Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Svæðanudd

Svæðanudd er fótanudd sem notað er til að greina og lækna sjúkdóma. Á fjórða áratug síðustu aldar beitti Eunice Ingham (1889-1974) rakhníf Occams á kenningar dr. William Fitzgerald, sem settar voru fram í bók hans Svæðameðferð (e. Zone Therapy) (1917), og útkoman varð svæðanudd. Hún fjarlægði flest öll orkusvæði Fitzgeralds, sem hélt því fram að líkaminn hafi tíu slík svæði, og skildi einungis eftir fæturnar. Svæðanudd byggist á þeirri órökstuddu trú að sérhver hluti fótanna eigi sér samsvörun í líkamanum. Til dæmis er stóra táin svæði sem samsvarar höfðinu. Líkt og lithimnulestur notar lithimnu augans til að kortleggja líkamann, þá kortleggur svæðanuddið líkamann með fótunum þar sem hægri fóturinn samsvarar hægri hlið líkamans og vinstri fóturinn samsvarar vinstri hliðinni. Vegna þess að allur líkaminn á sér samsvörun í fótunum þá líta þeir, sem leggja stund á svæðanudd, á sig sem heildræna meðferðaraðila en ekki sem fótanuddara. Sögur herma að Forn-Kínverjar og Egyptar hafi lagt stund á svæðanudd og það er enn mjög vinsælt í Evrópu.

Þeir sem leggja stund á svæðanudd halda því fram að þeir geti læknað marga verki og linað sársauka með því að nudda rétta þrýstipunkta á fótunum. Því er einnig haldið fram að svæðanudd geti læknað mígreni og stíflaðar ennisholur. Það getur komið hormónunum í jafnvægi og læknað ýmist öndunarvandamál og meltingartruflanir. Ef þú þjáist af bakverkjum þá er hægt að laga það með því að nudda ákveðinn punkt á hægri fót (í sumum tilfellum gæti það verið á vinstra fót). Ef þú ert hrjáður af kvillum sem tengjast blóðrásinni eða þjakaður af spennu og streitu þá á að vera hægt að lagfæra það með svæðanuddi.

Til eru margar útgáfur af svæðanuddi og mörg nöfn notuð yfir mismunandi útfærslur, þar má nefna svæðameðferð, viðbragðsfræði og þrýstinudd. Sumir fótsnyrtar stunda líka svæðanudd en það þurfa ekki endilega að vera tengsl á milli þessarra sviða. Sumir svæðanuddarar neita því að þeir greini og meðhöndli sjúkdóma, en þeir halda því aftur á móti fram að þeir geti komið „orku“ manna í „jafnvægi“.

Svæðanudd er oft notað samhliða öðrum meðferðum, þar má nefna punktanudd (e. acupressure), shiatsu (japanskt fingranudd), jóga og tai chi (kínversk leikfimi), og oft eru hendurnar einnig nuddaðar sem og önnur svæði eða hlutar líkamans, ekki bara fæturnir. Svæðanudd virðist vera einhvers konar útgáfa af punktanuddi en þar er því einnig haldið fram að samband sé á milli sérstakra þrýstipunkta og orkuflæðis til ýmissa líkamsparta. Pólunarmeðferð, eitt afbrigði svæðanudds, skiptir út jin og jang andstæðunum fyrir jákvæða/neikvæða orkuhleðslu á hliðum líkamans (hægri hliðin er jákvætt hlaðin), með nuddi á að vera hægt að koma réttu jafnvægi á orkuhleðslu líkamans. Í pólunarmeðferð eru fæturnir einungis hluti af mörgum lykilstöðum sem nudda á.

Ein ástæða þess að fótanudd er svo þægilegt og oft tengt við betra skaplyndi er sú að þau svæði í heilanum sem tengd eru fótunum liggja nálægt þeim svæðum sem tengast kynfærunum. Kannski eru einhverjar heilataugar sem tilheyra báðum þessum svæðum. Taugasérfræðingurinn V. S. Ramachandran hefur greint frá manni sem hafði misst annan fótinn og fékk fullnægingar tilfinningu í þeim fæti. (1998: 36-37). „Kynfærin eru staðsett nálægt fótunum í heilanum“, segir hann og veltir upp þeirri hugmynd að þetta geti útskýrt fótablæti (e. foot fetishes).

Skeptic's Dictionary: reflexology


Helstu heimildir

Barrett, Stephen and William T. Jarvis. eds. The Health Robbers: A Close Look at Quackery in America, (Amherst, N.Y.: Prometheus Books, 1993)

Ramachandran, V.S. and Sandra Blakeslee. Phantoms in the Brain (Quill William Morrow, 1998)

Lárus Viðar 17.12.2006
Flokkað undir: ( Efahyggjuorðabókin )

Viðbrögð


Heba - 19/03/07 09:34 #

Ég vil taka fram að ég hef enga þekkingu á svæðanuddi og hef aldrei farið í slíkt nudd. En ofangreind yfirferð virðist í mínum huga tilgangslaus. Þetta er afar stuttaralegur úrdráttur um svæðanudd með háðskum undirtóni. Hvorki eru sett fram rök eða skýringar til sýna fram á gagnsleysi svæðanudds og því getur texti sem þessi auðvitað ekki gagnast í baráttu gegn hindurvitnum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 19/03/07 09:43 #

Ef lesendur vilja lesa meira um svæðanudd vil ég hvetja þá til að fylgja vísunum í greininni. Gott er að byrja á ensku útgáfu greinarinnar Orðabók efahyggjunnar.

Þetta er afar stuttaralegur úrdráttur um svæðanudd með háðskum undirtóni.

Já. Og?

því getur texti sem þessi auðvitað ekki gagnast í baráttu gegn hindurvitnum.

Þetta finnst mér undarleg fullyrðing. Þessi stutta kynning útskýrir á skýran hátt út á hvað svæðanudd gengur. Auk þess eru vísanir sem lesandi getur fylgt ef hann vill kynna sér málið betur. Ég mæli t.d. með þessari grein á QuackWatch, en á hana er vísað frá ensku útgáfu greinarinnar.


Erlendur (meðlimur í Vantrú) - 19/03/07 14:40 #

Ég verð að viðurkenna að ég er núna búinn að lesa þetta þrisvar yfir og ég sé ekki háðska tóninn. Vill einhver benda mér á hann?


LegoPanda (meðlimur í Vantrú) - 20/03/07 01:05 #

Ég tek undir með Erlendi - hvernig túlkast háð úr þessari grein?

Mér finnst greinin frekar vera skrifuð frá hlutlausu sjónarmiði - þ.e. skrifað er að einhverju sé haldið fram af tilgreindum hópi, en hvorki neitt slæmt né gott um þá afstöðu er sagt í greininni.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.