Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Meirihlutagoðsögnin

Í umræðum um samband ákveðins trúfélags og opinberra stofnana er oft reynt að réttlæta óréttlætanlegan ágang trúfélagsins með því að halda því fram að mikill meirihluti Íslendinga sé kristinn.

Það er kannski rétt að taka það fram að þó svo að mikill meirihluti væri kristinn, þá gefur það trúfélaginu ekki leyfi til þess að starfa innan opinberra stofnana. Meirihlutinn hefur ekki rétt á því að níðast á minnihlutanum.

En þessi rök sjást því miður oft, hérna er nýlegt dæmi:

Í þeirri námsgrein [kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði] á í ljósi breyttra tíma að leggja áherzlu á fræðslu um önnur trúarbrögð en kristindóminn, sem mikill meirihluti landsmanna aðhyllist. [leturbreyting mín – HRÓ] – Leiðari Morgunblaðsins 7. nóvember 2006

Þegar fólk heldur því fram að meirihluti landsmanna sé kristinn er sjaldnast sagt hvað það eigi við með orðinu “kristinn”.

Höfundur leiðarans gæti til dæmis skilgreint kristinn einstakling sem meðlim í kristnu trúfélagi. Ef svo er þá er það rétt hjá honum að mikill meirihluti Íslendinga er skráður í kristnu trúfélagi. En á Íslandi er fólk sjálfkrafa skráð í trúfélag móður við fæðingu og um það bil helmingur meðlima stærsta kristna trúfélagsins í landinu hefur að eigin sögn aldrei hugsað neitt sérstaklega um þessa aðild sína[1]. En þessi skilgreining er stórgölluð. Ímyndum okkur mann sem afneitar öllum trúarkenningum kristinnar trúar, jafnvel meðlimur í Vantrú, en er enn þá skráður í Þjóðkirkjuna af því að móðir hans var í henni þegar hann fæddist. Er hann kristinn? Ég held að flestir séu ósammála því. Það sama gildir um þá skilgreiningu á kristnum einstaklingi að skírður einstaklingur sé kristinn.

Ég held að flestir séu sammála því að það að kalla einhvern kristinn sé að halda einhverju fram um trúarskoðanir hans, að halda því fram að hann aðhyllist kristnar trúarkenningar. Í könnununum Trúarlíf Íslendinga, sem framkvæmdar voru árin 1986 og 2004, var spurt um afstöðu fólks til tveggja af grundvallarkennisetningum kristindómsins. Annars vegar var spurt um guðshugmynd fólks og hins vegar um eðli Jesú.

Árið 1986 sögðu 36,4% að til væri kærleiksríkur guð sem maður gæti beðið til, árið 2004 var sama tala 39,4%[2]. Aðeins 35-40% Íslendinga merkja við það sem höfundar könnunarinnar 1986, dr. Pétur Pétursson og dr. Björn Björnsson, kölluðu hina “klassísku kristnu guðshugmynd”[3].

En eins og orðið “kristinn” gefur til kynna hlýtur afstaða fólks til Jesú Krists að skipta máli. Pétur og Björn segja í umfjöllun sína um það hvort Íslendingar séu kristnir:

Eitt er það trúaratriði sem öðrum fremur verður látið skera úr því hvort menn telja sig vera kristna eður ei. Það felst í því hvaða afstöðu menn taka til Jesú Krists. Frá öndverðu var það spurningin, sem Jesús sjálfur lagði fyrir lærisveina sína, er úrslitum ræður. „Hvern segja menn Mannsoninn vera?” Þeir svöruðu: „Sumir Jóhannes skírara, aðrir Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum”. Hann spyr: „En þér, hvern segið þér mig vera?” Símon Pétur svarar: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs”. Þá segir Jesús við hann: „Sæll ert þú Símon Jónasson”.” (Matt. 16:13-17) Hin fyrsta kristna trúarjátning að því talið er, er sama eðlis og játning postulans og hljóðar stutt og laggott: „Jesús Kristur er Drottinn”. (Fil. 2:11).[4]

Hlutfall þeirra sem tóku undir þessa játningu og sögðu að Jesús væri sonur guðs og frelsari var 44,5%[5]. Svör fólks við þessari spurningu í nýju könnuninni hafa af einhverjum ástæðum ekki verið birt.

Þannig að fólk sem aðhyllist að að minnsta kosti tvær af meginkenningum kristindómsins er á bilinu 35-45%, ekki einu sinni meirihluti. Ef við spyrðum fólk út í aðrar grundvallarkenningar eins og þrenningarkenninguna, upprisu holdsins og friðþægingarkenninguna grunar mig að talan myndi lækka.

Samkvæmt þessari eðlilegu skilgreiningu er það rangt að mikill meirihluti Íslendinga sé kristinn, þvert á móti eru kristnir í minnihluta.

Ég er viss um að sumir vilja nota víðtækari skilgreiningar, eins og að það nægi að líta upp til Jesú og að trúa á guð til þess að teljast kristinn. En samkvæmt þessari skilgreiningu eru múslímar kristnir. Ef maður ætlar að skilgreina mikinn meirihluta Íslendinga sem kristna lendir maður alltaf í svona ógöngum. Ef maður beitir nothæfum skilgreiningum, þá kemst maður að því að meirihluti Íslendinga er ekki kristinn.


[1] Björn Björnsson og Pétur Péturssin Trúarlíf Íslendinga. Félagsfræðileg könnun. Ritröð Guðfræðistofnunar nr. 3, Rvík 1990. bls. 204 tafla VIII,1 “Ég hef aldrei hugsað neitt sérstaklega um þessa aðild mína. [að Þjóðkirkjunni]”: 46,6%
[2] Trúarlíf Íslendinga 2004 (*.pdf) bls. 30
[3] Trúarlíf Íslendinga 1990 bls. 12
[4] Trúarlíf Íslendinga 1990 bls. 44
[5] Trúarlíf Íslendinga 1990 Tafla II,7 bls. 18

Hjalti Rúnar Ómarsson 15.12.2006
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Klassík )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 15/12/06 10:12 #

Samkvæmt skilgreiningu Péturs og Björns eru ekki einu sinni allir Þjóðkirkjuprestar kristnir. Ég veit í það minnsta um einn sem ekki gengur út frá því að Jesús hafi verið sonur guðs, heldur venjulegur maður sem guð tók í þjónustu sína - spámaður.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 15/12/06 10:44 #

Kristnir menn eiga sína trúarjátningu, sem gjarnan er þulin í kirkjum. Enginn ætti að teljast kristinn (skv. kirkjunni) sem getur ekki tekið undir ALLT í henni. Fyrir utan öll hindurvitnin og bábiljurnar, sem í henni eru talin upp, þarf fólk að játa trú á "heilaga, almenna kirkju". Hver sem hefur snefil af söguþekkingu eða fylgist með óheiðarleika kirkjunnar um þessar mundir hlýtur að hiksta rækilega á þessu atriði.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 16/12/06 15:11 #

Ert þú í meirihluta? Sjá trúarjátningaprófið


Árni Árnason - 18/12/06 13:32 #

Þó að vissulega sé fróðlegt að skoða hversu raunveruleg sú kristni er, sem talin er réttlæta fyrirferð hinnar Evangelísku-Lútersku þjóðkirkju í okkar þjóðfélagi, þá verðum við að passa okkur að týnast ekki um of í þeirri umræðu.

Eftirfarandi tilvitnaða klausa úr greininni að ofan er nefnilega kjarni málsins.

"Það er kannski rétt að taka það fram að þó svo að mikill meirihluti væri kristinn, þá gefur það trúfélaginu ekki leyfi til þess að starfa innan opinberra stofnana. Meirihlutinn hefur ekki rétt á því að níðast á minnihlutanum."

Með stuðningi sínum og þjónkun við Lúters- kristnina er ríkisvaldið að gefa þeirri trú einhverskonar viðurkenningarstimpil, sem í felst væntanlega að hún sé eitthvað réttari eða betri en önnur trú, og því beri að styðja hana og vernda umfram aðra trú.

Það er mikið vald sem ríkisvald tekur sér að flokka trúarbrögð með þessum hætti.

Ein trúarbrögð geta aldrei verið réttlætanlegri en önnur. Þau eru og geta aðeins verið hver öðrum vitlausari.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.