Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fallvölt fræðimennska

Ég las nýlega yfir athugasemdarþráðinn sem spannst út frá síðasta lesendabréfi okkar. Þar kemur eitt og annað athyglisvert í ljós:

Í athugasemdunum kemur fram óhugur minn gagnvart þeim skoðunum sem síra Skúli Ólafsson lætur okkur í té. Ég bendi honum ítrekað á hversu annarleg viðhorf hans eru og reyni um leið að fá hann til að koma auga á það. En það er ekki eins og hann geri minnstu tilraun til að sjá hið furðulega samhengi sem hann talar út úr, heldur verða tilsvör hans sífellt skringlilegri á mælikvarða fræðimennsku eftir því sem á líður:

Í dómsdagspredikunum Krists bendir hann á laun syndarinnar - gegn hverri hjálpræðið vinnur. Án annars væri hitt gagnslaust.

Síðan hvenær var hugtakið synd að einhverju raunverulegu fyrirbæri sem taka ber mark á? Hvernig getur háskólamenntað fólk umgengist þetta hugtak eins og það sé sjálfsagður partur af tilverunni? Hvar eru rökin? Hvar er debatið? Ef það hefur farið fram, af hverju þessi niðurstaða?

Lögmálið lex talionis bendir til þess að við gjöldum í líku hlutfalli og við höfum unnið til. Þessi orð má túlka sem eitthvað er tortýmist og eyðist - með svo sterku líkingarmáli. Með sama hætti og maðurinn hefur sjálfur gert uppreisn gegn Guði og sest í sæti hans.

Hvort sem lex talonis er raunverulegt lögmál eða ekki, þá breytir það því ekki að allt sem lifir deyr. En Skúli boðar að einhverjir vissir einstaklingar geti forðað sér undan náttúrulögmálunum með því að tilbiðja eitthvert andahyski og fara með særingarþulur. Hvar eru rökin fyrir því að slíkt sé hægt? Hvar eru yfirleitt rökin fyrir tilvist þessara vera? Og hvernig getur Skúli séð þetta sem fagran boðskap, þetta eigingjarna plott dauðahræddra manna með tilheyrandi smjaðri og undirlægjugangi?

Trú er samfélag við Guð. Menn taka við þeirri gjöf sem heilagur andi veitir þeim.

Er það? Geturðu sannað það? Hvernig getur nokkur fræðimaður sem vill láta taka sig alvarlega fullyrt eitthvað um tilvist þessa guðs sem öll þessi forneskjulega hugmyndafræði byggir á? Eiga þetta að kallast fræðileg tök á viðfangsefninu? Þetta er eins og ef geðlæknir tæki upp óra sjúklinga sinna og mælti fyrir þeim á almennum vettvangi um leið og hann fullyrti án nokkurra raka eða sannana að þeir væru hin sanna sýn. Er hægt að kalla þetta fræðimennsku? Er á nokkurn hátt verjandi að halda úti deild innan háskóla sem þrífst á öðru eins? Og síðan hvenær var tilvist heilags anda staðfest sem sannaður partur af raunveruleikanum?

Það er út úr öllu korti að heilbrigður einstaklingur með viðurkennda samfélagsstöðu skuli geta haft það að ævistarfi að þylja upp eitthvað jafn fjarri raunveruleikanum og þessi svör Skúla bera vott um. Guðfræðin sem kennd er upp í háskóla er svo fjarstæðukennd að það er með öllu ótrúlegt að til sé fólk sem ekki kemur auga á það.

Af hverju fær þetta að viðgangast? Af hverju er borin virðing fyrir þessu í samfélaginu? Og af hverju fær þetta fólk svo óáreitt að tala niðrandi um okkur sem reynum að benda á ruglið í þessu öllu saman?

Birgir Baldursson 08.07.2007
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Skúli - 08/07/07 21:01 #

Ég veit ekki hvort þessum spurningum er beint til mín en þær enduróma óneitanlega þá módernísku sýn á tilveruna sem tröllreið hér öllu á 7. og 8. áratug síðustu aldar. "Geturðu sannað það?" er sífellt spurt rétt eins og fræðigreinar í Háskóla snúist ekki um aðra þætti en raunvísindalegar sannanir á því sem þar er sagt og skrifað.

Er ég nú hræddur um að fátt stæði eftir úr félags- og hugvísindadeild ef niðurskurðurinn ætti að ná til alls þess sem "ekki verður sannað". Held ég að hagfræðileg umræða myndi fljótt þurrkast út ef spámenn og spekúlantar þyrftu að "sanna það" sem þeir segja.

Góður ertu, Birgir!

Og hvaða viðkvæmni er það að hér sé talað með niðrandi hætti um ykkur? Tala ég með þeim hætti eða er það ekki frekar á hinn bóginn? Sjálfur hef ég nú heldur betur mátt þola skítkastið frá mönnum sem hér eru innvígðir og hef þó ekki goldið líku líkt.

Eða voru það kannske athugasemdir mínar við spurninguna sem borin var fram í lesendabréfinu - sem þú metur niðrandi? Æ, þetta sambland tilfinningasemi og pósitivísma.

Hér er talað út frá samhengi trúarhefðar sem liggur til grundvallar spurningunni. Auðvitað var umræðan þotin út um víðan völl og komin óravegu frá því sem upphaflega átti að ræða. Engu að síður svaraði ég eftir því sem þolinmæði mín leyfði - fremur en að teyga í mig sumarið þegar tóm gefst frá störfum og námi. Ég gerði grein fyrir því sem spurt var um út frá því samhengi sem talað er um.

En það er eins og tvö höfuð vaxi þegar eitt er höggvið af - eða öllu heldur tveir halar vaxi fyrir einn - og þá yrði nú sumarið fljótt fyrir bí ef tímanum á að verja til slíkrar iðju.

Var annars í góðum labbitúr noður í Eyjafirði. Hérna sést glitta í karlinn sá sjötti frá ljósmyndaranum séð!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/07/07 21:40 #

Skúli, kollegar þínir hafa sumir ítrekað talað með niðrandi hætti um okkur vantrúarsinna og trúleysingja almennt. Þarf ég nokkuð að tína til dæmi um það?


Lecter - 09/07/07 00:52 #

[ athugasemd og svar fært á spjallið þar sem þetta tengist ekki efni greinarinnar - Matti ]


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 09/07/07 02:09 #

Mér fannst þetta mjög áhugavert innlegg hjá Skúla.

Mig langar að vitna hérna í lokaorð bókarinnar Rannsókn á skilningsgáfunni eftir David Hume sem mér finnst eiga mjög vel við í þessu sambandi:

Tökum oss einhverja bók í hönd - til dæmis guðfræðirit eða bók um skólafrumspeki - og spyrjum: Geymir þessi bók einhver sértæk rök um magn og tölur? Nei. Geymir hún þá reynslurök um staðreyndir og tilvist? Ekki heldur. Þá skal henni á eld kastað því hún getur ekki geymt neitt annað en hártoganir og hillingar.


Birigr Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/07/07 04:30 #

Er ég nú hræddur um að fátt stæði eftir úr félags- og hugvísindadeild ef niðurskurðurinn ætti að ná til alls þess sem "ekki verður sannað".

Það er misskilningur hjá þér, Skúli, að greinar hug- og félagsvísinda séu á einhverju pari með guðfræðinni. Svo er aldeilis ekki. Sálfræðin byggir t.d. á strangvísindalegum vinnubrögðum, þar sem tvíblindar rannsóknir með meðferðar- og samanburðarhópi taka mikið pláss. Allt er svo reiknað út með statistískum aðferðum, fylgnitölum og hvað þetta nú allt saman heitir.

Um leið og guðfræðin ætlaði sér að taka upp slíkar vísindalegar aðferðir yrði hún strand, því strax í upphafi yrði hún að ráðast að tilvistarvanda guðdóms, sálar, syndar og heilags anda og fá í þetta niðurstöður. Gangi ykkur vel.

Þið þarna á guðfræðikaffistofunni eruð búin að blekkja sjálf ykkur með póstmódernísku blaðri til að sannfæra ykkur um að guðfræði eigi eitthvað skylt við sálfræði, félagsfræði og mannfræði. Svo er ekki, guðfræðin á mun meira skylt við talnaspeki, stjörnuspeki og galdra.


Guðjón - 09/07/07 09:25 #

Ég hef ekki mikla þekkingu á guðfræði. Sú fræðigrein sem ég þekki helst er sálfræði. Það er vissulega rétt sem Birgir segir. Fræðileg sálfræði er vísindlega út í gegn. En þar með er ekki öll sagan sögð. En vandi er bara sá að slík sálfræði er innilokuð í háskólum og fæst við viðfangsefni sem hafa fyrst og fremst fræðilegt gildi.

Þegar kemur að því að fjalla um atriði sem skipta venjulegt fólk einhverju máli verða menn að vinna á allt annan hátt.

Þegar menn læra sálfræði verða þeir að byrja á því að læra sögu sálfræðinnar og kynna sér kenningar sem verða fremur að teljast heimspeki en einhver raunvísindi.

Ef menn ætla sér að vinna með fólk og ná einhverjum árangri á þvi sviði verða menn að hafa vænan skammt af almennri skynsemi, víðsýni og umburðalyndi.

Vísindamenn þurf ekkert endilega að hafa þá eiginleika, þeir geta vel verið af allt
öðru tagi.

Ég er ekki sammála því að hægt sé að tala um sálfræði sem eitthvað eitt heilstætt fyrirbæri


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/07/07 11:47 #

Veit ég vel að sálfræði skiptist niður í ýmsar greinar, t.d. tilraunasálfræði og klíníska, en í rótina eru það vísindalegaar aðferðir sem leggja grunn að þeirri þekkingu sem unnið er út frá. Það vantar því miður alveg í guðfræðinni, þar eru frumforsendurnar gefnar án nokkurrar rýni og allt sem á eftir kemur því á fallvöltum fótum.


Guðjón - 09/07/07 14:49 #

Ég er alls ekki að halda því fram að sálfræðingar byggi ekki á vísindum. Ég er hins vegar að halda því fram að vísindaleg þekking ein og sér dugi ekki til að sálfræðingur geti ná árangir í klínísku starfi

Ég er þeirra skoðunar að það sé grundvallar munur á vísindnum og klínísku starfi.

Fólk er ólíkt og þarf svör af ólíku tagi. Birgir og hans likar virðast telja að náttúruvísindinn hafa þau svör sem eru einhvers virði, aðrir nálgst viðfangsefnið úr annar átt og telja að trúarhugmyndir skipti einhverju máli.


Gimbi - 09/07/07 22:07 #

Skúli!, segðu okkur frekar aftur söguna af því hvernig alvitur Guð skapaði himin og jörð (í myrkri) og síðan ljós (LOL) og Adam og loks Evu, bannaði þeim að borða ávöxt nokkurn (og þau sem þekktu ekki muninn á réttu og röngu).

Hvernig slanga nokkur plataði þau og þá varð Guð rosa spældur(hann lagði á hana að hún myndi alltaf skríða eftir jörðinni LOL), svo spældur að eitthvað fyrirbæri sem er kallað "erfðasyndin" lagðist yfir gjörvallt mannkyn.

Varð aftur voða foj seinna og ákvað að drepa alla nema Nóa og fjölskyldu. Snérist seinna hugur eftir fjöldamorðin og sendi son sinn með samræði engils og frauku ((sem var í reynd hann sjálfur)...allto sonurinn) til þess að drepa sjálfan sig svo hann gæti fyrirgefið öllum mönnum með erfðasyndina gömlu útaf orminum (allavega þeim sem trúa á hann, skítt með hina...).

Og væntanlega ertu að bíða eftir endurkomunni með öndina í hálsinum...

Endilega bættu síðan við hugtökum einsog: "vísindaleg aðferð", "þróunarkenning", "Stærð alheims", "hraði ljóss", "Svarthol" svo fátt eitt sé nefnt, bara svo við getum öll hlegið soldið dátt saman.

Segðu okkur svo fleiri skemmtisögur úr gömlu bókinni....


Gimbi - 09/07/07 22:18 #

...auk þess legg ég til að talað verði um: Bland-í-poka kristni, í stað hlaðborðskristni...


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/07/07 22:38 #

Skúli!, segðu okkur frekar aftur söguna af því hvernig alvitur Guð skapaði himin og jörð (í myrkri) og síðan ljós (LOL) og Adam og loks Evu, bannaði þeim að borða ávöxt nokkurn (og þau sem þekktu ekki muninn á réttu og röngu).

Skúli heldur reyndar ekki fram að sköpunarsagan sé lýsing á raunverulegum atburðum, en það reyndar skýtur svolítið skökku við að hann trúi að Jesús hafi komið til jarðar til að taka á sig erfðasyndina sem aldrei var framin.


Gimbi - 09/07/07 23:14 #

...sem er ekkert annað en "bland-í-poka kristni", bara að velja heppilegustu molanna, trúir hann þá ekki á endurkomuna?

Skúli! Segðu okkur sögu!!


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/07/07 00:05 #

Ég held að nútímaguðfræðingarnir viti ekki lengur hverju þeir eigi að trúa og hvað verður að flokkast undir hreinar og klárar bókmenntir. Það endar með því að trúarritið þeirra verður alfarið að einhverri alls herjar dæmisögu með góðan boðskap og hættir þá að skera sig nokkuð frá öðrum skáldsögum.

Sorglegast er að til skuli vera stétt manna sem vinnur við að halda því fram að þarna sé að finna eina siðferðisboðskapinn með viti, því eins og við öll vitum er hann afskaplega dúbíus og hreinlega gamaldags. Margt er búið að gerast í siðferðislegri umræðu síðan þetta gamla drasl var skrifað og orðið átakanlegt að sjá guðfræðingana og prestana reyna að halda þessu á lofti sem einhverju gildu plaggi í þeirri umræðu.


Gimbi - 10/07/07 00:23 #

...algerlega sammála. Í raun og veru er mun skemmtilegra að eiga við harða svartstakka, helst eindregna bókstafstrúarmenn. Þessir "bland-í-poka" atvinnu-góðmenni eru alltaf á flæmingi...

Var það ekki annars Búddha sem orðaði gullnu regluna svo: "Ekki gera það við aðra sem þú vilt ekki að gert sé við þig." ...eða var það Konfúsíus? Hvað um það, þetta er mun betur orðað, í það minnsta hef ég engan áhuga á að aðrir séu ævinlega að gera e-ð við mig, sem þeir vilja láta gera við sig. Maður fær bar hroll við tilhugsunna... :)


Gimbi - 10/07/07 00:41 #

Og kannski er rétt að bæta við að fræðigreinin siðfræði hafnar allri vísun í æðra yfirvald sem grundvöll fyrir eiginlegt siðferði.

Það er ekki einu sinni gefið færi á að ræða það innan heimspekinnar, enda svo margbúið að hrekja þá rökleysu.

Það er nákvæmlega ekkert siðferðilegt við að geta stöðugt vísað í: "Guð sagði svo". Þá gætu t.d. nasistar allt eins vísað með réttu í: "Hitler sagði svo". (Sem þeir vissulega reyndu!)

Ef Abraham hefði ekki náð skilaboðunum í tæka tíð og drepið son sinn, gæti hann allt eins borið við: "Guð sagði svo!"

En þetta er svosem gömul tugga.

Og að lokum vitna ég bara í Clarence Darrow: "There is no crueler concept than that of sin"!!

P.S. En Skúli!! Endilega segðu okkur fleiri gamlar og góðar sögur frá hjarðmönnunum!


Khomeni (meðlimur í Vantrú) - 10/07/07 01:28 #

Mér þætti í raun og veru nóg að fá að vita hvað ríkiskirkjuprestarnir telja vera raunverulegan atburð í biblíunni.

-Ef fæðing Jesúsar dæmisaga/allegóría eða atburður sem gerist í raun og veru?

-Var skýrn Jesúar dæmisaga/allegóría eða atburður sem gerist í raun og veru?

-Var krossfesting Jesúsar tákn eða raunverulegur atburður?

-Var upprisa Jesúsar tákn eða raunverulegur atburður?

HVAÐ ER EIGINLEGA TÁKN OG HVAÐ ÁTTI SÉR RAUNVERULEGA STAÐ Í GUÐSPJÖLLUNUM? Eru guðspjöllin kannski bara ein stór dæmisaga? Eða gerðist all sem í þeim stendur og eru því sögulegar staðreyndir!

Ég þreytist ekki á að þreytast á kærleiksjarmi ríkiskirjuprestanna þegar þeir túlka "óþægilegu" kaflanna í biblíunni sem "táknræna" og þá beri að túlka á sálfræðilegu plani, hver fyrir sig. Hver segir það? -Ekki Jesús! Hver segir að túlka beri orð Jesúsar um eldsofnin á sálfræðilegan máta? Skúli segir okkur að eldsofnin sé tákn um það sem gerist þegar menn setja sig í spor guðs. HVER SEGIR ÞAÐ! Er Skúli kannski spámaður?

Ég veit að lútersk túlkunarhefð gengur út frá þessari skýringu (að eldsofnin sé sálfræðileg skissa ef svo má að orði komast) en hver ákvað þetta? Lúter? -Var hann kannski líka spámaður?

Það er mín bjargfasta skoðun að Skúli og vinir hans í launa-áskriftadeild ríkiskirkjunnar trúi ekki þessari dellu. Trúi ekká þessa fásinnu sem boðuð er í biblíunni og hugsi einungis um að koma sér fel fyrir á ríkisspenanum. Svo flækist inn í þessa "köllun" ákveðin stjórnsemisgeðveiki (fulltrúi almættisins á jörðinni...=og Jesúkomplex

Sorrí Skúli. Mér finnst þetta í alvörunni.


Árni Árnason - 10/07/07 16:11 #

Já það væri auðvitað hreint gráupplagt að einhver tæki sig til og semdi leiðbeiningar um það hvað í Skruddu ber að skilja svo eða hinsegin.

Það mætti til dæmis á einfaldan máta gefa út bókina þar sem raunverulegir atburðir væru með breyttu letri til aðgreiningar frá táknrænu dæmisögunum.

Þó læðist að mér sá grunur að ef tveir eða fleiri kæmu að ritstjórn slíkrar bókar gæti orðið djúpt á samkomulagi um flokkunina.

Eins þyrfti væntanlega að endurskoða þetta mjög oft,( jafnvel daglega ) því að mér finnst varla líða sá dagur að einhverju ótrúverðugu rugli sé ekki sópað úr "atburða" hlutanum yfir í táknræna hlutann.

Skúla er því væntanlega ekki hægt um vik að svara spurningum Khomeni, á meðan allt er svona á fallanda fæti.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/07/07 17:35 #

Það væri saga til næsta bæjar ef meyfæðing, kraftaverk, upprisa og dómur Jesú til lifenda og dauðra færu skyndilega að teljast til táknfræði og allegoríu í stað raunverulegra fyrirbæra. Enda er ónýt öll kristni þessa fólks ef Jesús reis ekki upp frá dauðum, það hefur það sjálft sagt.

Og hvað með guð sjálfan? Hvenær kemur að því að hann verði líka að myndlíkingu eins og helvíti og allt hitt draslið?


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 10/07/07 18:06 #

Úbbs. Afsakið stafsetninguna mína og hryssingsleg orð í garð Skúla í KEF. Það getur meira en verið að hann trúi þessari vitleysu allri saman. Eftir að ég las yfir innleggið mitt varð ég hálf hvumsa. Fyrsta lagi yfir stafsetningunni og í öðru lagi yfir æsingnum í mér sem sést greinilega í þessu innleggi. En mér er mikið niðri fyrir. Ég hef aldrei heyrt neinn ríkiskirkjuprest greina frá því hvað eigi að túlka bókstaflega og hvað beri að túlka bókstaflega eða allegóríst í biblíunni. Grundvallaratriði kristindómsins s.s meyfæðingin, krossfestingin eða upprisan. Allt þetta er í einskonar limbói hjá ríkiskirkjunni sem stundum beri að taka bókstaflega og stundum túlka á sálfræðilegan, félagslegan eða jafnvel pólitískan hátt!. Hver greinir þarna á milli og í hvaða umboði gerir hann það? Í umboði guðsins? í kjölfarið velti ég fyrir mér þeim vanda sem ríkiskirkjan stendur frammi fyrir. Guðfræðilegum vanda sem endurspeglast í því að engin getur sagt hvað beri að túlka og hvað séu bókstafleg fyrirmæli frá guði. Vitandi þennan vanda hefur ríkisguðfræðin orðið miklu frekar eins og einskonar siðferðislegur kompás í anda kennarans Jesúsar heldur en að sækja sér efni í trúartitið sjálft. Ríkiskirjan hefur orðið sérþekkingu á útvötnuarguðfræði sem horfir framhjá allri gagrýni á "orð guðs" og jarmar í sífellu um kærleikan.

Þokkalegur kærleikur fólgin í því að fórna syni sínum á hryllilegasta hátt... -En horfum framjá því...Ríkiskirkjuprestar eiga sjálfsagt í engum vanda með að túlka þessa fórn sem kærleiksverk.

Ríkiskirkjan stendur alltaf á gati í guðfræðilegum rökræðum enda málstaðurinn beinlínis ömurlegur. Það getur verið erfitt að halda í hina miskunlarlausu og grimmilegu sögur úr biblíunni um leið og að mæra kærleikan í henni. Svoleiðis málflutnignur leiðir til þversagnar.

En þversögn kemur þegar haldið er fram skoðun sem er í mótsögn við sjálfa sig.

Ég vildi óska að einhver ríkiskirjupresturinn segði mér hvað beri að túkla bókstaflega og hvað ekki í biblíunni.

það komst í fréttirnar fyrir nokkrum misserum að danskur prestur sagðist ekki trúa á guð. Honum var vikið úr starfi en ráðin aftur síðar vegna þess hve vinsæll hann var hjá söfnuði sínum. Þessi maður sér það sem liggur í augum uppi og hefur kjark og hugrekki til að greina frá því. Ég gæti best trúað því að hann liti á sig sem einhverskonar sáluhjálpara eða þvíumlíkt án tengingar við þennan óskýra guð sem hann áður þjónaði. -Húrra fyrir þessum danska.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/07/07 22:44 #

Það má rifja það upp að ein fyrsta greinin sem skrifuð var á þennan vef fjallar einmitt um þetta mál: Hverju trúið þið eiginlega?


Faðir Visinda - 11/07/07 21:30 #

[Athugasemd færð á spjallið - Hjalti]


Guðjón - 12/07/07 10:16 #

[Athugasemd færð á spjallið]

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.