Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúboð og skólastarf

Upplýsingin var eitt mesta framfaraspor í sögu Vesturlanda. Gagnrýnin hugsun skaut rótum og bókstarfstrú var ýtt til hliðar. Farið var í vaxandi mæli að greina á milli veraldlegs og andlegs valds. Aðskilnaður ríkis og kirkju fylgdi víða í kjölfarið.

Margir upplýsingarmenn deildu á kirkjuna fyrir að boða bábiljur og kröfðust þess að kirkjan hætti áróðri sínum gegn skapandi og gagnrýnni hugsun í þeim fjölmörgu barnaskólum sem hún rak. Þátttaka kirkjunnar í skólastarfi varð í kjölfarið eitt af heitustu pólitísku deilumálum í Evrópu á 19. öld. Grunnhugsun upplýsingastefnunnar varð ofan á. Kirkjan dró sig að mestu út úr skólastarfi. Ríkið tók við rekstri flestra barna- og unglingaskóla. Enn gætir þó áhrifa kristinnar kirkju í skólum víða í Evrópu. Ísland er engin undantekning hvað það varðar. Íslenska þjóðkirkjan hefur auk þess með markvissum hætti reynt að auka trúboð innan veggja skólanna. Það skýtur hins vegar nokkuð skökku við á tímum fjölmenningarsamfélags með hlutfallslega fækkandi þjóðkirkjumeðlimum. Auk þess eru þjónar þjóðkirkjunnar engan veginn best til þess fallnir að kenna trúarbragðafræði og túlka þar með önnur trúarbrögð á sínum forsendum. Á sama hátt má spyrja hvort þjónar kirkjunnar séu ákjósanlegir í skólastofunum þegar talið best að virðingu og kærleika í samfélaginu.

Ekki er langt síðan að mikið þurfti til að yfirmenn kirkjunnar féllust á að konur stæðu körlum jafnfætis innan kirkjunnar og í samfélaginu. Einnig hafa nokkrir forsvarsmenn kirkjunnar, með biskupinn í broddi fylkingar, ráðist með skömmum og fyrirlitningu á samkynhneigða og fjölskyldur þeirra. Er slíkt fólk best til þess fallið að ræða við börnin okkar um kærleika, vináttu og virðingu innan veggja skólans? Með auknum sýnileika í skólanum reynir íslenska þjóðkirkjan að snúa við því framfaraskrefi sem stigið var með upplýsingunni að aðskilja trúboð frá almennu skólastarfi. Því er mikilvægt að spyrna við fótum og tryggja að börnin okkur fái að læra óáreitt innan veggja skólans.

Baldur Þórhallsson
Prófessor í stjórnmálafræði


Greinin birtist í 24 stundir föstudaginn 7/11

Baldur Þórhallsson 08.12.2007
Flokkað undir: ( Aðsend grein , Skólinn )

Viðbrögð


Kalli (meðlimur í Vantrú) - 08/12/07 11:30 #

Það gleður mig mest í þessum pistli að Baldur minnist á upplýsinguna. Biskupinn hefur reynt að eigna kristni allt það besta sem mun frekar er upplýsingunni að þakka og tími til kominn að þetta sé leiðrétt.

Ég held meira að segja að án upplýsingarinnar gæti biskup og fleiri trúmenn ekki stundað þá hlaðborðskristni sem þeir aðhyllast í dag.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 08/12/07 13:28 #

Páfi sendi í síðustu viku frá sér annað erindisbréf sitt, nú um vonina. Ég held að trúin hafi verið afgreidd í því fyrsta og kærleikurinn bíði betri tíma.

Í þessu merkilega bréfi komst páfi að því að upplýsingin hefði verið tilraun sem gekk ekki upp, það sannaðist á nútímanum.

Einhverra hluta vegna virðist þessi uppgötvun páfa ekki þykja mikil tíðindi. Sýnir það eflaust best hve upplýsingin hefur litlu skilað.


Haukur Ísleifsson - 08/12/07 15:04 #

Upplýsingin skilaði án efa miklu þó enn sé langt í land.


Siggi Óla - 08/12/07 21:07 #

Góð grein hjá Baldri og aldrei of oft kveðið að minnast á hræsni kirkjunnar varðandi viðingu kærleik og umburðarlyndi gagnvart öðrum.

.... og eins og biluð plata, forsvarsmenn trúarbragða eiga engin erindi í skólana, allveg sama í hvaða tilgangi.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 09/12/07 00:18 #

Fyndið, að Benni 16 er einmitt gangandi dæmi um það sjálfur, að upplýsingin hefur ekki ennþá unnið fullnaðarsigur.


Kalli (meðlimur í Vantrú) - 09/12/07 12:14 #

Eigum við ekki að orða það þannig að Ratzinger þykir ekki mikið til upplýsingarinnar koma og sú skoðun er gagnkvæm?


Anna - 09/12/07 19:57 #

Hér eru athyglisverðar upplýsingar um Benna 16 http://www.msnbc.msn.com/id/7576505/


Kalli (meðlimur í Vantrú) - 09/12/07 22:53 #

Æi, ég get ekki séð að þessi atriði úr æsku hans, a.m.k. eins og þau eru sett fram þarna (af einhverjum Monsigneur?), séu eitthvað til að pota í. Hann var skyldaður eins og væntanlega þúsundir eða milljónir barna í Þýskalandi til að gera þetta og á endanum flúði hann.


Danni - 10/12/07 01:46 #

"Einnig hafa nokkrir forsvarsmenn kirkjunnar, með biskupinn í broddi fylkingar, ráðist með skömmum og fyrirlitningu á samkynhneigða og fjölskyldur þeirra."

Exaples please!


Kalli (meðlimur í Vantrú) - 10/12/07 11:39 #

Í fljótu bragði þarf varla annað en að minnast á það að biskup sagði opinberlega að ef samkynhneigðir fengju að giftast væri það eins og að henda hjónabandinu á öskuhaugana.

Svo þarf varla að minna flesta á að biskup ásamt íhaldssamari prestum ríkiskirkjunnar hafa staðið gegn almennum mannréttindum samkynhneigðra. Með hliðsjón af bombum biskups síðustu daga veltir maður fyrir sér hvort þessi andstaða ætti kannski að teljast „hatrömm“.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.