Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúfélagsskráning og Háskóli Íslands

Undanfarið hefur staðið yfir umræða um hvort Háskóli Íslands geti komist í hóp 100 bestu háskóla heims. Á það hefur verið bent að núna sé hann ekki einu sinni í hópi 1000 bestu, svo að það virðist mundu verða þungur róður að ná þessu annars göfuga markmiði. Róðurinn er því þyngri sem skólinn hefur úr minni peningum að spila, en fjársvelti hefur háð honum um margra ára skeið. Til er ráð til að bæta nokkuð úr þessu.

Þegar fólk er skráð utan trúfélaga renna sóknargjöld þess til Háskóla Íslands, skv. lögum nr. 91/1987. Ég hef oft orðið var við þann misskilning að þessi gjöld renni óskipt til guðfræðideildar, eða þá að þau renni óskipt til Siðfræðistofnunar og að þar ráði prestar lögum og lofum. Þessi útbreiddi misskilningur hefur valdið því að margir sem ekki aðhyllast þjóðkirkjukristni hafa ekki talið taka því að skrá sig utan trúfélaga, í þeirri trú að sóknargjöldunum yrði ráðstafað af prestum hvort sem er.

Staðreyndin er sú að sóknargjöld þeirra sem eru utan trúfélaga renna í Háskólasjóð. Úthlutunarnefnd, sem er skipuð af rektor, sér um að ráðstafa þessum tilteknu tekjum. Þessir fjármunir hafa runnið í margt gott og þarft á undanförnum árum, þar á meðal Sagnfræðistofnun, Siðfræðistofnun, Stúdentaleikhúsið, Háskólakórinn, Mannréttindastofnun HÍ, Bókmenntafræðistofnun, Alþjóðamálastofnun, Háskólabókasafn og Íslenska málstöð, svo eitthvað sé nefnt. Guðfræðideild fær eitthvað líka, sem er í sjálfu sér ekki skrítið fyrst HÍ er með slíka deild til að byrja með.

Ekki veit ég hvernig sá orðrómur komst á kreik, að eintómir guðfræðingar gíni yfir sóknargjöldum trúlausra. Þótt mér þyki satt að segja ólíklegt að sú sé raunin, þá hefði það samt verið útsmoginn leikur af Þjóðkirkjunni að dreifa þessum misskilningi til þess að letja fólk við að skrá sig utan trúfélaga...

Samkvæmt skoðanakönnun um trúarlíf Íslendinga, sem gerð var fyrir Þjóðkirkjuna 2004, aðhyllist verulega stór hluti Íslendinga aðrar lífsskoðanir en Þjóðkirkjukristni. Samt eru 85% þjóðarinnar skráð í Þjóðkirkjuna. Þetta misræmi er mikið og vandræðalegt fyrir kirkjuna, en er vafalítið bein afleiðing þess að ríki og kirkja skuli vera í einni sæng – sem tveir þriðju hlutar þjóðarinnar eru reyndar mótfallnir, sbr. skoðanakannanir Gallup undanfarin ár, síðast í október 2005. Það ætti að vera fólki kappsmál að trúfélagsskráning sé í samræmi við lífsskoðanir þess.

Ljóst er að það er hægur vandi að slá tvær flugur í einu höggi. Á heimasíðu Þjóðskrár, www.thjodskra.is, má nálgast eyðublað til að breyta trúfélagsskráningu sinni, prenta það, fylla út og senda í pósti. Heimilisfangið er Borgartún 24, 150 Reykjavík. Því fleiri sem ekki aðhyllast þjóðkirkjukristni og skrá sig í samræmi við lífsskoðanir sínar, þess betur mun trúfélagsskráning þjóðarinnar endurspegla lífsviðhorf hennar, og þess meiri fjármunum mun Háskóli Íslands hafa úr að moða. Hvort sem topp-100 listinn er raunhæft markmið eða ekki, þá gæti topp-1000 listinn í það minnsta að verið innan seilingar ef þjóðin sýnir hug sinn í verki – auðveldu verki – og auðveldar fremstu menntastofnun landsins að byggja sig upp og verða þjóðinni til enn meiri sóma.

Höfundur er mastersnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands


Birtist í Morgunblaðinu 12. desember

Vésteinn Valgarðsson 18.12.2006
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Árni Árnason - 18/12/06 11:14 #

ALLT RÉTT - EN SAMT RANGT

Ég óska Háskólanum alls hins besta, og sé ekki eftir einni krónu sem í hann fer ( nema kannski í guðfræðideildina )

Það er að vissu leyti bara gott að Háskólinn njóti þess að fleiri skrái sig utan safnaða.

Það er alls ekki slæmt "by product" að Háskólinn hagnist á brotthvarfi fólks úr þjóðkirkjunni.

Ég er hlynntur því að Háskólanum sé gert það mögulegt með auknum fjárframlögum að standa sig betur í alþjóðlegum samanburði.

En þetta fyrirkomulag, að við sem stöndum utan trúfélaga, séum skattlögð sérstaklega til þess arna er KOLRANGT og algerlega ólíðandi.

Það er algerlega fráleitt að láta sér detta það í hug að fjármagna Háskólann ( að hluta ) með sérstakri skattlagningu á trúlausa. Sjáið þið fyrir ykkur menn sitja á "brain storming" fundi þar sem leita á leiða til að afla Háskólanum tekna, og einhver stingur upp á því að skattleggja trúlausa ? Nei. Enda er þetta ekki tilkomið þannig.

Þetta verður til þannig að kirkjuþjónkandi höfundar stjórnarskráinnar VILDU mylja undir kirkjuna með sóknargjaldskerfinu og URÐU svo að leyfa öðrum "viðurkenndum" söfnuðum að vera með.

Eitthvað VARÐ svo að gera til að fjarlægja hvatann til að standa utan safnaða og losna við skattinn. Þar sem öllum er vel til Háskólans var það auðvitað snilldarlausn að gera utansafnaðafólk að sérlegum velgjörðarmönnum Háskólans. ( enda sjálfsagt frekar menntað fólk sem stendur utan safnaða ).

Sjá menn virkilega ekki plottið á bak við þessa þvælu?

Hættum þessu Pollýönnuleik. Þetta er svo fráleitt og fáránlegt að það tekur engu tali. Við eigum ekki að sætta okkur við þetta útúrruglaða kerfi, jafnvel þó að Háskólinn njóti góðs af.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 18/12/06 12:27 #

Það er hárrétt sem Árni segir, þetta kerfi er bara til þess að stoppa af alla þá sem myndu bara segja skilið við ríkiskirkjuna ef þeir spöruðu á því, enda flestir meðlimir þar vegna fasískrar ungbarnaskráningar en ekki af brennandi trúaráhuga.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/12/06 12:33 #

Eins og áður hefur komið fram er ég sammála Árna í grundvallaratriðum. Það breytir því samt ekki að þetta er staðan í dag og því þykir mér rétt að benda fólki á það.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 18/12/06 15:07 #

Ég sagði ekki að mér þætti að kerfið ætti að vera eins og það er, en það er samt eins og það er. Trúlausir ættu að sjálfsögðu ekki að þurfa að borga sóknagjöld, en þeir þurfa það, og á meðan svo er, þá er þetta skást í stöðunni.


Árni Árnason - 18/12/06 16:32 #

Hvaða skilaboð væri verið að senda út í þjóðfélagið ef sett yrðu lög sem skylduðu nauðgara til þess að nota smokk ?

Þetta er auðvitað dálítið djúp samlíking, en ég veit að þið getið verið þrældjúpir líka.

:-D Árni


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 18/12/06 19:00 #

Það er ekki eins og við séum ekki að berjast fyriur aðskilnaði ríkis og kirkju líka. Það er nú einu sinni eitt aðalverkefni talsmanna trúfrelsis hérlendis. Það skal samt enginn segja mér að það sé rétt að loka augunum fyrir mögulegum áfangasigrum.


Karl Birkir Flosason - 19/12/06 17:56 #

Mig minnir alveg endilega að einhverjir, hvort það hafi verið þið, siðmennt eða andspyrna.net, hafi verið með smá bás á síðustu Andkristnihátíð (tónleikar sem eru haldnir 22. des) þar sem fólki var boðið uppá að fylla út eyðublöð til að skrá sig úr þjóðkirkjunni. Það er svo asnalega mikið vesen að þurfa að skutlast með eitt og eitt blað niður á Hagstofu, að það er sniðugt að fara með sem flest í einu hefði ég haldið. Legg til að þetta verði gert aftur á næstu hátíð. Þetta kallast reyndar Vetrarsólstöðuhátíð núna minnir mig.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 20/12/06 02:29 #

Það vorum einmitt við Kári og Hjalti. Þetta var liður í herferðinni til að leiðrétta trúfélagsskráningar landsmanna. Hátíðin heitir Sólstöðuhátíð í ár og verður nú á föstudaginn í Tónlistarþróunarmiðstöðinni í Hólmaslóð 2.


Árni Árnason - 20/12/06 10:36 #

Eitt er það að fólk sem meðvitað, og jafnvel af ásetningi, hefur verið skráð í þjóðkirkjuna skifti um skoðun og gangi úr henni.

Annað og verra er að dæmin sýna að fjöldi manns sem aldrei ætlaði sér að vera í þjóðkirkjunni, eða hefur jafnvel sérstaklega skráð sig í aðra söfnuði og utan safnaða skuli "lenda" inn í henni óumbeðið.

Fróðlegt væri ef þið sem hafið aðstoðað fólk við leiðréttingu á trúfélagaskráningu sinni gætuð upplýst okkur hversu rammt kveður að slíkri falsskráningu. Án þess að ég sé að ætlast til einhverrar vísindalegrar úttektar á þessu, hafið þið einhverja tilfinningu fyrir því hve stór hluti þeirra sem þið hafið aðstoðað hefur "lent" inni í þjóðkirkjunni gegn vilja sínum ?


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 21/12/06 09:43 #

Í úrskráningarstarfinu hef ég a.m.k. engan hitt sem hefur sagst hafa lent í þessu -- en ég ímynda mér líka að þeir sem fatta að þetta hafi gerst séu almennt frekar fljótir að leiðrétta það sjálfir.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/12/06 09:49 #

Vandamálið er að þeir sem eru ranglega skráðir í Þjóðkirkjuna hafa ekki hugmynd um það, eðli málsins samkvæmt. Þeir einstaklingar hafa vissu um að þeir hafi þegar verið búnir að skrá sig utan trúfélaga og enga ástæðu til að gruna að sú skráning hafi ekki gengið í gegn eða gengið til baka.

Því er svo mikilvægt að upplýsingar um trúfélagaskráningu séu aðgengilegar, t.d. á skattframtali


S - 21/12/06 18:23 #

Það er kannski rétt að benda á að hérlendis er ekki bara sérstakur skattur lagður á trúlausa, heldur einnig á fylgjendur allra trúarbragða sem ekki eru með skrásett trúfélag á Íslandi.

Þannig borgar gyðingur sem búsettur er á Íslandi sérstakann skatt fyrir það eitt að vera gyðingur.

Hvet fylgjendur þessa kerfis til þess að setja fram rök fyrir þessu, ef þeir finna einhver.

Ég hef sagt það áður á þessum vetvangi að mér finnst þetta eiga að vera stóra málið varðandi baráttu fyrir bættu trúfrelsi á Íslandi, bæði vegna þess að aflagning þessa skatts er mikilvægt réttindamál og vegna þess að það eru mjög margt trúað fólk sammála okkur í þessu. Hefur einhver einhverntíman heyrt boðleg rök fyrir því að hafa þetta svona?

Hvaða stjórnmálamaður myndi svara með "já" spurningunni hvort hann væri fylgjandi því að leggja sérstakann skatt á það að vera gyðingatrúar?

Vantrú, Siðmennt eða eitthvert slíkt félag (jafnvel félag íslenskra gyðinga, ef það er til) ætti jafnvel að safna fé til að reka fyrir dómstólum mál einstaklings sem myndi neita að greiða skattinn (eða réttara sagt heimta endurgreiðslu á honum) á þeirri forsendu að það standist ekki stjórnarskrárbundið trúfrelsi hans að þurfa að greiða sérstakann skatt fyrir trúarskoðun sína. Ef svo ólíklega fer að málið tapast ætti það að vinnast ansi auðveldlega hjá mannréttindadómstóli Evrópu.

Til að spara lögfræðikostnað væri gott fyrsta skref að óska eftir áliti umboðsmanns Alþingis á sérskatti á að standa utan skráðra trúfélaga.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.