Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vinaleiðindi

Nokkur umræða hefur verið um Vinaleið ríkiskirkjunnar undanfarið.

Talsmenn Vinaleiðar hafa bent á að fáir mótmæla og að mikill meirihluti foreldra sé þar af leiðandi jákvæður í garð þessa starfs. Helgi Grímsson skólastjóri Sjálandsskóla sagði í hádegisviðtali við Stöð 2 þann 4. janúar frá könnun þar sem rúm 80% foreldra voru ánægð með þjónustuna. Viktor A. Guðlaugson skólastjóri Varmárskóla segir í Morgunblaðsgrein þann 10. desember að mikil ánægja sé meðal barna, starfsfólks og foreldra með Vinaleið. Séra Jóna Hrönn Bolladóttir sagði í viðtali hjá morgunsjónvarpi Stöðvar 2 að gagnrýnin hefði ekki komið frá innflytjendum eða fólki frá öðrum trúarbrögðum og gefur í skyn að það fólk sé allt ánægt með Vinaleið. Nú síðast er haft eftir Sveinbirni Markúsi Njálssyni skólastjóra Álftanesskóla að hann sjái ekki „að nærvera prests hér innan skólans hafi truflað einn eða neinn“.

Gallinn við þessi „rök“ er að litið er hjá því að margt fólk vill ekki láta á sér bera. Það krefst töluverðs hugrekkis að fara í deilur við skólastjórnendur sem þegar hafa lýst því yfir að Vinaleið sé hið besta mál. Ég tel ólíklegt að allir innflytjendur og einstaklingar annarar trúar séu ánægðir með Vinaleið, áhugavert væri að rannsaka það. En það þyrfti þá að eiga sér stað heiðarleg kynning því Vinaleiðin hefur verið kynnt á villandi forsendum eins og fram hefur komið í gagnrýni á hana.

Fyrir nokkrum árum hófst kristniboð í leikskólum í Seljahverfi*. Þá, eins og nú með Vinaleið, var kynning villandi. Ég átti börn í leikskóla í hverfinu og kaus að halda þeim utan við kristniboðið. Bráðlega fóru að renna á mig tvær grímur því þótt mér þyki óþægilegt að prestur kenni mínum börnum að tala við Gvuð fannst mér verra að dætur mínar væru teknar til hliðar meðan önnur börn fóru í sal með presti. Því tókum við foreldranir þá ákvörðun að stelpurnar færu í kristniboðið þrátt fyrir að slíkt trufli okkur afar mikið. Ég hef ekki mótmælt kristniboði við leikskólastjórann sjálfur vegna þess að ég er hræddur um að slík samskipti gætu orðið neikvæð, en er þar með hægt að halda því fram að ég styðji slíka starfsemi? Því fer fjarri, ég vil ekki vera með leiðindi og tel sennilegt að það sama gildi um marga aðra.

Mótmæli foreldris í Garðabæ vegna Vinaleiðar hafa verið kölluð ofstæki og frekja. Hugsanlegt er að margir sem sáu þau viðbrögð hafi ákveðið að koma ekki fram í kjölfarið. Það er ljóst að deilur milli foreldra og skólastjórnenda geta komið niður á samskiptum barna og skóla, því hljóta foreldrar að hugsa sig um tvisvar áður en þeir kvarta. Það er að mínu mati óásættanlegt að setja foreldra í slíka stöðu, samskipti heimilis og skóla þurfa að byggja á trausti.

Ég þekki foreldra barna í Álftanesskóla sem voru svo ósátt við Vinaleið að þau skráðu alla fjölskylduna úr ríkiskirkjunni. Þau hafa ekki mótmælt Vinaleið opinberlega þannig að þó skólastjóri Álftanesskóla hafi ekki orðið var við að Vinaleið trufli nokkurn er staðreyndin sú að hún gerir það.

Þótt meirihluta foreldra þætti Vinaleið frábær hugmynd er ekki þar með sagt að slík tengsl ríkiskirkju og grunnskóla væru réttlætanleg. Trúboð á ekki heima í skólum og litlu máli skiptir hvort hægt sé að selja fólki þá hugmynd, hér á landi á að ríkja trúfrelsi og skólar barna okkar eiga ekki að vera starfsvettvangur ríkiskirkjunnar. Þetta er grundvallarmál en ekki vinsældarkönnun meðal foreldra. Ég skora á ríkiskirkjuna að sýna umburðarlyndi og taka líka tillit til þeirra fjölmörgu sem standa utan hennar.

[Greinin var send Fréttablaðinu til birtingar en birtist ekki í blaðinu heldur á vísisvefnum, höfundi til lítillar ánægju.]

*Ég hef fjallað meira um leikskólaprest á heimasíðu minni.

Matthías Ásgeirsson 16.02.2007
Flokkað undir: ( Vinaleið )

Viðbrögð


Gunnar Örvarsson - 16/02/07 22:51 #

Þetta er hárrétt. Það er rangt að túlka tregðu foreldra til mótmæla sem andvaraleysi eða samþykki. Ég hygg að mörgum sé innanbrjósts nákvæmlega eins og lýst er að ofan. Foreldrar óttast að börn þeirra verði að athlægi fyrir það "að vera öðruvísi". Börnin óttast það sjálf. Því þarf fólk annaðhvort að fylgja sannfæringu sinni eða að etja börnum sínum út í það forað að verða fórnarlömb í einhverjum réttlætisdeilumálum fullorðinna. Nýlega stóð yfir átak gegn einelti í barnaskólum í Garðabæ. Átakanlegt er í ljósi þessa að skapaðar séu aðstæður þar sem börnum er skipt upp í hópa eftir trúarskoðunum og þannig hugsanlega ýtt undir líkur á að einelti eigi sér stað. Ég hvet kirkjuna til að hætta starfsemi Vinaleiðarinnar og láta börnin okkar í friði. Sýnið manndóm og takizt á í rökræðum við fullorðið fólk í staðinn!


Jón Stefánsson (meðlimur í Vantrú) - 17/02/07 13:11 #

Sammála hverju orði! Kirkjunnar þjónar ættu nú að vita það að það eru fleiri trúaðir heldur en þeir sem skrifa í blöðin og lýsa því formlega yfir að þeir trúi á guðaverur. Að sama skapi ættu þeir að vita að það eru fleiri með og á móti vinaleiðindunum heldur en þeir sem skrifa í blöðin eða á vefinn. Um þetta starf getur aldrei orðið sátt. Aldrei. Til þess eru einfaldlega alltof miklar deilur um grundvallaratriði. Trúfélög eiga ekki heima innan veggja skóla, það er siðlaust og það er lögbrot.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.