Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sælir eru fátækir ríkir

Það hefur margt breyst síðan Jesús sendi lærisveina sína út að boða kristna trú. Þá skipaði Jesús þeim að taka ekki með sér peninga í belti (Mk 6:8). Meintir fylgjendur hans í Þjóðkirkjunni, prestarnir, hefðu líklega ekki sætt sig við það.

Á vefsíðu Þjóðkirkjunnar er frétt um að það sé búið að ákveða sóknargjöld fyrir árið 2007, 789 kr. á mánuði. Þar sem Þjóðkirkjan er jafnari en önnur trúfélag bætast ofan á það 29.8% í kirkjumálasjóð og jöfnunarsjóð sókna. Alls borgar því ríkið 1.024 kr. á mánuði til Þjóðkirkjunnar fyrir hvern þann sem er skráður í hana. Það eru 193.681 manns 16 ára og eldri í ríkiskirkjunni núna, það gera 2,4 milljarða króna í ár og við þetta bætist enn meira af útgjöldum allt þar til upphæðin er komin í næstum því 5 milljarða á ári.

En auðvitað þarf kirkjan á þessari gríðarlegu upphæð að halda. Það þarf nefnilega að borga laun hámenntuðu prestanna. Þrátt fyrir að vera sérfræðingar í því að túlka texta biblíunnar eftir hentugleika, þá gæti samt enginn þeirra snúið út úr orðunum: "Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki." (Mk 10:25) Þetta vers er örugglega ekki lesið á prestastefnum og kirkjuþingum. Síðan þykist þessi sníkjustofnun og prestar hennar fylgja manninum sem sagði: "Seljið eigur yðar og gefið ölmusu!" (Lk 12:22). Þegar talið berst að eignum kirkjunnar er ég nokkuð viss um að starfsmenn Þjóðkirkjunnar leita ekki til orða Jesú og hins kristna siðferðis hans, siðferðsi sem kirkjan getur ekki dásamað nóg þegar hún reynir að troða sér, oft á fölskum forsendum, inn í opinbera skóla.

Prestar Þjóðkirkjunnar eru því upp til hópa hræsnarar og ef það væri hægt að kalla trúfélag hræsnara þá myndi það smellpassa við Þjóðkirkjuna. Ef þú ert skráður í Þjóðkirkjuna, þá ert þú að sjá til þess að Þjóðkirkjan fái þessa 2,4 milljarða. Ef hræsni kirkjunnar ofbýður þér þá er auðvelt að skrá sig úr Þjóðkirkjunni.

Hjalti Rúnar Ómarsson 23.02.2007
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Viddi - 23/02/07 11:07 #

Þetta eru náttúrulega peningar guðs, enda sú persónu með eindæmum léleg í peningamálum víst.

Þetta er bara nútímalegra afbrygði af dýra og mannafórnum, peningafórnir.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 23/02/07 14:38 #

Og hví eruð þér áhyggjufullir um klæði? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna.

Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér líkist hvítum kölkuðum gröfum, sem sýnast fagrar utan, en innan eru fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra.


Svanur Sigurbjörnsson - 23/02/07 17:06 #

Biskupinn fær ríflega 800 þúsund í grunnlaun en það er sambærilegt ráðherrum. Sóknarprestar fá betri grunnlaun er sérfræðilæknar hjá ríkinu. Er hægt að jafna saman menntun og ábyrgð þessara stétta?

Nú er búið að koma ýmissi þjónustu úr ríkisrekstri yfir í einkageiran og hefur margt af því gengið vel. Hið sama ætti að gera með lúthersku kirkjuna en þá kæmi í ljós hin raunverulega áhangendastærð hennar og hversu mikið fólk vill í raun borga fyrir þjónustu presta. Prestar og djáknar eru nú að ryðjast inn í skóla og bjóða uppá þjónustu sem ætti alfarið að vera í höndum fagfólks á vegum ríkisins. Þetta grefur undan því að fagfólkið fái fleiri stöður og ætti ekki að líðast. Þetta er ekki ósvipað því að náttúrulækningafólk fengju að sinna greiningu og meðferð á barnasjúkrahúsum fyrir þau börn (og stundum foreldra) sem það vildu ("en á forsendum barnanna").


Snorri E - 25/02/07 16:41 #

Forðist sjálfstæða hugsun, gefið kirkjunni pening.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.