Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúleysi og lýðréttindi

Ánægjulegt hefur verið að sjá hver barátta samkynhneigðra fyrir sjálfsögðum réttindum og jákvæðari viðhorfum hefur skilað góðum árangri á undanförnum árum. Yfir 50.000 manns tóku átt í gleðigöngunni í miðbæ Reykjavíkur í því skyni að styðja samkynhneigða. Vissulega hafa samkynhneigðir þurft að hafa fyrir því að ná þessum árangri og enn er ýmislegt óunnið.

Þegar við fögnum árangri eins hóps í baráttunni gegn fordómum og fyrir lýðréttindum ættum við að hafa hugfast að ekki njóta allir minnihlutahópar jafnmikillar velgengi og æskilegt væri. Einn er sá hópur hér á landi sem þarf að fá aukna viðurkenningu á tilveru sinni og það eru þeir sem eru trúlausir eða af öðrum ástæðum sjá ekki ástæðu til þess að tilheyra trúfélögum. Tæplega 8000 manns standa utan trúfélaga hér á landi en þrátt fyrir þennan fjölda er mismununin sem þetta fólk þarf að búa við með öllu ólíðandi. Þeim sem ekki tilheyra neinu trúfélagi er engu að síður gert að greiða svokallað „sóknargjald" til Háskóla Íslands rétt eins og Háskólinn væri trúfélag. Ekki fær þessi hópur þó þá þjónustu frá H.Í. sem fólk sem tilheyrir trúfélögum fær hjá sínum söfnuðum.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur fólki sem stendur utan trúfélaga ekki gengið neitt í að fá félagsskap sinn skráðan í líkingu við önnur trúfélög hér á landi í því skyni að fá fjárhagslegan og lagalegan grunn til þess að geta þjónustað sitt fólk t.d. með sálgæslu, útfararþjónustu, giftingum o.s.frv. Slíkt hefur hins vegar verið við lýði í Noregi í 26 ár.

Ég tel að ein af ástæðum þess að svo vel hefur gengið í réttindabaráttu samkynhneigðra er jákvætt viðhorf margra kennara. Í námsefni sem kennt er í grunnskólum er farið jákvæðum orðum um samkynhneigð og margt hefur verið gert til þess að koma í veg fyrir fordóma gagnvart samkynhneigðum. Það sama er því miður ekki hægt að segja um þátt skólanna þegar kemur að viðhorfum gagnvart þeim sem aðhyllast engin trúarbrögð. Þar hefur grunnskólinn jafnvel farið fremstur í að ala á fordómum. Námsefni í trúarbragðafræði hefur ekki verið til þess fallið að auka á umburðarlyndi í garð trúlausra. Í kennslubókinni Maðurinn og trúin fá nemendur t.d. þá spurningu hvort þeir gætu ímyndað sér heiminn án trúarbragða. Ekki er það erfitt fyrir þá sem aðhyllast engin trúarbrögð en hvergi í bókinni er greint frá því að sá möguleiki sé fyrir hendi og því síður sagt frá því að hér á landi séu tæplega 8000 manns sem kjósa að standa utan trúfélaga.

Í ljósi bókarinnar í heild sinni túlka ég þessa spurningu höfundarins sem einhvers konar hæðni í garð þeirra sem ekki aðhyllast trúarbrögð. Afstaða alþingismanna hefur einnig verið leiðbeinandi í þessu máli þar sem þeir hafa ekki sýnt því nokkurn áhuga að rétta hlut fólks utan trúfélaga. Um leið og ég óska samkynhneigðum til hamingju með árangurinn í baráttunni fyrir almennum lýðréttindum, minni ég á að enn er á brattann að sækja í baráttunni fyrir því að fleiri fái notið viðurkenningar í íslensku samfélagi.

Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag og á Vísisvefnum. Hana er einnig að finna á bloggsíðu höfundar.

Jóhann Björnsson 16.08.2007
Flokkað undir: ( Aðsend grein , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 16/08/07 18:25 #

Þetta er góð grein um mikilvæg málefni. Það er vert til umhugsunar sá siður að innheimta "sóknargjöld" af trúleysingjum og láta þau renna til HÍ, þrátt fyrir að þeir fái enga sérstaka þjónustu fyrir vikið. Kannski er mál að leggja það til að trúleysingjar þurfi ekki að borga innritunargjöld í HÍ vegna sérstaks framlags þeirra til skólans.

Það er verðugt baráttuefni að stofna félag þeirra sem standa utan trúfélaga til að sjá þeim fyrir samfélagslegri þjónustu, t.d. í sambandi við giftingar og jarðarfarir. Siðmennt verður líklega að ryðja brautina þar en einhvern veginn held ég að ekkert gerist í þeim málum fyrr en núverandi dóms- og kirkjumálaráðherra verði settur af.


Guðjón - 17/08/07 09:58 #

Þetta er snjöll grein þar sem færð eru sterk rök fyrir því að þeir sem eru utan trúfélaga séu misrétti beittir. Það er þó eitt sem ég hnýt um og það er sagt að grunnskólinn hafi jafnvel farið fremstur í að ala á fordómum í garð trúlausra.

Þetta eru alvarlegar ásakanir- Hvernig hefur grunnskólinn alið á fordómum í garð trúlausra og hvernig veit höfundur að þetta hafi átt sér stað? Fram kemur að Jóhann telur þörf á breytingum á námsefi í trúarbragðafræði, er eitthvað fleirra sem þar að gera?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 17/08/07 10:17 #

Hvernig hefur grunnskólinn alið á fordómum í garð trúlausra og hvernig veit höfundur að þetta hafi átt sér stað?

Þetta kemur fram í greininni Guðjón. Jóhann vísar í námsefni í grunnskóla og hvernig það fjallar (og ekki) um trúleysi.

Jóhann Björnsson er grunnskólakennari.


Guðjón - 17/08/07 10:43 #

Mér finnst það vera einföldun að setja samasemmerki milli námsefnis og kennslu. Kennarinn þar ekki að fylgja námsbók í blindni. Það er t.d. hægt að vera með aukaefni og umræður til að fara í atriði sem námsbók sleppir. Það má vel vera að þörf Ef það er rétt hjá Jóhann að grunnskólinn hafi farið fremstur í flokki í að ala á fordómum í garð trúlausra hljóta kennarar að hafa beitt sé í því máli. Það er lélegur kennari sem kennir eitthvað rugl vegna þess að það stendur í kennslubók.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 17/08/07 10:53 #

Guðjón, ertu ekki að reyna að endurtaka umræðu sem þegar er í gangi við aðra grein?


Árni Árnason - 17/08/07 11:11 #

Námsgögn og námsskrár eru sýnileg og borðleggjandi. Það er það sem menn verða að taka mið af í þessari umræðu. Það er gersamlega útilokað að henda reiður á því sem hver einstakur kennari lætur út úr sér.

Námsskráin, námsefnið og prófin sem gerð eru með hliðsjón af þessum gögnum hljóta að vera kjarni málsins. Umræður nemenda og kennara utan þess eru útúrdúrar og misjafnar frá einum kennara til annars.


Guðjón - 17/08/07 13:11 #

Nei alls ekki- Meginatriði er að mér finnst Jóhann eigi að útskýra betur hvað hann á við með þessum alvarlegu ásökunum í garð grunnskólans en hann ræður auðvita hvað hann gerir í því máli.

Það er algjör óþarfi að endurtaka það sem nýbúið er að segja annars staðar. Meira hef ég ekki um þetta mál að segja í bili.


Jóhann Björnsson - 17/08/07 13:28 #

Það er ágætt að þetta kemur upp með heimildir mínar um það hvað ég viti um hlut skólans í að ala á fordómum og skilningsleysi í garð þeirra sem standa utan trúfélaga eða tilheyra fámennum söfnuðum. Sjálfur er ég að hefja mitt 7 kennsluár í grunnskóla, konan mín hefur kennt lengur í grunnskólum og þar sem sjónarmið mín gagnvart trúarbrögðum og skólum er þekkt er algengt að fólk hafi samband við mig og tjái mér raunir sínar í þessum efnum.

Sjálfur hef ég upplifað höfnun í byrjun kennsluferils fyrir það eitt að leggja til á deginum þegar kirkja er heimsótt að boðið væri upp á val. Nokkrum árum síðar var það reyndar lagfært og nú þarf utankirkjufólk ekki að skammast sín heldur fær val.

En það sem átt er við í greininni er ekki aðeins hlutur námsefnis heldur ýmislegt annað sem ég ætlaði að koma fyrir í greininni en ég varð að stytta hana til birtingar í Fréttablaðinu. Það sem ég hafði einnig í huga eru eftirfarandi atriði auk námsefnis:

  • Kirkjuferðir (nemendum í Valhúsaskóla var gert skylt með hörku að fara í messu um s.l. jól sjá nánar á johannbj.blog.is þann 19.01 sl).
  • Fermingarfræðsla í grunnskólum á skólatíma þar sem fermingarfræðslan er sett inn í stundatöflu allra nemenda í 8. bekk.
  • Bænastundir í skólum.
  • Ýmislegt fleira auk viðmóts einstakra kennara gagnvart utankirkjufólki auk margumræddrar vinaleiðar.

Á vef Siðmenntar hefur ýmsum dæmum um óeðlileg tengsl kirkju og skóla verið safnað saman.

Ég vona að þetta skýri eitthvað frekar mál mitt.

Bestu kveðjur
Jóhann Björnsson


Guðjón - 17/08/07 16:22 #

Ég þakka fyrir mig. Jóhann hefur örugglega nóg að gera þar sem skólinn er byrjaður.


LegoPanda (meðlimur í Vantrú) - 19/08/07 21:50 #

Háskólasjóður - Styrktur af trúleysingjum Íslands!


Árni Árnason - 20/08/07 11:53 #

Var að renna yfir Námsskrána, nánar tiltekið kaflann: Kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði.

Ég veit ekki hvernig nokkrum heilvita manni getur dottið í hug að halda því fram að þarna sé á ferðinni eitthvað annað en trúarleg ítroðsla.

Markmið allra aldursþrepa gera ráð fyrir að kafað sé ofan í kristna trú í smæstu smáatriðum, og talið upp í tugum liða hvaða atburði og biblíusögur nemendur eiga að kunna. Gerð er krafa um hellings utanbókarlærdóm, og af orðalagi námsskrárinna ekki annað að skilja en hér sé verið að fjalla um sagnfræðilegar staðreyndir.

Svo detta inn á stangli markmið um að nemendur kynnist helstu atriðum tiltekinna annarra trúarbragða, svo sem... og svo eru atriðin talin upp. Það er semsagt tæmandi talning, þannig að í raun er nóg að lesa námsskrána til að teljast fullnuma í þeim tilteknu trúarbrögðum.

Það er svo greinilegt að það eru kristnir prestar eða guðfræðingar sem hafa samið þessa námsskrá. Hún er svo undirlögð og gegnsýrð af kristilegum áróðri að hið hálfa væri nóg. Af mildi sinni minnast þeir þó lítillega á önnur helstu trúarbrögð heims, en trúsleysið fær þann þunna sess að leynast inni í orðalagi eins og "önnur lífsviðhorf". Það er kannski ekki skrýtið að þeir þori að nefna hindúasið, íslam eða búdda, en ekki trúleysi. Þessi trúarbrögð eru annaðhvort með svo neikvætt orð á sér eða nógu framandi og heimskuleg til að vera lítil ógn við kristnina. (Ekki það að kristnin sé nokkuð minna heimskuleg, hún er bara farin að venjast) Þeir krisslingarnir sem tekist hefur að gera þessa bábiljunámsskrá að skyldunámi í íslenskum skólum vita auðvitað að mesta "ógnin" felst um þessar mundir í að fólk kasti alfarið af sér helsi trúarbragðanna, og fari að hugsa á eigin forsendum í stað þess að láta mata sig á einhverju bulli. Þessari námsskrá verður að mótmæla og það harkalega. Hún er móðgun við allt hugsandi fólk. Fótum treður trúleysi og lýðréttindi.


Snorri - 17/12/07 01:42 #

Veit einhver hvort "sóknargjöld" Háskólans séu eyrnamerkt ákveðnum deildum/tilgangi eða hvort þeir fari í almennan rekstur skólans?

Varla fara "sóknargjöldin" til Guðfræðideildarinnar?

Kveðja, Snorri Marteinsson


Ragnar (meðlimur í Vantrú) - 17/12/07 02:08 #

Sæll Snorri

Nei, þetta er lífseig þjóðsaga.

Sjá hér: http://www.vantru.is/2006/03/09/07.30/

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.