Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Leyndarmálið (Secret)

Leyndarmálið (the Secret) er það allra vinsælasta í sjálfshjálpargeiranum um þessar mundir. Leyndarmálið er einföld nýaldarhugmynd sem segir að það sem þú hugsar stjórnar því hvað gerist í þínu lífi. Þetta á að virka þannig að þú sendir frá sér rafsegulbylgjur sem fær heiminn til að titra á sama „orkusviði“ og tilfinningar þínar. Ef þér líður illa gerist eitthvað slæmt, og ef þér líður vel gerist eitthvað gott. Eftir því sem þú hugsar meira um eitthvað því líklegra er að það gerist. Ekki nóg með það, heldur á þetta að koma fyrir alla og alltaf. Þannig að alltaf þegar mér líður illa kemur eitthvað slæmt fyrir mig og alltaf þegar mér líður vel kemur eitthvað gott fyrir mig.

Rhonda Byrne, höfundur bókarinnar, kallar þetta aðdráttarlögmálið (law of attraction). Þar að auki segir hún að þetta sé eðlisfræðilögmál þrátt fyrir að þetta gangi þvert á það sem eðlisfræðin segir okkur. Í barnaskóla læra flestir dálítið um rafmagn og flestir vita að plúshleðslur dragast að mínushleðslum, mínushleðslur ýta frá sér mínushleðslum og plúshleðslur ýta frá sér plúshleðslum. Þannig að þegar kemur að rafmagni eru það andstæður sem dragast saman. Hérna er ekki heldur verið að tala um aðdráttarafl í sama skilningi og talað er um þyngdarkraft í þyngdarlögmáli Newtons. Þar felst aðdráttaraflið í massa hlutanna og fjarlægðinni á milli þeirra (það er hægt að lesa nánar um þyngdaraflið og rafmagn til dæmis á vísindavefnum). Þetta er dálítið vandræðaleg staðreynd fyrir Rhondu. Reyndar er ekki til neitt aðdráttarlögmál í eðlisfræði og það er illskiljanlegt hvaðan Rhonda fær þá hugmynd. Það er hvergi minnst á þetta „lögmál“ neins staðar í skrifum eðlisfræðinga.

Nú ætti að vera ljóst að aðdráttarlögmálið er ekki eðlisfræðilögmál en getur samt verið að það virki? Getur það verið að ef við hugsum um eitthvað þá komi það til okkar þrátt fyrir að eðlisfræðin segi okkur annað? Nú skulum við taka dæmi sem leyndarmálsmenn nota. Dæmið er af manni sem ákvað nota leyndarmálið til þess að eignast 100.000 dollara. Hann skrifaði 100.000$ á dollaraseðil og límdi fyrir ofan rúmið sitt. Hann hugsaði stanslaust um þetta í langan tíma. Einn daginn mundi hann eftir því að hann hafði skrifað bók en átti eftir að gefa hana út. Hann reiknaði það út að ef hún seldist í nógu mörgum eintökum gæti hann grætt um það bil hundrað þúsund dollara. Hann fór í útgáfufyrirtæki sem samþykkti að gefa bókina út og hann græddi næstum því hundrað þúsund dollara. Nú skulum við gefa okkur að þessi saga sé sönn. Græddi hann svona mikið af peningum af því hann var að hugsa svona mikið um að græða? Getur ekki verið að ástæðan fyrir því að hann græddi svona mikið sé sú að hann skrifaði bók, fékk hana útgefna og hann græddi á því að gera þetta? Er það ekki einmitt þannig sem rithöfundar fá tekjur? Með því að skrifa og reyna að selja? Það er mjög erfitt að sjá hvað hugsunin um hundrað þúsund dollara hefur með þetta að gera. Þetta er samt það sem leyndarmálsmenn eru að tönnlast á. Ef mig langar í Hummer, þá fæ ég Hummer og það hefur ekkert með það að gera hvort ég vinn mér fyrir honum eða ekki. Ef mig langar að vera massaður verð ég massaður hvort sem ég þjálfa mig eða ekki. Ef ég vil Angelinu Jolie fæ ég Angelinu Jolie hvort sem ég er Brad Pitt eða ekki.

Tökum annað dæmi. Ímyndum okkur konu sem vill ekki verða ólétt. Hún tekur getnaðarvarnarpillu og hugsar með sér: „Ég verð ekki ólétt, ég verð ekki ólétt, ég verð ekki ólétt“. Þessi kona verður svo ekki ólétt. Hvers vegna ætli það sé? Ef við eigum að taka leyndarmálsmenn alvarlega þá verður konan ekki ólétt vegna þess að hún hugsaði það, en ekki vegna þess að hún notaði getnaðarvarnarpillu. Bæði dæmin sem eru gefin hérna eru dæmi um post hoc ergo propter hoc (eftir þetta og því vegna þessa) rökvillu. Það ætti að vera ljóst af dæmunum sem ég nefni að þó eitthvað gerist á undan einhverju öðru þarf það síðara ekki að gerast vegna þess fyrra.

Snúum okkur að neikvæðum hugsunum. Rhonda heldur því fram að neikvæðar hugsanir kalli á neikvæða hluti og atburði. Þannig að ef þú hugsar eitthvað slæmt þá kemur eitthvað slæmt fyrir þig. Ef eitthvað slæmt kemur fyrir þig þá er það vegna þinnar neikvæðu hugsunar. Þannig er það þér að kenna ef eitthvað slæmt kemur fyrir þig. Við skulum skoða þetta með dæmi. Ímyndum okkur unga stúlku. Henni er rænt af nokkrum vondum mönnum. Hún er pyntuð og misnotuð kynferðislega af þeim. Þá er spurningin: Kom þetta fyrir stúlkuna vegna þess að hún var að hugsa svona mikið um að vera pyntuð og nauðgað ef vondum mönnum? Geta leyndarmálsmenn gengist við því til þess að vera samkvæmir sjálfum sér? Ég efast um að margir geti tekið undir það. Í fyrsta lagi á ég erfitt með að trúa því að þeir sem hafa lent í svona atburðum hafi verið að hugsa um að lenda í þessu. Ég efast um að það séu margir sem sækjast eftir svona lífsreynslu yfir höfuð. Annað dæmi sem kemur upp í hugann er af stórslysum. Er það neikvæðu hugsunum fórnarlambanna í snjóflóðunum á Flateyri og Súðavík að kenna að þau létust? Er það fórnarlömbunum í Tvíburaturnunum þann 11. september og þeirra neikvæðu hugsunum að kenna að það var flogið á turnana og þeir létust? Ég efast um að einhver geti tekið undir þetta. Það er mjög ósennilegt að allt þetta fólk hafi verið að hugsa svona mikið um einmitt þetta svo ekki sé minnst á hvað þetta er ósmekkleg fullyrðing. Með þessu eru öll fórnarlömb gerð að sökudólgum: „Þú vildir láta nauðga þér“; „Þú vildir drepast í snjóflóði“.

Þannig að aðdráttarlögmálið á sér enga stoð í eðlisfræði þvert á það sem Rhonda Byrne og félagar hennar halda fram. Hugsanir valda ekki atburðum þó að leyndarmálsmenn haldi því fram. Þar að auki er siðaboðskapurinn dálítið ljótur hjá þessu fólk. En má fólk ekki bara hafa sínar skoðanir? Þetta getur varla verið skaðlegt er það? Ég held reyndar að þetta geti verið skaðlegt. Það sem leyndarmálsmenn eru að kenna er einmitt það sem er kallað thought-event fusion (vantar gott orð á íslensku yfir þetta). Thought-event fusion er lykilhugtak í sálfræðikenningum um áráttu- og þráhyggjuröskun og er notað um það þegar fólk heldur að það geti valdið atburðum með hugsun sinni. Til dæmis gæti einhver haldið að hann geti valdið því að barnið sitt lendi í umferðarslysi og deyi með því einu að hugsa um það. Þegar þessi einstaklingur fær hugsunina „barnið mitt deyr í bílslysi“ verður hann mjög hræddur. Hann reynir að fyrirbyggja bílslysið með ýmsum aðferðum. Til dæmis þá reynir hann að hindra að atburðurinn gerist með því að hugsa um að barnið lendi ekki í bílslysi eða með því að hugsa að eitthvað gott komi fyrir barnið. Hann gæti hindrað barnið í að fara nálægt bifreiðum eftir að hafa hugsað um að barnið deyji í slysi. Þetta veldur svo einstaklingnum miklum kvíða, hann veldur barninu sínu óþægindum með því að hleypa því aldrei nálægt umferð, hann gæti skemmt fyrir sér vinnudaginn með því að hlaupa úr vinnunni til þess að bjarga barninu sínu og svo framvegis. Þannig að þetta getur valdið fólki miklum kvíða og óþægindum. Þetta getur truflað þá mjög við daglegt líf þar sem þeir reyna að hindra að það slæma gerist sem kemur upp í huga þeirra. Það getur tekið langan tíma að kenna fólki með áráttu- og þráhyggjuröskun að þetta er ekki rétt. Fyrst þetta er eitt af aðalvandamálunum hjá mörgum með áráttu- og þráhyggjuröskun er þá ekki við því að búast að fólk geti einmitt þróað með sér áráttu- og þráhyggjuröskun ef því er kennt þetta? Ég hef ekki neinar rannsóknir sem sýna fram á að þetta sé það sem gerist hjá þeim sem læra um aðdráttarlögmálið, en það er rökrétt að það geti gerst hjá sumum ef þeir trúa þessu.

Niðurstaðan er því að þeir sem beita aðdráttarlögmálinu auka ekki líkurnar á því að eitthvað gott komi fyrir þá, aðeins líkur á því að sóa tímanum sínum eða jafnvel líkum á því að þróa með sér áráttu- og þráhyggjuröskun.

Það eru alveg örugglega ekki allir sem trúa þeim rökum sem ég hef fært fyrir máli mínu hér. Þess vegna langar mig að gera smá tilraun sem ætti að leiða í ljós að hugsun getur ekki valdið atburðum. Tilraunin felst í því að allir sem lesa greinina skrifa í athugasemdakerfið hér að neðan: „Þórður, höfundur greinarinnar, mun deyja í hræðilegu bílslysi fyrir kl. 16:00 á morgun“. Reynið að trúa því sem þið skrifið, þó að flestum ykkar eigi eftir að finnast það mjög óþægilegt að skrifa eitthvað svona ljótt um mig. Svo eftir klukkan fjögur á morgun þá læt ég vita hvort ég lendi í hræðilegu bílslysi eða ekki (að því gefnu að ég lifi bílslysið af).

Þórður Örn Arnarson 12.10.2007
Flokkað undir: ( Aðsend grein , Nýöld )

Viðbrögð


Þórhallur Helgason - 12/10/07 08:21 #

Hugsunar-atburðar samruni kannski?


Jórunn (meðlimur í Vantrú) - 12/10/07 09:07 #

Góð grein og þörf! Eftir að hafa, árum saman, upplifað og tekið þátt í baráttunni gegn hindurvitnum finnst mér stundum eins og við, sem höfum skynsemina að leiðarljósi, berjumst við þurs þeirrar náttúru að fyrir hvern haus sem við höggvum af vaxa þrjú ný í staðinn.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 12/10/07 10:31 #

Flott grein. Þetta "secret" virkar fyrir þessa Rhondu... Hún græðir miljónir á fáfræði lesenda sinna..

Er einhver sérstakur sem heldur þessu "Secret"-rugli fram? er þetta ekki bara bókarforlagið sem ýtir þessu að fólki?


Þórður Örn Arnarson - 12/10/07 10:48 #

Hugsanar-atburðar samruni er kannski dálítið ljót íslenska, en takk fyrir tillöguna.

Teitur, ég er ekki sammála þér að the Secret virki fyrir Rhondu. Hún situr ekki bara heima og hugsar um að græða peninga, heldur setur hún sér skýr markmið og finnur leiðir til þess að ná þessum markmiðum. Það er svona common sense leið til þess að ná árangri. Aðdráttarlögmálið brýtur hins vegar í bága við hyggjuvitið.

Það eru haldin námskeið hér á landi í þessu. Sjá hér: http://www.blomstradu.net/

Ætlar annars enginn að taka þátt í tilrauninni sem ég legg til í lok greinarinnar? Þetta er kannski full ósmekkleg tilraun hjá mér? En ég ætla alla vega að prófa.

Ég dey í hræðilegu bílslysi fyrir kl. 16 á morgun.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 12/10/07 11:32 #

Ég meika ekki að óska þér dauðdaga. Þótt ég sé trúlaus þá (og þ.a.l. siðlaus að margra mati) þá finnst mér það einhvernvegin ógeðfeld tilhugsun.

-Væri ekki ráð að óska þess að þú finnir fimmþúsundkall?


Guðmundur D. Haraldsson - 12/10/07 11:37 #

-Væri ekki ráð að óska þess að þú finnir fimmþúsundkall?

En þá er þetta ekki jafn áhrifaríkt ef þetta klikkar ;)


Viddi - 12/10/07 11:47 #

Ég óska þér innilega að þú látist í þessu bílslysi þínu og megi dauði þinn vera afar kvalafullur.

Flott að geta sagt svona án þess að fá samviskubit.


mofi - 12/10/07 12:16 #

Flott grein. Það má nú samt segja að ef þú ert jákvæður og einbeitir þér þá ertu líklegri til að ná árangri en að tengja það skammtafræði og tala um lögmál er bara ómerkilegar blekkingar.


óðinsmær - 12/10/07 12:58 #

Teitur, er það ekki bara einhver óskhyggja af þinni hálfu að fjöldi fólks telji þig siðlausan vegna þinna trúarskoðana? Ég held að það sé fráleitt að fólk sem þekkir þig ekki sé að halda slíku fram, hvorki um þig eða aðra trúleysingja.

en varðandi þetta secret mál þá finnst mér þetta snilldargrein, en ég vil benda á það að langflestir geta fengið aðgang að þessu leyndarmáli án þess að borga mikið, bókin er t.d fáanleg á bókasöfnum, hægt er að nálgast myndina gegnum netið með niðurhali og gömlu bækurnar sem þetta byggir á eru líka ókeypis á netinu. Þær eru margfalt betri en bók Rhondu. Kannski finnst einhverjum þeir fá meira ef þeir borga og vilja lifa sig inní heimspekina þannig, en flestir held ég að fái nú smjörþefinn af þessu ókeypis.

En að mínu mati er það versta við þetta ekki að Rhonda gefi út bókina heldur að fólk hreinlega hlaupi á svona undarlegar lausnir, ég hef heyrt þónokkra "fræga" íslendinga tala um sína reynslu af the secret og þeir eru að lofa fólki gulli og grænum skógum ef það virkilega bara "trúir"


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 12/10/07 13:45 #

Óðinsmær segir:

Teitur, er það ekki bara einhver óskhyggja af þinni hálfu að fjöldi fólks telji þig siðlausan vegna þinna trúarskoðana? Ég held að það sé fráleitt að fólk sem þekkir þig ekki sé að halda slíku fram, hvorki um þig eða aðra trúleysingja.

Það var nú bara síðast í gær að ég heyrði kennara í grunnskóla hér í bæ halda því fram að siðferði okkar komi frá boðorðunum 10 og að dómskerfi okkar megi rekja til þessara boða. Það var svo biskup ríkiskirjjunnar sem hélt þvi að "öll gildi færi á flot" ef engin væru trúarbrögðin. Áþekkum skoðunum hefur hann margoft haldið á lofti.

það er því miður ekki óskhyggja í mér að halda því fram að trúleysingjar eru álitnir siðleysingjar. Satt best að segja þá vildi ég óska að svo væri..


óðinsmær - 12/10/07 14:54 #

jæks þetta er nú alveg fráleitt í alla staði. Ég tek undir með þér er þú segir "því miður"

en þetta er sem betur fer afar sjaldgæft. Trúleysingjar eru yfirleitt alls ekki taldir einhverjir siðleysingjar. Amk ekki hér á Íslandi.


Þórður Örn Arnarson - 12/10/07 15:04 #

Já, fimmþúsundkallinn hefði kannski verið sniðugri. Við getum kannski prufað það eftir kl. 16 á morgun.


Flugnahöfðinginn (meðlimur í Vantrú) - 12/10/07 15:11 #

Þú lendir ekki í bílslysinu á morgun kl 16 nema þú trúir því. Ef það gerist ekki þá hefur efinn komið í veg fyrir það. Þú verður að trúa því annars er ekkert að marka :)


oskar - 13/10/07 03:40 #

Hefur einhver heyrt í Þórði? Ég er svo hræddur um að eitthvað hræðilegt hafi komið fyrir hann!!!


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 13/10/07 04:32 #

Ég er búinn að hugsa það sterkt að Þórður muni lifna aftur við eftir dauða sinn í bílslysinu. Ég læt alheimsstraumana sanna mál mitt. Bíðið bara.


Halldór Carlsson - 13/10/07 11:11 #

[ Athugasemd færð á spjallborðið - Jón Magnús ]


Þórður Örn Arnarson - 13/10/07 16:41 #

Ég er enn á lífi og hef ekki lent í neinum slysum síðan greinin birtist.


Eyvindur - 14/10/07 10:07 #

Þetta er svo mikil vitleysa. Það segir sig auðvitað sjálft að ef maður er jákvæður er líklegra að manni gangi vel, því þá er maður atkvæðameiri, ekki satt? Eins og til dæmis gaurinn með bókina - hann varð jákvæðari og tókst í framhaldinu að fá bókina útgefna. Ekkert dularfullt við það, bara mannlegt eðli. Markaðssetning á svona augljósum hlutum eins og því að það borgi sig að vera jákvæður minnir mig alltaf á auglýsingu sem ég sá fyrir mörgum árum um megrunartöflur. Í auglýsingunni stóð eitthvað á þá leið að maður þyrfti ekki að gera annað en að taka töflurnar og drekka 8 lítra af vatni á dag, og þá myndi maður grennast. Það er einmitt ekki útilokað að maður grennist ef maður drekkur 8 lítra af vatni á dag. Töflurnar skipta þá engu máli.

Þetta er skondið. Ennþá skondnara að fólk skuli trúa þessu.


Árni Árnason - 14/10/07 19:41 #

Því miður barst þessi bók inn á mitt heimili sem gjöf, ég segi þvi miður vegna þess að þetta helv. loddarapakk græðir á hverju seldu eintaki. Þessi bók er fáránlega vandaður prentgripur miðað við að innihaldið er algert prump. Af hverju andskotast þetta hyski ekki til að gera ódýra kilju til að dreifa ókeypis meðal fátækra, sem þurfa á svona göldruðum auðæfum að halda. Nei gróðinn af sölu bókarinnar meðal forheimskaðra er þeirra leyndarmál. Mér dettur í huga gamall brandari um blaðasala sem gekk um hrópandi:" Vííííísiiir, 98 manns sviknir- Vííísiir 98 manns sviknir" þegar maður kemur og kaupir blaðið af honum. Maðurinn flettir blaðinu í fáti en finnur enga svikafrétt og heyrir þá blaðasalann hrópa: Vííísiir- 99 manns sviknir, 99 manns sviknir". Menn hafa selt bæði frelsisstyttuna í New York og Effelturninn fyrir stórar summur án þess að eiga þessi mannvirki og treystu því að kaupendurnir myndu skammast sín svo mikið að hafa verið hafðir að fífli að þeir myndu ekki einu sinni kæra. Með útgáfu þessarar prump-bókar eru aðstandendur hennar að hugsa jákvætt til sín milljónir úr vösum heimskingjanna.


Davíð Tómas - 16/10/07 09:28 #

Mjög góð grein. Flott uppbygging


Ari - 17/10/07 01:11 #

allir að horfa á þetta:

The Chaser's War on Everything - The Secret http://youtube.com/watch?v=usbNJMUZSwo


Hafrún - 26/10/07 21:52 #

Snild bara snild


Gunnar Th. Gunnarsson - 27/10/07 02:23 #

Hugsana bræðingur. Kannski var einhver búin að koma með þessa tillögu. Nennti ekki að lesa öll kommentin. Takk fyrir góða grein


Björgmundur Örn - 28/10/07 12:08 #

Sæl öll Þar sem ég sá að enginn hefur skrifað með þessari bók þá langar mig að gera það. Ekki að ég búist við því að þið "frelsist" heldur hitt að mig langar að segja ykkur frá því hvernig ég skil innihald þessara "fræða". Til að byrja með langar mig að segja frá því að ég hef lesið sjálfsræktarbækur í ein 10 ár og sé ekki eftir því þar sem þær hafa hjálpað mér að skilja lífið og samskipti mín við annað fólk. Til að mynda tel ég mig vera orðinn þroskaðri en maður að nafni Árni Árnason sem skrifar hér að ofan. Held að allt þroskað fólk sjái hvers vegna. En ég ætlaði ekki að skrifa um Dale Canegie, Jim Rohn, Zig Ziglar, Brian Tracy, Denis Waitley, Guðjón Bergman eða hvað þeir heita nú allir þessir höfundar vinsælla sjálfsræktarbóka heldur um Secret.

Í fyrsta lagi þá á maður að lesa allar bækur með eigin skynsemi að leiðarljósi en ekki gleypa við bókstafnum.

Það sem Secret er að segja okkur er að við berum ábyrgð á okkar eigin lífi, það er enginn annar sem gerir það, hvorki guð né aðrir menn. Þetta er megin inntakið í Secret. Hver er sinnar gæfusmiður segir gamalt orðatiltæki. Secret er líka að segja okkur að allt sem við beinum athygli okkar að mun ósjálfrátt verða okkur sýnilegt og sýnilegt öðrum.

Í sjálfu sér var fátt sem Secret sagði mér nýtt, allt þetta hafði ég lesið áður en þarna fékk þessi trú mín á hin góða og hið jákvæða byr undir báða vængi. Eins sá ég hversu sterkt það er að setja sér skýr markmið og endurtaka það við undirmeðvitundina þar til við erum ómeðvitað og meðvitað farin að leyta lausna í umhverfinu við markmiðum okkar. Svör við öllum okkar draumum eru í kringum okkur, það er ekki fyrr en við beinum athyglinni að því sem við sjáum lausnirnar. Sömuleiðis þá er það ljóst að ef við framkvæmum og leyfum okkur að fylgja eftir þessum meðvituðu og ómeðvituðu markmiðum okkar þá munu þau verða að raunveruleika.

Sá sem er uppfullur af kvíða og stressi er með athygli sína á kvíðanum og stressinu en ekki á því hvernig hægt er að leysa þá hluti sem valda kvíðanum eða stressinu.

jákvæð hugsun fyrir framtíðinni og markmiðssetning og athygliseinbeiting hjálpar okkur að líta fram hjá afleiðingunum og að orsökunum. Þetta er megin atriðið.

Við megum ekki dæma þau skilaboð sem Secret hefur fram að færa bara af því að þau fá okkur til að hugsa að kannski þurfum við að bera sjálf ábyrgð á þeim slæmu hlutum sem hafa orðið í okkar lífi.

Secret hjálpar okkur að takast á við lífið og hætta að forðast það.

Því miður þá er það eðli þeirra sem reyna að dæma hluti sem þeir ekki skilja út af borðinu með öfgafullum dæmum og það að yfirfæra leyndarmálið yfir á okkur Flateyringa er kemur að snjóflóðinu er slíkt dæmi. Með því að taka þetta dæmi er verið að höfða til neikvæðra tilfinninga í garði lesandans, reiði og sorgar. Í dag hugsa ég með gleði til þeirra vina minna sem þarna létust, því ég á jú fallegar og jákvæðar minningar af þeim. Ég hugsa með stolti til samfélagsins míns sem tókst á við þetta áfall og náði að rísa upp aftur, byggði samfélagið og sjálft sig upp þrátt fyrir þessa erfiðleika.

Lífið er ekki bara svart og hvítt, heldur tilfinningar mannlegs eðlis. Með því að tileinka okkur það sem Secret er að segja okkur þá munum við leytast í að lifa jákvæðu lífi, stess lausu og kvíðalausu. Sá sem leytar lausna mun finna lausnina því hún er alltaf til staðar bara ef þú hefur athyglina á því. Í raun er þetta ekkert leyndarmál, heldur almenn skynsemi, ekki satt?

Megi þú lifa sem lengst, jákvæðu og hamingjuríku lífi, þér og þínum til handa. Góðar stundir


Karen - 29/10/07 10:55 #

Takk fyrir góða grein og skemmtilegar pælingar. Mig langar að bæta einu dæmi við sem gefur frekari mynd af skaðsemi hugsunarháttarins: Hjón langar að eignast barn. Þau reyna lengi og langar mikið og fara í glasafrjóvgun og hormónameðferð án árangurs. Annað hjónanna kemst í kynni við leindarmálsspekina og uppgötvar að makann langar ekki nógu mikið að eignast barn. Makinn neitar.. þetta leiðir til skilnaðar og óleysanlega ágreiningsmála. Góðar stundir.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/11/07 22:21 #

Því miður var þarsíðasta athugasemd, sem Björgmundur Örn skrifaði, flokkuð sem ruslpóstur (ip-talan sem hún kom frá er á svörtum lista) og fór því ekki beint í loftið. Ég sá hana ekki fyrr en rétt í þessu.

Björgmundur hefur eflaust ekki viljað nægilega sterkt að athugasemdin birtist á síðunni ;-)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.