Það er ekkert svo rosalega langt síðan að ég dró sjálfkrafa þá ályktun, í hvert sinn er ég sá manneskju með kross um hálsinn, að slík manneskja væri traust og góð. Það eru kannski svona 15 til 20 ár síðan mér fannst að þessi tiltekni merkisburður væri til vitnis um að viðkomandi hefði horfið frá vondum gildum, sjálfselsku og hatri til hógværðar og göfuglyndis. En svo fór ég að hugsa.
Ég hef verið trúlaus frá sextán ára aldri. Þetta eru orðin 27 ár. Og frá kristinni trú hvarf ég um tólf ára gamall, eftir að hafa verið ötull sækjandi sunnudagaskóla og safnað Biblíuglansmyndum. Í stað tiltrúar á algóðan guð og fagurþenkjandi son hans tók við það sama óþol og ofnæmi fyrir bænaþusi og tilbeiðslu og Þórbergur Þórðarson lýsir svo vel í Ofvitanum, þar sem sveitungi hans talar hann inn á að ganga í stúku:
Hefurðu aldrei reynt að biðja Jesú?
Nei, aldrei um nokkurn skapaðan hlut í alvöru. Það var verið að kenna mér mikið af bænum og versum þarna austur í Suðursveit, [hmm, nýja þolmyndin farin að grafa um sig í íslenskunni fyrir miðja síðustu öld? - óviðkomandi innskot mitt - BB] og ég greip stundum í að þylja eitthvað af þessu, ef ég lenti í myrkri á milli bæja eða þegar hún amma mín fékk andarteppuköstin á næturnar. En ég gat aldrei trúað, að þetta hefði neina þýðingu. Það var bara augnabliksbrjálæði. Bænir og sálmar hafa alla mína æfi verkað á mig eins og eitthvað sprenghlægilegt. Ég veit þú getur ekki trúað, hvað einkennilegur ég er innan í mér.
Ég held nú samt, að þú gætir lært að biðja Jesú, og það yrði þér sjálfum þér fyrir beztu, ef þú gæfir honum hjarta þitt.
Það er nokkuð til í þessu hjá þér. Ég hefði sjálfsagt gagn af því. En mér er það bara ómögulegt. Það er eins og eitthvað setji upp stertinn innan í mér, ef ég reyni að hugsa um svoleiðis lagað. Ég hef oft verið á sáluhjálparherssamkomum í vetur, og kerlingarnar hafa alltaf verið að spyrja mig: Þekkið þér náðarverk blessaðs Frelsarans? Hafið þér hugsað út í, hvað hann hefur gert fyrir yður? Langar yður ekki til að endurfæðast í Jesú?
Og hugsaðu þér! Einu sinni kom ung og falleg stúlka til mín ofan af bænapallinum alla leið fremst í áhorfendastofuna og settist beint fyrir framan mig og lagði aðra höndina á öxlina á mér og hina á hægra handabakið. Á ég að segja þér, hver það var?
Gjarnan.
Lít í kringum mig og segi lágt: Það var eldri dóttir hans Þórodds pósts. Svo horfði hún dálitla stund framan í mig þegjandi, og ég fann þennan yndislega heita anda leggja frá henni til mín. Mér datt ekki annað í hug en hún væri orðin skotin í mér. Og heldurðu ekki að helvítis boran hafi þá byrjað á gamla vælnum um frelsunina og Jesú: Ó, viljið þér ekki, ungi maður, gefa Jesú hjarta yðar? Hafið þér hugsað út í, að náðartíminn er stuttur? Ó, komið til Jesú!
Hún myndi ekki biðja mig að spandera hjarta mínu upp á Jesú, ef hún væri skotin í mér, hugsaði ég. Og ég skal segja þér rétt eins og er: Ég missti blátt áfram náttúruna við þetta bölvað suð í henni. Þú sérð á þessu, að það er enginn hægðarleikur að frelsa mig, fyrst ég dofna allur upp, jafnvel þegar ungar og fallegar stelpur tala við mig um Frelsarann. Nei, ég er skrýtinn. Það hefur aldrei verið til eins skrýtinn maður og ég.
Þú ert undir áhrifum Satans, segir sveitungi minn með þungri áherzlu.
Þessu gæti ég bezt trúað. Það er ekki einleikið, hvað megnan viðbjóð ég hef æfinlega haft á öllu guðsorði.
Mér var semsagt farið að finnast eitthvað svona um kirkjuhegðun strax við upphaf gelgjuskeiðsins og það hefur ekki rjátlast af mér enn, öðru nær.
En áfram hélt ég þó að trúa á einhvern guðdóm og þarna tók dulhyggjan öll völd í hugskoti mínu. Ég lá yfir Ganglera og einhverjum andans ritum um miðla, fjarskyggni og aðra yfirnáttúru. Þetta olli mér meðal annars nokkurri myrkfælni og draugahræðslu. Mig dreymdi um að hafa miðilshæfileika og reyndi margoft að komast út úr líkamanum samkvæmt einhverri forskrift úr þessum bókmenntum en án árangurs. Varð einfaldlega að sætta mig við þá staðreynd að ég væri ekkert dulrænn.
Kristið fólk með krossa um hálsinn hélt þó áfram að vekja hjá mér traust. Sérstaklega varð mér rórra ef ég sá boldungs kraftajötna og sjóara með tattú skarta krossi, svona fólk gat varla verið hættulegt eða illgjarnt.
En eftir því sem fullorðinsárin færðust yfir áttaði ég mig betur og betur á því hversu siðlaus og hættuleg trúarbrögð eru. Í stað þess að sjá kristið fólk sem yfirlýst og ömmuleg góðmenni fór ég að átta mig betur á því að þetta var fólk á valdi hættulegra hugmynda. Kannski var það Krossinn og síðan Ómega sem fengu þetta ljós til að renna upp fyrir mér.
Og í dag kveikir kross um háls einhvers aðeins þá hugmynd hjá mér að sá sem hann ber hafi vikið af vegi skynseminnar og kosið að trúa því að handleiðsla ömurlegra himnadrauga muni leiða hann á vegi ævinnar. Í mínum augum er þetta fólk sorglega afvegaleitt, það er auðtrúa og skortir gagnrýna hugsun.
Ég veit að þeir eru til sem bera kross um hálsinn gagngert til að skapa þetta traust hjá náunganum. Þetta eru í mörgum tilfellum sviksamir menn sem vilja hagnast á því trausti sem kristin trú hefur innrætt í okkur öll á einum tíma eða öðrum. En í dag er ég ónæmur fyrir svona signölum og læt því ekki blekkjast. En ég veit auðvitað sem er að flestir krossberar í kringum okkur eru ærlegt og vel meinandi fólk. Það heldur sjálft að trú þess á kristin hindurvitni séu forsenda góðrar breytni þess. Þetta eru fórnarlömb költískrar innrætingar og afstaða þeirra til krosstáknsins er einfaldlega sú sama og ég hafði sjálfur þar til ég fór að hugsa málið.
Af hverju ber fólk krossa? Er það ekki vegna þess að það hefur orðið fyrir þeirri innrætingu að Jesús sé frelsari þeirra og siðferði þeirra byggist á kenningum kirkjunnar sem það tilheyrir? Og hvað er það annað en költísk innræting? Kristnin eru heimsendatrúarbrögð eins og gildir um fjölmörg önnur smærri költ.
Þetta fólk hefur alveg örugglega flest hugsað málin, en það gerir það algerlega á forsendum innrætingarinnar sem það hefur fengið.
Manneskja nákomin mér keypti sér fyrir nokkrum árum hinn fræga þríkross, þar sem þrem krosstáknum, einu gylltu, einu úr rauðagulli og einu úr hvítagulli er steypt saman í einskonar krossaskúlptúr sem hengdur er á hálsfesti. Af því tilefni spurði ég viðkomandi lítillega út í trúmál viðkomandi. Svörin voru þau að þetta hefði ekkert með trú að gera, þetta væri bara svo smart skartgripur. Mig rennir sterklega í grun að þetta forna morðtól sé fyrir löngu búið að tapa merkingu sinni hjá þorra fólks, en sé orðið einhvernveginn samdauna sinnuleysinu sem almennt ríkir um trúmál. Við erum ekkert nema hefðin. Sjálfur er ég alls ekki saklaus af þessu sinnuleysi, fattaði það tildæmis fyrst um síðustu jól að þónokkrir einglar koma upp úr lúnum pappakassa af háloftinu og hafa hangið á jólatrénu síðustu 20 árin. Fyrir mér trúleysingja trúleysingjanna hafa þessar litlu vængjuðu fígúrur enga trúarlega skírskotun, en eru bara dúllulegt skraut sem maður tekur varla eftir. Ég hef grun um að svo sé um fleiri. Ég veit varla hvort það tekur því að vera að gera sér rellu yfir þessu, og ég hef eiginlega meir áhyggjur af þeim sem trúa bábiljunni í alvöru.
Kristnin og kapítalisminn eru með merkustu hugmyndum sem fram hafa komið. Kristnin kenndi fólki ábyrgð og reglusemi, kapítalisminn gerði því kleyft að breyta kjörum sínum og móta lif sitt.
Já Hjalti, því áður en kristni kom til skjalanna var fólk upp til hópa óábyrg nautnasjúk villimenni. Þetta er alvitað.
Já, það er líka alvitað að fyrir kapitalismann var fólki ókleyft að breyta kjörum sínum og móta líf sitt.
Varstu ekki bara að grínast Hjalti?
Kannski rétt að taka það fram að þarna er nafni minn að skrifa, ekki ég. Verð greinilega að nota fullt nafn í athugasemdum héðan í frá, til þess að forðast rugling ;)
Ég veit fyrir víst að þú myndir aldrei láta svona vitleysu út úr þér Hjalti Rúnar, hvorki í gríni né alvöru :).
"En ég veit auðvitað sem er að flestir krossberar í kringum okkur eru ærlegt og vel meinandi fólk."
Veit nú ekki hvort pistlahöfundur þessa meiningu orðsins, en það var nú oft sagt við mig, "Bölvaður krossberi ertu krakki!" sérstaklega þegar ég var unglingur og gerði sérlega óheppileg axarsköft. Þetta orð er semsagt í þeirri meiningu að maður hljóti að vera eitthvað greindarskertur að láta sér detta eitthvað í hug að kannski sérstaklega að láta hafa sig út í eitthvað óviturlegt (náttúrulega ekkert vit í að bera einhvern kross, þá í upprunalegu merkingunni, stórann og þungan)
Bara smá "sparðatíningur" hér.
Jamm Silla, ég er að reyna að auðga mál mitt svo ég þurfi ekki alltaf að tönglast á sömu hugtökunum. Þaðan kemur þessi krossberi (einhverjum gæti fundist það vera uppnefni, en þannig er það ekki hugsað).
Mér finnst verjandi að nota þetta sökum þess að þegar talað er um krossbera í hinni merkingunni er einmitt verið að taka tillit til orðatiltækisins "þungur kross að bera". Þessir krossar um hálsinn eru nebblega engan veginn þungir, nema kannski þeir sem æðstu menn kirkjudeildanna skarta stundum. :)
En fólk sem er svo hrætt við tilgangsleysið sem guðleysið felur í sér að það ber krossin, sem já - hindurvitni, er hægt að ásaka þau um að vera fórnarlömb ,,költískrar innrætingar"? Ég persónulega hef á vissan hátt litið á trúleysingja sem sterkt fólk. Fólk sem getur lifað með allri óvissunni, viðbjóðnum og tilgangsleysinu án þess að þurfa að hafa einhvern guð til að halda sér í. Það að trúa á guð trúarinnar vegna, beita sjálfan sig einhverskonar sjálfsblekkingu um eilíft líf er hægt að segja að það sé vegna költískrar innrætingar? Er það ekki bara inngróin hræðsla mannana við dauðann og tilgangsleysi lífsins? Eða hvað?
Annars hef ég tekið eftir þessu með málríki þitt Birgir. Textinn þinn er skemmtilegur.
Er það ekki bara svar við inngróinni hræðslu mannana við dauðann og tilgangsleysi lífsins? Átti þetta að vera.
Alla tíð sem ég hef pælt eitthvað sérstaklega í því þegar fólk ber kross/þríkross um hálsinn hefur mér aldrei dottið neitt annað í hug en að fólk beri þetta af tískuástæðum. Ég hef ekki hitt marga sem bera kross sérstaklega til að hafa þetta kristna merki sér til verndar (hvað þá sem reynast vera betri og traustari manneskjur en aðrar).
Það sýnir kannski nýrri tíma þróun, þar sem það eru minna en 10 ár síðan ég var 16 ára.
Svona krossar og önnur tákn sem fólk hengir á sig eru arfur frá fyrri tíð. Með þessu eru menn að gera sig gildandi og í raun að hefja sig yfir aðra. Prestar og aðrir forkólfar í trúfélögum eru í búningum og bera sjaldgæfa "dýrgripi" og því langt yfir aðra hafnir. Það sama gildir um konur með dýra skartgripi hangandi á sér. Þær eru "betri" en hinar vegna skartsins.
Hinn hógværi með litla krossinn undir peysunni hugsar það sama, "ég er betri". Kristnin sem fer svo gróflega í manngreiningarálit og skilur sauði frá höfrum osfv hefur ævinlega hvatt áhangendur sína til að vera betri en hina sem fara til helvítis (eða Breiðavíkur) ef þeir eru óþægir.
Krossinn sýnir okkur í hvaða liði menn eru að spila. Krossberarnir eru í keppni um góðvild guðsins, sem á samt að vera án takmarkana.
Danskurinn, vel mælt.
Annars finnst mér alltaf merkilegt að sjá fólk sem er ekki kristið bera kross en auðvitað er það oft tískumerki og ekki meint sem neitt trúarlegt.
Vitið þið með vissu að fólk sem beri krossa eða aðra skartgripi telji sig yfir aðra hafna?
Þegar ég sé fólk með kross hugsa ég ekkert ósjálfrátt þarna fer kristin manneskja um. Sjálfur á ég Davíðsstjörnu og ekki er ég Gyðingur.
Einnig er ég þannig maður að skartgripi og úr geng ég ekki með, í því er felst engin yfirlýsing og ætla ég því ekki að skartgripir þeirra sem þá kjósa sé yfirlýsing af þeirra hálfu.
Vitið þið með vissu að fólk sem beri krossa eða aðra skartgripi telji sig yfir aðra hafna?
Hvar sástu þá fullyrðingu?
Þetta er svona Sobbeggi "light" pistill. Þið megið ekki lesa yfir ykkur af dagbókum skröggsins. Þið einblínið of mikið á þetta neikvæða í trúarbrögðum. Svona eins maður afneitaði raunvísindum af því þau sköffuðu okkur kjarnorkusprengjuna.
Maður sirka vitnar einu sinni á ári í eitthvað sem Þórbergur skrifaði. Er maður þá að lesa yfir sig af honum.
Hjalti, vísindin hafa fært okkur gríðarlega margt gagnlegt svo ekki sé minnst á alla þá haldbæru þekkingu sem þau hafa leitt af sér. Hvað sérðu jákvætt við trúarbrögðin? Hvaða góðu hluti hafa þau leitt af sér?
Mér sýnist Hjalti þessi vera troll, a.m.k. gerir hann aldrei tilraun til andsvara þegar honum er svarað.
Þannig er ekki enn ljóst hvort hann var að grínast með fyrri athugasemd sinni við þessa grein. Ekki svarar hann heldur hér eða þá að hann kemur með svona komment.
Hjalti, reynum að ræða saman - það er lítið gagn í þessum athugasemdum ef þú ert ekki tilbúinn að standa við þær og rökstyðja.
Matti.
Ég sá ekki betur en danskurinn væri að skrifa það, vísa örlítið ofar. Kann ekki að búa til svona tilvitnannakassa.
En gæti kannski verið að miskilja við tölum ekki alltaf sama tungumálið ;)
Já, danskurinn verður bara að svara fyrir sig. Ég efast um að hann haldi að þetta eigi við um alla sem bera kross.
"Vitið þið með vissu að fólk sem beri krossa eða aðra skartgripi telji sig yfir aðra hafna?"
Spurningin er vitlaus. Fólk sem merkir sig með táknum er að aðgreina sig frá öðrum og samsama sig með enn öðrum. Því fleiri tákn, því meiri aðgreining og minni samsömun. Því dýrari tákn, því meiri aðgreining og minni samsömum. Því sjaldgæfari tákn, því meiri aðgreining og minni samsömum. Hvort fólk geri sér meðvitað grein fyrir þessu, er allt annað mál. Kórónan er svo hápunktur aðgreiningarinnar. Þið sjáið hana á hausnum á páfanum.
En er ég ekki að greina mig frá einhverjum með því að nota ekkert skart? Það gera það margir hópar t.d Amish fólk. Ég held að þetta sé nú ekki á miklum rökum reist hjá þér danskurinn.
Þetta er hárrétt hjá þér Davíð, en ekki búast við því að danskurinn viðurkenni að hann hafi rangt fyrir sér.
"En er ég ekki að greina mig frá einhverjum með því að nota ekkert skart?"
Nei. Þá væri trúleysi trú ;-)
"Það gera það margir hópar t.d Amish fólk."
Amish fólk greinir sig frá öðrum, með útliti sínu og lifnaðarháttum. Hópar gyðinga gera það einnig með sínu útliti og lifnaðarháttum. Slíkir hópar telja sig einmitt vera í réttborna erfingja himnaríkis. Við hin fáum ekki inngöngu þar. Það eru til alls konar sérkenni sem hópar fólks halda í til að greina sig frá öðrum. Margir muslimskir karlmenn safna skeggi til að greina sig frá konunum td.
Kannski er þetta frekar spurning um að merkja sig hóp sínum til að efla samkennd og vitund.
Þetta býr djúpt í okkur, sé eitthvað að marka mannfræðina.
Ég persónulega trúi á Krist sem minn frelsara, þó hef engann Kross hef ég um hálsin. Ég hef ekki upplifað að fólk skreitt skarti sé að aðgreina sig frá mér eða samsvara sig mér.
Eru ekki til trúleysingjar skreyttir skarti? Ég held að þú sért að rugla hér persónulegum smekk fólks og persónugerð þess saman við einhverjar aðgreiningarserímóníur.
Já Birgir að vissu leiti get ég skrifað undir það, en ætti þá ekki sömuleiðis að vera einhver samkend milli okkar sem ekki berum skart?
Ég get tekið undir með Danskinum og Davíð. Það er margt fólk sem aðgreinir sig meðvitað frá öðru fólki með táknum meðan annað fólk lítur á þetta sem tískufyrirbrigði.
Ég hef sé ásartrúafólk með krossa um hálsinn - hlýtur að vera frekar tískufyrirbæri heldur en einhver meðvituð ákvörðun um að tilheyra einhverjum hóp.
Margt fólk gerir sér ekki alveg grein fyrir því hvað það hengir um hálsinn á sér.
"Ég persónulega trúi á Krist sem minn frelsara, þó hef engann Kross hef ég um hálsin."
Einmitt það, og þú trúir því jafnframt að þeir sem feta ekki í þín fótspor geti búist við ömurlegum örlögum. Þú ert aðgreindur frá öðrum sem eru ekki eins og þú og hafa ekki frelsast. Þeir munu farast en þú ert hólpinn. Guðinn þinn lítur á þig með velþóknun en á hina með vanþóknun. Það er þinn andlegi kross. Mér finnst stundum að það eigi að skylda fólk eins og þig að bera kross svo við hin getum sett okkur í viðeigandi stellingar eða bara forðast ykkur.
"Kannski er þetta frekar spurning um að merkja sig hóp sínum til að efla samkennd og vitund."
Það er ábyggilega þannig líka - óttinn við að standa einn. En hitt er augljóst að margir þessara hópa telja sig meðvitað hafna yfir náunga sína, ekki bara í þessu lífi heldur frekar um alla eilífð. Skeggvaxnir muslimir kúga konur sínar og búast síðan við launum í framhaldslífi þar sem hreinar meyjar gagnast þeim eftir þörfum. Hindúar eru á svipuðu róli nema hvað hjá þeim eiga allir skilið þjáningu sína og þess vegna er í lagi að útdeila henni. Frelsaðir ésúhopparar þurfa aftur á móti ekki að kvelja náunga sína því guðinn þeirra mun sjá um framkvæmdina. Þeir eru kannski lúmskastir og merkja sig ekki sérstaklega. Kannski ætti að skylda þá að ganga í sérstökum fötum ;-)
"Fæst kjósa kyrtilinn" Þetta er fyrirsögn greinar í fréttablaðinu í dag þar sem segir frá því að fermingarbörn vilja ekki klæðast kyrtlinum sem þau fermast í þegar þau fara í fermingar-myndatökuna- sem ég hélt að ætti að vera nokkurs konar minnisvarði um athöfnina.
Ef unglingar væru að finna sig vel í trúnni í dag ætti þetta þá ekki að vera atriði sem þau vildu hafa með í myndatökunni? Mér finnst þetta lykta af því að trúin sé orðin aukaatriði í fermingaumstanginu í dag. Þau velja það að hafa engin merki þess að þau hafi verið að fermast með á myndunum þó að það sé tilefni myndatökunnar!
Af sex myndum sem eru birtar með greininni, sem ég geri ráð fyrir að séu af fermingarbörnum, þá er hugsanlega bara eitt barnið með kross um hálsinn. Það sést þó ekki vel af eða á því að myndin er svo óskýr. Þannig að myndirnar af þeim bera engin merki tilefnisins.
Þetta finnst mér svolítið merkileg þróun...
danskurinn þú segir:
,,Mér finnst stundum að það eigi að skylda fólk eins og þig að bera kross svo við hin getum sett okkur í viðeigandi stellingar eða bara forðast ykkur."
Þessi skoðun þín finnst mér afar hættuleg svona ef við skoðum hana í sögulegu ljósi. Það á ekki að skilda neina þegna samfélagsins til þess að merkja sig á einhvern ákveðinn hátt eða meina þeim sem þess óska að gera svo.
Grein þessi fjallaði ekki um andlegan kross að miklu leiti heldur fremur um skartgripinn kross ef ég hef skilið rétt það sem á undan er farið.
Ég held að danskurinn hafi nú bara verið að grínast. Þessi yfirlýsing hans er í senn bæði kómísk og nöturleg.
Það liggur ekki í eðli mínu að vilja merkja fólk, skipa því niður í augljósa hópa til að geta annað hvort gert mér dælt við það eða forðast. Allar athafnir okkar sem höldum úti þessu vefriti bera einmitt merki hins gagnstæða, við sækjumst eftir umræðu og félagsskap við hina trúuðu svo hægt sé að láta þá standa fyrir máli sínu og vonandi koma auga á öngstrætið sem þeir eru staddir í.
Krossberarnir í kringum mig valda í dag þeirri tilfinningu að þeir séu á villigötum í lífinu og ég tel það næstum borgaralega skyldu mína að reyna að benda þeim á það svo þeir geti losað sig undan ruglinu og orðið á ný frjálsborið fólk sem ber höfuðið hátt. Ef þetta fólk ber krossinn til að skera sig úr og senda þau skilaboð að það sé eitthvað hólpnara, útvaldara og merkilegra en við hin (ég veit ekki hvort það geti verið ástæðan), þá virkar sá boðskapur algerlega öfugt á mig. :)
Smá viðbót: Þetta sama gildir auðvitað líka t.d. um þá sem bæru hakakross um hálsinn. Ég myndi ekki forðast slíkt fólk eða fordæma, heldur einmitt ávarpa það á gagnrýninn hátt, fá fram skoðanir þess og reyna svo að hrekja þær.
Í þessu tilliti er nákvæmlega enginn munur á nasistum og trúuðum í mínum augum, hvorugir eiga sér eitthvað heilagari skoðanir en hinir og engin ástæða til að bera virðingu fyrir því sem þetta fólk heldur um veröldina, hvað sem líður allri þeirri helgislepju sem búið er að hjúpa tilteknar hugmyndir.
Hvorugan hópinn fyrirlít ég, þetta er allt saman bara fólk á valdi hugmynda sem það hefur af einhverjum ástæðum tekið upp á að aðhyllast. Ef hinn trúaði getur skilið af hverju ég ræðst gegn hugmyndum hinna nasísku hlýtur hann að sjá réttmætið í því að ráðist sé að skoðunum hans sjálfs. Engar skoðanir eru yfir gagnrýni hafnar, hvorki mínar né aðrar.
"Krossberarnir í kringum mig valda í dag þeirri tilfinningu að þeir séu á villigötum í lífinu og ég tel það næstum borgaralega skyldu mína að reyna að benda þeim á það svo þeir geti losað sig undan ruglinu og orðið á ný frjálsborið fólk sem ber höfuðið hátt."
En er þetta ekki sama viðhorf og við sjáum hjá hinum sannkristnu? Bara önnur tóntegund í sama laginu?
Birgir telur þó ekki þörf að flýja þegar hann sér kristið fólk líkt og danskurinn, það sýnir að hann getur búið í samfélagi ólíkra manna.
Í fljótu bragði getur virst sem þetta sé sama viðhorf og hjá hinum trúuðu, að breiða út einhvern boðskap. En ástæður mínar eru þó ekki af slíkum meiði, heldur að fá fólk til að efast um þann boðskap sem haldið hefur verið að því. Ég hvet fólk til að hugsa sjálft og á gagnrýninn hátt, ekki taka fullyrðingum annarra fyrirvaralaust.
Aktífismi minn gæti því ekki verið sprottinn af ólíkari hvötum, þótt hvort tveggja gangi út á ábendingar um villu og svíma.
Hvernig ætti líka að vera hægt að gera þetta öðru vísi? Það er engum greiði gerður með því að leyfa honum að hafast við í ruglinu, ef ruglið er að skaða fólk á einn eða annan hátt.
Um þessa skaðsemi hef ég fjallað víðsvegar um þetta vefsetur sem og annars staðar. Það væri gott að fara að fá fram einhverja alvöru umræðu um hana í stað endalausra ásakana um fordóma og ofstopa.
"Um þessa skaðsemi hef ég fjallað víðsvegar um þetta vefsetur sem og annars staðar. Það væri gott að fara að fá fram einhverja alvöru umræðu um hana í stað endalausra ásakana um fordóma og ofstopa."
Vandinn við umræður er að orð hafa í raun enga merkingu nema þá merkingu sem við leggjum í orðin. Sú merking er aftur á móti háð því hver við erum, hvaðan við komum og hvaða viðhorf við höfum. Einfalt orð eins og hús hefur ekki sömu merkingu hjá fólki sem býr í einbýlishúsi og hjá fólki sem býr í strákofa eða tjaldi. Arabar hafa 500 orð yfir hníf. Íslendingar tala bændamál og eiga mörg orð um veðurfar. Fólk með ólíkan bakgrunn menntunar og uppeldis hefur einnig ólíkan skilning á orðum.
Í "alvöru umræðu" snýst umræðan því oft um merkingu orða sem er mismunandi milli þátttakenda. Hluti af þrasvandanum er einmitt þessi ólíki skilningur. Umræðan breytist þá fljótlega í þras um það hver hefur rétt fyrir sér, eins og það geti verið fyrirfram ákveðin stærð, það að hafa rétt fyrir sér.
Ég held að orðið skaðsemi hafi svipaða merkingu fyrir öllum. Ef ég bendi á skaðsemi einhvers er augljóslega hægt að rökræða það hvort hún sé raunveruleg eða aðeins ranghugmynd í mínum eigin haus.
Mér finnst trúmenn afskaplega óviljugir að ræða fullyrðingar mínar um skaðsemi á slíkum nótum. Annað hvort þegja þeir eða úthrópa málflutning minn sem ofstæki og fordóma. Og það gera þeir án þess að færa nokkur haldbær rök fyrir máli sínu.
"Ég held að orðið skaðsemi hafi svipaða merkingu fyrir öllum."
Það held ég varla. Er ekki eins dauði annars brauð?
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
francis - 11/03/07 12:59 #
"Þetta eru fórnarlömb költískrar innrætingar og afstaða þeirra til krosstáknsins er einfaldlega sú sama og ég hafði sjálfur þar til ég fór að hugsa málið"
Þetta eru ágætar pælingar hjá þér, en þetta er frekar stór fullyrðing,, ertu að segja að megnið af fólki sem ber kross um hálsinn hafi bara ekkert hugsað út í málið? Að þú sért bara greindari en allir hinir sem hafa ekkert pælt í hlutunum?