Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Verndum bernskuna

Í grunnskólalögum er lagt bann við mismunun nemenda vegna trúarbragða. Þrátt fyrir það hafa skólayfirvöld í Garðabæ, Álftanesi og Mosfellsbæ veitt einu trúfélagi aðstöðu innan grunnskóla þar með svokallaðri Vinaleið.

Yfirlýst markmið og stefna trúfélagsins, Þjóðkirkjunnar, er trúboð, boðun. Fyrirmyndin til sjö ára í Mosfellsbæ er óneitanlega blygðunarlaust trúboð. Þó stendur í Aðalnámskrá að skólinn sé fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun.

Bein og óbein skilaboð Vinaleiðar eru skýr: Kristni er eðlileg, æskileg. Af því leiðir að trúleysi eða önnur trú hlýtur að vera óeðlileg, óæskileg. Í alþjóðalögum um borgaraleg réttindi er foreldrum og forráðamönnum barna tryggður réttur til að ala upp börn sín samkvæmt eigin skoðunum í trúmálum.

Börn eiga heimtingu á að skóli þeirra sé griðastaður fyrir áróðri, pólitískum, trúarlegum sem öðrum. Réttur þessi er tryggður í Barnasáttmálanum.

Stjórnarskráin á að tryggja trúfrelsi en frelsi manna er verulega skert ef eitt trúfélag nýtur þvílíkrar sérgæsku og forréttinda sem Þjóðkirkjan gerir.

Skólayfirvöld hafa í engu svarað ábendingum og kvörtunum, það sama má segja um menntamálaráðuneytið. Þjóðkirkjan kýs að beita blekkingum og fær tæpar fjögur þúsund milljónir á ári úr ríkissjóði. Einkafyrirtæki (Sund h/f) styrkir þar að auki Vinaleið.

Í ljósi alls þessa óska ég eftir lögmanni til að kanna grundvöll lögsóknar gegn stjórnendum Hofsstaðaskóla, skólayfirvöldum í Garðabæ, menntamálaráðherra, sem og "skólaprestinum", Garðasókn, biskupi og Þjóðkirkjunni.

Vegna tregðu, einþykkju og blindu ofangreindra aðila má búast við að málið þurfi að sækja í héraði, Hæstarétti og allt til Evrópudómstólsins.

Vilji fleiri foreldrar eða borgarar taka slaginn til verndar óhörðnuðum barnssálum eru þeir velkomnir. Jafnframt væri vel þegið ef fjársterkur aðili vildi taka að sér að styrkja þessa baráttu fyrir sjálfsögðum og lögbundnum réttindum barna og forráðamanna þeirra.

Reynir Harðarson 18.01.2007
Flokkað undir: ( Skólinn , Vinaleið )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 18/01/07 12:16 #

14. janúar sendi ég nýjum skólastjóra í Hofsstaðaskóla bréf þar sem ég fjallaði um Vinaleiðina. Jafnframt sendi ég þrjú bréf sem fyrri skólastjóri fékk en svaraði ekki og þær blaðagreinar sem birst hafa eftir mig um Vinaleið. Í lok bréfsins voru þessar þrjár kröfur:

Ég krefst þess að í Hofsstaðaskóla sé farið að grunnskólalögum. Nemendum má ekki mismuna vegna trúarbragða og því verður að binda enda á starfsemi eins trúfélags innan skólans og á skólatíma.

Ég fer fram á allar þær upplýsingar sem hægt er að fá um starfshætti og starfsreglur kennara, starfsfólks og “skólaprests” í tengslum við Vinaleið.

Ég fer sérstaklega fram á að fá að vita að hvaða leyti Vinaleiðin er frábrugðin fyrirmyndinni í Mosfellsbæ þar sem til eru nokkuð svakalegar lýsingar á því trúboði.

Í dag barst eftirfarandi svar Margrétar Harðardóttur nýs skólastjóra:

Spurningum í ofangreindu bréfi verður ekki svarað efnislega að svo komnu máli. Vinaleiðin verður starfrækt í Hofsstaðaskóla til loka þessa skólaárs eða þar til menntamálaráðuneytið hefur upplýst hlutaðeigandi um réttmæti verkefnisins.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 18/01/07 13:32 #

Vinaleiðin verður starfrækt í Hofsstaðaskóla til loka þessa skólaárs eða þar til menntamálaráðuneytið hefur upplýst hlutaðeigandi um réttmæti verkefnisins.

Hvenær verður farið í mál og hvert er númerið á söfnunarreikningnum?


jogus (meðlimur í Vantrú) - 18/01/07 13:32 #

Með öðrum orðum, "Já, mér er alveg sama þótt trú mín komi niður á námi nemenda hérna við skólann og samstarf foreldra og skóla. Þið getið bara druslast til að trúa því sama og ég."

Væri ljótt að kalla hana fífl?


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 18/01/07 13:59 #

Þetta er nú mjög snubbótt svar, greinilegt að hún reynir ekki einu sinni að réttlæta vondan málstað. Hún velur hinsvegar að svara ekki.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/01/07 14:03 #

Væri ljótt að kalla hana fífl?

Æi ég veit það ekki. Kannski gefur þetta tiltekna svar hennar ekki rétta mynd af manneskjunni. Kannski er svarið skrifað í fljótheitum, hugsanlega hafði fyrrverandi skólastjóri einhver áhrif á svarið og svo mætti lengi telja. Það hlýtur að vera hægt að ræða við þessa manneskju af einhverri skynsemi.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 18/01/07 14:28 #

Hún veit kannski eitthvað sem við vitum ekki þ.e. að Vinaleiðin sé "game over" eftir þennan vetur.


Árni Árnason - 18/01/07 16:05 #

Mér dettur í hug að stinga upp á Ragnari Aðalsteinssyni Hrl. Hann er prinsippmaður, og hefur rekið mörg mál þar sem mannréttindi eru til umfjöllunar.

Svo þurfum við allir að styðja Reyni ( margt smátt gerir eitt stórt ) þó að ég hafi trú á að Ragnar sé sanngjarn á þóknun. í framhaldinu gæti Ragnar etv. sótt um gjafsókn, þannig að ríkið greiddi málskostnað. Slíkt er vel þekkt einmitt í prinsipp og mannréttindamálum.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 18/01/07 16:30 #

.... etv. sótt um gjafsókn, þannig að ríkið greiddi málskostnað.

Ekki trúi ég BB aðstoðarbiskup tæki vel í slíka málaleitan.


Árni Árnason - 18/01/07 16:31 #

Í framhaldi. Reynir er rétti maðurinn í málið. Fyrir utan einarða afstöðu og góða rökvísi, á hann barn í einum af þessum umræddu skólum, og er því beinlínis aðili að málinu.


Árni Árnason - 18/01/07 16:34 #

G2 kom inn á meðan. Gjafsókn er ekki á höndum B.B. Bishop, enda er gjafsókn mest notuð í málum á hendur opinberum aðilum, og því ekki við hæfi að þeir fjalli um hana. Ég held að það sé nefnd sem fjallar um gjafsóknir.


Árni Árnason - 18/01/07 16:47 #

Búinn að gá að þessu. B.B.Bishop heimilar gjafsókn formlega en nefnd ákveður hvort mælt skuli með því eða ekki.

Það yrði eftirtektarvert ef B.B.Bishop gengi gegn áliti gjafsóknarnefndar.

Í lögum um gjafsókn er m.a. að finna eftirfarandi skilyrði fyrir veitingu gjafsóknar:

b. að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda.

Er ekki þetta akkúrat það sem snýr að okkur ? " Almenna þýðingu" og að Reyni "einkahagi umsækjanda"


Lísa - 18/01/07 19:29 #

[Athugasemd færð á spjallið - Hjalti]


S - 19/01/07 11:24 #

Rétt að benda Reyni á þann (ódýra) möguleika að senda bréf með fylgigögnum til umboðsmanns Alþingis (http://www.umbodsmaduralthingis.is) og óska eftir áliti hans.

Dómsmál verður þá óþarft nema umboðsmaður komist að þeirri niðurstöðu að "vinaleið" sé í lagi eða ef menntamálaráðherra gerir ekkert í málinu þrátt fyrir niðurstöðu umboðsmanns.


jogus (meðlimur í Vantrú) - 19/01/07 17:26 #

Já, það væri ljótt að kalla hana fífl. Eins gott að ég gerði það ekki ;)

En þetta svar er engu að síður vonbrigði.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 19/01/07 17:42 #

Umboðsmaður Alþingis fær erindi frá mér í næstu viku. Svo minni ég á að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (æðsta katólikka) á eftir að svara fyrirspurn Marðar Árnasonar á Alþingi um Vinaleiðina.


Gunnar örvarsson - 21/01/07 02:57 #

það sem er svívirðilegast í þessu öllu saman er hvernig kirkjan veitist að þeim sem ekki vilja hana þýðast. Hún ræðst að garðinn þar sem hann er lægstur. Hún notfærir sér börnin okkar. Hún veit fullvel hvar fólk er veikast fyrir. Börnin okkar eru fórnarlömb hennar. Enginn vill að börn þess verði fyrir aðkasti vegna þess að foreldrar þess eru "öðruvísi en fólk er flest". Fæstir foreldrar þora því að ympra á andstöðu við Vinaleiðina vegna þess að þeir eru hræddir um að börnum þeirra hefnist fyrir. Börnin sjálf eru óttaslegin. Þeim er þröngvað í þá aðstöðu að gera upp á milli skoðana útvalinna málsvara kirkjunnar í skólanum og foreldranna. Börnin bera yfirleitt mikla virðingu fyrir skólanum og þess vegna reynist þessi togstreita þeim erfið. Þetta rýrir gildi kennslunnar í barnaskólunum. Og einnig rýrir þetta uppeldi heimilanna. Ég hygg að sízt vilji kennarar að slík togstreita upprunnin af fávizku einni saman grafi undan þeirra mikilvæga starfi. Börn okkar eiga rétt á því að ganga í alvöruskóla þar sem menntun byggð á rannsóknum og vísindum fer fram. Barnaskólum á ekki að breyta prestaskóla. Því skora ég á foreldra heykjast ekki á því að láta skoðun sína í ljós gagnvart skólanum. Við eigum að standa saman að því að verja börn okkar gegn ofbeldisfullum yfirgangi utanaðkomandi aðila. Við eigum að geta treyst því að í skólanum sé börnunum óhætt. Þau fái þar notið alvörumenntunar sem byggð er á vísindum og þekkingu í stað vanþekkingar og hindurvitna.


hermundur - 23/01/07 20:35 #

Takk Reynir fyrir þín frábæru skrif. Nú á næstu dögum fer af stað undirskriftalisti foreldra gegn vinaleiðini og upplýsingar um hvernig má nálgast hann verður hægt að finna á trúmála spjallinu á visir.is Nú er um að gera að standa saman og losa okkur við þessa óværu... Kv Hermundur

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.