Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ég panta mat

Síðastliðinn vetur fengu þjóðkirkjan og skólayfirvöld í Garðabæ á sig mikla gagnrýni vegna þess að prestur og djákni hófu "kristilega sálgæslu" í skólum og á skólatíma. Biskup áleit þetta kjörið sóknarfæri fyrir kirkjuna og Kirkjuþing lýsti markmiðið að frelsa börnin (skv. kristniboðsskipuninni). Innrásin fékk veigrunarheitið "Vinaleið".

Heimili og skóli lýstu yfir að með tilliti til jafnræðissjónarmiða færi betur á að starfsemi þjóðkirkjunnar færi fram utan skóla og skólatíma. Nú er engin Vinaleið í Garðabæ en Jóna Hrönn Bolladóttir sóknarprestur sagði nýlega í útvarpsviðtali að stjórnendur skólanna biðu eftir mati Kennaraháskóla Íslands á fyrirbærinu. Hún sagði að verkefnastjórn Vinaleiðar (hún og tveir skólastjórar) hefði ákveðið að panta þetta mat eftir hremmingar síðasta vetrar. Hún hvatti þáttastjórnendur eindregið til að hafa samband við sig rúmri viku síðar, þá væri matið tilbúið og hún yrði "voða glöð" að segja frá niðurstöðunum.

Eftir nokkra grennslan kom í ljós að bæjarráð Garðabæjar fól deildarstjóra skóladeildar að fá SRR (Símenntun, rannsóknir, ráðgjöf) hjá KHÍ sem "óháðan aðila" til að meta "réttmæti og gildi Vinaleiðar". Ég furðaði mig á að ekkert samband var haft við helstu gagnrýnendur Vinaleiðar og ákvað að senda SRR gögn í málinu.

Stuttu síðar tjáði foreldraráðsmaður mér að fulltrúi KHÍ hefði komið að máli við hann vegna þessa mats. Honum þótti spyrjandinn draga heldur taum kirkjunnar og því spurði hann fyrir hvern matið væri unnið. Svarið var að KHÍ ynni matið fyrir kirkjuna!

Þetta þótti mér allundarlegt og hafði samband við ábyrgðarmann matsins hjá SRR og spurði hvort gagnrýni mín hefði borist. Hann játti en sagði að hún hefði borist of seint. Ég spurði sakleysislega fyrir hvern matið væri unnið og svarið var: "Fyrir verkefnastjórn Vinaleiðar, en bærinn borgar." En svo var mér tjáð að SRR hefði ekki verið falið að meta "réttmæti og gildi Vinaleiðar". Það þóttu mér enn meiri tíðindi svo ég spurði hvað SRR átti að meta. Þá neitaði hann að svara.

Ég leitaði þessu næst til Fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar og forstöðumanns SRR og þá var mér boðið til fundar. Á honum kvartaði ég undan að gagnrýnendur Vinaleiðar virtust hunsaðir í þessu mati og að SRR gæti varla talist óháður aðili ef menn þar á bæ teldu sig vinna matið fyrir kirkjuna eða verkefnastjórn um Vinaleið. Fulltrúi bæjarins og SRR töldu eðlilegt að ekki var talað við mig, sem gagnrýnanda Vinaleiðar og foreldri barns í skóla bæjarins, þar sem ég væri ekki "aðili að málinu". Fulltrúi SRR sagði að rætt hefði verið við "notendur" Vinaleiðar. Ég sagði undarlegt að ætla að fjalla um deilumál með því að ræða aðeins við annan deiluaðilann. Fulltrúi SRR sagði þá ekki um neina deilu að ræða! Fulltrúi bæjarins sagði að víst væri tilefni matsins deila en SRR væri ekki ætlað að kveða upp úrskurð í henni.

Fulltrúi SRR staðfesti að mat á "réttmæti og gildi" Vinaleiðar væri allt annars eðlis en það sem kveðið var á um í samningi bæjarins og SRR um matið.

Eftir fundinn fékk ég samninginn sendan og þá varð leyndin ljós. Að vísu er markmið matsins að skilgreina og lýsa hugmyndafræði, markmiðum og útfærslu Vinaleiðar, varpa ljósi á kosti hennar og galla og benda á leiðir til umbóta. Úttektin beinist sérstaklega að viðhorfum hagsmunaaðila skólasamfélagsins. En leiðin að þessu marki er allsérstök.

Skýrslur og skriflegar upplýsingar frá starfsmönnum og stjórnendum Vinaleiðar voru skoðaðar. Rætt var við starfsmenn Vinaleiðar, foreldra, kennara og nemendur – en greinilega aðeins þá foreldra og nemendur sem sáu ekkert athugavert við Vinaleiðina, "notendurna". Drögum að skýrslu SRR var svo skilað til verkefnastjórnar Vinaleiðar og fékk hún tvær vikur til að gera efnislegar athugasemdir!

Úttektin átti m.a. að beinast að viðhorfum foreldra, en ekki var rætt við foreldra sem frábiðu sér Vinaleið, slíkir eru ekki "aðilar að málinu" né "notendur Vinaleiðar". Markmið og hugmyndafræði er væntanlega metin út frá fagurgala prestanna um aðstoð við börn í vanda en kristniboðsvinklinum ekki hampað að sama skapi. Gallarnir verða eflaust þeir helstir að einhverjir óyndismenn eru með leiðindi, ekki að mismunun nemenda vegna trúarbragða stangast á við grunnskólalög, trúboð á við Aðalnámskrá, að brotið er á rétti foreldra til að ala upp börn sín samkvæmt eigin sannfæringu o.s.frv.

Tillögur um umbætur snúast líklega um hugmyndir aðstandenda Vinaleiðar um hvernig auka má umfang hennar en ekki hugmyndir gagnrýnenda, sem benda á að réttara væri að fagmenn, hlutlausir í trúmálum, sinntu ungmennum í skólum.

Skýrslan verður tilbúin á næstu dögum.

Grein þessi birtist í Fréttablaðinu þarnn 3. desember s.l.

Reynir Harðarson 05.12.2007
Flokkað undir: ( Skólinn , Vinaleið )

Viðbrögð


Hjortur Brynjarsson (meðlimur í Vantrú) - 05/12/07 09:17 #

Frábær grein og ég vona að sem flestir lesi lesi hana, sjái og skilji í kjölfarið um hvað málið virkilega snýst (þ.e.a.s. þeir sem ekki sáu og skildu það fyrir).


Árni Árnason - 05/12/07 09:37 #

Það er eitthvað verulega sjúklegt í gangi hjá þessu "blessaða" liði. Mér finnst alltaf jafnsorglegt þegar fólk virðist ekki hafa dómgreind til þess að skynja sinn vitjunartíma.

Hversu erfitt er að skilja þá einföldu staðreynd að starfsemi trúfélaga á ekki heima inni í skólunum ? Hvað ætlar Jóna Hrönn Bolladóttir að berja hausnum lengi við steininn ?

Hverskonar álit yrði það ef þetta SRR mælti með framhaldi á Vinaleið þvert ofan í álit alþjóðlegra stofnana um slíkt ráðslag ? Vissi bærinn hvernig þetta mat yrði unnið þegar hann samþykkti að borga fyrir það ?


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 05/12/07 10:16 #

Þetta er hneyksli. Í fyrsta lagi fjallar skýrslan ekki um það sem beðið var um. Þetta er álíka og einhver fæli óháðum aðila að gera greinargerð um landafræðikennslu en fengi í hendurnar greinargerð um samfélagsfræði.

Skýrslan er orðin marklaus aður en henni er skilað.

Ég undrast líka að Jóna Hrönn skuli koma að skýrslugerðinni. Hún er alls ekki hlutlaus og aðkoma hennar er álíka að láta Gilznegger fjalla hlutlaust um kosti og galla feminisma.

Ég hef gagnrýnd Vinaleið opinberlega og á barn í Flataskóla. Það hefði verið hægur vanti að slá á þráðinn til mín. En það hefði reyndar skekkt glansmyndina af Vinaleið.

En eftir á að hyggja þá var það kannski óþarfi þar sem dóttir mín er ekki í Þjóðkirkjunni og Vinaleið er aðeins fyrir börn í Þjóðkirkjunni (orð biskups NB)

Ég undrast einnig þann yfirgang sem kirkjan sýnir í viðleitni sinni við að koma Vinaleið inn i skóla landsins og ég set það í samhengi við þá kreppu sem þjóðkirkjan hefur verið í (stöðug og viðvarandi fækkun og andstaða við giftingu samkynhneigðra).

-Vinaleið er kreppuviðbragð.


Siggi Óla - 05/12/07 12:00 #

Þetta eru hrikaleg vinnubrögð og bera engum betra vitni en þeim sem til stofnaði.

Það er með ólíkindum að það þurfi yfirhöfuð að berjast fyrir þeim sjálfsagða rétti að halda trúarbrögðum og starfsemi þeirra utan skólakerfisins.


Snorri Magnússon - 05/12/07 23:41 #

Hvern meiðir / særir / lítilsvirðir vinaleiðin? Hvaða illt hefur hún af sér leitt eða mun hugsanlega leiða?

Hvaða alþjóðlegu stofnanir eru það sem mælt hafa gegn einhverju viðlíka og vinaleiðinni og hvað hafa þær sér til frægðar unnið og til góðs fyrir aumar sálir þessarar jarðar, hverrar trúar sem svo þær eru / eða ekki?


Daníel Páll Jónasson - 06/12/07 00:08 #

Hvaða alþjóðlegu stofnanir eru það sem mælt hafa gegn einhverju viðlíka og vinaleiðinni og hvað hafa þær sér til frægðar unnið og til góðs fyrir aumar sálir þessarar jarðar, hverrar trúar sem svo þær eru / eða ekki?

Ég vona, þín vegna, að þú sért að grínast Snorri? Hefurðu ekki kynnt þér rökræður síðustu daga eitt hætishót? Hvað með MANNRÉTTINDADÓMSTÓL EVRÓPU sem dæmi? Ég ætla ekki einu sinni að byrja einhverja upptalningu á þeim góðu hlutum sem þessi þarfi dómstóll hefur gert fyrir mannkynið!

"Jesús Kristur!!!"


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 06/12/07 00:09 #

Snorri, Vinaleiðin er lítilsvirðing við foreldra og börn sem telja kristni stangast á við lífsskoðun sína. Hún meiðir og særir þá sem geta ekki hugsað sér að nýta sér hana, því um leið eru þeir orðnir öðruvísi - og annars flokks - vegna trúarskoðana sinna. Hvorki börn né foreldrar ættu að upplifa slíkt í skólum.

Svo máttu velta fyrir þér hvern það meiddi / særði / eða lítilsvirti ef fulltrúi Framsóknarflokksins hefði aðstöðu í skólum til að ræða við börn um lífsgildi og stefnu flokksins, meðfram almennu spjalli.

Það illa sem Vinaleiðin hefur af sér leitt er mismunun nemenda vegna trúarbragða, brot á rétti foreldra til að annast trúarlegt uppeldi barna sinna, óánægju og ófrið um skólastarf.

Ætli alþjóðlegu stofnanirnar sem Árni vísar í séu ekki annars vegar Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna og hins vegar Mannréttindadómstóll Evrópu. Báðar þessar stofnanir hafa úrskurðað það brot á mannréttindum að skólar beri á borð innrætingu ákveðinna trúarbragða í opinberum skólum.

Þú þarft ekki að efast um að markmið og stefna kirkjunnar og þjóna hennar er að boða sína trú. Það liggur í hlutarins eðli og undan því verður ekki vikist.

Ég vona að ég þurfi ekki að útlista afrek þessara stofnana til góðs fyrir jarðarbúa.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.