Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fallið frá Vinaleið þjóðkirkjunnar í Flataskóla í Garðabæ

Eftirfarandi fréttatilkynning var send til fjölmiðla í dag.

Fallið frá Vinaleið þjóðkirkjunnar í Flataskóla í Garðabæ.

Í kjölfar fyrirspurnar frá Persónuvernd til Flataskóla hefur verið fallið frá að hafa fulltrúa þjóðkirkjunnar starfandi við skólann við „kristilega sálgæslu“.

Foreldri við skólann mislíkaði að þurfa að tilgreina sérstaklega ef það vildi ekki að fulltrúi trúfélags nálgaðist barn þess í skólanum, að öðrum kosti var um „ætlað samþykki“ að ræða. Með þessu móti eru foreldrar neyddir til að gefa upp afstöðu sína til trúarbragða, en það teljast „viðkvæmar persónuupplýsingar“ samkvæmt lögum um persónuvernd (nr. 77, 2000, 9. gr.) og því var leitað til Persónuverndar.

Í svari frá skólastjóra kom fram að upplýsingarnar um þá sem báðust undan afskiptum fulltrúa trúfélags í skólanum voru í höndum skólastjóra, aðstoðarskólastjóra, deildarstjóra, umsjónarkennara viðkomandi barna og fulltrúa þjóðkirkjunnar! Þeim hefur nú verið eytt.

Af þeim þremur skólum sem tóku upp Vinaleið í Garðabæ er nú aðeins einn eftir, en verkefnið var líka tekið upp í Álftanesskóla í fyrra samkvæmt fyrirmynd úr Mosfellsbæ.

Margir telja að starfsemi trúfélags í opinberum grunnskólum stangist á við grunnskólalög, aðalnámsskrá, siðareglur kennara og lög um borgaraleg réttindi. Siðmennt, Ásatrúarfélagið, Ung vinstri græn og Samband ungra sjálfstæðismanna sendu frá sér mjög beinskeyttar ályktanir gegn Vinaleiðinni og eftir að samtökin Heimili og skóli könnuðu málið sendu þau frá sér eftirfarandi ályktun: "Mikilvægt er að friður ríki á hverjum tíma um þá þjónustu sem býðst innan skólans. Með tilliti til jafnræðissjónarmiða og með vísan í 2. grein grunnskólalaga, telur stjórn Heimilis og skóla eðlilegra að til framtíðar standi sálgæsluþjónusta Þjóðkirkjunnar börnum og forsvarsmönnum þeirra til boða utan húsakynna skóla, eftir að skóladegi lýkur."

Baráttunni gegn innrás ríkiskirkjunnar í grunnskóla landsins er hvergi nærri lokið. Forhertur skólastjóri Hofsstaðaskóla lét af störfum í fyrra og sá sem tók við kaus að hafna Vinaleiðinni. Í Flataskóla fór fram úttekt óháðs aðila (líklega frá KHÍ) áður en ákveðið var að halda áfram með óskapnaðinn í október. Mánuði síðar er verkefnið blásið af!

Þegar innrásin hófst í fyrra var því lýst yfir að fyrirmyndin væri blygðunarlaust trúboð djáknans í Mosó. En eftir háðuglega útreið í fjölmiðlum vildu kirkjunnar menn ekki kannast við fyrirmyndina og sögðu Vinaleiðina í Garðabæ og á Álftanesi allt annað en hryggðarmyndina í Mosfellsbæ, sem betur fer. Helsta gagnrýnin fólst í því að um trúboð væri að ræða og nemendum mismunað eftir trúarbrögðum (sem er hvort tveggja að sjálfsögðu óverjandi og klárlega bannað). Kirkjunnar menn reyndu að sverja af sér hlutverk sitt, megintilgang stofnunar sinnar og köllunina með verkefninu (sem var rekið undir gunnfána kristniðboðsskipunarinnar - farið og gjörið allar þjóðir að lærisveinum) og sömdu nýjar siðareglur þar sem fram kom að ekki væri um boðun trúar að ræða. En í rökræðum urðu þeir að viðurkenna, aftur og aftur, að auðvitað væri ákveðin boðun falin í veru fulltrúa þjóðkirkjunnar í skólum. Þeir láta það þó ekki aftra sér.

Til að sverja af sér mismunun sögðu þeir að allir væru velkomnir í náðarfaðm ríkiskirkjusauðsins - óháð trúarbrögðum. En þegar biskup sat fyrir svörum í Kompási lýsti hann því þó yfir að auðvitað væri þessi þjónusta bara fyrir börn foreldra í þjóðkirkjunni. Því þarf enginn að efast um að hér er um trúboð að ræða og mismunun nemenda vegna trúarbragða.

Staðan þarf ekki að koma þeim á óvart sem vita hvað felst í "kristnu siðgæði" þegar horft er framhjá glansmyndinni. Menn kirkjunnar telja sig sérstaka málsvara umburðarlyndis -svo hlálegt sem það kann að hljóma- og því er makalaust að þeir treysti sér til að vaða svona yfir rétt foreldra til að annast trúarlegt uppeldi barna sinna, eins og skýrt er kveðið á um í lögum um borgaraleg réttindi - svokölluð mannréttindi.

Foreldrar barna í grunnskólum eiga ekki að þurfa að gefa skólanum upplýsingar um afstöðu sína í trúmálum. Hún kemur skólayfirvöldum ekki við og því síður fulltrúum ríkiskirkjunnar. Auðvitað eiga trúarskoðanir fólks ekki að skipta neinu máli í grunnskólagöngu barna. En á meðan boðflennur ríkiskirkjunnar sitja sem fastast í grunnskólum sitjum við hin uppi með mismunun barnanna vegna trúarbragða og ólíðandi, óverjandi og ólöglegt trúboð í skólum.

Ritstjórn 08.11.2007
Flokkað undir: ( Vinaleið )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/11/07 16:23 #

Af einhverjum óþekktum ástæðum hafa allar athugasemdir sem sendor voru inn eftir 9:30 í morgun glatast. Ég bið þá sem gerðu athugasemdir velvirðingar.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 08/11/07 18:30 #

Nú er að láta kné fylgja kviði og koma þessu liði út úr hinum skólunum líka. Þetta er gott fordæmi.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 09/11/07 09:26 #

Afskaplega er Jóna Hrönn Bolladóttir prestur í Garðabæ seinheppin. Í fyrra kom hún fram í morgunþætti Stöðvar tvö og lýsti því hátíðlega yfir að prestur færi auðvitað ekki inn í kennslustundir - en á sama tíma var presturinn að segja börnum, inni í kennslustund í Hofsstaðaskóla, að hann gæti læknað ör á sálinni.

Í gær var viðtal við hana á Bylgjunni þar sem hún segir að Flataskóli sé að skoða málið og bíða eftir mati á Vinaleiðinni frá einhverjum í KHÍ. Sama dag birtist þessi frétt hér á vantru.is og kennurum við Flataskóla er tilkynnt að Vinaleiðin hafi runnið sitt skeið á enda við skólann, tæpum mánuði eftir að hún var tekin aftur upp.

Spyrjandi þáttarins talar um fámennan þrýstihóp sem vilji þessa þjónustu ekki inn í skólana "þótt fólk, börn og foreldrar vilji hana" og bætur svo um betur og fullyrðir að telja megi meðlimi hans á fingrum annarrar handar! Á hann þá við öll þau samtök sem getið er um í fréttatilkynningunni? Jóna Hrönn fullyrðir svo að telja megi þá sem höfnuðu þjónustunni "á annarri hendi" í fjórum skólum. En bara í Flataskóla höfðu a.m.k. níu látið sig hafa það að gefa upp afstöðu sína í þessu máli og afþakka "pent". Enn gefur hún sér ranglega að þeir sem mótmæli ekki séu þessu samþykkir.

Smámunir eins og sannleikurinn eða tilmæli Heimilis og skóla um frið um skólastarf eru ekki að þvælast fyrir Jónu Hrönn, frekar en öðrum sem göslast áfram í þessu feigðarflani þjóðkirkjunnar.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/11/07 09:32 #

Eins og ég fjallaði um í greininni Vinaleiðindi er út í hött að gefa sér að allir sem ekki mótmæla Vinaleið séu þar með fylgjandi þessu starfi.


Arnar - 09/11/07 10:23 #

Hef hvergi séð þessa frétt, hefur hún verið birt einhverstaðar? Ekkert minnst á þetta inn á heimasíðu Flataskóla né inn á vef Garðabæjar.

Strákurinn minn er í Sjálandsskóla sem er þá líklega eini skólinn í Garðabæ sem leyfir þetta en þá. Veit að þetta er í einhverri skoðun þar en myndi langa að spyrja skólastjórann um þetta með tilvísun í fréttina, ef hægt er.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/11/07 10:26 #

Ég er hræddur um að engum fjölmiðli hafi þótt þetta fréttnæmt. Bylgjan sá þó ástæðu til að taka viðtal við séra Jónu Hrönn Bolladóttur um Vinaleið í gær án þess að minnast einu orði á efni þessara fréttatilkynningar.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 09/11/07 10:43 #

Arnar, í hvert sinn sem einhver frá kirkju eða skóla hefur tjáð sig um Vinaleið, eða þegar efni um hana hefur verið birt af hálfu kirkju, skóla eða bæjaryfirvalda, hefur reynst auðvelt að benda á rangfærslur, rökvillur, lögbrot, ósannindi og jafnvel óheilindi.

Allt um Vinaleið hvarf fljótlega af vef Hofsstaðaskóla. Þar kom til dæmis fram að góð samvinna væri milli fulltrúa Vinaleiðar og sálfræðings skólans, sem var alrangt. Í viðtalinu við Jónu Hrönn í gær sagði hún að Sjálandsskóli biði eftir mati á Vinaleiðinni frá KHÍ en úti á Álftanesi hefði verið haldið áfram óhikað í haust. Það þarf ekki að koma á óvart ef Vinaleiðin var farin af stað í Sjálandsskóla, rétt eins og Flataskóla, þrátt fyrir orð Jónu Hrannar. Gott væri að fá fréttir af stöðunni þar.


Arnar - 09/11/07 11:55 #

Já, vissi að þetta er í einnhverri skoðun. Foreldrar sem 'höfðu reynslu af vinaleiðinni' voru beðnir um að gefa álit.

Það sem hefur reynst mér best við að sýna fólki sem er hlynt þessu fram á hversu bjánalegt þetta starf er, er að nota þeirra eigin fordóma gegn þeim. Oft spurt fólk hvernig því þætti ef td. múslima klerkur kæmi inn í skólan og sinnti 'sálargæslu' með kóranin á lofti. Svín virkar.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 09/11/07 17:26 #

Flott hjá þér Arnar. Ástandið er því miður þannig að við foreldrar þurfum að standa vörð um skóla barnana okkar gegn ásókn trúfélaga.

Ég hef ekkert á móti því að trúfélög ástundi einhverskonar Vinaleiðir en það verður þá að gerast utan hins opinbera skólakerfis. Fínn vettvangur fyrir Vinaleið í Garðabæ er t.d kirkjan sem Jóna Hrönn vinnur í. þar er til staðar húsnæði, starfsfólk, fé og til uppbyggingar. Hversvegna er ekki Vinaleiðin þar? Mér sýnist kirkjan í Garðabæ vera steinsnar frá Flataskóla. Hversvegna í ósköpunum sækist Jóna Hrönn svo eftir því að komast inn í skóla barnana okkar?

Vinaleið er ágætis hugmynd og ég er viss um að hún er sett fram af góðum ásetningi. En þessi hugmynd stenst ekki þegar hún er framkvæmd í opinberum skólum. Hún er á skjön við:

  1. Siðareglur kennara
  2. Grunnskólalög
  3. Lög um persónuvernd.

Þarf frekari sannana við að þetta verkefni mistókst?


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 09/11/07 23:44 #

Vídalínskirkja er í svona 100 metra fjarlægð frá Flataskóla. Það ætti að vera hægur vandi fyrir prestana þar að viðhafa Vinaleið í Vídalínskirkju.

-Þannig myndi þetta mál leysast..


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 10/11/07 07:52 #

Lausnin er ofureinföld, eins og Teitur bendir á, en felur í sér að kirkjan missir þá fótfestu sem hún ætlaði sér að ná í skólum. Annar angi þessarar innrásarstefnu kirkjunnar er svokölluð lífsleikni. Í erindi um hana kemur fram: "Við sjáum fyrir okkur að þetta verkefni geti vaxið mikið og orðið lykill þjóðkirkjunnar að framhaldsskólunum, að aldurshópnum 16-20 ára." "Við sjáum fyrir okkur að eitthvað í líkingu við "Vinaleið" sem Þórdís Ásgeirsdóttir djákni hefur leitt í barna- og gagnfræðaskólunum í Mosfellsbæ ætti fullt erindi inn í framhaldsskólana. Eins og það eru námsráðgjafar og sálfræðingar tengdir skólunum, sé ég fyrir mér djákna eða prest í hvern framhaldsskóla." http://www.kirkjan.is/annall/di/2005-01-08/14.32.35

Ég hlakka til að sjá matið á Vinaleiðinni. Arnar segir að rætt hafi verið við þá sem höfðu reynslu af Vinaleiðinni. Ég öðlaðist heilmikla reynslu af henni, þótt barn mitt nýtti sér ekki þjónustu "skólaprests". Ekkert var þó rætt við mig. Margir foreldrar bölvuðu í hljóði en sögðu ekki orð, var eitthvað rætt við slíka? Ótal aðilar sáu á þessu fjölmörg tormerki, var eitthvað rætt við þá?

Annars hringdi ég í Sjálandsskóla til að spyrjast fyrir um Vinaleiðina og þar var mér tjáð að hún hefði ekki hafist enn þetta haustið. Nú er enginn fulltrúi trúfélags starfandi í skólum í Garðabæ og það eru vissulega gleðitíðindi.

Mig grunar nefnilega að í matinu sé rætt við þá sem "skólaprestur", "skóladjákni" eða skólastjórarnir, sem voru þessu svo hliðhollir, bentu á! Annað er í raun erfitt því engin gögn eru sögð til um þessa starfsemi. Þá sjá allir hversu marktækt það mat getur orðið.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 10/11/07 08:55 #

Enn brillerar Jóna Hrönn. Í 24 stundum í dag er fjallað um málið undir fyrirsögninni: Vinaleið þjóðkirkjunnar lögð niður í Flataskóla í Garðabæ. Í lok umfjöllunar segir Jóna Hrönn að verkefnið hafi ekki verið lagt formlega niður í skólanum. Í bréfi skólastjóra til Persónuverndar segir þó orðrétt: "Rétt er að geta þess að ákveðið hefur verið að hætta með þjónustu Vinaleiðar frá og með 1. nóvember 2007."

Þetta staðfestir það sem ég hef áður sagt um sannleiksgildi orða kirkjunnar manna þegar þeir tjá sig um Vinaleið.


Silla - 13/11/07 09:48 #

Reykjavík síðdegis, Bylgjunni, spyr eftirfarandi spurningar á visi.is í dag: Vilt þú að boðið verði uppá "Vinaleið" Þjóðkirkjunnar í grunnskólum landsins?

Spurningin er vinstra megin hjá vefmiðlinum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.