Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Andtrúaráróðurinn er rétt að byrja

Um daginn var haldin prestastefna á Húsavík eins og frægt er orðið. Ótal greinar hafa verið skrifaðar í blöð og á bloggsíður um þetta áhugaverða þing, langflestar afar neikvæðar í garð Þjóðkirkjunnar og ótal einstaklingar hafa skráð sig úr Þjóðkirkjunni. Hér ætla ég ekki að ræða um klaufaskapinn í kringum málefni samkynhneigðra heldur vil ég vekja athygli á setningarræðu biskups á prestaþingi.

Þar sagði biskup meðal annars:

Það er mikil þörf starfseflingar presta og trúnaðarmanna safnaðanna, ekki síst í ljósi vaxandi andtrúaráróðurs og andróðurs gegn kirkjunni sem stofnun. Þjóðkirkjan hefur í vaxandi mæli orðið fyrir óvæginni gagnrýni af hálfu fjölmiðla og annarra. Sem dæmi má nefna að Vinaleiðin, sem er nýjung í samstarfi kirkju og skóla, hefur valdið mikilli umræðu og jafnvel titringi og ómaklega hefur verið vegið að henni. Hér í dag verður rætt um samskipti og samstarf kirkju og skóla og um kirkju og samfélag.

Þjóðkirkjan, starf hennar og staða, þolir rýni og skoðanaskipti. Við höfum góðan málstað að verja og mikilvægan boðskap að miðla. Gagnrýnin og andstaðan getur verið vísbending um að kirkjan sé að sækja fram, gera rétt, að gera vel, standa fyrir máli sínu og hafa áhrif [skáletrun Matti].

Biskup virðist ekki gera ráð fyrir þeim möguleika að gagnrýni og andstaða við Vinaleið og leikskólatrúboð (svo dæmi séu tekin), sé komin til vegna þess að eitthvað sé athugavert við það sem Þjóðkirkjan er að gera. Nei, gagnrýnin er dæmi um að kirkjan sé að gera vel! Er hægt að ná til fólks sem túlkar alla gagnrýni sem jákvæða svörun á það sem gagnrýnt er?

Vinaleið Þjóðkirkjunnar hefur verið gagnrýnd af afar mörgum aðilum, utan og innan Þjóðkirkjunnar. Ótal rök hafa verið sett fram og flest hafa þau að lokum verið staðfest af kirkjunnar þjónum sem ítrekað hafa orðið margsaga í þessum málum. Það er út í hött að afgreiða gagnrýnina á þann hátt sem biskup gerir hér.

Síðustu ár hafa raddir þeirra sem gagnrýna Þjóðkirkjuna og önnur trúfélög orðið háværari. Það er ekki lengur tabú að benda á bullið, það er sjálfsagt mál.

Hugsanlega telur biskup að gagnrýnin hafi náði hámarki og að kirkjan geti snúið dæminu við með vel skipulögðum gagnáróðri. Vandamál kirkjunnar er að við sem gagnrýnum hana fögnum í hvert skipti sem þjónar kirkjunnar tjá sig því málstaður hennar er yfirleitt vondur. Það getur verið að "sannleikurinn mun[i] gjöra yður frjálsa" en það gildir bara ef sannleikurinn er hagstæður, ef staðreyndir koma þér ekki að gagni er betra að þegja.

Ég lofa biskup því að "andtrúaráróðurinn" og "andróðurinn" gegn kirkjunni mun aukast. Verði þeim að góðu, það er það sem þau vilja því ekki virðast þau taka minnsta mark á málefnalegri gagnrýni.

Við á Vantrú munum halda áfram að skrifa greinar á vefinn og í dagblöð. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að vekja athygli almennings á ofríki Þjóðkirkjunnar. Hver veit, kannski munum við brydda upp á nýjungum, framkvæma eitthvað sem ekki mun fara framhjá biskup og prelátum hans.

Þá hefur biskup líka vonandi eitthvað til að væla undan á næsta prestaþingi.

Matthías Ásgeirsson 04.05.2007
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


FellowRanger - 04/05/07 12:53 #

Flott og hnitmiðuð grein. Óttalega er eitthvað brenglað að halda því fram að neikvæð gagnrýni bendi til að kirkjan sé að gera rétt. En þetta fólk trúir nú á ósýnilegan og alvitran galdrakarl, svo það er kannski ekki svo skrítið.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 04/05/07 13:08 #

Auk þess að telja sig vera sérstakir umboðsaðilar og verndarar þeirra uppfinningu er kallast kærleikur, umburðarlyndi og virðing þá er ekki heldur skrítið að þeir líta á alla slæma umfjöllun sem góða umfjöllun... eða... nei... tja... til að mynda þessi nýlega könnun er talar um áhrifavalda í íslensku þjóðfélagi á aldrinum 35-64 ára með 400.000 króna tekjur á mánuði bera afar lítið traust (11%) til kirkjunnar.Þar af leiðir bera þeir mikla og góða virðingu fyrir kirkjunni og vilja allt fyrir þá gera.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 04/05/07 14:40 #

Frábært. Áfram til sigurs. Ég tek undir það að ég fagna alltaf þegar talsmenn ríkiskirkjunnar svara gagnrýni því þeir koma sér alltaf í enn meiri vanda í hvert sinn sem þeir opna kjaftinn.


Hlynur - 05/05/07 02:33 #

Skrítið hvað þessir menn þykjast vera merkilegir. Þrælahald var harðlega gagnrýnt í Bandaríkjunum 1860 og eitthvað, og er enn um allan heim. Gagnrýnin og andstaðan getur verið vísbending um að þrælahald sé að sækja fram, gera rétt, að gera vel, standa fyrir máli sínu og hafa áhrif

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.