Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Boðorðin á Bylgjunni I

Í lok mars hófum við Gunnar í Krossinum umfjöllun okkar og rökræður um boðorðin 10. Fyrsti þátturinn fór í fyrstu þrjú boðorðin.

Hinn siðræni grunnur

Það byrjar ekki vel hjá Gunnari:

Þetta [boðorðin 10] hefur verið grunnur siðferðis hinna vestrænu þjóða.

Það þarf ekki að hugsa málið lengi til að sjá að þetta eru staðlausir stafir. Siðferðishugmyndir manna hafa þróast mjög þessi þrjú þúsund ár sem liðin eru frá því að þessi Biblíutexti var settur fram.

Reyndar kemur Gunnar með þær guðfræðilegu skýringar að boðorðin 10 séu bara fyrir þá sem ákveðið hafa að gera þennan tiltekna guð að leiðtoga lífs síns. Aðrir (heiðingjarnir væntanlega) mega aftur á móti gera hvað sem þeim sýnist, ef ég skil hann rétt. Og boðorðin eru ætluð fyrir guðsríki, ekki sem lagabókstafur í veröld okkar.

Þarna stangast reyndar hin guðfræðilega skýring á við aðrar yfirlýsingar Gunnars og fleiri boðenda kristindóms, sem segja að boðorðin séu grundvöllur lagabókstafs og siðferðis í hinum vestræna heimi. Hvort er það Gunnar, himinn eða jörð?

Sé verið að tala um hinn jarðneska heim okkar þá brjóta tilmæli boðorðanna nær alla mannréttindasáttmála og lagaákvæði um valfrelsi sem hugsast getur. Þetta fyrsta, þú skalt ekki aðra guði hafa, brýtur t.d. ákvæði stjórnarskrár Íslands um trúfrelsi manna. Og hvað snertir almennt siðferði þá banna engin lög okkur að girnast eigur og fólk, ljúga eða halda fram hjá. Siðferðishugmyndir í þá veru hafa enda verið í mikilli þróun á síðustu árhundruðum. Það er endalaust verkefni heimspekinga og siðfræðinga að ræða hversu heppileg/óheppileg þessi atriði eru í hegðun mannskepnunnar, en lagabrot eru þetta ekki og þessi meintu guðlegu tilmæli eiga því vart erindi við okkur í nútímanum.

Gunnar tekur boðorðin fram yfir landslög. En hann svarar ekki spurningunni um hvort hann væri til í að fremja lögbrot ef það stangaðist ekki á við boðorðin. Mér dettur í hug t.d. hassreykingar, þær eru brot á jarðneskum lögum okkar en ekkert í boðorðunum bannar slíkt. Ætli Gunnar fái sér annað slagið í eina feita í krafti boðorðanna? í raun ætti hann að gera það ef eitthvað er að marka túlkun rastafari-trúmanna á þessu sama orði guðs.

Kynferðisleg bæling

Annað mikilvægt atriði í þessu samhengi öllu er hvernig boðorðin eru hönnuð til að fá menn til að skammast sín og finna til sektar yfir sárasaklausum og eðlilegum hlutum. Hvað er t.d. að því að girnast eiginkonu náungans svo lengi sem ekki er brotið á þeim hjónum? Ljúfur losti og fantasíur gera varla mikinn skaða, heldur orna þeim sem ástundar. Ekkert að því. Og þegar Jesús gefur út þá yfirlýsingu að hver sá sem líti konu girndarhug hafi þegar drýgt hór í hjarta sín, þá felst í þessu ekkert annað en að koma inn óþörfu samviskubiti fyrir að búa yfir fullkomlega eðlilegum og náttúrlegum kenndum og tilfinningum. Þarna leiðir trúin til bælingar og skömmustu.

En það hefur nú líka alltaf verið eitt af aðalsmerkjum trúarbragðanna, að stýra öllu kynlífi manna með svona aðferðum. Meira um það þegar viðkomandi boðorð verða til umræðu.

Allah hinn illi

Það er athyglisvert að heyra álit Gunnars á Allah, guði Múhameðs. Í raun er þetta sami guðinn og kristnir menn og gyðingar trúa á, en Gunnar segir þetta vera illan anda. Hann trúir semsagt á tilvist þessa guðs en kýs einfaldlega ekki að lúta honum. Ætli það sama sé uppi á teningnum hjá honum þegar kemur að Ísis, Ósíris, Seifi, Appoló, Adonis, Venus, Júpíter, Þór, Tý og Óðni? Hvað er það nákvæmlega í rökhugsun Gunnars sem fær hann til að halda að einn af öllum þessum guðahaug, guð gyðinga og kristinna manna, sé sá hinn rétti og hinir bara prump eða ekki til?

Gunnar er trúleysingi á fjölmarga guði og finnst ekkert að því að tala niður til annarra trúarbragða, burtséð frá því hvort þær trúarhugmyndir geti verið öðru fólki heilagar. Persónulega finnst mér ekkert að slíkri hegðun, enda stunda ég hana sjálfur af miklum móð. Það sem ég gagnrýni Gunnar fyrir er hræsni hans í þessu samhengi, því tvisvar hefur hann skroppið saman í heilagri vandlætingu þegar hans eigin trúarbrögð hafa verið gagnrýnd, og talað um árásir á það sem honum er heilagt og særðar trúartilfinningar.

Ég gef lítið fyrir það, sér í lagi þegar hann hefur síðan í næstu setningu upp mikið haturs- og fyrirlitningartal um þá lífsafstöðu sem ég sjálfur hef. Af hverju má hann en ekki ég?

Jehóvi, ertu hættur að berja börnin þín?

En áfram mjakaðist umræðan. Heimir byrjar að tala um barnaþrælkun og afskiptaleysi guðsins af slíku ógeði. Gunnar segir guðinn um það bil alveg vera að fara að gera eitthvað í málunum, en barnaþrælkunin sé komin frá hinu illa. En af hverju er guðinn þá ekki fyrir löngu búinn að grípa inn í? Er honum drullusama um kynslóð eftir kynslóð af kvöldum og píndum börnum? Voðalega er þetta plan hans eitthvað óskilvirkt og býður upp á mikinn viðbjóð.

Ég hoppa yfir í þriðja boðorðið til að vekja athygli á því að guðinum er ekkert illa við þrælahald. Gunnar á reyndar á þrælahaldi Biblíunnar ýmsar skýringar, að þarna sé um venjulegar ráðningar og launavinnu að ræða, með fullt af réttindum og skyldum. Líkir Heimi við Biblíuþræl af því að Heimir þarf að mæta í vinnuna sína eða hljóta verra af.

Eru skýringar Gunnars trúverðugar? Ég veit það ekki. En guð gyðinga er ekki á pari við mannréttindasáttmála nútímans. Við höfum fyrir löngu komist fram úr þessum guði í siðrænu tilliti.

Lögmál guðs = erfðir

Og svo var talað um líkneskjaboðorðið, þetta sem upprunalega er númer 2, en kaþólska kirkjan tók út. Í þessu boðorði hótar guðinn að taka syndir feðranna út á börnunum og Gunnar reynir að skýra það allt saman burtu með erfðum. Undarleg skýring úr þessari átt.

Birgir Baldursson 16.05.2007
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Útvarp )

Viðbrögð


FellowRanger - 16/05/07 12:36 #

Svakalega falleg skrift. Gunnar er skrítin skrúfa. Þessi upptalning guða þarna uppi, "Ísis, Ósíris, Seifi, Appoló, Adonis, Venus, Júpíter, Þór, Tý og Óðni?" þá slepptir þú uppáhalds guðnum mínum (reyndar hálfguð) semsagt Loka. Hann er svo mannlegur (og þar með latur, frekur o.s.frv.) að það þarf ekkert að klína á hann hinu og þessu slæmu til að telja hann illan, heldur bara hluti sem sagan segir hann hafa gert. Annars flott grein. Benda má á að til eru (allavega) tvær útgáfur af þessum boðurðum, þ.e. 3. boðorði: þar er talað um "þræl eða ambátt" en ég lærði það "þjón eða þernu". Fyrrnefnda er e.t.v. full úldið fyrir ungbörn með ó-fullmótaðan heila.


jeremia - 22/05/07 16:36 #

Ég hlustaði á þá Gunnar og Birgi í Bylgjunni í morgun á leið í vinnuna. Það sem ég tók helst eftir í samræðum þeirra var hversu hófstilltur Gunnar var í samanburði við Birgi. Birgir er hinsvegar ofsatrúarmaður í sinni trú og getur ekki annað en kallað trú andmælanda síns "ruglið" og fleira í þeim dúr. Það er eins og hann sé ófær um að sýna almenna kurteisi. Gunnar réðst ekki með þess konar orðum að trú Birgis. Birgir telur hér fyrir ofan upp hin og þessi trúarbrögð og telur Gunnar vera ósamkvæmur sjálfum sér að gagnrýna þau en ekki sín eigin. Það er reyndar óskiljanleg fullyrðing ef maður spáir í það. Hvað er ósamkvæmt við það? Allir sem trúa einhverju af öllu hjarta hljóta að hafna öðrum trúarbrögðum sem ganga gegn hans eigin. Enda gerir Birgir það líka. Hans trú felur í sér hatur á öllum öðrum trúarbrögðum og hann ræðst á þær af miklu meiri offorsi en Gunnar til dæmis. Hann sýnir miklu meiri ókurteisi og dónaskap við sitt trúboð en Gunnar til dæmis. Þess vegna kemst ég að þeirri niðurstöðu að hann er meiri ofsatrúarmaður en Gunnar. Ofsatrú er hættuleg. Ofsatrúarmenn ráðst á aðra vegna þeirrar fullvissu að trú þeirra leyfi þeim það. Það er nákvæmlega sama réttlæting sem birtist í greinum eftir Birgi þar sem hann réttlætir dónaskap sinn í garð þeirra sem trúa öðru en hann sjálfur (samanber "við ætlum að rugga bátnum"). En svo kveinkar hann sér ef aðrir svari honum í sömu mynt.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 22/05/07 16:58 #

Geturu skilgreint fyrir mig "trú" - það virðist vera að þú vitir ekki alveg hvað það er. Að tala um Birgir sem "ofsatrúarmann" er svolítið mikið vitlaust!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 22/05/07 17:13 #

Athugasemd jeremia á heima hér þar sem hægt er að hlusta á þáttinn sem jeremia er að ræða.


Gunnar - 31/05/07 14:08 #

Já Gunnar Þorsteinsson í krossinum er skemmtilega klikkaður maður og enda loddari og ekkert annað.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 31/05/07 15:16 #

Ég er ekki sammála því að hann sé loddari.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.