Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Leiðir Kristur börnin heim úr skólanum?

Ég hef lengi haft fordóma gagnvart kennslu í kristnifræðum við íslenska grunnskóla. Ég hef samhneykslast þeim sem segja ríkið vera að boða fagnaðarerindið að foreldrum barna, og börnum, óspurðum. Ég kalla þetta fordóma því að þeir voru það. Ég hafði lítið gert til að kynna mér málið, vissi bara að kristnifræðin er enn í dag kennd.

Það er oft ekki fyrr en málin varða manns nánustu að áhyggjurnar verða meiri og raunverulegri. Nú í ágúst byrjuðu bæði stjúpdóttir mín og bróðir í fyrsta bekk. Ég hef ekki séð stundaskrá bróður míns en þegar skrá stjúpdóttur minnar kom í hús rak ég strax augun í reit merktan kristinfræði. Ég endurtek: kristinfræði, ekki trúarbragðafræði. Ég var fljótur að hneykslast á þessum ómerkilega tveggja fersentímetra reit en skynsemin greip í taumana og ég spurði sjálfan mig: Hvað þýðir þetta eiginlega.

Ég var fljótur að finna aðalnámskrá grunnskóla á netinu (þakkir til menntamálaráðuneytisins). Undir liðnum þrepamarkmið fyrir 1. bekk er því lýst hvers til er ætlast af kennurum í kristni- og trúarbragðafræðum við íslenska grunnskóla. Ég læt lesendum það eftir að skoða námskránna en ætla að telja upp nokkur atriði hennar. Þau sem koma verst við mig í þrepamarkmiðum 1. bekkjar eru eftirfarandi: Nemandi

  • kynnist kristinni sköpunartrú og skoði sjálfan sig,umhverfi sitt og samskipti við aðra í ljósi hennar
  • kynnist afstöðu Jesú til barna, m.a. með frásögninni Jesús blessar börnin.
  • geri sér ljóst hvað bæn er og læri að þekkja faðir vor, kvöld- og morgunbænir og borðbænir.

Þessi atriði get ég ekki skilgreint sem neitt annað en kristniboð. Að börn skoði sig sjálf og umhverfi sitt í ljósi kristinnar sköpunartrúar er fráleitt að kalla trúarbragðafræðslu. Það er verið að segja börnunum að prófa, gá hvort þau séu ekki til í að trúa þessu. Ætlast er til þau þekki afstöðu Jesú til barna, sem í samhengi kennslunnar (samkvæmt námskrá) getur varla talist annað en áróður. Svo eiga börnin að læra að þekkja bænir, og þó að ég geti ekki fullyrt um það, sýnist mér á öllu að kenna eigi þeim bænina sem Jesú kenndi heiminum. Síðasti liður þrepamarkmiða segir svo að börnin eigi að gera sér ljóst að engir tveir séu eins, t.d. með frásögnum af börnum með ólíkan bakgrunn. Þessi liður er jafnframt óskýrastur.

Nú ætla ég að taka það fram að ég skipti mér ekki af því hvort stjúpdóttir mín eða bróðir trúi á guð. Það er eitthvað sem ég vil leyfa þeim að velja sjálfum. Foreldrar mínir og stjúpdóttur minnar taka afstöðu um það hverju er ýtt að börnunum í hinu daglega lífi. Ég er nefnilega ekki eins og ríkið. Ég vil leyfa fólki að velja.

Margir myndu eflaust segja að ríkið leyfi val og að það sé alls ekki að neyða neinn til kristni, aðeins að fræða börnin um trúarbrögð og menningarsögu. Ég er hlynntur fræðslu um trúarbrögð og menningarsögu. Það þarf enginn að efast um það. En að byrja á því að kenna eingöngu kristin fræði, á meðan börnin eru á yngstu og viðkvæmustu stigum skólagöngunnar , er alls ekki val. Það er verið að setja fast viðmið á meðan börnin skilja ekki að í öllum málum eru viðmiðin fleiri og oft veljum við sjálf eftir hverju þeirra við förum. Enginn gæti sagt að hjúkrunarfræðingur sem heldur tveggja klukkustunda fyrirlestur um áfengisdrykkju fyrir skólabörn, en endar fyrirlesturinn á orðunum ,,en auðvitað er þetta ykkar líf og þið ráðið sjálf hvort þið byrjið að drekka” sé ekki að reyna að hafa áhrif á börnin.

Ef ríkið hefði raunverulegan áhuga á að kenna börnum umburðarlyndi og val í trúmálum væri námskráin á annan veg. Fyrstu tvö til þrjú árin væri kennd trúarbragðafræði, ekki kristnifræði. Þannig væri börnunum gert fyllilega ljóst að fólk velji sjálft sín trúarbrögð. Síðan væri hægt að kynna börnum kristni umfram önnur trúarbrögð, með þeim rökum að þetta séu þau trúarbrögð sem mest áhrif hafa haft á íslenskt samfélag. 5-7 ára krakkar hafa ekki vit á að taka orð kennara með fyrirvara. Þetta ætti ríkið ekki að nýta sér, heldur verja rétt barna til að velja, án áróðurs.

Í námskrá er hvergi minnst á fræðslu þess efnis að hægt sé að vera trúlaus. Trúlausir eru stærri hluti Íslendinga en Hindúar, Búddistar, Gyðingar. Ég get ekki litið það öðrum augum en að verið sé að mismuna mér og mörgum samborgurum mínum.

Ég ætla hvorki að dæma kennara stjúpdóttur minnar né bróður fyrirfram. Það kann að vera að þeir fylli upp í götin sem ríkið skilur eftir í námskrá. En baráttan fyrir stjórnarskrárbundnu trúfrelsi mun halda áfram þar til reglugerðum hefur verið breytt í samræmi við það.

Árni Gunnar Ásgeirsson 05.09.2006
Flokkað undir: ( Aðsend grein , Skólinn )

Viðbrögð


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 05/09/06 09:38 #

Fyrir 6 árum síðan voru haldnir "bænadagar" í Melaskóla. Þá voru öll börnin skikkuð til að skrifa bænir til Jesú og myndskreyta. Ég neitaði að barnið mitt væri sett í þetta þar sem þetta væri ekki trúarbragðakennsla heldur kristið trúboð. Var þá brugðið á það ráð að prenta út nokkrar tilbúnar bænir fyrir son minn svo hann þyrfti ekki að skrifa sjálfur bænir til Jesú og þurfti hann ekki að gera annað en að myndskreyta.

Hann teiknaði myndir af jólasveini á allar Jesúbænirnar! Djöfull var ég stoltur af honum! En auðvitað er þetta trúarfasismi og ekkert annað.


Guðmundur - 05/09/06 10:33 #

Kristinfræði eins og ég man hana úr minni barnæsku var ekkert annað en trúboð, og ég á agalega erfitt að trúa því að það hafi breyst eitthvað á þessum 20 árum.

Trúarbragðafræði á að kenna sem sagnfræði og byrja þegar nemendur eru orðinir nægilega þroskaðir til þess að mynda sér eignin skoðanir á trúmálum.


Árni Árnason - 05/09/06 12:57 #

Ég er því miður orðinn of gamall til þess að eiga börn á þessu skólastigi, og vantar því algerlega tilefni til þess að fara og gera hávaða út af svona málum. Það breytir þó ekki því að það sýður á mér að gera eitthvað í málinu, annað en að pirra mig við aðra sem eru sömu skoðunar. Það þyrfti einhver sem málið er skylt að leggja fram formlega kæru, og koma þessu í hámæli og fjölmiðlaumræðu. Ég heiti stuðningi mínum hverjum þeim sem brýtur þann ís.


Steindór J. Erlingsson - 05/09/06 13:22 #

Fyrir þá sem hafa áhuga þá birti ég tvær greinar um svipað efni í Morgunblaðinu síðast liðið haust og í vor:
Trúleysi skiptir líka máli
Byrjað á röngum enda


óðinsmær - 06/09/06 19:00 #

það eru mjög margir sem vilja ekki búa í samfélagi þarsem börnum er ekki kennt um mikilvægi þess að taka Jesú sér til fyrirmyndar en það er ekki víst að kennsla um sköpunarsögu biblíunnar hjálpi þar til. Það ætti að sleppa því fyrir sex ára börn, enda er það alltof háfleygt. Fyrir þau er Jesú og ævintýralegt líf hans alveg nóg. Í bænaflokk kennslunnar er alveg hægt að kenna um bænir og viðhorf til Guðs, frá ýmsum menningarheimum og mér finnst alveg að kennarar megi fullvissa börn á þessum aldri um að þau eigi sér öll sérstakt samband við Guð en það er vissulega áróður að einskorða bænirnar við hið kristna. Það ætti að kenna börnum hugleiðslu og fleira um leið.

Málið er einfaldlega það að trúlausum foreldrum er ekki treystandi til þess að veita börnum sínum fullkomna andlega rækt, margir gera það samt en vandamálið stafar af herskáum guðlausum foreldrum sem halda börnum sínum frá því að heyra um Jesú, eða eitthvað trúarlegt og gott. Þannig foreldrar geta hæglega rifið niður það litla sem trúboðinu tekst að koma til skila og þessvegna er þetta ekki mikið vandamál, hérna í þessu trúleysissamfélagi. Sum börn fæðast með trúarlega þörf, eða eitthvað álíka og það er sorglegur glæpur að svipta þau tilviljanakennt þessu sem þau þrá svo mjög, einsog gerist ef þau eiga trúlausa foreldra.

Ég geri mér grein fyrir því að trúleysi gerir fólk ekki að verri foreldrum, ég tók bara fyrir þetta eina sem getur orðið vandamál, ef einhver eftirfylgni með trúarsiðfræði er ekki til staðar í skólakerfinu.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 06/09/06 19:13 #

Málið er einfaldlega það að trúlausum foreldrum er ekki treystandi til þess að veita börnum sínum fullkomna andlega rækt...

Mér dettur helst í hug að segja þér að éta skít. Hvernig í dauðanum kemstu að þessari niðurstöðu? Er eitthvað grundvallaratriði að börn heyri um þenna Jesú? Hvað þá með meirihluta foreldra í heiminum, hindúa, múslima, búddista...? Er þeim einum foreldrum treystandi sem halda að börnum einhverjum misgóðum siðferðisboðum heimsendaboðanda aftan úr fornöld?


Arnold (meðlimur í Vantrú) - 06/09/06 19:50 #

óðinsmær, meinar þú þetta virkilega í alvöru?


óðinsmær - 06/09/06 21:47 #

já ég meina þetta, en ekki á þann harkalega hátt sem þið haldið. Það felst í orðunum að þessi andlega rækt þurfi að vera fullkomin en það er mín skoðun að hvorki trúlausir né trúaðir foreldrar getir gert eitthvað svo óumræðanlega stórbrotið sem andleg rækt barna er "fullkomlega"

það er bara mín skoðun að við þurfum að hafa trúarstandarda og að allir þurfi að læra um Jesú og fleira, og læra um það að það borgi sig að gera kærleiksríka og jesúlega hluti.

og enn um það sem Birgir vill að ég éti skít fyrir, þá verður hann nú eiginlega að viðurkenna það að engum trúleysingja er treystandi til þess að veita börnum sínum "fullkomna" andlega rækt (ekki frekar en trúmanni) því ég sé ekki fyrir mér að hann taki fyrir einhverja trúarbragða siðfræði og kenni krökkunum sínum um hana, allt getur að vísu gerst (og þetta hefur margsinnis gerst, dæmi angelia jolie og maddox litli) en það er bara ekki hægt að segja að um fullkomið traust sé að ræða.

Ef einhver segist vera öfgafullur trúleysingi en segir síðan að hann geti séð um trúarlega fræðslu barnsins síns sjálfur, er það ekki bara að bjóða uppá vantraust? Maður býst ekki við því að það muni fara fram sanngjörn umræða. Miðað við þá trúleysingja sem ég þekki, sem eru allt besta fólk, þá munu þau ekki eyða miklum tíma í að ræða um yfirnáttúrulega hluti við börnin sín. Mér finst það líka allt í lagi, svo lengi sem fræðsla um áðurnefndar bænir, hugleiðslu og jesú koma einhverstaðar frá í kerfinu.


óðinsmær - 06/09/06 21:52 #

þeas þetta vantraust verður alltaf til staðar þartil maður sér trúleysingjann hreinlega vera að fræða barnið sitt um siðferði biblíunnar, etv á sama tíma og hann segir því einhverja ógnvænlega sögu úr sögu kirkjunnar, af því hvernig á semsagt ekki að hegða sér... þetta er ekki svona "trúleysingjar eru verra fólk" vantraust, heldur meira skynsamlegur efi. Ef trúleysingi segist fræða barn sitt um trú, þá treysti ég því og efast ekki en þetta er svona sú tilfinning sem ég hef fyrir því að þetta sé almennt, í okkar TRÚLEYSIS samfélagi. Það mætti alveg kenna um það mínvegna í skólum að hægt sé að vera trúlaus og hvað sá lífstíll færi manni!


óðinsmær - 06/09/06 22:34 #

ég tók það kannski ekki nógu skýrt fram að mér finnst það eðlilegt að kennt sé um búddatrúarhugmyndir, hindúahugmyndir, múslimahugmyndir, og velja þá það siðlegasta og besta út. Ég tala svona mikið um Jesú því að hann er það góða sem kristnin hefur uppá að bjóða og er mest notaður hérlendis, sköpunarsagan er afturámóti vafasamur fylgifiskur sem ætti að sleppa.

Og svo að ég skýri enn frekar hvað ég meinti með vantrausti þarna áðan, þá er málið að það er munur á því að segjast geta og að segjast gera, ég vantreysti þeim sem segja hið fyrrnefnda en treysti auðvitað að hinir séu ekki að ljúga og reyni sitt besta. Það er auðvitað besta andlega ræktin, þá er áhugi til staðar en ef eitthvað foreldri efast algerlega um bænir, eða álíka trúarlega hluti, þá er líklegt að það fari ekki fram mikil umræða um þær heima hjá því og trúuðum einstaklingum líður ekki nógu vel með það. (en það kemur þeim auðvitað ekkert við)

Auðvitað á líka að kenna jöfnum höndum um trú og trúleysi, samhliða því sem ákveðnar hugmyndir eru ræddar. Ég óttast einsog þið að því sé ekki alltaf fylgt.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 06/09/06 22:40 #

Þú værir kannski til í að útskýra aðeins fyrir okkur í hverju þessi „andlega rækt“ felst?


Arnold (meðlimur í Vantrú) - 06/09/06 22:53 #

Ég skil ekki hvers vegna þarf að fræða börn um jesú og biblíuna til að kenna þeim siðfræði.

Hins vegar finnst mér athugasemdir þínar um vanhæfi þeirra sem alhillast ekki trúarbrög og þá sérstaklega kristni til að ala upp börn sín mjög undarlegar. Ég held þú sért komin langt út á tún í þessum pælingum þínum. Ég reyndar á bágt með að skilja hvert þú ert að fara.

En þetta viðhorf að trúlaus maður sé siðlaus og óhæfur til að ala upp börn er algjörlega óþolandi.


óðinsmær - 07/09/06 00:29 #

það kemur hvergi fram hjá mér, svo ég sjái, að trúlausir séu óhæfir foreldrar eða siðlausir á einhvern hátt - þeir eru bara ólíklegir til þess að uppfylla mínar kröfur um almennilega trúarfræðslu inná sínum heimilum, án þess að búa til fordóma og etv tóm. Ég gæti skrifað þúsund sinnum meira um hræðilegar afleiðingar af öfgatrúaruppeldi sko, þið eruð bara betri í því en ég.

ég get ekki alveg skilgreint andlega rækt í heild sinni en tel að trúarleg sjónarmið séu mikilvægur hluti af henni, og samt ekki á það alvarlegan hátt að ég haldi að börn verði vond ef þau eru ekki skikkuð til hlýðni af undirgefni við eitthvað yfirnáttúrulegt - frekar held ég bara að það skaði ekkert að kenna þeim um trúarhugmyndir og yfirnáttúru þegar þau eru lítil, bara svo lengi sem einhver taumur er hafður á því og lagt út frá siðaboðum sem við vitum þvermannlega að eru rétt. Bara fyrir þau börn sem virkilega fíla slíka fræðslu. Þau finnast inná milli, sama hvað þeim hefur verið kennt heima fyrir.

Bænir og hvað þær þýða munu hóparnir tveir aldrei verða sammála um, en ég held að þær séu mjög mikilvægur hluti af ævi hvers barns og hafi áhrif inní framtíðina, ef það skildi vera rétt, er þá ekki eðlilegt að kenna börnum allt um þær? Þannig hugsa ég og þetta er stór hluti af því hvernig ég skil andlega rækt. Í henni felst að læra hvaða gagn það gerir að vera góður við allt, menn og dýr og ef einhverju barni líður betur með að gera góða hluti vegna þess að þá gleður það Jesú, þá er það bara alltílagi og ef Jesús hvetur til aukinna góðgerða sem trúarhugmynd, þá er hann alltílagi. Það er samt enginn að segja að hann þurfi að vera á bakvið öll góðverk. Hann fær okkur til þess að hugsa um mikilvægi góðverka og það eitt og sér er jákvætt. Ef ég mætti velja kennsluefni í trúfræðslu í grunnskólum þá yrði kennt um margt fleira en kristindóm, helst eitthvað skynsamlegra, t.d búddisma og endurholdgun en gjörðir Jesúsar í sögunum um hann yrðu í hávegum hafðar.

En þið trúið ekki á líf eftir dauðann, svo það er vonlaust að reyna að ná einhverju samkomulagi. Ég vona bara að enginn sé enn að móðgast útaf þessum litla miskilningi með trúlausu foreldrana.


Arnold (meðlimur í Vantrú) - 07/09/06 01:05 #

"Málið er einfaldlega það að trúlausum foreldrum er ekki treystandi til þess að veita börnum sínum fullkomna andlega rækt..."

Hvaða merkingu á að leggja í orð þín hér að ofan? Ég les þetta bókstaflega og er orðin hundleiður á því að fólk meini ekki það sem það segir. Það á kannski ekki að túlka orð þín bókstaflega heldur í ljósi einhvers...?


Árni Gunnar - 07/09/06 10:25 #

Þessi andlega rækt sem er nauðsynlega trúartengd er eitthvað sem foreldrar planta í börn sín. Auðvitað er erfitt að þurfa allt í einu að hafna ævintýraheiminum sem trúarbrögðin bjóða upp á þegar hann hefur verið öryggsitæki alla ævi. Þeir sem eru trúlausir reyna auðvitað að kenna börnum að takast á við heiminn án þess eilíft líf og inngrip almættis þurfi að vera til. Kenna börnum að treysta á sig sjálf og fólkið í kringum það fremur en skugga og gufur.


óðinsmær - 07/09/06 12:40 #

lesið bara það sem ég segi í ljósi þess að ég er trúuð og tel trúarkennslu og innrætingu vera góða...

ég hefði átt að setja orðið "fullkomna" innan gæsalappa, þá hefði meiningin borist betur, ég tel engan færan um að veita börnum sínum fullkomna andlega rækt, og held ekki að trúarbrögð geri fólk að betri foreldrum (jafnvel hið gagnstæða - ykkur finnst það vætanlega jafn ljótt einsog það sem þið hélduð að ég hefði meint áðan?)

mér finnst í lagi að kenna börnum um hvernig er best að treysta á sjálf sig, en mér finnst einföld kristnifræði ekki skemma fyrir því. Það er í lagi að innræta þeim að kærleikurinn sé alltaf fyrir öllu og að það hafi afleiðingar að gera eitthvað illt. Þetta tvennt er hægt að tvinna saman, ég er alveg sammála því að útfærslur í þessari "kristilegu" innrætingu þurfa ekki endilega að vera svo trúarlegar, það á allavega að ræða trúleysi jafhliða öllu, því annað er ósanngjarnt gagnvart trúlausum börnum. Með lítil börn er þetta bara erfitt því þau eru flest ekki komin á það stig að rökræða eða taka svona hluti almennilega til sín. En þau hlusta yfirleitt á foreldra sína og trúa eða trúa ekki, einsog þeir gefa í skyn að sé normal.


Bjarni - 09/09/06 14:36 #

Mig langar aðeins að leggja orð í þessa umræðu. Fyrst af öllu þá er ég húmanisti og því trúlaus. Ég á 3 börn á aldrinum 23-32 ára og 3 barnabörn. Okkur hjónum kom saman að ala börn upp í gagnrýnni hugsun, gefa þeim tauminn til þess að skoða sjálf umhverfi sitt, fara í kirkju sem börn og unglingar ef þau vildu sjálf. Eitt þeirra fermdist í krikju, að eigin ósk 2 gerðu það alls ekki. Við foreldrarnir hvöttum þau tvö til þess að fara í fermingarfræðslu til að kynna sér kristna trú en það heillaði þau ekki. Öll eru þau trúlaus í dag.

Varðandi siðferði þá ólum við þau upp í að það sem ég kalla almennri siðfræði þ.e. það sem menn læra hver af öðrum með umgegni í siðuðu þjóðfélagi á undanförnum árhundruðum. Ég tel að fjölskyldan sé vel stödd siðferðilega.


bjarni - 09/09/06 14:42 #

Við gerum ekki greinarmun á kyni, húðlit, kynhegðun eða neinu öðru heldur dæmum manneskjuna eftir því hvernig hún hagar sér eða kemur fram við aðra.

Óðinsmær, sem trúuð kona, getur alls ekki séð að hægt sé að ala upp börn ÁN trúar. Það er hægt - millljónir manna gera það daglega. Að halda að trú eða kristin (ja eða islömsk) siðfræði sé yfir aðra hafin er rangt. Siðferði var til löngu áður en kristin siðfræði kom fram á sjónarsviðið.

Því miður er það þannig með marga trúmenn að telja að trúleysingjar séu siðlausir. Fremstur þar í flokki er sjálfur biskupinn sem tyggur þetta með reglubundnum hætti.


Arnold (meðlimur í Vantrú) - 09/09/06 16:45 #

Já og Biskupinn fullyrðir þetta án þess að rökstyðja það á nokkurn hátt.

Óðinsmær, finnst þér æðsti maður þjóðkirkjunar ganga fram með góðu fordæmi? Er þetta kristilegt siðferði? Eigum við að hvetja börn okkar til fordóma gegn öðrum trúarbrögðu, gegn öllu því sem ekki þykir kristilegt samkvæmt túlkun Biblíunar og ekki síst guðfræðinga?

Eru kannski kristnir að benda á flís í auga náungans en sjá ekki bjálkann í eigin auga?

Náungakærleikur var ekki fundinn upp af kristnum mönnum enda virðist Biskupinn ekkert fylgjandi honum ef marka má ummæla hans.


Ásta Norrman - 12/09/06 01:21 #

Úrdráttur úr lögum um mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62 19. maí 1994, með síðari breytingum (14. samningsviðauki) (1948)

Ríkisstjórnir þær, sem undirritað hafa samning þennan og aðilar eru að Evrópuráðinu, hafa í huga hina almennu mannréttindayfirlýsingu, sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti hinn 10. desember 1948; 1. gr. [Skylda til að virða mannréttindi.]1) Samningsaðilar skulu tryggja hverjum þeim, sem innan yfirráðasvæðis þeirra dvelst, réttindi þau og frelsi sem skilgreind eru í I. kafla þessa samnings.

  1. gr. [Hugsana-, samvisku- og trúfrelsi.]1)
    1. Sérhver maður á rétt á að vera frjáls hugsana sinna, samvisku og trúar. Í þessu felst frelsi manna til að breyta um trú eða sannfæringu svo og til að rækja trú sína eða sannfæringu, hvort heldur einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi, með guðsþjónustu, boðun, breytni og helgihaldi.

Er þessi réttur barna í grunnskóla virtur? Ef ekki, eru þá ekki þessi lög ríkjandi fram yfir grunnskólalögin ef þau stangast á.

  1. Frelsi manna til að rækja trú sína eða sannfæringu skal einungis háð þeim takmörkunum, sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna almannaheilla, til verndar allsherjarreglu, heilsu manna eða siðgæði eða rétti og frelsi.

Ég get ekki betur séð en að frelsi kristinna til að rækta trú sína í skólum takmarkist þarna, þar sem það gengur á rétt annara þjóðfélagsþegna í lýðræðisþjóðfélagi.

Er ekki einhver lögfróður sem getur leiðrétt mig ef það er rangt hjá mér að Island brytur mannréttindasáttmála sameinuðu þjóðanna á hverjum degi í skólum landsins.


Asta Norrman - 12/09/06 01:40 #

Eg hef það mikla trú á mannkyninu að ég held að mjög fáir fái sitt siðgæði úr trúarbrögðum. Það stendur að vísu í biblíunni að maður skuli hvorki stela né drepa mann. Eg held þó að við látum það vera, vegna þess að við teljum rangt að gera það. Annars færi illa ef kristnir menn mundu tapa trú sinni. Þeir færu þá allir að drepa hvern annan. Sem betur fer hef ég ekki trú á að það gerist, heldur hafa þeir siðgæðisvitund sem hefur ekkert með trúarbrögð að gera.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.