Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ofstækisfullur kverúlant?

Það er fátt leiðinlegra en fólk sem tjáir sig um hluti sem það hefur ekki hundsvit á. Egill Helgason, stjórnandi þáttarins Silfur Egils, virðist því miður hafa þennan leiðinlega ósið. Hann sagði skoðun sína á Vinaleið um daginn.

Í grein sinni Wagner í dragi, ofstækisfullt trúleysi, kosningaauglýsingar eyðir hann fjórum efnisgreinum í umræðu um Vinaleið. Í þeirri fyrstu auglýsir hann þekkingarleysi sitt á þeim sem berjast gegn Vinaleið, í þeirri næstu opinberar hann algjört skilningsleysi sitt á eðli Vinaleiðar. Tvær síðustu efnisgreinarnar byggja á þessu skilningsleysi hans og missa því algjörlega marks.

Hann byrjar umfjöllunina á orðunum: “Það er erfitt að sjá núorðið hverjir eru verri eða ofstækisfyllri - ofstækisfullir trúmenn eða ofstækisfullir trúleysingjar.” Ef Egill hefði eitthvað vit á málunum hefði hann örugglega komið með dæmi um meint ofstæki þessara ofstækisfullu trúleysingja. Þegar kemur að Vinaleið vilja ofstækisfullir trúleysingjar eins og ég vernda leik- og grunnskólabörn fyrir trúboði. Trúmenn sem Egill myndi eflaust kalla hófsama, þjóðkirkjuprestar, vilja ólmir komast inn í skólana. Hvorn hópinn væri réttara að kalla hófsaman?

Það má líka minnast á að Vinaleið er mjög líklega ólögleg, það er að segja ef það er hægt að taka mark á orð æðsta biskups Þjóðkirkjunnar, sem lagði mikla áherslu á að í Vinaleið væri nemendum mismunað á grundvelli trúarbragða.

Síðan skrifar Egill: “Hópar trúleysingja eru í herferð gegn einhverju sem nefnist Vinaleið og starfar á vegum þjóðkirkjunnar.” Og þetta virðist vera það eina sem Egill veit um fyrirbærið, að það er á vegum Þjóðkirkjunnar og kallast Vinaleið. Það er rétt að hópur trúleysingja, Vantrú, hefur barist gegn Vinaleið. En það eru sem betur fer ekki bara trúleysingjar sem eru fylgjandi hlutleysi opinberra skóla hvað varðar trúmál. Meðal félaga sem hafa ályktað gegn Vinaleið eru Ásatrúarfélag Íslands, Samband ungra sjálfstæðismanna og Ung vinstri græn.

Nú kemur síðan setningin sem opinberar algjört skilningsleysi Egils: “Í algjöru menningarleysi er því mótmælt að kristnifræði sé kennd í skólum - í staðinn á að kenna eitthvað sem heitir trúarbragðafræði.” Ég veit ekki til þess að neitt einasta félag á Íslandi hafi lagt það til að það verði hætt að kenna um kristna trú. Siðmennt, sem Egill flokkar líklega sem ofstækisfullt félag, hefur til dæmis oft og mörgum sinnum lagt áherslu á það að félagið sé ekki á móti fræðslu um kristna trú, heldur einungis boðun kristinnar trúar. Siðmennt hefur meira að segja oft sagt að það sé eðlilegt að kenna meira um kristna trú heldur en önnur trúarbrögð vegna sögulegra ástæðna. Ég er sammála þessu. Vinaleið er ekki fræðsla um kristna trú og þess vegna er þessi ofsahræðsla Egils um að brjáluðu trúleysingjarnir séu á móti fræðslu um kristna trú eintómir hugarórar.

Þegar Egill segir að “enginn [verði] verri af því að læra smá kristindóm”, þá er ég fullkomlega sammála honum. Ég vildi að sem flestir fræddust sem mest um kristna trú, það er öruggasta leiðin til þess að afkristnast. En þegar skrifar “Enginn verður heilaþveginn af hálfvolgri kristni þjóðkirkjunnar.” þá er það augjóslega rangt. Börn eru viðkvæm fyrir áróðri. Þetta veit Þjóðkirkjan og einblínir þess vegna á börnin.

Það er í sjálfu sér ekkert að því að vita lítið um þessi mál, ef maður er þá reiðubúinn til þess að taka gagnrýni og læra af henni. Viðbrögð Egils við málefnalegum athugasemdum við þessa vitleysu voru hins vegar þau að skrifa um þetta væri eins og að ýta á hnapp, því þá kæmu leiðinlegu trúleysingjarnir. Afskaplega sorglegt. Þegar Óli Gneisti benti á í athugasemd að þetta væri ad hominem rökvilla, að ráðast á persónu andmælandans en ekki rökin sjálf, greip Egill til þess ráðs að eyða báðum athugasemdunum. Ætli gagnrýni á málflutning Egils verði eitt af því sem netsían hans eigi að koma í veg fyrir?

Hjalti Rúnar Ómarsson 06.03.2007
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Hjalti - 06/03/07 09:05 #

Þið verðið nú bara að viðurkenna að þessi harða lína sem var keyrð á tímabili naut ekki almennrar lýðhylli. Þetta með að starfsmenn Þjóðkirkjunnar væru lygarar og þar fram eftir götunum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/03/07 09:16 #

Hvaða harða lína? Ég veit ekki til þess að nokkur áherslubreyting hafi orðið á greinarskrifum hér á Vantrú. Ég hef stundum tekið mig til og lesið yfir vantrúargreinar og ekki finn ég þetta mikla Vantrúarofstæki sem fólk talar um - vissulega eru stundum notuð sterk orð - eins og t.d. lygarar þegar fólk lýgur, en fjandakornið, Þjóðkirkjufólk notar þetta orð stundum líka.

Annars kemur það vel fram hjá Hjalta að "gagnrýni" Egils byggir á fullkominni fáfræði. Ekkert bendir til þess að hann hafi kynnt sér málflutning Vantrúar eða eðli Vinaleiðar.


Maze - 06/03/07 10:11 #

Sammála greinahöfundi um að börn eru viðkvæm fyrir áróðri. Því er þessi vinaleið í gangi, þess vegna er maður fermdur á þeim aldri er fermt er osfrv. Þessi heilaþvottur sem stundaður í skólum minnir mann helst á tímabil í hjarta Evrópu um 1940 þar sem heilaþvottur var stundaður til að fá börnin til að trúa á ákveðna stefnu sjórnvalda.


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 06/03/07 10:59 #

Athyglisvert er að skoða fyrri pistla Egils um trúmál sbr skopmyndamálið. Hann veit greinilega ekkert hvort hann á að vera secular eðe ekki. Kannski þekkir hann ekki hugtakið?

Egill Helgason hefur með þessum pistli sínum fest sig í sessi sem mesti vindhani íslenskar kverúlanta.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/03/07 19:10 #

Egill Helgason heldur áfram að delera um Vantrú og enn eyðir hann athugasemdum. Í þetta sinn eyddi hann eftirfarandi athugasemd minni, sem ég setti inn undir fullu nafni:

Þetta eru rangfærslur Egill

"Þessi hópur kemur víða við - heldur meðal annars úti vef sem heitir Vantrú - og hann hefur líka reynt að hasla sér völl innan stjórnmálaflokka, nú síðast í Vinstri grænum."

Þetta er einfaldlega rangt Egill. Það er enginn hópur sem heldur úti Vantrú og reynir að hasla sé völl innan stjórnmálaflokka. Ég ætti að vita þetta þar sem ég er formaður félagsins Vantrúar sem heldur úti vefsíðunni Vantrú.is - ekki hef ég nokkur tengsl innan stjórnmálaflokka

Að sjálfsögðu eru til trúleysingjar sem eru í VG, annað væri undarlegt.

Í alvöru Egill, þú verður að vanda málflutning þinn örlítið. Það gengur ekki að "álitsgjafi" eins og þú delerir um hópa fólks án þess að gera minnstu tilraun til þess að kynna þér staðreyndir málsins. Þetta er í raun skammarlegt.

Hver er svo þessi Jón Torfason? Hefur hann eitthvað vægi hjá VG?


Sævar Helgi - 06/03/07 19:28 #

Aumingja maðurinn. Ég er farinn að vorkenna honum. Málstaður hans er greinilega svo veikur að hann getur ekki staðið undir honum.

Hann er örugglega í fýlu eftir að hafa lesið þessa grein.

Maður tekur ekkert mark á þessum pistlum hans lengur.


darri (meðlimur í Vantrú) - 06/03/07 19:30 #

Hann virðist hafa tekið þetta til sín, þótt hann þori ekki að láta það sjást. Frekar klúðurslegt.

Þessi flokkur manna kemur víða við - heldur meðal annars úti vef sem heitir Vantrú - og fólk með þessar skoðanir reynir líka að hasla sér völl innan stjórnmálaflokka, nú síðast í Vinstri grænum.


Halldor - 07/03/07 14:36 #

Hvar á SUS að hafa ályktað gegn Vinaleiðinni. Ég finn það hvergi.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 07/03/07 14:50 #

Aðskilnaður ríkis og kirkju Mikilvægt er að skilja að ríki og kirkju að öllu leyti. Skorað er á þingmenn að leggja fram frumvarp til laga þess efnis á yfirstandandi þingi. Grundvallarstoð lýðræðisins er að stjórnvöld þiggi vald sitt frá fólkinu. Það vald má aldrei tengjast því valdi sem trúin getur haft gagnvart einstaklingunum. Af þeim sökum er brýnt að ríkið komi hvergi nálægt trúarlífi eða öðrum andlegum málefnum borgaranna.

SUS telur að hið opinbera eigi ekki að tengjast trúfélögum á neinn hátt. Í því felst m.a. að engar fjárveitingar eru veittar til trúfélaga af hálfu ríkis og sveitarfélaga. SUS átelur sveitarfélög fyrir að veita trúfélögum aðstöðu innan skólanna til að stunda trúboð. Mikilvægt er að tryggja hlutleysi skólastofnanna landsins.

Hérna. Þau nefna ekki Vinaleið á nafn, en það er augljóslega verið að tala um Vinaleið.


óðinsmær - 07/03/07 23:06 #

þetta er fáránleg grein hjá Agli, ég skil hana hreint út sagt ekki. Annars er ég oft hrifin af því sem hann skrifar en þarna bókstaflega skil ég ekki hvað maðurinn er að meina. Hann er að reyna að gengisfella trúarbragðafræðikennslu og trúleysi og manndómsvígslur án trúarívafs - allt í senn


Þorsteinn Kristinsson - 08/03/07 00:59 #

Rétt er að vekja athygli á ályktun Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði um þetta mál nýverið.

„UJH harma að starfrækt sé svokölluð vinaleið í grunnskólum. Grunnskólar eiga að vera lausir við áróður af öllu tagi, hvort sem hann er pólitískur, trúarlegur eða annar. Það er ekki siðferðislega verjandi að prestar starfi innan veggja grunnskólans, enda stríðir það gegn grunnskólalögum. Þögn menntamálaráðherra í þessu máli er hreint ekki til fyrirmyndar og lýsir ábyrgðarleysi og óöryggi í erfiðu máli. Menntamálaráðherra virðist ekki sjá ástæðu til þess að standa vörð um trúfrelsi í landinu og kemur það niður á óhörðnuðum grunnskólabörnum.“


danskurinn - 08/03/07 04:51 #

Kannski er ráðherra í klemmu? Hún er katólsk og trúfélag þeirra rekur skóla. Hún gæti því átt erfitt með að banna þjóðkirkjunni að gera það sem hennar trúfélag gerir? Ef þetta er rétt þá er ráðherra vanhæfur í málinu.


Dvergurinn - 08/03/07 11:11 #

Ég efast um að ráðherra geti talist vanhæfur í málinu, lagalega séð. Það hvort einstakt trúfélag reki skóla eða ekki kemur Vinaleið ekkert við - enda er þar um grímulaust trúboð að ræða í skólum sem reknir eru af hinu opinbera og eiga að heita hlutlausir hvað trúmál varðar.

Ef þjóðkirkjan vildi stofna evangelísk-lútherskan grunnskóla mættu þeir það eflaust. Það er bara allt annað mál en Vinaleiðin.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.