Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hinn smáborgaralegi starfsmaður Blaðsins

Í aðdraganda ráðstefnunnar Jákvæðar raddir trúleysis sem var haldin núna um síðustu helgi var haft samband við fjölmiðla og þeim boðið að fá viðtöl við stjörnur ráðstefnunnar. Fjölmiðlafulltrúi ráðstefnunnar, Birgir Baldursson frá Vantrú, hafði samband við starfsmann á Blaðinu og bauð einkaviðtal við Juliu Sweeney. Tekið var fram að hratt yrði að bregðast við, því á lá að kynna með þessu ráðstefnuna fyrir löndum okkar. Starfsmaðurinn brást vel við en tók svo aldrei neitt viðtal.

Þegar Julia Sweeney var að koma til landsins hafði starfsmaður Blaðsins aftur samband og sagðist vilja tala við leikkonuna þegar hún væri komin. Einnig vildi þessi starfsmaður taka viðtal við Richard Dawkins og þar að auki fá ókeypis inn á fyrirlestur hans. Síðastnefnda erindinu var hafnað en samt var reynt að koma til móts við starfsmann Blaðsins að öðru leyti án árangurs.

Í dag birtist nöldurspistill um Vantrú í nafnlausa dálkinum Smáborgarinn í Blaðinu. Það er erfitt að draga aðra ályktun en að þar sé þessi starfsmaður Blaðsins reyna að hefna sín á Vantrú fyrir að hafa ekki bugtað sig fyrir kröfum hennar. Þetta er sorgleg hegðun. Greinilega ríkir ekki faglegur andi blaðamennsku hjá þessum aðila. Að sóa tíma okkar var ekki nóg heldur skal refsa okkur þrátt fyrir ítrekuð boð um aðstoð. Þess má geta að vegna þessara ófaglegu vinnubragða þá gafst ekki nægur tími til að skipuleggja önnur viðtöl við leikkonuna ljúfu í staðinn fyrir það sem brást.

Einu sinni var hægt að lesa greinar um vísindi í Blaðinu en undanfarið hefur það breyst í aðal útbreiðslumiðstöð kjaftæðis á Íslandi eins og vikulegir pistlar um smáskammtalækningar bera glöggt merki. Gaman væri að sjá það snúa aftur að fyrri stefnu og kynna almenningi frekar fyrir fegurð vísinda og fræða.

Einstökum ásökunum bitra starfsmannsins er óþarfi að svara enda var þar einungis notast við ómaklegar dylgjur.

Ritstjórn 28.06.2006
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Svanur Sigurbjörnsson - 28/06/06 20:19 #

Ég ætlaði einmitt að vekja athygli á þessari dálkagrein í Blaðinu í dag. Greinin er illa skrifuð og innihaldið fullt af rökvillum og lýsir mikilli vanþekkingu hins falda höfundar. Ég er mjög hissa á því að blað með jafn mikla dreyfingu og Blaðið skuli leyfa nafnlausa dálkagreinar. Hvar er ábyrgðartilfinning og siðferði ritstjórnarinnar? Halda menn að þeir geti haslað sér völl á íslenskum dagblaðamarkaði með nafnlausum óánægjuþulum? Vilji þeir ekki fara sömu leið og DV er þörf á verulegum umbótum á blaðinu.

Grípum nú aðeins í innihald Smáborgaradálksins (á bls 30): Hann skrifar jafnan um sig í 3. persónu: "Smáborgarinn er vantrúaður á að allar skýringar sem ganga út á það að ekki sé vísindalega hægt að sanna tilvist guðs."
Merkilegt. Höfundur hlýtur því að hafa sannfærst um að sönnunin sé til og er því trúaður.
Hann/hún heldur áfram: "Í Bandaríkjunum hefur harkalega verið tekist á um hvort kenna ætti sköpunarsöguna samhliða þróunarkenningu Darwins. Til að réttlæta þá skoðun vísa sköpunarsinnar í ýmis vísindaleg rök til að styðja mál sitt. ..."
Stop stop stop, "vísindaleg rök"! Þetta er ekki hægt að setja svona fram í dagblaði nema að það vanti verulega þekkingu í kollinn á höfundi. Það er hægt að segja t.d. ...vísa sköpunarsinnar í það sem þeir kalla vísindaleg rök... eða ...vísa sköpunarsinnar í gögn sem þeir segja vísindaleg... o.s.frv. Staðhæfingar sköpunnarsinna eru ekki viðurkenndar af vísindasamfélaginu og því er ekki hægt að vitna til þess að þeir hafi "vísindaleg rök". Þessi uppsetning afvegaleiðir lesendur, trúi þeir því að það sé rétt sem skrfað er.

Svo heldur ruglið áfram: "Andstæðingar þessara sjónarmiða [sköpunar]grípa þá einnig til vísindalegra raka til að afsanna þá kenningu". Það þarf ekki að afsanna sköpunarsöguna. Hún fellur um sjálft sig þar sem þróunarkenningin hefur verið staðfest með milljónum gagna og margendurteknum athugunum og rannsóknum, t.d. erfðarannsóknum. Sköpunarsagan er bara saga og ekkert meira en það. Áfram heldur Smáborgarinn: "Smáborgaranum er nokk sama hvort fólk trúir að Guð sé til eður ei. Smáborgarinn telur aftur á móti að trúin gegni mikilvægu hlutverki í nútímanum." Væntanlega trúir trúað fólk því að Guð sé til og fyrst að smáborgarinn telur trúna gegna mikilvægu hlutverki, hlýtur það að skipta máli hvort fólk trúir á tilvist Guðs. Smáborgarinn er semsagt að lýsa yfir því að honum sé sama um mikilvægan hlut í þjóðfélaginu. Ekki beint gott siðferði og líklega erfitt að halda slíku fram nema undir dulnefni.

Svo heldur smáborgarinn áfram með vanhugsað efni í kafla sem hann kallar "Gikkurinn og byssan" og lýkur honum á þessum orðum: "Það er ekkert að trúarbrögðunum en það er ýmislegt að fólki sem óhjákvæmlega túlkar þau". Oh, boy hvað maður heyrt þetta bull lengi og sérstakleg svona fyrir um 20-30 árum síðan þegar umræða um trúarbrögð var frekar skammt á veg komin. Það var nefnilega "ljótt" að gagnrýna trúarbrögð. Trúarbrögðin eru eldgömul og verulega gölluð. Gamla testamentið er blóðbað fornaldarsiðferðis og Nýja testamentið er verulega brenglað á nútíma mælikvarða þrátt fyrir nokkra gullmola. Það er barnsleg einföldun að halda að það sé bara illa gert fólk sem túlki trúarbrögðin á verri veg.

Síðasti kafli smáborgarans er helgaður Vantrú og speglast þar að því er virðist viðhorf trúaðrar manneskju með lítinn kjark og þörf fyrir að klína trúarsamtakarspimpli á trúlausa. Hann segir: "...halda mætti að pennarnir [í Vantrú] væru innblásnir af vanheilugum anda". Yndislega dapurt orðalag, "vanheilugum anda" he he he, þetta virðist vera hræðilegt í huga smáborgarans. Mér er spurn hvernig pennar "vanheilagir andar" eru. Ég hef ekki séð skrif eftir þá. Fyrir hina trúuðu eru það líklega hræðileg örlög að verða slíkur penni.

Svo líkur smáborgarinn greinni með annari mótsögn við sjálfan sig: "...það er gjörsamlega tilgangslaust að fá úr því skorið hvort guð sé til eða ekki. Hvort sem hann er til eða ekki þá hefur hugmyndin áhrif á fullt af fólki, bæði til góðs og ills." Við þennan lestur dettur í hug enska orðið "oxymoron" sem merkir sambland af mótsagnakenndum orðum. Auðvitað skiptir máli að fá úr því skorið hvort að guð sé til einmitt því að hugmyndin getur haft áhrif til ills. Hins vegar virðist smáborgaranum vera alveg sama líkt og svo mörgum smáborgurum er tamt.

Það er til skammar að dagblöðin haldi dálka þar sem fólk skrifar gagnrýni úr skúmaskotum dulnefna. Ég hvet þá sem skrifa hér undir dulnefnum að hætta því eða a.m.k. gefa nafn sitt upp með dulnefninu sem þá væri meira táknrænt t.d. fyrir viðhorf þeirra. Ég get ekki séð að menn þurfi að skrifa undir dulnefnum af öryggisástæðum á Íslandi.


Guðmundur I. Markússon - 29/06/06 12:05 #

Ætli smáborgarinn sé ekki að vísa í vitshönnunarmenn (intelligent design, ID) þegar hann talar um "vísindaleg" rök. En þessi önnur kynslóð sköpunarsinna er ekki nauðsynlega háð sköpunarsögu Biblíunnar. ID er hins vegar óvísindaleg þar sem hún fer á sveig við grunnprisipp náttúruvísinda, þ.e. að byggja einungis á náttúrulegum forsendum. Um óvísindalega stöðu ID hefur Steindór J. Erlings skrifað fína grein:

http://www.kistan.is/efni.asp?n=4289&f=13&u=99

Þeir sem styðja ID virðast oft ganga út frá því að vísindasamfélagið sé einhversskonar leynifélag sem standi vörð um líffræðilegar trúarsetningar. Staðreyndin er hins vegar sú að lífvísindamenn halda ekki ráðstefnur bara til þess að takast í hendur -- þeir deila oft hart um túlkun ýmissa atriða. Það er hins vegar rétt að þróunarkenningin stendur sterkum fótum, en það er einfaldlega vegna þess að niðurstöður hrannast upp henni til stuðnings.

Stuðningsmenn ID virðast einnig ganga út frá því að innan vísindasamfélagsins séu þeir ekki til sem gagnrýni neo-darwinismann. Það er alls ekki tilfellið. Sem dæmi mætti nefna menn eins og Stuart Kauffman, Brian Goodwin, og hinn danska Jesper Hoffmeyer sem er einn forkólfa jaðarhreyfingar inna líffræðinnar sem callast "lífmerkingarfræði" (biosemiotics). Þessir aðilar vilja leggja áherslu á önnur ferli til viðbótar náttúruvali Darwins.

Munurinn á þessum "alternatívum" innan líffræðinnnar og ID er hins vegar sá að þessir aðilar halda sér innan hins náttúrulega heims og daðra ekki við yfirnáttúru.

Kannski smáborgarinn sé ungur hægrimaður. Vísaði Vantrú ekki um daginn í vef-grein ungs hægrimanns þar sem mælt var með ID í menntakerfinu sem "lýðræðislegri" viðbót? Skelfilegt þegar pólitískar-rétttrúnaðar-dillur er étnar hráar á þennan hátt. Með sömu rökum ættum við kannski að opna stjörnuspekiskor við HÍ sem viðbót við sálfræðina?


Helgi Briem - 29/06/06 16:03 #

ID er nákvæmlega það sama og sköpunartrú. Hins vegar gekk sköpunarsinnum illa að koma sköpunarkennslu inn í skólana vegna þess að bandarískir dómstólar dæmdu aftur og aftur að þar færi trúarinnræting en ekki vísindi. Sköpunarsinnar skiptu þá um nafn á hjátrú sinni og hreinsuðu upp augljósustu biblíutilvitnanirnar úr ritum sínum, endurpökkuðu og gáfu út aftur.

Um þetta má lesa í meiri smáatriðum hér.


Svanur Sigurbjörnsson - 29/06/06 19:23 #

Guðmundur skrifaði

Þeir sem styðja ID virðast oft ganga út frá því að vísindasamfélagið sé einhversskonar leynifélag sem standi vörð um líffræðilegar trúarsetningar.

Ég held að þú hittir naglan á höfuðið. Fólk hefur fjarlægst vísindin og gerir sér ekki fulla grein fyrir mikilvægi þeirra. Vísindin verða einhvers konar hólf sem er bara fyrir háskólamenntað fólk í huga margra og þá sérstaklega heittrúaðra. Raunsæishyggjan vann aldrei fullnaðarsigur og því súpum við seiðið af því nú í "seinni hálfleik".


Guðmundur I. Markússon - 29/06/06 21:33 #

Helgi skrifar:

ID er nákvæmlega það sama og sköpunartrú.

ID hefur ákveðin einkenni sem greina hana frá sköpunarvísindum (creationism). Nú er ég enginn sérfræðingur um efnið, en ég skrifaði grein um daginn (Glíman 3, hægt að skoða gegnum Kistuvefinn) þar sem ég hafði ástæðu til að setja neðanmálsgrein um þennan mun á ID og sköpunarhyggju:

Vitræn hönnun [ID] byggist til að mynda ekki á bókstaflegri túlkun Biblíunnar og er ekki nauðsynlega háð kristinni trú. Grunnhugmyndin er sú að ýmsir grunnferlar lífvera (svo sem starfsemi frumna) séu svo flóknir að þeir geti ekki hafa þróast fyrir tilstuðlan náttúruvals að hætti Darwins og því hljóti vitsmunalegt afl að standa að baki „hönnun“ þeirra.

Það er hins vegar alveg rétt að báðar stefnur eru á endanum sköpunartrú. Og á meðan "hönnuður" ID er ekki skilgreindur sem slíkur er tilfellið það að margir talsmenn ID vilja helst að hann sé Guð Biblíunnar.

Þessi munur skiptir máli, en auðvitað er ID á endanum trúarlegur trójuhestur.


Guðmundur D. Haraldsson - 29/06/06 22:14 #

Þessi pistill í Blaðinu er frekar hæðinn, finnst mér. Vanheilagur andi? Æj. Ég myndi ekki taka þessa grein of alvarlega, hvað þá sem „hefnd“.

En gagnrýnin í þessum pistli er samt e-h sem er vert að hlusta á, greinarnar hérna eru stundum skrifaðar með dálitlu offorsi (sjá t.d. prestar í kjólum ofl.).


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 29/06/06 22:34 #

Prestar í kjólum....er það ekki bara hæðni? ;)


Guðmundur D. Haraldsson - 29/06/06 22:39 #

Hjalti, good one. :)


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 29/06/06 22:40 #

Brandari guðs eins og páskarnir :)


Guðmundur D. Haraldsson - 29/06/06 22:44 #

En svona að öllu gamni slepptu finnst mér nánast undantekningarlaust hættulegt að nota ýkjur eða hæðni þegar maður vill láta taka sig alvarlega... það er hræðilega líklegt að maður verði misskilinn og að rökræður fari að snúast um hvað einhver sagði og hvað hann meinti, etc., í staðinn fyrir að setja það fram sem maður meinar og að ræða hlutina sem skipti máli.

Vísindavefurinn gerir þetta vel; föstudagssvör, mjög sniðug leið til að flokka greinar niður í alvarlegar vs. ekki svo alvarlegar (sem ætti til dæmis vel við á Vantrú).


Guðmundur I. Markússon - 29/06/06 23:49 #

Hjartanlega sammála Guðmundi (D., sem sagt).


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 30/06/06 01:54 #

Og þá erum við trúlausu fílupúkarnir sem hafa engan húmór! Æi - það er engin leið að geðjast öllum.


Guðmundur D. Haraldsson - 30/06/06 01:58 #

Og þá erum við trúlausu fílupúkarnir sem hafa engan húmór! Æi - það er engin leið að geðjast öllum.

Jújú - við skrifum bara hæðið mótsvar og setjum það í „ekki svo alvarlega flokkinn“. ;)


óðinsmær - 01/07/06 01:33 #

ég vil bara segja við ykkur hér á vantrú, að þótt einhver sé trúaður af heilum hug, t.d á allskonar möguleika á yfirnáttúru, þá getur sá hinn sami samt séð marga jákvæða hluti við boðskap trúleysingja - ég er þannig og ég vil að þið vitið það að þið eruð að gera góða hluti hér á vantrú varðandi að upplýsa fólk um ýmislegt vafasamt og ég styð ykkur mun meira heldur en þá sem eru að berjast fyrir sérstaka trú eða sérstakt kukl (einsog blaðið gerir - það er nú meira sorp ritið, hefur mér alltaf fundist).

það er lélegt að reyna að finna jafn virðulegri samkomu og trúleysisráðstefnunni hér um helgina allt til foráttu, það er stundum einsog það megi ekki gagnrýna heimsku í þessu samfélagi, þá er maður svo vondur. Jafnvel ef maður gagnrýnir stjórnvöldin sem ráða og ákvarðanir þeirra, þá er maður vondur.

Þótt ég hafi ekki mætt á ráðstefnuna veit ég að hún gladdi marga og að þar fór allt friðsamlega fram.

Trúaðir einstaklingar eiga í raun ekki að mikla sig yfir opinberri baráttu við trúleysingja - heldur ala börnin sín vel upp og kenna þeim allt um rétt siðferði - bara það eitt. það er eina skyldan, annars er það einstaklingurinn sjálfur sem skiptir máli, það sem hann heyrir og sér.

ástæðan fyrir þessu langa kommenti er bara að ég vildi strax segja ykkur að það eru allskonar náungar úti í samfélaginu sem eru að fárast gegn ykkur. Þeir haga sér einsog apar en ég nefni t.d nýlega grein af íhald.is og grein síðasta mánudags á vefþjóðviljanum; www.andriki.is

fyrir mér kemur það sem þeir segja um trúmál úr hörðustu átt guðleysis og hrokagikkja - bara í þessum greinum reyna þeir að vera eitthvað annað en það mistekst. Sem trúaður einstaklingur skil ég engan vegin hvað þeir þykjast vera að pípa. Ég segi ekki að þeir séu líka trúlausir eða það sem mun verra er; sýndartrúmenn, en þeir haga sér samt þannig að öllu leii, í öllum greinum nema þeim sem misnota trú á einhvern hátt viðhorfum þeirra í hag.

ég elska stephen colbert og þættina hans colbert report, þar er hann einmitt að þykjast vera svona ungur íhaldsmaður með barnalegt og bókstaflegt trúarviðhorf. Þið hafið hugsað meira um þessi mál en þeir og fyrir mér kemur það að horfa á heiminn, lögmálin og fegurðina, til jafns við að lesa biblíuna og önnur trúarrit. við vinnum úr upplýsingum þaðan og víðar og öðlumst siðferði og það er fallegt.

ég naut viðtalsins við dr dawkins í kastljósinu og fannst speki hans mikil - nema varðandi guð en það er bara mitt mál ;)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.