Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er siðfræði guðfræði?

Háttsettir menn innan kirkjunnar hafa gjarnan haldið því fram að án trúarbragða sé ekkert siðferði mögulegt og að trúleysi ógni mannlegu samfélagi. Með þessu eru þeir að halda því fram að trúleysingjar geti ekki verið siðferðisverur vegna þess að „án Guðs sé allt leyfilegt.“ En hver er grundvöllur siðferðis þeirra?

Kristnir kenna að Guð hafi skapað heiminn og okkur sem í honum lifa með einhvern tilgang í huga. Sá tilgangur er að vísu (aðeins) á huldu en ýmislegt hefur verið opinberað, t.d. af kirkjunni og í heilagri ritningu. Samkvæmt þessum heimildum hefur Guð gefið mannkyninu ýmsar reglur sem nauðsynlegt er að fylgja til að lifa góðu lífi. Að vísu lét Guð sér þetta ekki nægja heldur gaf hann okkur líka frjálsan vilja til að fylgja eða hafna boðorðum hans (en þá verðum við líka að taka afleiðingunum).

Til eru guðfræðingar sem hafa búið til úr þessu svokallaða boðorðakenningu um siðferði. Samkvæmt þessari kenningu merkir það að eitthvað sé „siðferðilega rétt“ að það sé „fyrirskipað af Guði“ og að það sem er „siðferðilega rangt“ merkir að það sé „bannað af Guði“. Siðferði ræðst af vilja Guðs og dyggðugur maður er sá sem fylgir honum. Ef við látum sem svo að þetta sé satt, hvaða afleiðingar hefur það þá? Siðferðilegar spurningar ættu sér fullkomlega hlutlægt svar. Þetta væri bara spurning um að lesa ritningarnar rétt.

En ef skyggnst er aðeins undir yfirborðið koma í ljós alvarlegir gallar á kenningunni og hafa þeir raunar verið þekktir á þriðja árþúsund. Platón, í gervi Sókratesar, spyr í einni af samræðum sínum: „Er breytni rétt vegna þess að guðirnir fyrirskipa hana eða fyrirskipa guðirnir hana af því að hún er rétt?“ Ef við samþykkjum hið fyrra, og með því boðorðakenninguna, lendum við í þversögn. Segjum t.d. sem svo að fóstureyðingar séu rangar af því að Guð skipar svo fyrir. Með því erum við að segja að ástæðan fyrir því að fóstureyðingar séu rangar sé sú að Guð skipar svo fyrir. Fóstureyðingar eru ekki réttar né rangar óháð þessu boðorði Guðs. Það er vilji hans sem gerir fóstureyðingar rangar.

Bíðum nú aðeins við. Af þessu leiðir að skipanir Guðs eru byggðar á geðþótta. Guð hefði vel getað skipað fyrir um eitthvað allt annað, eins og t.d. að fóstureyðingar væru í öllum tilfellum mjög jákvæðar. Athugið að Guð getur gert þetta vegna þess að það er fyrirskipun hans sem gerir fóstureyðingar að synd og að þær voru það ekki áður en hann mælti svo fyrir.

Þversögnin er sú að Guð er í huga trúaðra ekki bara almáttugur og alvitur heldur líka algóður og ef fallizt er á að gott og illt sé skilgreint af vilja hans hefur maður gert, eins og Leibniz sagði, „óafvitandi að engu allan kærleika Guðs og alla dýrð hans“. Því að ef eitthvað er gott og að það er gott af því að Guð fyrirskipar það þýðir setningin: „Boðorðs Guðs eru góð“ einungis “boðorð Guðs eru boðorð Guðs.“ Leibniz heldur áfram: „Hvers vegna að lofa hann [Guð] fyrir verk hans ef hann væri jafn lofsverður fyrir að gera hið gagnstæða?“ Jafnvel guðhræddasti biskup gæti ekki sætt sig við þessa niðurstöðu.

Hægt væri að reyna að komast hjá þessu með því að segja að þetta sé ekki svona. Guð er alvitur og skilur hvað er gott og hvað er illt og skipar fyrir til samræmis við það. En þá hefur maður í raun hafnað boðorðakenningunni og það er einmitt það sem margir trúaðir gera.

Kaþólskir, með heilagan Tómas frá Akvínó í broddi fylkingar hafa nefnilega aðra og betri kenningu. Þeir aðhyllast svokallaða náttúrulagakenningu. Hún er í grunninn komin til kirkjunnar frá Aristótelesi og byggir á ákveðinni tilgangshyggju. Skipan náttúrunnar er skynsamleg og gegnir hver hluti hennar tilteknu hlutverki. Uppáhaldsdæmi Aristótelesar er af rigningunni. Samkvæmt honum er hún til þess að hjálpa plöntum að vaxa. Þessa sýn á heiminn tóku guðfræðingar miðalda fegnir upp á arma sína: Ef tilgangur er í náttúrunni liggur beint við að líta svo á að það sé tilgangur Guðs enda var það hann sem skapaði heiminn.

Kenningin segir ekki bara hvernig hlutirnir eru heldur líka hvernig þeir eiga að vera, annars væri hún ekki siðfræðikenning. Hlutur sem uppfyllir tilgang sinn er góður en sá sem gerir það ekki er slæmur. Tilgangur kynlífs er t.d. getnaður og brýtur kynlíf sem ekki leiðir til getnaðar þessi náttúrulög og er því rangt. Í raun er það hugmyndin um náttúrulega og ónáttúrulega hegðun sem liggur til grundvallar siðfræði kaþólsku kirkjunnar.

Tvennt mætti týna til gegn náttúrulagakenningunni, í fyrsta lagi samræmist hún ekki heimsmynd vísindanna. Veðurfræðin kennir okkur t.d. að regnið falli vegna ópersónulegra náttúrulögmála og líffræðin að plöntur séu eins og þær eru vegna þess að þær hafa þróast eftir ákveðnum lögmálum. Í annan stað er það ekki svo í raun og veru að það sem er og það sem ætti að vera sé það sama. David Hume benti fyrstur manna á þetta og bætti því við að ekkert röklegt samhengi sé á milli þessara hluta.

Þeir sem aðhyllast náttúrulagakenninguna halda því fram að siðadómar séu boð skynseminnar. Við getum skilið lög náttúrunnar vegna þess að Guð hefur gætt okkur skynsemi. Rétta breytni er hægt að og á að styðja með rökum. Heilagur Tómas segir: „Að lítilsvirða boð skynseminnar jafngildir því að fordæma boðorð Guðs.

Nú skiptir ekki máli hvort Guð skapaði manninn eða ekki, skynsemin er söm hvort sem maður er trúaður eða ekki. Hvort sem það er rétt eða rangt sem náttúrulagamenn segja þá hafa trúleysingjar nákvæmlega sömu möguleika til að lifa dyggðugu lífi og þeir sem trúaðir eru. Siðferði er óháð trúarbrögðum.

Ásgeir Berg Matthíasson 05.10.2006
Flokkað undir: ( Klassík , Siðferði og trú )

Viðbrögð


Khomeni - 05/10/06 09:28 #

Frábær grein og gagnleg. Fyrirtak.


Geimapinn Þór - 05/10/06 14:34 #

Ígulhress grein ... og ég sem hélt að ég yrði að trúa á guð til að vera góður strákur :)

From now on I make my own commandments.


Kristín Helga - 05/10/06 18:50 #

Góð grein. Leiðinlegt að vera stimplaður siðlaus fyrir að vera trúlaus.


Bjarni - 05/10/06 21:16 #

Af þessu leiðir að skipanir Guðs eru byggðar á geðþótta.

Væri guð guð ef að orð hans byggðu ekki á geðþótta? Er ekki allt sem guð gerir byggt á geðþótta, væri hann annars ekki að taka við fyrirmælum frá einhverjum öðrum?


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 06/10/06 00:01 #

Í næstu efnisgrein er útskýrt af hverju það þykir ekki gott. Auk þess þyrfti það ekki að vera að Guð tæki við fyrirmælum frá öðrum, spurningin er hvort til er siðferðilegur mælikvarði óháður Guði.


Gunnar - 06/10/06 01:45 #

Sumir eiga bara bágt, verstu óvinir trúaðra eru þeir sem trúa á trúarbrögð... Ekki dæma alla sem trúa eftir þeim sem predíka.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 06/10/06 08:07 #

Við gerum það ekki heldur. Við eigum mjög mikið sameiginlegt með hinum venjulega trúmanni en hann er hluti af sama hugmyndakerfi og hjá öfgamönnum og við gangrýnum þá sem predika og trúarbrögðin sjálf.

Við erum ekki að gangrýna þig persónulega, þú verður að átta þig á því.


hnakkus - 06/10/06 11:14 #

Þetta er mjög fín grein. Takk fyrir mig Ásgeir


Ormurinn - 06/10/06 12:29 #

Nú skiptir ekki máli hvort Guð skapaði manninn eða ekki, skynsemin er söm hvort sem maður er trúaður eða ekki. Hvort sem það er rétt eða rangt sem náttúrulagamenn segja þá hafa trúleysingjar nákvæmlega sömu möguleika til að lifa dyggðugu lífi og þeir sem trúaðir eru. Siðferði er óháð trúarbrögðum.

..nema.. nú gæti trúmaðurinn sagt að það sé óskynsamlegt að trúa ekki og því hafi trúleysingjar ekki sömu möguleika á dyggðugu lífi.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 06/10/06 12:47 #

Ef þú teldir það dyggð að trúa sem líklega flestir trúaðir gera en þá er engu að síður eina siðleysið sem hægt er að snúa upp á trúlausa að vera trúlausir.


Júlli - 15/10/06 01:05 #

Er ekki líklegra að maður sem trúir því að verða dæmdur af verkum sínum eftir þetta líf breyti rétt og virða líf annarra.

það er allavega auðveldara að halda eitt alsherjar fyllerí í þessu lífi ef ekkert bíður þín eftir dauðann!!


asta - 15/10/06 01:47 #

Eg held það sé ekki líklegra til að trúaður maður, sem hefur allt sitt siðgæði frá trúarbrögðum, breyti rétt, en sá sem hefur siðgæði sitt frá eigin dómgreind. Trúaði maðurinn getur misst trú sína og hefur þá enga siðgæðisvitund. Samanber fyrirgefningu. Eg reyni að fyrirgefa ef einhver gerir eitthvað á hlut minn, því mér líður betur þannig. Mér hefur tekist það alveg ágætlega án hjálpar frá guði. Margir kristnir halda því fram að þeir geti ekki fyrirgefið hjálparlaust, þeir biðja guð að hjálpa ser að fyrirgefa. Ekki það að ég álíti fyrirgefningu vera einhvern eiginleika sem eykur siðgæðisvitund. Eykur bara eigin vellíðan

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.