Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þukl gegn greiðslu - Bowentækni

Nýlega kom fram á sjónarsviðið óhefðbundin lækningaaðferð sem kallast Bowen-tækni. Þessi tækni svipar til höfuðbeina og spjaldhryggs jöfnunar (sem hefur verið ástunduð hérlendis um nokkurra ára skeið) en báðar þessar aðferðir ganga út á að með þrýstingi á vissa staði líkamans megi lækna ýmiss mein sem hrjá okkur. Eins og með allar óhefðbundnar lækningar þá virkar þessi Bowentækni ekki neitt þrátt fyrir fögur fyrirheit.

Meðhöndlunartími hjá Bowen-tækna er 45 mínútur og felst meðferðin í ofurléttum snertingum á stoðkerfi líkamans. Ekki væri úr lagi að kalla þessar snertingar “þukl” því ekki er betur séð að Bowen-tæknirinn þukli á sjúklingum sínum. Bowen-tæknar halda því fram að með þuklinu sé verið að tengja aftur svæði og líkamskerfi sem misst hafa sambandið hvort við annað. Einnig er haldið fram að “orkuflæði” líkamans jafnist við þuklið.

Nú er það svo að flestar, ef ekki allar óhefðbundnar lækningar nota orðið “orka” á sérkennilegan hátt. Talað eru um “orkukerfi”, “orkuflæði”, “lífsorku / lífskraft” og “orkujöfnun” á þann hátt að hugtakið sé sjálfsagt og eðlilegt í hvaða samhengi sem er. Orka er hinsvegar afar takmarkað hugtak og hefur mælieininguna kalóría þegar hún er mæld, rétt eins og rúmmál hefur t.d mælieininguna líter og þyngd hefur eininguna kíló. Kalóría er sú orka sem hitar eitt gramm vatni um eina gráðu. Hvorki meira eða minna. Hugtak á borð við “lífsorka” og “orkuflæði” eða “orkubrautir” eru bara þvættingur. Þessi orkupæling er reyndar útúrdúr og held ég nú áfram að segja frá gagnsleysi Bowen-tækninnar.

Bowen-tæknin hefur skapað sér vissan sess meðal óhefðbundinna lækninga því fólki hefur verið talin trú um að hún virki á óþekk börn og börn með svefnvandamál. Þetta hefur valdið vinsældum Bowen-tækninnar á Íslandi. Fyrir utan að lofa bót á ofangreindum meinum lofar Bowen-tæknar lækningu við:

  • stoðkerfisvandamálum
  • streitu og spennu
  • mígreni
  • fíkn í áfengi eða eiturlyf
  • átröskunum
  • námserfiðleikum og ofvirkni
  • magakrömpum og hægðatregðu
  • astma
  • heymæði
  • exemi
  • móðurlífsvandamálum
  • blöðruhálsvandamálum
  • ....og lélegu ónæmiskerfi

Það sem Bowen-tæknin á sameiginlegt með öðrum óhefðbundnum lækningum er að meint gagnsemin virkar á afar víðu sviðið. Notuð eru almenn orð og afar víð t.d lofar Bowen-tæknin bót á námserfiðleikum og lélegu ónæmiskerfi. Hvorutveggja vandamál sem eru hvort í senn flókin og þarfnast nákvæmrar greiningar. Þetta er að sjálfsögðu haft svona vítt til þess að útvíkka kúnnahóp þuklaranna (Bowen-tæknanna) Engin óhefðbundinn læknir segist geta unnið bót á einhverri sérstakri tegund sjúkdóma eins og t.d krabbameins í ristli en fullt af óhefðbundnum læknum segjast geta læknað krabbamein! Þetta ber hvort í senn með sér takmarkalausa fégræðgi óhefðbundinna lækna og yfirgripsmikið þekkingarleysi á grundvallaratriðum læknisfræðinnar.

Bowen-tæknin eða "þukl" er í sjálfu sér sauðmeinlaus ein og sér enda eru vitlausar hugmyndir ekkert hættulegar nema þær komist í framkvæmd. En það hefur einmitt gerst hérlendis sem og erlendis. Þukl er orðin tekjulind margra einstaklinga sem annað hvort trúa lækningamætti þessa þvættings eða þeirra sem beinlínis nota þuklið (Bowen-tæknina) sér til framfærslu og vitandi vits blekkja samborgara sína til þess að láta þukla sig gegn greiðslu.

Eftir að þukl (Bowen-tæknin) ruddi sér til rúms hérlendis hefur Bowen-tæknum fjölgað eins og gorkúlum. Þeir herja á samborgara sína með sínu gagnslausa þukli hvort sem er á börn eða gamalmenni. Hver tími hjá þuklara (Bowen-tækni) kostar um 5000.- krónur. Margir hafa af þessu umtalsverðar tekjur því ekki þarf neinn stærðfræðing til að lesa út að með aðeins 5 kúnnum á dag fást 500.000 króna mánaðarlaun. –Skattfrjálst.

Þetta eru þó smámunir miðað við gróðann af því að kenna fólki að gerast Bowen-tæknar! Samkvæmt heimasíðu Bowen-kennarans Margeirs Sigurðarsonar hefur hann útskrifað um 40 þuklara (Bowen-tækna). Ef hver gráða kostar um 300.000 krónur hefur Margeir grætt 12 miljónir á því að kenna þukl. Nú kostar svona nám miklu meira því að skólinn hans Margeirs er alltaf að bjóða upp á viðbótarnám þukli (sem kostar sitt). Þannig er svikamillunni alltaf haldið við og nemendur Bowen-skólans gjalda dýru verði fyrir það.

Það er reyndar svolítið kaldhæðnislegt að raunveruleg fórnarlömb í þessu Bowen-rugli eru Bowen-tæknarnir sjálfir. Það eru þeir sem verið er að svindla á. Bowen-tæknin gengur fyrst og fremst út á að plata fé úr fákunnandi og auðtrúa fólki, hvort sem um er að ræða nemendur Bowen-skólans eða fólk sem á við heilsuleysi að stríða.

Ekki hefur verið sýnt fram á gagnsemi þukls (Bowen-tækninnar) frekar en annarra óhefðbundinna lækninga. Allar rannsóknir sem gerðar hafa verið á Bowen-tækni hafa sýnt svo ekki verður um villst að Bowen-tækni er gagnslaus fyrir utan slökunina sem fylgir þuklinu. -En slökun má fá ókeypis eins og allir vita og lítill business að segja fólki frá ókeypis hollráðum.


Sjá einnig Bowen tækni - Kjaftæði í Kastljósi

Khomeni 12.04.2007
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Friðrik - 12/04/07 15:42 #

Frekar spara ég peninginn takk fyrir. Ef eitthvað þá færi ég í gott nudd, eða bara heita pott og gufu. Hver veit nema það geti tengt aftur orkumiðstöðvar líkamans svo mér gangi betur í lífinu og hætti að reykja í leiðinni.


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 12/04/07 15:52 #

....Lítill bissness í því!. :)


Hnakkus - 12/04/07 17:13 #

Venjulega fer fólk í fangelsi fyrir að þukla kerfisbundið á samborgurum sínum á meðan Bowen tæknar fá borgað fyrir það. Þvílík snilld.

Ætli ég gæti farið að flassa fólk fyrir pening ef ég myndi kalla það Hnakkusar tækni?


Viddi - 12/04/07 17:18 #

Já, Hnakkus, þú gætir til dæmis haldið því fram að sjokkið og hið andlega áfall við flasseringuna gæti haft goð áhrif á sálarlífið og komið balansi á orkustöðvar sálarinnar, á endanum. Þú þyrftir bersýnilega ekki að sýna fram á neinar sannanir þess eðlis.

Einnig gætirðu hafið meðferð við illa leiddum sjúkdómum svo sem krabbameini eða alnæmi sem fælist í því að gefa viðskiptavininum gott spark í klofið, það stuðar orkuflæðið rétt eins og þegar starta þarf bíl og orkuflæðið mun ganga eins og vel smurð vél eftir á.


Björgvin R. - 12/04/07 18:39 #

"Allar rannsóknir sem gerðar hafa verið á Bowen-tækni hafa sýnt svo ekki verður um villst að Bowen-tækni er gagnslaus fyrir utan slökunina sem fylgir þuklinu."

Gætir þú (eða aðrir) vísaði í rannsóknir sem styðja þetta?


Björgvin R. - 12/04/07 18:46 #

Ég get bætt því við að ég fór til sjúkraþjálfara um tíma og spurði hann út í Bowen-tækni og hann bar henni söguna vel, sagði að sjúkraþjálfarar hafa beitt svipuðum aðferðum og Bowen-tæknar mun lengur en Bowen-tækni hefur verið til.


darri (meðlimur í Vantrú) - 12/04/07 18:57 #

Það er athyglisvert í þessu samhengi að á vefsíðunni Bowtech.com Research er tekið sérstaklega fram að ekki sé hægt að gera tvíblindar rannsóknir á verkun bowen-þuklsins (sem útilokar raunar vísindalega úttekt), vegna þess hve erfitt sé að þykjast vera að bowen-þukla, semsagt, allt þukl er bowen-þukl.


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 12/04/07 19:20 #

Ágæti Björgvin R. Ég googlaði allt sem ég gat um gangsemi Þukls en fann ekki neitt. Á Wikipediu er ágætis yfirlit um rannsóknir á gangsemi þukls en ekkert er fast í hendi um gagnemi þukls. Þær rannsóknir sem sýnt hafa fram á gangsemi þukls eru þvi sama marki brenndar að þær eru ófullkomnar (hví skyldi standa á þvi?)

Svo er það náttúrulega hið augljósa: -Ef þukl gerði gagn, þá væri það kennnt í virtum háskólum en ekki á 4 vikna námskeiði í Keflavík.


Daníel Páll Jónasson - 12/04/07 20:05 #

Alveg merkilegt hvað það tekur alltaf skamman tíma að öðlast einhverja "gráðu" í óhefðbundnum lækningum. Eru kennararnir svona góðir eða...? ;)

Það sem er enn merkilegra er að þessir "tæknar" eða "þuklarar" (gott orðadiss hjá þér khomeni) rukka svipað fyrir tímann og hámenntaðir sálfræðingar sem þurfa að ganga í háskóla í 5 ár til að öðlast einhver réttindi og 9 ár til að verða doktor.

Góð grein hjá þér khomeni. Alltaf gaman að sjá hvernig þið hér á Vantrú tæklið kjaftæði og fólk sem græðir á því.


óðinsmær - 12/04/07 20:48 #

ég sá eitthvað smá um þessa tækni í sjónvarpinu eitt sinn og ákvað að nota hana á köttinn minn, ég semsagt klappaði ekki kisu þegar hún var óþekk eða úrill, heldur nuddaði mallann hennar og svona, og ég ímyndaði mér að hún myndi róast af því. Það virkaði bara, sveimmér þá.... ;)


Illhýsir - 12/04/07 23:03 #

Ótrúlega vel að verki staðið með þessa úttekt á féplokkri sumra. Þetta er hreinlega til skammar allt svona svínarí og fer alveg í mínar fínustu og ógeðslegustu taugar. Ég veit þó ekki alveg með það hvort þukl sé að öllu leyti gagnslaust(persónulega finnst mér þukl alveg ágætt og nýt þess þegar það á sér stað)en það er samt ekki eitthvað sem ég myndi borga fyrir. Gott verk hjá kjaftæðisvaktinni!!


LegoPanda (meðlimur í Vantrú) - 13/04/07 15:53 #

Vá, ég verð að segja að ég hef aldrei heyrt um þetta fyrr en nú. Og ég er nú bara feginn, því það þýðir að fáir af mínum vinum og vandamönnum hafi orðið fyrir barðinu á þessu fólki.

Þetta minnir nokkuð á handayfirlagningu (e: therapeutic touch), nema þeir snerta fólk í alvörunni í þessu tilfelli.

Í báðum tilfellum er samt haldið fram að það sé verið að meðhöndla ,,lífsorku" sjúklingsins, sem ætti alltaf að kveikja á varúðarbjöllunum hjá fólki.


Magga - 30/04/07 23:54 #

Ég færi sko frekar í nudd og borgaði fyrir það sagði einhver!

Má ég spyrja, hvað eru nuddarar annað en þuklarar ef þið leggið þennan skilning í Bowen-tæknina:) nuddtíminn kostar nú eitthvað álíka eða um 5000 kallinn, eini munurinn að þeir kalla það ekki að meðhöndla lífsorkuna eða hvað það var! En er ekki verið að meðhöndla lífsorkuna með slökuninni, þ.e. að maður er að endurnýja orkuforðann og leyfa líkamanum að fá smá hvíld og frið:) Persónulega held ég að Bowen geti varla verið síðri en nudd á snyrtistofu, hef reyndar miklu meiri trú á svona punktanuddi einhverju heldur en að verið sé að hjakkast á vöðvunum sjálfum, en ég hlýt bara að vera svona klikkuð:) eða hvað?


Viddi - 01/05/07 00:22 #

En eru það ekki vöðvarnir sem maður á að hjakkast á, þegar maður verður þreyttur eða stressaður að þá safnast það ekki fyrir á einhverjum fyrirfram ákveðnum punktum á líkamanum heldur í vöðvunum.

Ef aðal tilgangur svona Bowen meðferðar er að fá slökun og frið er þá ekki alveg eins gott að setjast niður með góða bók, eða frá sér miðdegisblund heldur en eða eyða fleiri þúsundköllum í eitthverja meðferð. Ef fólk er tilbúið að borga 5000 kall fyrir klukkutíma í slökun að þá er ég boðin og búinn að fá fólk heim til mín og spila fyrir það Dark Side Of The Moon eða sérvaldan Jazz í klukkutíma (þó svo að Dark Side sé einungis þrjú korter).


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/05/07 00:24 #

Nuddarar nudda vöðva og segjast ekki vera að gera neitt annað. Ef nuddarar seldu þjónustu sína á fölskum forsendum myndum við líka gagnrýna það.

Bowen liðið þuklar en þykist vera að gera eitthvað miklu merkilegra.

Við erum ekkert á móti því að sjálfráða fólk þukli hvort annað ef engar blekkingar eru í gangi.

Þetta snýst í raun bara um að segja satt.

Svo benti ég á það í hinni greininni um Bowen að gaurinn á bak við þetta er meðal annars að benda fólki á að fara ekki í aðra meðferð - sem er afskaplega vafasamt.


Gurrí - 14/05/07 12:00 #

Hef aldrei prófað Bowen og hélt lengi vel að höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð væri kukl ... þar til frænka mín sem er í þessu fór á krufninganámskeið í Bandaríkjunum til að geta lært betur á þessar himnur sem hún vinnur með. Fannst þetta passa í umræðuna. Þukl er reyndar alltaf gott en það á enginn að þurfa að borga þúsundir fyrir það ...


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 14/05/07 12:55 #

Sæl Gurrí. Ég skil ekki alveg kommentið frá þér. Þú trúðir s.s ekki á þetta fyrr en frænka þín fór á krufninganámskeið í USA?

Ég get sagt þér að fyrir skömmu var tekin burt af vefsíðunni hjá Upledger stofnuninni (http://www.upledger.is/) mynd af íslenskum konum sem voru með afskorið höfðu sín á milli. Þær voru víst á einhverju námskeiði í USA að "skoða himnur". Þessi mynd var í rauninni grátbrosleg því þarna voru manneskjur sem greinilega kunni ekkert í líffræði eða læknisfræði að kryfja lík.

Það er með ólíkindum hvað þessir fjárplokkarar seilast langt í þeirri viðleitni sinni að telja fólki trú um kjaftæðið sem þeir halda fram.

Sannleikurinn er þessi: Höfðubeina og spjaldhryggsmeðferð virkar ekki. Ekki heldur Bowentækni. Ef þetta virkaði (engin hlutlaus rannsókn hefur sýnt fram á einhverja virkni) þá væri þetta kennt og stundað á af hinu opinbera heilbrigðiskerfi. Þannig virka nefnilega vestrænarlækningar. Ef hluturinn/tæknin/pillan/meðferðin virkar. ÞÁ ER HÚN NOTUÐ!! Ef ekki, þá virkar þetta bara ekki.

Sú er einmitt raunin með höfuðbeinatækninrar og bannsetta Bowen-tæknina.

Það sem virkar..(og taktu nú vel eftir....) er að Bowen tæknin og höfðuðbeina og spjaldhryggmeðferð virkar afar vel fyrir þá sem að henni standa. Þeim sem kenna þetta kukl og reka skóla til þess arna.


Smáviðbót - 21/09/08 21:57 #

Í sambandi við nuddið og vöðvana..............þá safnast spenna fyrir í vöðvunum og bandvefshimnuna í kringum vöðvann. Þessir svokölluðu Trigger punktar eru spennupunktar sem eru í hverjum vöðva og með því að þrýsta fast í ákveðinn tíma á þá losnar um spennuna í öllum vöðvanum og meira blóðflæði kemst í allan vöðvann. Einnig eru sinar sem festa alla vöðva við beinin og þarf ansi oft að losa um spennu sem safnast upp í þeim. Svo það er alls ekki nóg að nudda BARA vöðvana því það er einfaldlega ekki alltaf nóg. Bowentæknar eru að blanda þessu saman og nota ýmsa þrýstingspunkta í meðferðinni sinni. Ég hef sjálf farið í tvær meðferðir á meðgöngu og það hjálpaði mér mikið og veit um fleiri sem þetta hefur hjálpað mikið. Það er ekkert sérstaklega þægilegt þegar verið er að þrýsta á þessa punkta en tíminn eftir á er þess virði. Ekki eru allir sem vilja notfæra sér þessa þjónustu og þeir um það. Aðrir vilja nota þetta og hver verður að velja sína leið og meta svo árangurinn. Gangi ykkur vel.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 22/09/08 15:21 #

hugtök sem þú notar á borð við "trigger punktar" og "spennupunktar" eru afar loðnir. Er ekki um að ræða ósköp venjulega vöðvabólgu? Nudd gerir sannarlega gagn. Góður nuddari gerði sennilega sama gagn og Bowen-þuklarinn. Hann þykist bara ekki vera að vinna eftir óútskýrðu "kerfi"...

Ef þú kynnir þér Bowen-þukl þá sérðu fjótlega að árangur af þessu poti er algerlega ósannanlegur. Ólíkt nuddi sem sannarlega gerir gagn.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.