Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hverju trúið þið eiginlega?

Veit einhver hverju meðlimir Þjóðkirkjunnar trúa? Ég hef oft reynt að komast að því og aldrei fengið raunveruleg svör. Flestir meðlimir Ríkiskirkjunnar hafa náð þeim þroska að átta sig á að Biblían er í raun full af kjaftæði og hafa því afskrifað um 19 aldir af kristindóm sem byggðist á raunverulegri trú á henni. Ég hef þá tilfinningu að fólk vilji of mikið sleppa og halda í þessu sambandi. Þegar vísindin hafa afhjúpað Biblíuna sem innantómt þvaður þá fylgir það augljóslega í kjölfarið að afskrifa kristindóminn í heild sinni en þetta vilja menn ekki gera. Þú getur ekki hent nær öllu innihaldi Biblíunnar en haldið því fram að kristin trú falli ekki með henni.

Nú halda Þjóðkirkjumenn eitthvað í Biblíuna en hverju trúa þeir af innihaldi hennar? Trúa þeir á Syndaflóðið? Varla. Trúa þeir að Móses hafi spjallað við guð sinn og fengið Boðorðin 10 á silfurfati (eða steinplötum)? Efast um það. Trúa þeir að Jesús hafi farið til Helvítis og sloppið þaðan? Trúa þeir yfirleitt á helvíti? Efast um að þeir trúi á Helvíti enda myndi það minnka vinsældir kirkjunnar.

Hvað er eftir í Biblíunni þegar við höfum hreinsað út skáldskap og goðsagnir? Frekar fátt, eiginlega ekkert að mínu mati. Nú bið ég guðfræðingana að afsanna þessi orð mín, bendið mér á hverju þið trúið í Biblíunni. Ég hef oft beðið um nýja útgáfu af Biblíunni þar sem er búið að klippa út það sem Þjóðkirkjan telur ekki sannleik, láta skásetja það eða bæta einfaldlega við neðanmálsgreinum. Það væri áhugaverð lesning.

Ég þarf líklega að bíða lengi eftir útgáfu af uppfærðri Biblíu frá Þjóðkirkjunni því staðreyndin er sú að Þjóðkirkjan vill ekkert útskýra fyrir landsmönnum fyrir hvað hún stendur. Það væri ekki Þjóðkirkjunni í hag að vera með sínar bækur á hreinu, Þjóðkirkjan þrífst á því að taka ekki afstöðu, hún þrífst á því að angra ekki meðlimi sína. Meðlimir Þjóðkirkjunnar þrífast hins vegar á því að þurfa ekki að hugsa um trúarlega afstöðu sína nema yfirborðslega eða bara alls ekki, hefð kemur í stað trúar hjá stórum hluta þjóðarinnar.

Svarið við spurningunni sem ég spurði í upphafi þessarar greinar er því einfaldlega að meðlimir Þjóðkirkjunnar trúa nærri hverju sem er, það er engin regla og það tengist boðskapi Biblíunnar á afar takmarkaðan hátt.

Óli Gneisti Sóleyjarson 21.09.2003
Flokkað undir: ( Klassík , Kristindómurinn )