Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Og? Ætlarðu að grenja yfir því?

Eftir Mark I. Vuletic

Þegar eilífar sálir voru í húfi þá er skiljanlegt að Rannsóknarrétturinn hafi beitt pyntingartólum í stað skynsamra raka til þess að fá þvermóðskufulla trúvillinga til þess að skipta um trú; maður gæti sagt sem svo að pyntingar hafi meiri sannfæringarkraft. Þar sem boðendur trúarinnar meðal almennings reyna á sama hátt að bjarga sálum, þá er skiljanlegt að þeir noti allar mögulegar aðferðir til að sannfæra áheyrendur sína. Pyntingar hafa nú dottið úr tísku með uppgangi húmanismans (jafnt trúarlegs sem veraldlegs) og því hafa trúboðarnir farið næst bestu leiðina: að beita röksemdum sem stíla inn á ótta áheyrenda. Hægt er að breiða út skelfingu án þess að sýna þumalskrúfurnar.

Hér er ég ekki að vísa til þeirra tilþrifamiklu: “Þú átt eftir að brenna í helvíti, og ég á eftir að hlæja að þér, hlæja hlæja!”-raka, þrátt fyrir að þau séu enn mikilvæg. Í stað þeirra vil ég líta á slóttugri rök sem höfða jafnvel til þeirra léttkristnu, sem myndu ekki umbera í eitt augnablik að eitthvað rustamenni færi að hóta þeim með eld og brennisteini. Trúleysingjar (og skynsamir trúmenn, guð blessi þá!) myndu með réttu kalla þessi rök “Og? Ætlarðu að grenja yfir því?”-rök, því hægt er að hrekja þau öll hratt og örugglega með hinu einfalda svari: “Og? Ætlarðu að grenja yfir því?” Leyfið mér að sýna fram á það með eftirfarandi ímynduðum orðaskiptum:

Trúmaður: Trúir þú því ekki að það sé til Guð?

Ég: Nei

Trúmaður: En ef Guð er ekki til þá er enginn endanlegur tilgangur með lífinu.

Ég: Og? Ætlarðu að grenja yfir því?

Trúmaður: En ef Guð er ekki til þá er engin trygging fyrir lífi eftir dauðann.

Ég: Og? Ætlarðu að grenja yfir því?

Trúmaður: En ef Guð er ekki til þá er engin trygging fyrir því að réttlætið muni að lokum sigra.

Ég: Og? Ætlarðu að grenja yfir því?

Trúmaður: En ef Guð er ekki til þá hefur enginn góða ástæðu fyrir því að gera ekki það sem óréttlátt er, ef hann veit fyrir víst að hann muni komast upp með það.

Ég: Og? Ætlarðu að grenja yfir því?

Trúmaður: En ef Guð er ekki til þá er enginn til þess að hugga okkur þegar við erum alein.

Ég: Og? Ætlarðu að grenja yfir því?

Trúmaður: En ef Guð er ekki til þá er alheimurinn kaldur og tilgangslaus.

Ég: Og? Ætlarðu að grenja yfir því?

Trúmaður: En ef Guð er ekki til þá verðum við að stjórna okkur sjálf eftir bestu getu, með allri þeirri áhættu á mistökum og rangindum sem því verkefni fylgir.

Ég: Og? Ætlarðu að grenja yfir því?

Trúmaður: En ef Guð er ekki til þá hef ég trúað ósannindum alla mína ævi.

Ég: Og? Ætlarðu að grenja yfir því?

Málið er einfaldlega það að þó svo trúleysið hafi afleiðingar sem manni líkar illa við, þá hefur það nákvæmlega ekkert að segja þegar kemur að spurningunni um hvort trúleysi sé rétt. Ég ítreka að mörg þessara “raka” trúmanna hér fyrir ofan eru gölluð á fleiri vegu, en þrátt fyrir að það væri ekki svo þá er þetta vandamál eitt og sér nægilegt til þess að gera þau einskis virði. Trúleysi er ekki ólíklegra þrátt fyrir að það brjóti í bága við allar okkar vonir og þrár. Raunveruleikinn þarf engan veginn að vera eins og við viljum hafa hann.

Og? Ætlarðu að grenja yfir því?


Þakkir

Mig langar að þakka dr. Michael S. Valle fyrir að kynna fyrir mér orðatiltækið "Og? Ætlarðu að grenja yfir því?” og einnig “Ég hef engan tíma til þess að blæða”, sem mér þykir leitt að hafi ekki birst í þessari grein.


© 2003-2007, Mark I. Vuletic. - Lárus Viðar Lárusson og Hjalti Rúnar Ómarsson þýddu. Birt með leyfi höfundar: Upprunalega greinin er hér: What're you gonna do about it, cry?

Ritstjórn 22.11.2007
Flokkað undir: ( Erlendar greinar , Rökin gegn guði )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 22/11/07 09:01 #

Eigi skal gráta Drottin drýsil, heldur njóta lífsins.


Andri Snæbjörnsson - 22/11/07 10:33 #

Eigi skal gráta Björn bónda heldur safna liði og hefna! (Eða eitthvað þvíumlíkt).

Annars er ég fullkomlega sammála þessari grein. Það þýðir yfirleitt ekkert að vera að væla yfir hlutum sem ekki eru þér að skapi. Réttara er að aðlaga sig að aðstæðum.


Davíð - 22/11/07 14:30 #

Hvers vegna ætli fólk áætli að kristin trú snúist að mestu um það sem gerist eftir dauðann? (þeir sem ekki eru kristnir)


snaebjorn - 23/11/07 11:52 #

Thad er nu otharfi ad grenja yfir nokkru. Stadreyndin er su ad heimsmynd truleysingjans er mun betri thar sem manneskjur hafa moguleikan a thvi ad breyta einhverju og eru ekki komnar upp a nad og a miskunns grimms almattugs othokka.

Stadreynd malsins er ad heimurinn er hvorki kaldur ne tilgangslaus. Thad ad madur geti ekki fundid til tilgangs an almattugrar veru er faranleg hugmynd.

Mer lidur alla vega ekki eins og tilgangslausri veru.


Eva Hauksdóttir - 23/11/07 13:24 #

Mér finnst þetta nú ekkert sérstaklega góð rök. Ekki einu sinni góð rökleysa. Þetta eru allt saman hlutir sem mörgum finnst fullkomlega þess virði að grenja yfir þeim.

Ég er ósammála því að við þurfum Gvuð til að finna tilgang með lífinu eða að án trúar sé ekkert réttlæti og heimurinn harður og kaldur. Ég held að afstaða okkar til heimsins og réttlætisins hafi bara ekkert sérstakt með trú að gera og ég get alveg rökstutt það.

Hinsvegar sé ég ekki tilgang í að þræta við fólk sem lifir í einhverjum allt öðrum veruleika en ég. Ég sé heldur ekki tilgang í því að loka umræðunni með einhverju svona skítakommenti. Yfirleitt virkar ágætlega að segja bara; ég nenni ekki að ræða þetta því við göngum út frá svo ólíkum forsendum að það kemur ekkert út úr því nema tilgangslaus þræta. Það er vel hægt að sýna fólki kurteisi þótt það hafi kjánalegar hugmyndir.


Eva Hauksdóttir - 23/11/07 13:26 #

Þ.e.a.s. ég sé ekki tilganginn með því að svara rökleysu með álíka bjánalegri rökleysu.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 23/11/07 13:41 #

Mér finnst þetta nú ekkert sérstaklega góð rök. Ekki einu sinni góð rökleysa. Þetta eru allt saman hlutir sem mörgum finnst fullkomlega þess virði að grenja yfir þeim.

Ertu að tala um þau rök sem trúmaðurinn kemur fram með í ímyndaða samtalinu?

Ég er ósammála því að við þurfum Gvuð til að finna tilgang með lífinu eða að án trúar sé ekkert réttlæti og heimurinn harður og kaldur. Ég held að afstaða okkar til heimsins og réttlætisins hafi bara ekkert sérstakt með trú að gera og ég get alveg rökstutt það.

Ég held að höfundur greinarinnar sé alveg samm´la þér.

Ég sé heldur ekki tilgang í því að loka umræðunni með einhverju svona skítakommenti.

Er "Og? Ætlarðu að grenja yfir því?"s kítakommentið? Ég held að greinarhöfundinum finnist þetta bara vera áhrifaríkara svar heldur en að segja: "Argumentum ad consequentiam og útskýra síðan hvað það þýði.


Haukur Ísleifsson - 23/11/07 15:32 #

Eitt sem mig langar að benda á er að þessar rugluðu hugmyndur lita allt sem manneskjan sem ber þær gerir og það er því stórhættulegt að heimurinn sé fullur af fólki með slíkar hugmyndir. Svo að "þetta er bara þeirra mál" og "þetta kemur mér ekki við" eru óásættanlegar hugmyndir með öllu.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 23/11/07 18:59 #

Ég er ósammála því að við þurfum Gvuð til að finna tilgang með lífinu eða að án trúar sé ekkert réttlæti og heimurinn harður og kaldur. Ég held að afstaða okkar til heimsins og réttlætisins hafi bara ekkert sérstakt með trú að gera og ég get alveg rökstutt það.

Þetta eru ekki viðhorf höfundar. Til er fólk sem heldur þessu fram í raun og veru. Það er einmitt tilgangur þessarar greinar að fjalla aðeins um þessi "rök". Þau eru ekkert annað en tilfinningaklám og óþarft að svara þeim á háfleygan hátt.


Haukur Hilmarsson - 30/11/07 15:43 #

Mér finnst þessi "Og" svör við heimspekilegum vangaveltum bara vera hroki. Annað hvort vanþekking eða leti að nenna ekki að ræða þessar spurningar.

Nýdottinn inn á þennan vef og marg fróðlegt hér á ferðinni. Margt skemmtilegt að lesa.

Eitt sem mér þætti skemmtilegt að vita, er hvernig trúleysingjar skilgreina muninn á trú og trúarbrögðum.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 30/11/07 15:53 #

Mér finnst þessi "Og" svör við heimspekilegum vangaveltum bara vera hroki.

Haukur, eins og kemur fram í greininni þá er hann með þessu að benda á að þó svo að einhver staðreynd hefur afleiðingar sem þér líkar ekki við, þá segir það okkur ekkert um sannleiksgildi staðhæfingarinnar. "Og? Ætlarðu að grenja yfir því?" er sem sagt mjög djúpt heimspekilegt svar ;)


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 30/11/07 15:57 #

Já, og velkominn Haukur og takk fyrir hrósið.

Varðandi spurninguna um trú vs. trúarbrögð (sem ætti eiginlega heima á spjallinu) þá held ég að trú sé eitthvað einstaklingsbundið á meðan trúarbrögð eru best skilgreind hérna :)


Haukur Hilmarsson - 30/11/07 16:21 #

Sæll Hjalti.

Hvernig færðu það út að "Og? Ætlarðu að grenja yfir því?" sé svar? Ég er kannski ekki að fatta dýptina í þessu, en ég hefði sagt viðkomandi að hætta að snúa út úr :)

P.s. Var að finna spjallið. Get eitt helginni í að skoða þetta.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 30/11/07 16:26 #

Hvernig færðu það út að "Og? Ætlarðu að grenja yfir því?" sé svar?

"Og? Ætlarðu að grenja yfir því?" er svar af því að með því er verið að benda á að þó svo að trúleysi gæti haft afleiðingar sem einhverjum þykir slæmar, þá segir það ekkert um hvort trúleysi sé rétt eða röng afstaða.


Haukur Hilmarsson - 30/11/07 16:40 #

Hehehe Þannig að til dæmis þjóðkirkjunnar trúmaður getur notað sama svar við ábendingum trúleysingjans.

Ég: Trú gæti haft afleiðingar sem einhverjum þykja slæmar.

Trúmaður: Og? Ætlarðu að grenja yfir því?

Sem sagt, þetta gæti verið algilt svar við öllu sem viðkomandi er ósammála.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 30/11/07 16:43 #

Hehehe Þannig að til dæmis þjóðkirkjunnar trúmaður getur notað sama svar við ábendingum trúleysingjans.

Ég: Trú gæti haft afleiðingar sem einhverjum þykja slæmar.

Trúmaður: Og? Ætlarðu að grenja yfir því?

Ef trúleysinginn héldi því fram að kristin trú væri ósönn vegna þess að hún hefur slæmar afleiðingar, þá væri þetta hárrétt svar hjá trúmanninum.


Haukur Hilmarsson - 30/11/07 17:01 #

Jamm.

Það yndislegasta við yfirnáttúruleg trúarbrögð er að það er ekki hægt að sanna neitt. Og því miður er sannfæringarhvöt margra svo sterk að þeir eru til í ævilangar rökræður, pyntingar og dauða.

Svo er trú bara eitthvað einstaklingsbundið, einhver tilfinning, kannski bara hnútur í maganum.

Margt gott á vefnum ykkar. Tek það til mín sem ég fíla.

Trúarbrögð eru fyrir þá sem langar að vita - Trú er fyrir þá sem vita

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.