Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Leikskólatrúboð er ekkert val

Í fréttum Ríkissjónvarpsins 28. nóv. sl. var sagt frá því að prestar fengju ekki lengur að vitja barna í þremur af fimm leikskólum í Seljahverfi. Fram kom að leikskólastjórar teldu ekki rétt að mismuna börnum eftir trúarskoðunum, taka yrði tillit til þess að við byggjum í fjölmenningarsamfélagi og að trúarlegt uppeldi ætti að vera í verkahring foreldra en ekki leikskóla.

Í fréttinni var rætt við fjóra foreldra fyrir utan leikskóla og það virtist samdóma álit þeirra að það væri miður að þessum heimsóknum væri hætt. Sumir sögðu að þeir sem ekki væru sáttir við þessar heimsóknir prests gætu valið að taka börn sín úr starfi skólans meðan á heimsókn stæði.

Þar til síðasta vor átti ég börn í leikskóla í Seljahverfi og þekki því vel til þessara mála. Eins og fjölmargir aðrir Íslendingar erum við hjónin trúlaus og því kusum við að dætur okkar færu ekki til prests þegar hann heimsótti Hálsaborg. En það runnu á okkur tvær grímur þegar dætur okkar komu heim af leikskólanum og sögðu að þær tvær og einn drengur af erlendum uppruna hefðu verið tekin til hliðar þann daginn meðan hin börnin áttu stund með presti.

Ég fékk ónotatilfinningu í magann þegar þær lýstu þessum leikskóladegi. Það var átakanlegt að hugsa til barnanna þriggja sem tekin voru úr hópnum þennan dag vegna lífsskoðana foreldranna. Ef ekki hefði verið fyrir þennan eina dreng, sem þá hefði verið einn útundan, hefðum við hiklaust látið stelpurnar fara í kristniboðið hjá séra Bolla. Það var ekki fyrr en drengurinn hætti á leikskólanum og dætur okkar voru einar teknar til hliðar að við höfðum samband við leikskólann og báðum um að okkar börn yrðu ekki lengur skilin frá öðrum. Þrátt fyrir lífsskoðanir okkar, sem skipta okkur töluverðu máli, gátum við ekki hugsað okkur að láta skera dætur okkar svo frá öðrum börnum í leikskólanum. Raunin er að leikskólatrúboð er ekkert val.

Það er nefnilega ekkert val fyrir börn að þau séu tekin úr hópnum. Ekkert foreldri á að vera sett í þá stöðu að neyðast til að velja á milli trúboðs og þess að barnið sé tekið til hliðar. Leikskólar eiga ekki að vera trúboðsstofnanir. Viðhorf þeirra foreldra sem rætt var við í frétt Ríkissjónvarps byggist hugsanlega á þeim misskilningi að ekki fari fram kristniboð í heimsóknum prestsins.

Varla er samt hægt að túlka það á annan hátt þegar prestur kennir börnum meðal annars að tala við Guð. Sakni foreldrar heimsókna prestsins geta þeir farið með börnin sín í sunnudagaskóla. Það er þeirra réttur og þar fá börnin líklega nóg af kristniboði. Það er engin ástæða til að fara með slíkt starf í leikskóla og mismuna þannig börnum eftir lífsskoðunum foreldra þeirra. Stjórnendum þessara þriggja leikskóla vil ég hrósa fyrir að hafa tekið heillavænlega, manneskjulega og vel ígrundaða ákvörðun. Ákvörðun sem ber sönnu umburðarlyndi, tillitssemi og víðsýni fagurt vitni.

Matthías Ásgeirsson 01.12.2007
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 01/12/07 10:30 #

Í ljósi frétta í sjónvarpi og blöðum þessa dagana er skemmtilegt að fyrir réttu ári sendi Vantrú frá sér ályktun vegna endurskoðunar grunnskólalaga.


Haukur Ísleifsson - 01/12/07 15:18 #

Rakst á könnum í fréttablaðinu: Ert þú fylgjandi trúarlegu starfi presta í leikskólum? Já: 61,8% Nei: 38,2% I've said it before and I'll say it again: FÓLK ER FÍFL


Hjalti - 01/12/07 16:40 #

Þetta með Seljahverfi er varla marktækt. Er það ekki þar sem Matti djöflast í að mála skrattann á vegginn?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/12/07 16:54 #

Hvað áttu við? Hvernig mála ég skrattann á vegginn og af hverju er Seljahverfi varla marktækt?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 01/12/07 17:01 #

Hjalti (eða Doddi, Jónas, hvað sem þú kallar þig í þetta skipti) þá biðjum við fólk um að gefa upp rétt netfang. Lagfærðu það eða við þurfum að fjarlægja athugasemdir þínar.


baddi - 01/12/07 20:37 #

djöfull er ég þá feginn að Matthías býr í Seljahverfi, ég á nefnilega barn í leikskóla þar.


Davíð - 02/12/07 00:02 #

Nú er jólahátíð Íslendinga í garð genginn með lögum um jólasveinanna og Jesú glimjandi frá úÚtvarp Latabæj og öðrum útvarpsrásum. Börn á leikskólum hafa haft það fyrir venju að mála jólasveina, engla. Hlusta á sögur um fæðingu Jesú o.s.f. Allt þetta flokkast til lífsviðhorfa sem ekki öllum hugnast. Vottar Jehóva vilja ekki jólasveinanna eða jólaföndrið. Trúleysingjarnir vilja ekki frelsarann. (þetta eru dæmi um tvenna hópa). Hversu langt teljið þið að stærsti hópur þjóðarinnar eigi að ganga til að þóknast minnihlutanum? Presta, borðbænir, trúarhátíðir burtu af leikskólunum?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/12/07 00:05 #

Davíð, ég bendi á greinar Vantrúar um jólahald.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.