Í mars árið 2006 var greint frá því í aukablaði Morgunblaðsins um fermingar, drengur einn hefði fengið sérstaka undanþágu frá biskupi til þess að fermast 12 ára. Ég lagði inn fyrirspurn á Trú.is: „Hvers vegna þurfti leyfi frá biskupnum?“ Kristján Valur Ingólfsson svaraði mér:
[Biskup] er æðsti yfirmaður kirkjustarfsins. Í þjóðkirkjunni er meginreglan sú að börn fermist á því ári sem þau fylla fjórtán ár. Það er gömul hefð fyrir því að þegar mikið vantar uppá sé óskað eftir því við biskupinn að hann veiti undanþágu og leyfi að barnið sé fermt. Ástæðan er m.a. sú að þar með þarf presturinn sem fermir að rökstyðja óskina með umsögn um þroska og þekkingu barnsins sem hann gefur biskupnum. Hér er ekki um lög eða reglur að ræða, heldur fyrst og fremst góða venju. Ólíklegt er að nokkrar líkur séu á því að biskup myndi synja leyfisins ef presturinn metur það svo að barnið megi ferma.
En hvaða heimild hefur biskup til þess að gefa slíka undanþágu? Hvað segja landslög? Í lagasafni Íslands er skýrt komist að orði um löglegan aldur fermingarbarna (leturbreytingar mínar):
1. Það skal vera aðalregla, að prestar megi eigi taka börn til fermingar, þau er fermast eiga, fyrr en þau eru orðin fullra 14 eða 15 ára, með því að börn, sem yngri eru, kunna sjaldan að meta rétt, eða hafa hugsun á að færa sér í nyt það er kennarar þeirra leiða þeim fyrir sjónir og brýna fyrir þeim, og skynja eigi, hve þýðingarmikill sáttmáli sá er, er þau í fermingunni endurnýja og staðfesta. Þó er þess að gæta um tímaákvörðun þessa, að börn, sem eiga að fara í langferðir, svo sem til Indlands eða Vesturheimseyja, má taka til fermingar, þó að hálft ár eða nokkuð meira skorti til þess að þau hafi náð greindum aldri, og eins er það, ef það ber við, að barn, sem eigi er orðið fullra 14 ára, verður hættulega sjúkt, og beiðist þess á sóttarsæng sinni, að mega njóta hins heilaga sakramentis, og hefir innilega þrá eftir því, þá skal það prestinum leyft vera, ef hann telur barnið vera vel upplýst, að veita því hluttöku í þessu sáluhjálparmeðali.
Er einhverjum blöðum um þetta að fletta? Biskup getur gefið sérstaka undanþágu til þess að ferma barn sem er 13½ árs ef afbrigðilega sérstakar ástæður hníga að því. Börn sem eru fermd yngri, eða hafa ekki sérstaka undanþágu, eru einfaldlega fermd ólöglega.
Stundum er þessu svarað með því að börn séu svo miklu þroskaðri í dag en þau voru fyrir tveim öldum síðan, þegar lögin voru sett. Í stuttu máli sagt, þá er það bull og vitleysa. Fram á tuttugustu öld var litið svo á ferminguna, að með henni væri fólk „tekið í fullorðinna manna tölu“ og eftir hana fóru ungmenni oft í vist sem hjú og fóru að vinna fyrir sér. Hver mundi kalla krakka í gagnfræðaskóla í dag fullorðna?
Ég hef heyrt presta tala um að það sé sorglega hrokafullt viðhorf til ungmenna, að treysta þeim ekki betur eða halda að þau séu heimsk. Er hægt að taka þessu alvarlega? Er einhver prestur sem heldur í alvörunni að það sé það sem gagnrýnendur meina? Sami prestur mundi þá væntanlega halda að maður teldi 8 ára barn vera heimskt ef maður vildi ekki treysta því fyrir bifreið eða skotvopni. Það er ekki það sem málið snýst um. 13 ára börn eru einfaldlega ekki nógu þroskuð til þess að geta tekið þessa ákvörðun. Kirkjan kemur auk þess upp um það sjálf, að hún er vel meðvituð um þetta. Í Námsskrá fermingarstarfanna skrifar María Ágústsdóttir nefnilega nokkuð sem vert er að halda til haga:
Félagshópurinn hefur æ meira áhrifavald, en foreldrar minna, þegar ungmennin verða óháðari foreldrum sínum tilfinningalega. Áhrif félagshópsins eru hvað sterkust í 8. og 9. bekk. Þá staðreynd er mikilvægt að nýta sér í fermingarstörfunum. [s. 20]
En gott og vel. Segjum að 13 ára börn séu nógu þroskuð til þess að geta gert lífsafstöðu sína upp við sig á sjálfstæðan og upplýstan hátt. Hvernig væri þá að gæta samræmis? Á eyðublaði Þjóðskrár er áskilið að fólk þurfi að hafa náð 16 ára aldri til að geta breytt trúfélagsskráningu sinni án leyfis forráðamanna. Ef kirkjan fæst hvorki með góðu né illu til að hætta að ferma óhörðnuð börn, þá væri það minnsta sem hún gæti gert að styðja það þá líka að þau geti sjálf ráðið trúfélagsskráningu sinni við sama aldur.
Heimild:
María Ágústsdóttir: Námskrá fermingarstarfanna, Fræðslu- og þjónustudeild kirkjunnar, Reykjavík 1999.
Lagasafn Íslands: Tilskipun um ferminguna á vef Alþingis.
Ég hefði auðvitað átt að nefna þau með hinni heimildinni, en lögin heita "Tilskipun um ferminguna" og eru vissuelga eldgömul -- frá 1759. Þau hafa samt aldrei verið numin úr gildi, og rökin sem eru færð í þeim eru jafngild í dag og þau voru fyrir hálfri þriðju öld síðan.
Mig minnir að það sé í þeim lögum sem kirkjan talar niður til krypplinga og þá sem hneykslun gætu valdið á fermingadaginn. Slíka einstaklinga á samkvæmt lögunum að ferma heima. Í lögunum kristallast fordómar hins gamla kristna samfélags gegn fötluðum. Þessi lög eru ennþá í gildi.
Það stendur samt í lögunum. Á Þjóðkirkjan ekki að fara eftir landslögum?
Þetta er afar sérkennleg staðreynd. Getur verið að ríkiskirkjan hafi brotið lög öll þessi ár? Er virkilega verið að gera undanþágu á öll fermingarbörn sem eru ekki orðin 15 ára?
Væri ekki ráð að fá úr þessu skorið hjá þar til gerðum yfirvöldum?
Það eru ekki gerðar undanþágur. Skv. þessu er ég t.d. ólöglega fermdur; ég var bara 13 ára, 5 mánaða og 5 daga gamall þegar ég fermdist svo ég taki dæmi.
Nemendur í 8. bekk sem fermast að vori eru 2/3 13 ára en 1/3 14 ára (sirkabát). Það virðist því vera lögbrot að ferma þau! Fermingin ætti í raun að vera í 9. bekk samkvæmt þessu.
Leit á vef Alþingis: Ferming
Lögin frá 1759 eru í lagasafni Alþingis á vefnum og skv. því eru þau í gildi. Þar er einnig að finna lög frá 1827 sem kveða nánar á um þetta:
1) Eftirleiðis skal það vera á valdi biskupanna, að veita leyfi til þess, að börn séu tekin til fermingar, þó að nokkuð vanti á, að þau hafi náð hinum lögboðna 14 ára aldri. Slíka undanþágu má þó eigi veita, nema svo sérstaklega sé ástatt um hagi foreldranna eða ákvörðun barnsins, að hún verði að álítast áríðandi fyrir velferð þess, og auk þess skal þess nákvæmlega gætt, að barnið hafi að fullu öðlast þá þekkingu, sem gert er ráð fyrir í skólatilskipununum, og að siðferði þess sé svo, að ekkert geti að því leyti verið til fyrirstöðu slíkri ívilnun. Það má heldur ekki vanta nema lítið á aldur barnsins, ef undanþágan á að fást, og jafnvel þótt allt annað mæli með undanþágunni, eigi meira en 6 mánuðir. Að öðru leyti skal biskup leita álits hlutaðeigandi prests og prófasts, áður hann veitir undanþáguna.
Samkvæmt þessari klausu virðist biskup geta fært fermingaraldur niður í 13 ár og 6 mánuði. Ef fermt er um páska er einhver hópur nemenda (20-30%) ekki búinn að ná þeim aldri.
Auk þess er þetta ekki sjálfkrafa undanþága skv. lögunum frá 1827. Hana þarf að veita fyrir hvert barn fyrir sig.
Lög um Þjóðkirkjuna (nr 78/1997 með áorðnum breytingum) nefna bara fermingu á einum stað:
20. gr. Kirkjuþing hefur æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar innan lögmæltra marka. ... Samþykktir um kenningarleg málefni, guðsþjónustuhald, helgisiði, skírn, fermingu og altarissakramenti verða að sæta umfjöllun prestastefnu áður en þær hljóta endanlega afgreiðslu á kirkjuþingi.
Þarna er hnykkt á um að þó kirkjuþing hafi æðsta vald þá þurfi það vera innan ramma laganna.
Þetta er nú hið athyglisverðasta mál!
ÉG held að Vantrú ætti að senda erindi til úmboðsmanns Alþingis...
Miðað við undirtektir þær sem athugasemdir trúleysingja hafa fengið hjá hinu opinbera er ég viss um að við þurfum ekki að kvíða niðurstöðunni...
Þetta er greinilegt lögbrot en hentar kirkjunni vel því ákaflega fáir unglingar á þessum aldri eru farinn að velta alvarlega fyrir sér trúmálum og fljóta bara með.
Nánast það eina sem ég sé eftir í lífinu er að hafa fermst. Var farinn fá efasemdir og hugsa gagnrýnt og velta fyrir mér trúmálum en ekki nærri nóg því ég var samt fastur í viðjum vanans því á endanum gerði ég "bara eins og allir hinir".
Góður punktur Siggi Óla. Þetta er örugglega ástæðan fyrir þvi að ríkiskirkjan vill ferma svo ungt fólk.
-Vegna þess að það hefur ekki leitt hugann að trúmálum. Í skjóli ungs aldurs þessara barna viðheldur ríkiskirjan þessu ill-gerningi og um leið framlengir tilvist sína um eina kynslóð í viðbót..
Hvers vegna er Vantrú að velta sér upp úr fermingunni og lagalegu umhverfi hennar?
Hvers vegna heldurðu? Fermingin er eitt helsta tæki kirkjunnar til þess að klófesta börn sem annars mundu láta sér standa á sama. Þau eru lokkuð með gjöfum og þrýst af félagahópi til þess að undirgangast þessa athöfn, sem kirkjan notar síðan sem réttlætingu fyrir áframhaldandi forréttindum sínum.
Ég sé eftir að hafa fermt mig og finnst gaman að lesa að fermingin mín var tæknilega séð ólögleg (ætli ég geti sagt að ég sé þess vegna ekki fermd?), en ég er samt nokkuð viss að þótt fermingaraldurinn hefði verið 14 og hálfs í staðin fyrir 13 og hálfs, hefði ég samt fermt mig af því að allir hinir gerðu það.
Tek það samt fram að ég var farin að efast um trú mína nokkuð áður en ég fermdist.
Tja, ég býst a.m.k. við að þú getir sagt að þú sért ekki fermd löglega.
Hvað var Helgi Hóseason gamall þegar hann var fermdur? Leysir þetta ekki gamalt vandamál hans?
Ég segi eins og Osks, ég var farinn að efast um trúnna þegar ég var fermdur - ætlaði reyndar ekki að fermast en var eiginlega neiddur til þess (löng saga) Það eru allar líkur á því að hefði ég átt að fermast ári síðar þá hefði ég ekki gert það.
Ástæðan var ekki sú að ég væri eitthvað þroskaðri en forfeður okkar fyrr á öldum - heldur hafði ég mun meiri upplýsingar til að byggja á.
Getur verið að kirkjan viti þetta og færi því ferminguna fram?!?
Helgi á afmæli í nóvember (eins og ég) og er því væntanlega ólöglega fermdur (eins og ég). Meinið er að þótt fermingin sé ólögleg, þá hefur kirkjan hingað til þverneitað að ógilda hana. Í staðinn segir kirkjan bara að þetta sé milli fermingarbarnsins og guðs. En hvernig riftir maður samningi við einhvern sem er ekki til í alvörunni?
Ég reyndar fermdist þegar ég var 14 ára. Ég var einu ári eldri en hinir í bekknum og langaði að fermast með skólasystkinum mínum og beið því í ár í viðbót. Ég var ekki alvarlega farinn að efast um trúna þá, það skrýtna var að ég fékk ekki raunverulega kennslu í trúabragðafræði(öðru en kristni) fyrr en EFTIR að ég var búinn að fermast. Þrátt fyrir það var bókin alltaf bara einn kafli um hvert trúarbragð en 5 um kristni. Þegar ég var byrjaður að efast alvarlega, var það eina sem hélt mér aðeins lengur í kristninni var að ég hélt að ef ég skræði mig úr þjóðkirkjunni gæti ég ekki haldið uppá Jólin, þar sem ég hélt það væri alkristið. En með hjálp vantrú, var ég andkristnitónleikum þar sem ég las raunverulegan sannleikann um jólin og hvernig kristninn í rauninni bara tileinkaði sér hana, þetta væri í raun heiðinn siður. Ég brjálaðist og skráði mig samstundis úr þjóðkirkjunni, með eyðublaði sem ég fékk frá ykkur kumpánum, ehhe :P
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Haukur Ísleifsson - 07/11/07 08:28 #
Ég hef heyrt því fleygt að þessi lög sem um ræðir séu eldgömul konungleg tilskipun sem hefur ekki verið dæmt eftir til þessa. Enldilega leiðréttið ef rangt reynist.