Íslendinga. Þvert á móti eltist hún við ríkjandi tíðaranda.

Ríkiskirkjan hefur aldrei verið leiðandi í framfaramálum í mannréttindum og siðferði. Sem stofnun er hún ekki bara eftir á heldur er hún yfirleitt að reyna að hægja á þróuninni eða "standa aðeins þarna á bremsunni" eins og Karl biskup orðar það. Í framtíðinni munu prestar kirkjunnar (sem verður vonandi ekki ríkiskirkja lengur) væntanlega halda því fram að hún hafi verið leiðandi í réttindabaráttu samkynhneigðra eins og prestar halda því í dag fram að hún hafi verið leiðandi í kvenréttindabaráttunni.

Hvaða þýðingu af biblíunni telur Páll Baldvin vera siðferðilegan grunn lífs okkar? Þá nýjustu? Þá síðustu? Hvernig getur siðferðilegur grunnur lífs okkar breyst eftir því hvaða tíðarandi ríkir í samfélaginu hverju sinni? Bendir það ekki til þess að samfélagið hafi meiri áhrif á biblíuna en biblían á samfélagið? Kristið siðgæði, ef hægt er að tala um slíkt fyrirbæri, er ekki mótað af biblíunni heldur samfélaginu.

Nei, biblían er ekki sá siðferðilegi grunnur sem líf okkar grundvallast á. Þeir sem raunverulega byggja siðferði sitt á henni eru upp til hópa frekar ógeðfelldir öfgatrúarmenn. Þeirra siðferðisgrunnur er bókstaflega fornaldarlegur. Frjálslyndari trúmenn reyna síðan að endurskrifa biblíuna til þess að hún passi þeirra siðferði betur. Þeir vita að biblían er slæmur grunnur til að byggja á.


Þessi grein birtist í 24 stundum 31.11.2007

Óli Gneisti Sóleyjarson 04.11.2007
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


ThorK - 04/11/07 11:10 #

Í framtíðinni munu prestar kirkjunnar (sem verður vonandi ekki ríkiskirkja lengur) væntanlega halda því fram að hún hafi verið leiðandi í réttindabaráttu samkynhneigðra eins og prestar halda því í dag fram að hún hafi verið leiðandi í kvenréttindabaráttunni.

Snilld!

Hvenær skyldu þeir byrja að hreykja sér af að hafa verið frumkvöðlar að réttindabaráttu trúlausra?


Hjortur Brynjarsson (meðlimur í Vantrú) - 05/11/07 07:24 #

Flott grein og svona til ad svara spurningunni i titli greinarinnar: NEI; eins og svo réttilega er bent á.


Haukur Ísleifsson - 05/11/07 12:50 #

Páll hefur líklega ekki lesið neitt verulega mikið af þessari bók sem um ræðir. Það tel ég líklegustu ástæðuna fyrir þessari fullyrðingu. Nema þá ef að hann telji þjóðarmorð, grýtingar og slíkt ríkjandi í nútíma siðferði.


Jón Valur Jensson - 06/11/07 01:02 #

HVAÐA hugmyndir hvaða grískra heimspekinga um siðfræði hafa haft "miklu meiri áhrif á okkur en þær hugmyndir sem koma fram í Biblíunni"?

Gneistanum láðist alveg að taka það fram.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 06/11/07 04:09 #

Þú kommentar ekki á hentugum tíma til að fá svör frá mér JVJ þar sem ég tek eftir þessu kommenti þínu akkúrat þegar ég er á leið út úr húsi á leið til útlanda og ég er ekki með ferskasta móti klukkan fjögur að morgni.


Jón Valur Jensson - 06/11/07 10:17 #

Við verðum að sýna þér biðlund með svarið. Góða ferð út í hinn víða heim.


Axel - 09/11/07 00:46 #

"Jesús sagðist sjálfur ekki færa frið heldur sverð (Matt 10:34)"

II kor. 10 3Þótt ég sé maður berst ég ekki á mannlegan hátt - 4því að vopnin, sem ég nota, eru ekki jarðnesk heldur máttug vopn Guðs til að brjóta niður vígi.

Þetta sverð sem Jesús er að tala um þarna er tvímælalaust ekki jarðneskt sverð heldur er hann að tala um stíðið sem við eigum við andaheiminn og vopnið (eða sverðið, stríðið), er bara líking við bæninina. Dæmi: Bænagangan núna á morgun er stríð gegn eiturlyfjum, áfengi, einelti o.s.frv. og bænin er sverðið okkar. Enda væri það fáránlegt að halda því fram að Jesús hafi verið að boða jarðneskt stríð, þar sem að ekkert stendur skýrara í Biblíunni heldur en afstaða hennar til manndráps, sbr. boðorðin og þegar Pétur beitti sverði sínu og hjó eyrað af einum rómverskum hermanni sem var að fara að handtaka Jesú í Getsemane garðinum, var hann hundskammaður af Meistaranum og þá sagði Jesús að sá sem brygði sverði myndi fyrir sverði falla.

"Hann tók líka fram að til þess að fylgja sér þyrfti fólk að hata foreldra sína (Lúk 14:26)"

Ég tek það fram að í nýju þýðingunni er þetta orðað svona

Lúk.14:26 26„Enginn getur komið til mín og orðið lærisveinn minn nema hann taki mig fram yfir föður og móður, maka og börn, bræður og systur og enda fram yfir eigið líf.

Þarna er verið að tala um að ef þú ætlar að verða kristinn þá verður þú að taka það alvarlega. Prestur nokkur sem var að prédika í Afríkulöndunum sagði mér að þegar hann prédikaði um Krist, sagði hann fólki að taka ekki strax á móti Jesú, heldur fara heim, hugsa málið, vandlega, hvað það mundi kosta það, hann sagði að það gæti kostað lífið (fólkið bjó á þannig stað sem kristnir eru ofsóttir). Og viti menn, fólkið kom í hópum daginn eftir og vildi taka á móti þessu.

Maður sem virkilega elskar Guð, er tilbúinn að fórna öllu fyrir fjölskyldu, vinum, peningu, vinnu, tíma, öllu ef hann þarf á því að halda. Það er alveg eins og með annan kærleik, kærleikur á Guði er ekkert minni. Ef kærleikur er nógu mikill, víkur allt fyrir honum.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 09/11/07 01:41 #

En, til hvers?


Axel - 09/11/07 15:38 #

Hvað áttu við, til hvers hvað?

til hvers að biðja gegn, eiturlyfjum, ofdrykkju sjálfsmorðum o.s.frv.? til hvers var fólkið að taka við fagnaðarerindinu? eða til hvers að elska?

???


gimbi - 14/11/07 01:05 #

...og ég sem bíð spenntur eftir svari Óla Gneista til Jóns Vals...

Ekkert að gerast?


Steindór J. Erlingsson - 14/11/07 06:55 #

Varðandi Lúkas 14:26 þá er búið að skipta orðinu "hata" út fyrir eitthvað grænsápurugl. Ég á bók eftir bandarískan guðfræðing sem sýnir fram á það að "hata" sé eina rétta þýðingin á gríska orðinu sem þarna er um að ræða. Hér er því vísvitandi verið að blekkja fólk.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 14/11/07 11:30 #

Ég þarf að ákveða hvort að ég eigi að svara þessu í löngu máli eða stuttu og hef valið þá síðarnefndu. Hugmyndin um hinn gullna meðalveg er dæmi um siðfræðihugmynd sem hefur mun meiri áhrif á siðferðisvitund fólks en flest úr biblíunni. Fólk er ótrúlega gjarnt á að staðsetja sig milli tveggja öfga eða lasta þegar það er að réttlæta sig. Mig grunar reyndar að margir haldi að hugmyndin um gullna meðalveginn komi úr Biblíunni.

Ástæðan fyrir því að ég fer ekki í langt mál er að mig grunar að það verði gagnslaust því við erum að tala um hluti sem verða aldrei mældir.

Ég hafði annars ekki tekið eftir athugasemd Axels og það eina sem ég hef að segja um hana er að hann er að grænsápast, hann í raun staðfestir þann punkt sem ég var að koma með í greininni.


Árni Árnason - 14/11/07 17:45 #

Sá sem virkilega heldur því fram að Biblían sé siðferðisgrunnur lífs okkar feilar hrapalega. Gildir einu hvort átt er við gamlar morðóðar biblíur eða yngri grænsápubiblíur. Þó að vissulega hafi kristnin náð að selja stórum hluta jarðarbúa sínar bábiljur, eru þó milljarðar manna sem aldrei hafa heyrt Biblíu eða séð. Þetta fólk hefur að mestum hluta sama siðferðigrunn og ég og þú. Sami siðferðisgrunnur án Biblíu. Var Gandhi kannski siðlaus, ég bara spyr ?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.