Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúboð í opinberum skólum

Ég hef verið að spá í sálarástand þeirra sem eru fylgjandi trúboði í opinberum grunnskólum. Hvað fær fólk til þess að vilja kristna börn annarra manna, eða a.m.k. gera tilraun til þess? Vilja þeir ekki að sín börn umgangist heiðingja eða eru þeir kannski of latir til að kenna sínum eigin börnum um þeirra trú?

Biskoppurinn yfir Íslandi hefur sagt í predikun að þögn um trú sé innræting á trúleysi. Líklega er þá þögn um Miklahvell jafngild innrætingu á sístöðukenningunni, eða hvað? Það sjá það allir að afstaða sem þessi er byggð á sandi, eitthvað sem sjálfur biskupinn ætti nú að varast.

Svo að enginn misskilji mig þá er nauðsynlegt að kenna trúarbragðafræði í skólum en kristnifræðikennsla sem felur í sér trúboð ætti ekki að viðgangast. Íslendingar eru blessunarlega afar trúlítil þjóð og þessi fáu prósent sem telja sig kristin, ef við teljum ekki krakka á fermingarárinu með, geta bara lesið sína barnabiblíu heima hjá sér og rætt við sinn sóknarprest um Jesú.

Mér finnst það fyndið þegar sumir þessara ágætu manna sem vísað var til í byrjun, fara að verja kristniboðið með því að ekkert sé til sem heitir hlutlaus skóli. Það má vera rétt en er það einhver afsökun í sjálfu sér? Þó að hlutlaus skóli sé kannski einhver staðleysa má þá ekki leitast við að hafa skólana sæmilega hlutlausa í trúmálum svo að allir séu ágætlega sáttir? Nei, þá koma þessir skrattar úr sauðarleggnum og kvarta og kveina. "Við erum kristin þjóð með kristna menningu og kristna arfleið og kristið siðgæði og því er nauðsynlegt að innræta börnum frá unga aldri þessa hjátrú".

Fornserkneskar trúargrillur og væmin töfratrú austan úr Miðjarðahafsbotnum, kallaði Halldór Laxness kristindóminn þegar skáldið var upp á sitt besta. Hvers vegna erum við enn að dragnast með þennan afrakstur sólstings og fáfræði nú á 21. öldinni í opinberum skólum? Hví þurfa vesalings börnin að læra bænir eins og faðirvorið, þvílík tímasóun. Hvernig væri að bæta kennslu í raunvísindum og stærðfræði í staðinn, en alþjóðlegar kannanir hafa oft sýnt að íslensk skólabörn eru mjög slök í þeim fræðum.

Auðvitað er sjálf ástæðan fyrir kristniboði í skólum augljós. Á endanum snúast öll trúarbrögð um peninga og þetta er þeirra aðferð til að ala upp viðskipavini framtíðarinnar. Skólabörn sem hafa verið rugluð í ríminu með kristnum áróðri eiga eftir að halda áfram að notfæra sér þjónustu kirkjunnar og þeim á ekki eftir að koma til hugar að skrá sig úr Þjóðkirkjunni. Þ.e. mörg þeirra, sum ná að sleppa takinu af ranghugmyndunum þegar þau ná fullorðinsaldri.

Mér leiðist sú umræða um að nú séu íslenskir skólar orðnir svo fjölmenningarlegir með fjölda innflytjenda þannig að hætta skuli kennslu í kristinfræði af tillitsemi við nýbúana. Það er veigaminnsta ástæðan sem mér getur komið til hugar varðandi trúarítroðslu í almennum skólum. Það var rangt til að byrja með að boða trú í barnaskólum og það breytist ekkert við það þó að í skólana komi börn með annan trúarlegan bakgrunn.

Ég veit reyndar til þess að í sumum skólum er kristnum fræðum lítið sinnt og er það mjög ánægjulegt. Hins vegar er margt sem bendir til þess að Þjóðkirkjan vilji hefja nýja sókn inn í grunnskóla landsins, og jafnvel leikskólana líka. Ég hvet skynsamt fólk til þess að standa í vegi fyrir þeirri öfugþróun, veraldlegt skólakerfi á að vera sjálfsagt mál í landi þar sem trúfrelsi er varið í stjórnarskrá. Annað er ekki boðlegt, hvorki fyrir foreldrana né blessuð börnin.

Lárus Viðar 20.07.2007
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Diddi - 20/07/07 11:21 #

Ég ætla ekki að vera setja út á skoðanir þínar, þú hefur fullan rétt á þeim þó að ég sé þér ósammála í flestu. Ég set hins vegar spurningamerki við þessa fullyrðingu þína:

„Íslendingar eru blessunarlega afar trúlítil þjóð og ÞESSI FÁU PRÓSENT SEM TELJA SIG KRISTIN, ef við teljum ekki krakka á fermingarárinu með, geta bara lesið sína barnabiblíu heima hjá sér og rætt við sinn sóknarprest um Jesú.“

Ég skil bara ekki hvernig þú getur haldið því fram að fá prósent Íslendinga telji sig kristin. Í fyrsta lagi eru rúmlega 82% Íslendinga skráðir í Þjóðkirkjuna (árið 2006)...og plís ekki fara að segja mér að fólk vilji ekki vera þar en sé bara of heimskt og latt til þess að skrá sig úr henni. Og þá eru ótalin öll önnur kristin trúfélög á Íslandi eins og Fríkirkjunar, Krossin, Vegurinn, Kaþólska kirkjan o.s.frv. Ætli það séu ekki lágmark 90% Íslendinga skráðir í kristin trúfélög. Þú vilt meina að 9 af hverjum 10 Íslendingum séu fá prósent.

Ég efast ekki um að meirihluti þeirra sem þú umgengst séu vantrúaðir en þú verður að reyna að komast aðeins í takt við veruleikann utan þín þrönga vinahóps áður en þú setur fram svona bullfullyrðingar. Ég er t.d. bara svona "average Joe", skráður í Þjóðkirkjuna, alin upp á þessu venjulega kristna Íslenska heimili. Mamma las fyrir mig bænirnar þegar ég var lítill og ég lærði kristinfræði í skóla og í fermingarfræðslunni. Ég fer ekkert í kirkju á hverjum sunnudegi en trúi hins vegar á Guð og finnst það frábært. Fólkið í kringum mig, fjölskyldan, vinirnir, skólafélagarnir o.s.frv. er mismunandi fólk með mismunandi bakgrunn, út öllum áttum og á öllum aldri. Ég held að ég geti fullyrt að lang lang stærstur hluti þeirra lítur á sig sem kristna einstaklinga.

Ég ætla ekki að þræta við þig um kristinfræði í skólum. Hef ekki myndað mér afstöðu í því máli þó að ég telji auðvitað að allir ættu að fá að læra um kristna trú. Skiptir mig engu þó börnin læri um Allah og Búddha í leiðinni. Treysti fólki til að velja þá trú sem það kýs. Ég er heldur ekkert á því að kristin trú á Íslandi eða þjóðkirkjan myndu líða fyrir það ef kristinfræði yrði lögð niður í skólum. Í Bandaríkjunum t.d. hefur kristin trú aldrei verið sterkari heldur en eftir að kristinfræði var bönnuð í skólum.

Guð blessi þig :)

Kv. Diddi


Helgi Briem (meðlimur í Vantrú) - 20/07/07 11:37 #

Rétt er það að enn eru um 90% Íslendinga skráðir í kristna söfnuði, en kannanir sýna að afar lítill minnihluti er virkur í starfi þeirra og enn minni hluti samþykkir kennisetningar kristinnar kirkju.

Flestir Íslendingar mundu teljast deistar, ekki kristnir.

Í Bandaríkjunum t.d. hefur kristin trú aldrei verið sterkari heldur en eftir að kristinfræði var bönnuð í skólum.

Rétt og það er eina ástæðan fyrir því að ég efast um aðskilnað ríkis og kirkju. Meðan þjóðkirkjan fitnar á fjósbitanum, feit, löt og sælleg á kostnað skattborgara hef ég litlar áhyggjur af skaðsemi hennar. Hún er öllum gleymd og glötuð.

Virk, öflug kirkja með 30% landsmanna innanborðs er hræðileg tilhugsun. Ég get vart hugsað þann hrylling til enda.

Mér finnst ágætt að hafa kirkjuna eins og hún er, öllum gleymd og meinlaus eins og tannlaus hundur. Leiðinleg, litlaus og ljót já, en ekki fasísk öfgasamtök eins og Krossinn.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 20/07/07 12:00 #

Trúfélagsaðild jafngildir ekki trúarsannfæringu Diddi. (Eins og er allaveganna.) Sérstaklega vegna þess að fólk er sjáfkrafa skráð í þessi trúfélög án upplýsts samþykkis.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 20/07/07 12:02 #

Ég bendi Didda á að lesa greinarnar Niðurstaðan var áhugaleysi og Kirkjukönnun til að finna gögn fyrir þessum fullyrðingum sem hann er að kvarta yfir.


Kristján Hrannar Pálsson - 20/07/07 12:05 #

Ég hef þó vissar efasemdir um að til yrði einhver öfgakirkja með þriðjungi landsmanna ef þjóðkirkjan væri látin af spenanum. Ef til vill yrði hún mjög svipuð Fríkirkjunni, ég er ekki viss um að fólk myndi allt í einu breyta trúarskoðun sinni í öfgafulla átt þó þjóðkirkjan yrði ekki lengur ríkisrekin. Eða hvað?


Helgi Briem (meðlimur í Vantrú) - 20/07/07 12:13 #

Nei, kannski ekki. En almennar kirkjur í Bandaríkjunum eru miklu öfgafyllri en þjóðkirkjan. Flestar sennilega enn öfgafyllri en Krossinn.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 20/07/07 12:19 #

Fólk horfir alltaf til BNA þegar kemur að þessum frjálsu kirkjum sem hafa þessi miklu ítök en menn gleyma að líta til t.d. Frakklands, Hollands, Belgíu og fleiri landa þar sem trúleysi er um og yfir 40% og engin ríkiskirkja.


óðinsmær - 20/07/07 12:40 #

Evrópa er mjög trúlaus miðað við BNA, páfinn er að vísu einsog poppstjarna víða en svona ef við alhæfum þá er fyrri fullyrðingin rétt. Hvað er svona spennandi við að auka trúleysi? Ég næ því ekki.


Helgi Briem (meðlimur í Vantrú) - 20/07/07 13:28 #

Vissulega, en aukin trú leiðir af sér ofstæki, undirokun minnihlutahópa og ofbeldi eins og sjá má í Bandaríkjunum og Mið-Austurlöndum.

Trúuðum hefur tekist að lögleiða pyntingar á ný, banna stofnfrumurannsóknir og banna giftingar samkynhneigðra í Bandaríkjunum. Ef ekki verður skipt um stjórnarflokk í næstu kosningum er hætt við að enn verði aukið á misréttið.

Að samþykkja rökleysu eins og trúarbrögð opnar dyrnar fyrir alls kyns annari rökleysu.

Almennt er réttlæti mest og lífskjör best í þeim löndum þar sem trúleysi er meirihlutaskoðun.


Diddi - 20/07/07 13:30 #

Sé ekki að þessar kannanir breyti neinu um það sem ég hef sagt. 90% Íslendinga eru skráðir í kristin trúfélög. Það er bara bull að halda því fram að sú tala sé svo há af því að fólk nennir ekki eða hefur ekki áhuga á að skrá sig úr henni. Flestir þessara 90% vilja einfaldlega vera í þjóðkirkjunni.

Könnunin sem þú bentir á Jón Magnús, sýnir að yfir 40% Íslendinga fara aldrei í kirkju og á þá væntanlega að afsanna það sem ég sagði að langstærstur hluti Íslendinga séu kristnir. Það gerir það ekki. Ég t.d. myndi fara í flokk með þessum rúmlega 40 prósentum þar sem ég fer aldrei í kirkju (nema kannski brúðkaup, fermingar, skírnir og svoleiðis) en samt lít ég á mig sem kristin einstakling eins og lang stærstur hluti þjóðarinnar. Vinir mínir og ættingjar sem ég minntist á hérna áðan og sagði að væru kristnir fara heldur aldrei í kirkju.

Líka það þegar fólk var spurt úr í afstöðu sína til þjóðkirkjunnar, það segir lítið um hvort fólk sé kristið. Ég er ekkert viss um að ég myndi segja að ég væri jákvæður í garð kirkjunnar. Alla vega ekki mjög jákvæður. Myndi kannski svara að ég væri jákvæður eða hlutlaus/alveg sama.

Ekkert af þessu breytir því að fullyrðing um að fá prósent Íslendinga telji sig kristin er bara bull.

Kv. Diddi


Matti (meðlimur í Vantrú) - 20/07/07 13:51 #

Flestir þessara 90% vilja einfaldlega vera í þjóðkirkjunni.

Af hverju eru þá bara 82% þjóðarinnar í Þjóðkirkjunni Ríkiskirkjunni? ;-)

Ekkert af þessu breytir því að fullyrðing um að fá prósent Íslendinga telji sig kristin er bara bull.

Lesið endilega greinina "Meirihlutagoðsögnin" þar sem m.a. segir:

Þannig að fólk sem aðhyllist að að minnsta kosti tvær af meginkenningum kristindómsins er á bilinu 35-45%, ekki einu sinni meirihluti. Ef við spyrðum fólk út í aðrar grundvallarkenningar eins og þrenningarkenninguna, upprisu holdsins og friðþægingarkenninguna grunar mig að talan myndi lækka.

Samkvæmt þessari eðlilegu skilgreiningu er það rangt að mikill meirihluti Íslendinga sé kristinn, þvert á móti eru kristnir í minnihluta.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 20/07/07 14:00 #

Diddi, eins og Matti bendir réttilega á, þá er það ekki nóg að kalla sig kristinn til að teljast kristinn. Þú þarf að aðhyllast og trúa nokkrum lykilkenningum til að geta talist kristinn.

Ef þú gerir það ekki þá ertu eitthvað annað en allavega ekki kristinn. Skv. þessari könnun sem vísað er í í þessum greinum þá vantar tugi prósenta upp á til að það náist hjá því fólki sem er skráði í Ríkiskirkjuna.


Diddi - 20/07/07 14:45 #

Í fyrsta lagi myndi ég segja að 82 prósent væru "flestir þessara 90%"

Í sambandi við "meirihlutagoðsögnina" þá finnst mér þetta vera óttalegir útúrsnúningar. Til dæmis þetta:

„Ég er viss um að sumir vilja nota víðtækari skilgreiningar, eins og að það nægi að líta upp til Jesú og að trúa á guð til þess að teljast kristinn. En samkvæmt þessari skilgreiningu eru múslímar kristnir.“

Er ég þá múslimi af því að ég trúi því að Múhameð hafi verið til. Nei... en ef ég trúi því að Jesús hafi verið til, trúi á Guð og nota boðskap kristinnar trúar sem leiðarljós í lífinu, t.d. sýni náunganum kærleika, kem fram við aðra eins og ég vill að aðrir komi fram við mig, virði foreldra mína, trúi á himnaríki, drep ekki, stel ekki o.s.frv. þá er ég kristin.

Ég held að ég hætti núna að þræta um þetta. Ég alla vega lít á mig sem kristin og sömuleiðis flestir sem ég þekki. Ég skal ekkert segja um kristinfræði í skólum eða þjóðkirkjuna. Hef ekki nógu sterkar skoðanir á því. En þetta er skemmtileg síða og virðinarvert að fólk standi með sinni sannfæringu og allt það. Mér fannst bara þessi fullyrðing um að "fá prósent Íslendinga teldu sig kristin" út í hött. Ég er fullviss um að ef gerð yrði könnun þar sem fólk væri spurt, „telur þú þig vera kristin?“ þá myndi lang stærstur hluti þjóðarinnar svara játandi.

Og plís ekki fara að snúa útúr því sem ég sagði með að hafa boðskap kristinnar trúar að leiðarljósi með því að spyrja hvort ég hafi aldrei unnið á sunnudegi, borðað svínakjöt eða horft girndaraugum á konu náungans.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 20/07/07 14:51 #

Þetta eru engir útúrsnúningar, þarna er stuðst við skilgreiningar dr. Péturs Péturssonar, guðfræðings og trúmanns.

Mér fannst bara þessi fullyrðing um að "fá prósent Íslendinga teldu sig kristin" út í hött.

En það er niðurstaða nýjustu rannsóknar á trúarviðhorfum íslendinga, þar voru 51% (sem eru ekki fá prósent, en miklu minna en 90%) sem sögðust aðhyllast kristna trú (sjá t.d. þessa grein).

Ég hef sjálfur alltaf viljað taka orð fólks fyrir því hverju það trúir - ef fólk segist aðhyllast kristni skilgreini ég það kristið. En aftur á móti segir trúfélagaskráning okkur lítið sem ekkert þegar fólk er sjálfkrafa skráð í trúfélag við fæðingu.

Svo má alltaf spyrja fólk út í trú þess, stundum kemur í ljós að fólk sem skilgreinir sig kristið ætti frekar að teljast persónutrúar eða ósköp einfaldlega trúlaust ef það trúir ekki á neina yfirnáttúru, bara "það góða í manninum".


Diddi - 20/07/07 15:11 #

Ok, nú semjum við um jafntefli. Það eru ekki fá prósent (þú ert búinn að viðurkenna það) sem eru kristin og ekki heldur lang stærsti hluti þjóðarinnar (ég viðurkenni það).

Það er, samkvæmt greininni sem þú bentir á, rúmlega helmingur þjóðarinnar eða 51%.

Hinsta kveðja, Diddi.


Helgi Briem (meðlimur í Vantrú) - 20/07/07 15:31 #

Já, samkvæmt skoðanakönnun. Það er hins vegar miklu, miklu minni hluti sem raunverulega leggja trúnað á grunnkennisetningar kristinnar trúar (enda fáránlegt bull). Langflestir eru svona ylvolgir deistar/spíritistar með smáskvettu af draugatrú.


Diddi - 20/07/07 15:41 #

Ef þú vilt ekki telja þá með sem ekki fara algjörlega eftir kennisetningum kristinnar trúar og þú kallar ylvolga deista/spíritista þá gæti ég allt eins talið með til kristinna vantrúarmenn sem segjast ekki kristnir en lifa að einhverju leiti eftir kennisetningum kristinnar trúar.

51% Íslendinga telja sig kristin og ég trúi þeim til að hafa svarað þeirri spurningu samviskusamlega.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 20/07/07 15:58 #

Í sambandi við "meirihlutagoðsögnina" þá finnst mér þetta vera óttalegir útúrsnúningar. Til dæmis þetta:

„Ég er viss um að sumir vilja nota víðtækari skilgreiningar, eins og að það nægi að líta upp til Jesú og að trúa á guð til þess að teljast kristinn. En samkvæmt þessari skilgreiningu eru múslímar kristnir.“

Er ég þá múslimi af því að ég trúi því að Múhameð hafi verið til. Nei... en ef ég trúi því að Jesús hafi verið til, trúi á Guð og nota boðskap kristinnar trúar sem leiðarljós í lífinu, t.d. sýni náunganum kærleika, kem fram við aðra eins og ég vill að aðrir komi fram við mig, virði foreldra mína, trúi á himnaríki, drep ekki, stel ekki o.s.frv. þá er ég kristin.

Diddi, þetta eru ekki "óttalegir útúrsnúningar" í greininni, heldur virðist þú vera að misskilja hana.

Ég er einfaldlega að benda á að ef menn nota mjög vítækar skilgreiningar á því að vera kristinn þá verða sumir kristnir sem eru það alls ekki að allara mati. Ég bendi á að einhver segir að það nægi að líta upp til Jesú og trúa á guð til þess að vera kristinn, að þá eru múslímar kristnir. En þeir eru það augljóslega ekki, þannig að þessi skilgreining er of víð.

Ertu ósammála þessu?


Helgi Briem (meðlimur í Vantrú) - 20/07/07 16:04 #

Nei, ef við teljum bara þá sem fara eftir kennisetningunum þá eru þeir miklu færri, sennilega engir.

En ef við teljum bara þá sem trúa grunnatriðum kristninnar, t.d. því að Jesú hafi risið upp frá dauðum eru það langt innan við 51%. Augljóslega.

Ef við ættum að telja alla sem "lifa að einhverju leiti eftir kennisetningum kristinnar trúar" sem kristna þyrftum við að telja alla jarðarbúa kristna eða amk 99.99%.

Siðfræði er mörgum milljón árum eldri en kristin trú. Heldur þú virkilega að kristnir menn einir trúi of fari eftir tit-for-tat reglunni?


Diddi - 20/07/07 16:09 #

„Ég er einfaldlega að benda á að ef menn nota mjög vítækar skilgreiningar á því að vera kristinn þá verða sumir kristnir sem eru það alls ekki að allara mati. Ég bendi á að einhver segir að það nægi að líta upp til Jesú og trúa á guð til þess að vera kristinn, að þá eru múslímar kristnir. En þeir eru það augljóslega ekki, þannig að þessi skilgreining er of víð.

Ertu ósammála þessu?“

Já, þú talar um að þá verði „sumir kristnir sem eru það alls ekki að allra mati“. Það skiptir engu máli hvort öðrum finnst þú vera kristin, aðeins það hvað þér sjálfum finnst og hvað þú veist. 51% Íslendinga telja sig kristin og eru það þá að mínu mati. Burt séð frá því hvað þeim finnst um kristinfræði í skólum eða hvað þeir fara oft í kirkju.

Ég skil alveg „point-ið“ í því sem þú segir að ef það er nóg að trúa á Jesú til að vera kristin séu múslimar kristnir, alveg eins og ef það er nóg að trúa á Múhameð til að vera múslimi þá er ég múslimi. Ég held hins vegar ekki að nokkur maður haldi því fram að ef maður trúi því að Jesús hafi verið til sé það nóg til að vera kristin. Þá væruð þið vantrúarmenn örugglega kristnir þar sem þið trúið væntanlega að Jesús hafi verið til (en að hann hafi verið smiður en ekki frelsari). Þetta er þess vegna lélegt dæmi. Múslimar vita að þeir eru ekki kristnir heldur íslamstrúar rétt eins og rúmlega helmingur Íslendinga veit að þeir eru ekki íslamstrúar heldur kristnir.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 20/07/07 16:33 #

Já, þú talar um að þá verði „sumir kristnir sem eru það alls ekki að allra mati“.

Það sem ég er að tala um þarna er að fólk er almennt sammála því að múslímar eru ekki kristnir.

Það skiptir engu máli hvort öðrum finnst þú vera kristin, aðeins það hvað þér sjálfum finnst og hvað þú veist.

Þannig að er þín skilgreining á því að vera kristinn: "sá maður er kristinn sem telur sig vera kristinn"?

Hvað með einhvern sem trúir ekki á guð, telur Jesús bara hafa verið góðan mann en kallar sig kristinn af því að honum finnst það fín hefð að giftast í kirkju, er hann kristinn?

Ég skil alveg „point-ið“ í því sem þú segir að ef það er nóg að trúa á Jesú til að vera kristin séu múslimar kristnir, alveg eins og ef það er nóg að trúa á Múhameð til að vera múslimi þá er ég múslimi. Ég held hins vegar ekki að nokkur maður haldi því fram að ef maður trúi því að Jesús hafi verið til sé það nóg til að vera kristin.

Diddi, hvergi talaði ég um að trúa því að Jesús hafi verið til, heldur að "að líta upp til Jesú". Þú verður að lesa svörin mín betur en þetta.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 20/07/07 19:47 #

Í grein minni segi ég að fá prósent Íslendinga teljast vera kristin og Diddi er ósammála því. Líklega leggjum við ólíkan skilning í það hvað kristinn einstaklingur er. Hlutfall þeirra sem skráðir eru í Ríkiskirkjuna er ekki marktækt að mínu mati. Ég var skráður í þá stofnun í 23 ár, guðlaus maðurinn, og það á við um flesta trúleysingja býst ég við.

Fyrir skömmu birti Morgunblaðið niðurstöður könnunar þar sem grennslast var fyrir um afstöðu Íslendinga til framhaldslífs eftir dauðann. Einungis 8,1% voru á kristnu línunni, þ.e. að maðurinn rís upp til samfélags til guðs. Mér finnst það segja margt um það hversu kristnir Íslendingar eru í raun.

Í okkar samfélagi er kristni orðið frekar útþynnt fyrirbæri og erfitt er að átta sig á fyrir hvað hún stendur. Menn segjast vera kristnir jafnvel þó þeir hafi lítið velt því fyrir sér hvað það merkir. Þegar ég skrifaði pistilinn taldi ég ekki þá nafnkristnu með, eins og Gunnar í Krossinum kallar þá. Ég sé það núna að líklega hefði annað orðalag verið heppilegra til að forðast misskilning.


Kári Rafn Karlsson - 22/07/07 17:50 #

Ef einhver telur sig vera nógu gamlan til að keyra þrátt fyrir að vera bara 15 ára, þá gerir það hann ekki nógu gamlan til að keyra. Sama á við um kristinn mann, hann er ekki kristinn bara af því hann vill vera það, hann verður að trúa því sem kristin trú boðar.

Hef tekið eftir þessu svolítið hjá trúuðu fólki, því finnst oft (sagði oft ekki alltaf, fyrir þá sem ætla að snúa út úr) að það sé nóg að vilja að hlutirnir séu sannir svo þeir verði það.


Guðjón - 22/07/07 18:28 #

. Í okkar samfélagi er kristni orðið frekar útþynnt fyrirbæri og erfitt er að átta sig á fyrir hvað hún stendur
. Hér er þú að tala um þjóðkirkuna. Í nútímanum þarf trúfélgg eins og þjóðkirkjan nauðsynlega að vera útþynnt. En það þýðir að menn geta valið sér sýna blöndu af trúarhugmyndum af hlaðborði trúarhugmynda heimsins. Þannig að þjóðkirkijan er að vissu leyti mjög nútímaleg.

Eftir því sem ég best veit eru ekki gerðar neinar kröfur um trúarskoðanir í þjóðkirkunni.

Af hverju þarf að áfellast fólk fyrir að gera það sem það vill sjálft. Fólk á að ráða þessu algjörlega sjálft jafnvel þó það aðhyllist kenningar héðan og þaðan sem eru í raun ósamrýmanlegar s.s. kenningar um endurholdgun og kristna trú.


Kári Rafn Karlsson - 23/07/07 00:06 #

Mér sýnist ekki verið að áfellast fólk fyrir neitt, heldur að benda á hræsnina á bak við það að kalla sig kristinn og velja svo bara og hafna því sem kristin trú boðar. Svona svo ég snúi máltækinu við, ef það flýtur ekki eins og önd og gaggar ekki eins og önd, þá er það líklega ekki önd ;)


Diddi - 24/07/07 13:35 #

Ef maður trúir með hjarta sínu og játar með munni sínum að maður sé kristinn þá er maður það.

Það skiptir ekki máli hvort að maður fylgi kennisetningum biblíunnar út í ystu æsar, vinnur t.d. aldrei á sunnudegi.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 24/07/07 18:05 #

Ef maður trúir með hjarta sínu...

Vandamálið er að skilgreina hverju maður þarf að "trúa með hjarta sínu" til þess að flokkast sem kristinn.

Það skiptir ekki máli hvort að maður fylgi kennisetningum biblíunnar út í ystu æsar, vinnur t.d. aldrei á sunnudegi.

Ég held að það sé enginn að halda því fram, a.m.k. ekki ég. Það sem ég bendi á eru grundvallarkenningar kristinnar trúar.

En hvað finnst þér um manninn sem ég spurði þig að síðast:

Hvað með einhvern sem trúir ekki á guð, telur Jesús bara hafa verið góðan mann en kallar sig kristinn af því að honum finnst það fín hefð að giftast í kirkju, er hann kristinn?


Diddi - 25/07/07 13:38 #

Nei, ef viðkomandi trúir ekki á Guð er hann væntanlega ekki kristinn


Inga - 29/08/07 20:17 #

vá þetta er rosaleg skoðun sem þú hefur ef ekki væri fyrir truarbrögðin þá væri heimurinn en verri. hvað er það sem er svo slæmt við það sem jesu boðaði er ekki gott að kenna börnum að virða og bera virðingu fyrir náunganum ,ekki stela néljuga,er það friðurinn kærleikurinn sem hann boðar sem fer svona í þig.'Eg truði ekki en áttaði mig að kristur hefði verið til þegar ég kynnti mér sai baba hefuru kynnt þér sai baba sem lifir í dag hann gerir margt af þvi sem kristur gerði farðu til indlands hittu hann þá áttaru þig á þvi að allt sem kristur gerði er hægt að gera lækna sjuka lata sig hverfa láta hluti birtast úr engu


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 29/08/07 22:11 #

Hvernig dettur þér í hug að þeir sem ekki vilja trúboð í skólum kæri sig ekki um að börnin læri að bera virðingu fyrir náunganum og almennan heiðarleika? Þetta flokkast allt saman bara undir almennt siðferði og það er vel hægt að ástunda án þess að vera með þennan Jesú á takteinum. Ef þú heldur að það sé ekki hægt að ástunda gott siðferði án þess að trúa að Jesús sé eilífur faðir heimsins, þá ertu á miklum villigötum.

Sai Baba tottar feitan gölt og ríður ungum drengjum.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 30/08/07 17:45 #

Sai Baba!

Sá litli loðni ógeðfelldi barnaníðingur og loddari. Maðurinn sem þykist vera guð á jörðu og sannar það með því að æla upp úr sér gulleggjum og dreifir heilagri ösku um allt. Brögð sem hvaða töframaður sem er fer létt með, og gerir betur en hann.

Ég mæli með því að Inga horfi á þessa heimildamynd frá BBC um Sai Baba.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.