Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Tilgangur lífsins

Ef þú spyrð rangra spurninga þá færðu svör eins og ‘42’ eða ‘guð’

“Hver er tilgangur lífsins?” er ein af þeim spurningum sem trúmenn reyna að nota til þess að rökstyðja tilvist guðs. En hvernig gera þeir það og er þetta gáfulegur rökstuðningur?

Eins og með flestar aðrar meintar sannanir fyrir tilvist guðs, þá verður fyrst að búa til þörf fyrir útskýringu á einhverju, síðan er stungið upp á guði sem útskýringunni.

Þegar spurt er um hver tilgangur lífsins sé, þá er gert ráð fyrir því að það sé til einhver æðri tilgangur. Síðan á guð að vera útskýringin á þessum æðri tilgangi. Það er hægt að stöðva trúmanninn strax í byrjun með því að spyrja hann um rök fyrir því að það sé einhver æðri tilgangur með lífinu.

Þar sem það er nauðsynlegt að vita að einhver standi á bak við eitthvað til þess að vita að það hafi tilgang þá þarf trúmaðurinn að vita að einhver standi á bak við allt mannlíf til þess að geta fullyrt að það hafi einhvern tilgang. Þannig að þeir þurfa fyrst að sýna fram á tilvist guðs áður en þeir geta sagt að það sé einhver æðri tilgangur með lífinu. Þessi rök gera ráð fyrir því að niðurstaða þeirra, tilvist guðs, sé sönn, það er rökvilla.

En það er svo sem allt í lagi að leyfa trúmanninum að spyrja þessarar órökréttu spurningar, því þessi sönnun hans á eftir að sýna fram á hversu mótsagnakennd heimsmynd hans er.

Þegar hann biður um svar þá á hann örugglega ekki eftir að sætta sig við að maður geti sjálfur gefið lífinu sínu tilgang, enda væri þá enginn þörf á guði. Hann mun ef til vill segja að lífið væri hræðilegt ef það væri ekki neinn æðri tilgangur með því. Nei, hann segir að maður geti ekki sjálfur gefið lífinu sínu tilgang. Hver þá?

Þar sem einungis persónur geta gefið fyrirbærum tilgang og ef sú persóna á standa á bak við allt mannlífið, þá virðist guð vera einn af möguleikunum. Þú getur verið leiðinlegur og stungið upp á uppskálduðum verum, en það er allt í lagi að leyfa trúmanninum að halda áfram. Hann á örugglega eftir að segja að guð, nánar til tekið guðinn hans, gefi lífinu tilgang.

En hver er tilgangur guðsins hans? Ef trúmaðurinn segir að guð þurfi engan tilgang fyrir lífinu sínu, hvers vegna þurfum við þá tilgang? Ef trúmaðurinn segir að guð geti sjálfur gefið lífinu sínu tilgang, hvers vegna getum við það þá ekki?

Ef trúmaðurinn vill vera sjálfum sér samkvæmur þá þarf guðinn hans æðri veru til þess að útskýra tilgang sinn, og sú vera þarf aðra enn æðri veru, og svo framvegis.

Þannig að ef við gerum ráð fyrir að guð þurfi að gefa lífinu okkar tilgang þá endar þetta í fáránlegri endaleysu. Skynsamlegast er auðvitað að gera ekki ráð fyrir neinum ærði tilgangi lífsins og engum guði.

Hjalti Rúnar Ómarsson 10.04.2006
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )

Viðbrögð


safir - 10/04/06 17:00 #

Þessu umfjöllun þín heldur ekki vatni. Hver er tilgangurinn með lífinu? Eða hver er tilgangurinn í því að ég eiði tíma mínum í að svara þér? Einhverstaðar er skrifað “þrætumanni skaltu leiða hjá” Trúleysingjar hafa þrætuna að stærsta vopni sínu. Þeir þræta endalaust um heima og geima, og hver er svo niðurstaðan? Niðurstaðan er bara höfuðverkur.

Trúmaðurinn lendir oft í þeirri krísu að þræta við trúleysingja og það hefur ekkert að segja. Betra er að láta hann vera, en að eiða tíma sínum í einhverjar orðaþrætur. Hversvegna? Vegna þess að trúleysinginn segir í hjarta sínu “engin guð og engin trú” Svo trúaður og trúleysingi hafa enga samleið. Svo það borgar sig ekki að eiða tíma sinn í svona orðaþrætur.

Trúaður maður hefur tilgang og köllun í lífi sínu, til að ganga eftir. Hann stefnir að ákveðnu marki. Markið er hið eilífa líf. Eða líf eftir lífinu, ef svo má kalla það. (þú hugsar rugl) En fyrir trúmanninum er þetta ekkert rugl, þetta er alvara. Þetta er barátta um að lifa þetta lífið á enda, og sú barátta er hörð. Hversvegna? Vegna þess að það eru svo margir trúleysingjar til sem vilja skemma og eiðileggja væntingar trúmannsins. Eins og td vantrú.is.

Að endingu vinur. Segðu mér eitt. Hver er tilgangurinn með sólarganginum? Kveðja.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/04/06 17:13 #

Furðulegt innlegg. Fyrsta málsgrein hljóðar upp á að greinin haldi ekki vatni, en svo eru ekki gerðar neinar tilraunir til að rökstyðja þá fullyrðingu, heldur koma bara ad hominem-árásir á trúmenn.

Markið er hið eilífa líf. Eða líf eftir lífinu, ef svo má kalla það. (þú hugsar rugl) En fyrir trúmanninum er þetta ekkert rugl, þetta er alvara.

Talandi dæmi um skaðsemi trúarhugmynda.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/04/06 17:51 #

Að endingu vinur. Segðu mér eitt. Hver er tilgangurinn með sólarganginum?

Er einhver tilgangur? Þetta bara er svona og lífið hefur þróast út frá þeim aðstæðum sem hér ríkja, enda enginn tilgangur með því heldur.


safir - 10/04/06 19:42 #

Það er nú valla að þetta teljist svaravert Birgir. “engin tilgangur” 1: Hvað nú ef það kemur fallegur sólardagur og þú hugsar, “hm fallegur dagur” er þá ekki tilganginum náð með deginum. 2: Þú ferð út að fiska með vinunum þínum, þú færð nokkra fiska á þína línu. Er þá ekki tilganginum náð með deginum. Kveðja


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/04/06 19:49 #

Var semsagt sólargangurinn settur á svo ég mætti fiska? Eða fiska ég bara af því að þannig reyndust aðstæðurnar í heiminum sem gat mig af sér?


safir - 10/04/06 20:52 #

Birgir: Þetta er talandi dæmi um þrætumann.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 10/04/06 22:48 #

safir, ég skil ekki hvers vegna þú telur greinina mína ekki halda vatni. Þú talar um að trúmaðurinn hafi það markmið með lífi sínu að enda í himnaríki (eða eitthvað í þá áttina). Ég mótmæli því ekkert.

Hvað er rangt í greininni minni?

Hver er tilgangurinn með sólarganginum?

Líklega enginn. Það er engin persóna á bak við sólarganginn. Þú gætir alveg eins spurt um tilgangs plánetunnar Mars. Enginn tilgangur.


mofi - 10/04/06 23:01 #

Ég get ekki neitað því að ég er sammála Hjalta varðandi að þessi rök fyrir Guði halda ekki vatni. Skemmtilegur punktur að ef við þurfum að trúa á æðri veru til að hafa tilgang þá verður sú æðri vera að trúa á aðra æðri veru til að hafa tilgang. Málið er að mínu mati er að allir gefa sínu lífi þann tilgang sem þeir vilja. Fyrir trúaðann aftur á móti, þá hefur Guð gefið þeirra lífi tilgang og þess vegna eiga þeir oft erfitt með að sjá tilgang með lífinu án Guðs. Það sem ég sé aftur á móti er að sigur Krists á dauðanum gefur okkur dauðlegum von um líf og aðalega betra líf. Þeir sem síðan sjá tilgang með því að lifa hljóta að leita leiða til að ekki deyja og ég veit ekki um neinn annan en Jesú sem hefur sigrað dauðann og bíður eilíft líf öllum þeim sem vilja það.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 10/04/06 23:08 #

Málið er að mínu mati er að allir gefa sínu lífi þann tilgang sem þeir vilja. Fyrir trúaðann aftur á móti, þá hefur Guð gefið þeirra lífi tilgang og þess vegna eiga þeir oft erfitt með að sjá tilgang með lífinu án Guðs.

Einmitt. Það er afskaplega leiðinlegt þegar trúmenn eru svo "blindaðir" af guðlega tilgangnum að þeir gleyma því að það sé hægt að gefa lífinu sínu tilgang.


Ásgeir - 11/04/06 00:35 #

Vantrú er að meika það, kominn í torf-a: http://www.hi.is/nem/Torfhildur/torf-i/torf-i9.doc


Minnz - 11/04/06 01:35 #

kannski er guð tilgangur fólksins og fólkið tilgangur guðs! :D


Finnur - 11/04/06 02:08 #

Eins og með flestar aðrar meintar sannanir fyrir tilvist guðs, þá verður fyrst að búa til þörf fyrir útskýringu á einhverju, síðan er stungið upp á guði sem útskýringunni.
Við getum snúið þessu á annan veg:
Eins og með flestar sannanir í vísindum, þá verður fyrst að búa til þörf á útskýringu á einhverju, síðan er sett fram kenning til útskýringar.
Þurfum við að vita hver er tilgangur DNA?
Það er umdeilanlegt, hinsvegar höfum við innbyggða forvitni sem rekur okkur áfram í leit að útskýringu á hinu og þessu. Og allir hljóta að velta fyrir sér einhverntímann á ævinni hver er tilgangur lífsins.
Er það heimskulegt að telja að tilvera okkar byggist á sköpun guðs? Ég sé ekkert athugavert við þessa útskýringu. Mér finnst það hinsvegar dapurt að hafa fullvissu fyrir því að lífið hafi engan tilgang. Það að sætta sig við að tilvera okkar sé einungis eðlisfræðilegt slys.




Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/04/06 05:30 #

Ég sé ekkert athugavert við þessa útskýringu. Mér finnst það hinsvegar dapurt að hafa fullvissu fyrir því að lífið hafi engan tilgang.

http://www.vantru.is/2005/08/14/00.00/


safir - 11/04/06 10:36 #

Hjalt, þú spyrð mig. Hvað er rangt í greininni. ‘Eg get engan vegin verið þér sammála um að, það sé engin tilgangur með lífinu. Þess vegna heldur greinin ekki vatni. Lífið hefur svo margar góðar hliðar. Hvort fólk sé meðvitað um það, það er svo allt annar hængur.

‘Eg persónulega sé tilgang með lífinu og tilgang í því að lifa hér. “get þó séð að þetta er persónubundið frá manni til manns”

Annars hafðu bara einn góðan dag.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 11/04/06 11:16 #

safir, ég held því alls ekki fram í greininni að það sé ekki tilgangur með lífinu. Ég held því fram að það sé enginn æðri tilgangur með lífinu, tilgangur sem er óháður fólki. Eini tilgangur lífsins sem er til er tilgangurinn sem maður sjálfur gefur lífinu sínu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/04/06 11:18 #

Það er enginn tilgangur per se en fullt af tækifærum.


danskurinn - 11/04/06 12:21 #

Hjalti segir....”ég held því alls ekki fram í greininni að það sé ekki tilgangur með lífinu. Ég held því fram að það sé enginn æðri tilgangur með lífinu, tilgangur sem er óháður fólki. Eini tilgangur lífsins sem er til er tilgangurinn sem maður sjálfur gefur lífinu sínu.”

Tilgangurinn er alltaf sá sami fyrir alla. Löngunin til að gera betur, vita meira, vera góður. Sá tilgangur er æðri öðrum viðfangsefnum okkar, (ef það er yfirleitt hægt að kalla eitthvað viðfangsefni, sem ekki inniheldur fyrrnefnda löngun). Í þessu ljósi er í raun aðeins til einn tilgangur, og hann er yfir allt annað hafið, er æðri og óháður fólki.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/04/06 12:33 #

Tilgangurinn er alltaf sá sami fyrir alla. Löngunin til að gera betur, vita meira, vera góður.

Ekki ef maður aðhyllist hagnýta tómhyggju. Ég er fullkomlega frjáls að því að þurfa ekki að „gera betur“, „vita meira“ og „vera góður“. Þó er ekki þar með sagt að ég geri mér far um hið gagnstæða, en það það væri svosem ekkert að því að sleppa öllum metnaði um að ná framgangi í lífinu, því þetta er hvort eð er allt saman tóm vitleysa. :)


danskurinn - 11/04/06 12:42 #

Birgir skrifar: ”Ég er fullkomlega frjáls að því að þurfa ekki að „gera betur“, „vita meira“ og „vera góður“.”

Nei, það er útilokað! Þú ert hins vegar frjáls að því að nota þína aðferð til að uppfylla ”tilganginn”. Jafnvel þegar þú ert einbeittur til að gera illt verra, ertu að að uppfylla þennan tilgang, að gera betur.


Finnur - 12/04/06 00:19 #

Ég er fullkomlega frjáls að því að þurfa ekki að „gera betur“, „vita meira“ og „vera góður“.
Er þetta ekki búddismi? Mér sýnist þú Birgir vera að pakka trúarbrögðum inní umbúðir trúleysis.


Gunnar - 12/04/06 00:45 #

Er þetta ekki búddismi? Mér sýnist þú Birgir vera að pakka trúarbrögðum inní umbúðir trúleysis.

Kýr eru spendýr. Ef þú ert spendýr, ertu þá kýr? Ef ég kýs að koma fram við aðra eins og aðrir koma fram við mig, er ég þar með kristinnar trúar? Þótt Birgir lýsi skoðunum sem eru e.t.v. sumpartinn í anda búddisma er hann ekki þar með búddisti.

Þar fyrir utan er umdeilt hvort búddismi eigi að teljast til trúarbragða.


Finnur - 12/04/06 01:36 #

Ef ég kýs að koma fram við aðra eins og aðrir koma fram við mig, er ég þar með kristinnar trúar?
Þú ert fylgjandi kristnum gildum, og mér þykir líklegt að þú sért kristinn. Annars tel ég trú einkamál hvers og eins.
Ef þú skrifaðir pistil hérna þar sem þú útskýrðir að trúleysi þitt gerði það að verkum að "þú gætir komið fram við aðra eins og aðrir koma fram við þig", þá teldi ég að þú værir að pakka kristnum gildum inní umbúðir trúleysis.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 12/04/06 03:23 #

"Að koma fram við aðra einsog þú vilt að aðri komi fram við þig" er þetta ekki frekar í ætt við Konfúsíus? Getur maður ekki allt eins verið að fylgja forn-kínverskum gildum?

Hvað gerir kriztintrú svona sérstakari en önnur trúarbrögð, heimspeki eða almennt siðferði sem fylgja nákvæmlega sömu reglum?


konan - 12/04/06 03:55 #

ég á ekki orð yfir þessu! er það bara annað hvort eða?? Ég er ekki beint kristin en ég trúi á æðri mátt og góða orku, einnig trúi ég líka á sjálfa mig. spurningin "hver er tilgangur lífsins" þarf ekki alltaf að tengjast trúarbrögðum! Fyrir mér er tilgangurinn að vera hamingjusöm og lifa lífinu til fulls. Annað sem ég var að pæla´, þið sem eruð trúleysingjar og segja trú vera veikleika, þið eruð hér saman komin í hóp á þessari síðu sem gerir ykkur að trúfélagi, er það ekki? Því þið "trúið" ekki á neitt. Ég gæti skrifað hérna mitt sanna álit á ykkur en ég ætla að sleppa því, því þá væri ég ekkert betri en þið. Ég ætla ekki vera með neitt skítkast hérna, en þið eruð með miklar alhæfingar. Hvað skiptir það ykkur máli hvað aðrir trúa á og afhverju velta sér upp úr þessu endalaust. Þið þurfið ekki að vera í þjóðkirkjunni eða einhverju öðru trúfélagi þannig afhverju vera skrifa endalaust um annarra manna trú á netinu.??? útkoman er oftast leiðindi og særindi. Satt best að segja hef ég forðast að fara inná þessa síðu því ég verð alltaf svo reið og pirruð þegar eg les greinarnar hérna!!!


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 12/04/06 04:10 #

konan:

spurningin "hver er tilgangur lífsins" þarf ekki alltaf að tengjast trúarbrögðum! Fyrir mér er tilgangurinn að vera hamingjusöm og lifa lífinu til fulls.

Einmitt, það er ekkert að því að gefa sjálfur lífinu sinn tilgang að vera hamingjusamur og lifa því til fulls. Ég er bara að skrifa gegn einhverjum æðri tilgangi.

Annað sem ég var að pæla

Þegar þú kemur með pælingar sem tengjast ekki greinum, þá bendum við á spjallborðið

...þið sem eruð trúleysingjar og segja trú vera veikleika, þið eruð hér saman komin í hóp á þessari síðu sem gerir ykkur að trúfélagi, er það ekki?

Nei.

Því þið "trúið" ekki á neitt.

Einmitt, við trúum ekki á neitt. Þess vegna erum við ekki trúfélag.

Hvað skiptir það ykkur máli hvað aðrir trúa á og afhverju velta sér upp úr þessu endalaust.

Skoðanir annars fólks hefur áhrif á hvernig það hegðar sér og hvernig stjórnmálaflokka það kýs. Myndi það til dæmis ekki skipta þig neinu máli ef meirihluti landsmanna teldi konur ekki hafa neina sál?

Þið þurfið ekki að vera í þjóðkirkjunni eða einhverju öðru trúfélagi þannig afhverju vera skrifa endalaust um annarra manna trú á netinu.???

Fyrir utan þá ástæðu sem ég gaf hérna fyrir ofan (að trú annarra skiptir máli). Þá styrkir ríkið trúfélög (og Þjóðkirkjuna meira en önnur) auk þess sem þeir sem sóknargjöld eru greidd fyrir þá sem eru utan trúfélaga. Á meðan málin eru þannig og á meðan trúfélög stunda trúboð (til dæmis Þjóðkirkjan í grunn- og leikskólum) þá sé ég enga ástæðu til þess að tipla á tánum í kringum trú.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 12/04/06 04:12 #

Óttaleg ofurviðkvæmni er þetta. Til hvers að skrifa eitthvað um eitthvað, það eru alltaf líkur á að særa einhvern útaf einhverju.


Finnur - 12/04/06 04:38 #

Hvað gerir kriztintrú svona sérstakari en önnur trúarbrögð, heimspeki eða almennt siðferði sem fylgja nákvæmlega sömu reglum?
Það sem aðskilur kristni frá öðrum trúarbrögðum er umgjörðin. Það er vissulega samræmi milli trúarbragða, t.d. skilst mér að í Hindu sé sagt að góðverk launist með góðverki.
Og fyrst við erum á þessum nótum, þá má spyrja hvað hefur vantrú uppá að bjóða? Hérna lesum við um tilgangsleysi, tómhyggju og efa.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 12/04/06 04:54 #

Og fyrst við erum á þessum nótum, þá má spyrja hvað hefur vantrú uppá að bjóða? Hérna lesum við um tilgangsleysi, tómhyggju og efa.

Finnur, þú ert (eins og vanalega) farinn að ræða um eitthvað allt annað en efni greinarinnar. Ég bendi þér á spjallborðið og þá sérstaklega "Trú og siðferði" undirflokkinn ef þú vilt ræða þetta áfram.

En ef þú vilt fá svar frá mér hvað vantrú (þú ert þá líklega að tala um trúleysi en ekki félagið Vantrú) hefur upp á að bjóða í siðfræði, þá finnst mér það hafa upp á það að bjóða að losna við trú.

Það er kannski hægt að líkja þessu við sinfóníutónleika, þar sem maður gengur um og biður fólk að slökkva á gemsunum sínum. Hann er ekki beint að spila á hljóðfæri, en það er ekki hægt að hlusta á tónlistina ef það eru sífellt símar að væla í salnum.


Finnur - 12/04/06 05:24 #

Það er kannski hægt að líkja þessu [vantrúnni] við sinfóníutónleika, þar sem maður gengur um og biður fólk að slökkva á gemsunum sínum.
Þannig að trúarbrögð valda þér ónæði í lífinu, Hjalti (ég reikna með að sinfónían sé lífið í þessari samlíkingu hjá þér).


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 12/04/06 06:12 #

Nei, sinfónían er ekki lífið, heldur umræða um siðferði.


Finnur - 13/04/06 01:07 #

Þetta er nú bráðfyndið hjá þér Hjalti.
Tilgangsleysið, tómhyggjan og efinn er skilyrði fyrir umræðu um siðferði.
Er einhver tilgangur í umræðu um siðferði ef enginn er tilgangurinn með lífinu?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 13/04/06 01:10 #

Er einhver tilgangur í umræðu um siðferði ef enginn er tilgangurinn með lífinu?

Að sjálfssögðu.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 13/04/06 01:14 #

Finnur, það er skilyrði fyrir vitrænni umræðu um siðferði að fólk fari ekki að vísa til ósýnilegra kalla.


danskurinn - 13/04/06 01:58 #

Finnur skrifar: ”Er einhver tilgangur í umræðu um siðferði ef enginn er tilgangurinn með lífinu?” Óli svarar: ”Að sjálfssögðu.”

Og hver er þá tilgangurinn Óli?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 13/04/06 03:11 #

Tilgangurinn með slíku er augljóslega sá að skilja siðferði. Tiltölulega einfalt, þess vegna sagði ég að sjálfssögðu. Það er enginn "æðri" tilgangur.


Finnur - 13/04/06 03:21 #

Finnur, það er skilyrði fyrir vitrænni umræðu um siðferði að fólk fari ekki að vísa til ósýnilegra kalla.
Afhverju má ekki nota biblíuna sem tilvísun þegar rætt er um siðferði, Hjalti?
(Ég reikna með að þú sért að tala um trúarrit sem tilvísanir í ósýnilega kalla)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/04/06 03:36 #

Er það ekki bara forsendan sem er röng? Að segja „af því að Jesús segir það“ eða „af því að guðdómurinn vill það“ í stað þess að meta breytnina á forsendum þess hvort hún sé eftirsóknarverð í sjálfu sér.


Finnur - 13/04/06 03:43 #

Er ekki hverjum það í sjálfsvald sett hvaða forsendur þeir gefa sér við lestur biblíunnar.
Getur biblían ekki verið handhæg tilvísun í umræðu um siðferði hvort sem þú lest hana sem skáldsögu eða sagnfræði heimild?


Guðjón - 13/04/06 10:40 #

Það er vel hægt að sanna tilvist Guð fyrir þeim sem hugsa eins og venjulegt fólk, en aðrir eru alls ekki móttækilegir.

Það er alveg ljóst að ef menn gefa sér fyrirfram að einasta þekkingin sem sé einhvers virði sé vísindaleg þekking þá er skynsamleg umræða um Guð útilokuð.

Af hverju er þetta vandamál?

Sennilega vegna þess að menn lifa í þeirri blekkingu að hægt sé að komast af að niðurstöðu sem gildir fyrir fleiri en þá sjálfa.


danskurinn - 13/04/06 11:09 #

Óli skrifar:”Tilgangurinn með slíku er augljóslega sá að skilja siðferði. Tiltölulega einfalt, þess vegna sagði ég að sjálfssögðu. Það er enginn "æðri" tilgangur.”

Tilgangurinn er alltaf sá sami og breytist ekkert með ólíkum viðfangsefnum. Tilgangurinn birtist sem löngunin til að gera betur, vita meira, vera góður. Og það er rétt hjá þér Óli að málið er tiltölulega einfalt og augljóst enda stenst það engin rök ef taka á lífið sjálft út úr breytunni og segja að allt hafi sama tilganginn nema lífið, sem er það eina sem hefur engan tilgang.

Birgir vill..”..meta breytnina á forsendum þess hvort hún sé eftirsóknarverð í sjálfu sér.” sem er nákvæmlega það sem málið gengur út á. Það er aftur munurinn á okkur og dýrunum við við getum metið breytnina út frá öðrum forsendum en aðeins okkar eigin hagsmunum. Á meðan dýrið stjórnast af sjálfsbjargarhvöt getum við í æ ríkara mæli stjórnað breytni okkar vitandi vits með viljamætti okkar. Þessi vakandi sjálfsstjórn gengur oft í berhögg við arfgenga sjálfsbjargarhvöt dýrsins sem ennþá býr í manninum sem vanabundin vitund. Eðlileg sjálfsbjargarhvöt og eigingirni dýrsins skapar manninum óhamingju og þjáningu ef hann fylgir þessari tilheigingu. Við vitum það betur og betur. Þess vegna er stefnubreyting í vændum. Lífsviðhorf okkar og líf byrjar að fylgja stefnu sem hefur að takmarki að lifa heildinni til gagns.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 13/04/06 11:55 #

Finnur, ég svaraði þér á spjallinu

Guðjón:

Það er vel hægt að sanna tilvist Guð fyrir þeim sem hugsa eins og venjulegt fólk, en aðrir eru alls ekki móttækilegir.

Það væri afar skemmtilegt ef þú gætir sett þessa sönnun þína inn á spjallið.

Það er alveg ljóst að ef menn gefa sér fyrirfram að einasta þekkingin sem sé einhvers virði sé vísindaleg þekking þá er skynsamleg umræða um Guð útilokuð.

Hver var að segja að eina þekkingin sem er einhvers virði sé vísindaleg þekking (sem ég býst við að sé þekking sem maður aflar sér með hinni vísindalegu aðferð)?

Ég myndi frekar segja að trúarleg þekking (þekking sem maður aflar sér með því að vita það sem maður óskar sér) væri einskis virði.


Þór - 13/04/06 23:11 #

Tilgangur með lífinu - Því var svarað í upphafi greinar (undirtitli - 42) - Jæja, gaman að einhver skuli grípa þetta en verið betra að það væri meiri tenging við þá tölu frekar en að segja að hitt ranga svarið væri Guð. Við stöndum nokkuð nær því hvað 42 eru en Guð (vonandi, annars er ég ekki sleipur í stærðfræði), svo að leggja þetta að jöfnu er kannski ekki alveg sanngjarnt (veit s.s. hver skírskotunin en, en samt...).

Fyrir mig er tilgangurinn augljós eins og er, ég á börn sem ég vil að komist á legg og spjari sig. Með því að segja að ég vilji að þau spjari sig er ég ekki bara að meina að þau hafi í sig og á og þroskist eitthvað. Nei, ég vil að þau öðlist með tíð og tíma einhverja sálarró, finni tilgang með lífi sínu líkt og ég nú, eða einhvern æðri (má deila um).

En - er einhver ,,æðri" tilgangur með lífinu? Ég ætla ekki að reyna að sanna það, aðeins að reyna að vekja til umhugsunar. Fyrir þá sem trúa er hann líkast til tengdur trú þeirra á guð, eftir því hvaða trúarbrögð eru iðkuð (eða einhver tengsl eru við). Í það minnsta er það tengt þeim siðferðilegu reglum sem trúarbrögðin setja okkur. Ég hef áður skotið því að í öðru samhengi að ég telji ,,trúleysingja" skáka í skjóli trúarbragða þegar þeir fara að siðferðilegum gildum (breyta í takt við þau). Annars verða menn líkast til að viðurkenna að um sé að ræða áhrif vegna þrýstings samfélags, ,,draugar" uppeldis skv. siðferðilegum gildum trúarbragða. Án þess að taka það djúpt í árinni að meina að trúleysingjar hafi ekki með siðferði að gera liggur þó í augum uppi að þær reglur sem í heiðri eru hafðar hafa tengingu beint til kristni hér (þó eitthvað hafi sér eldri rætur) og útleggist í þeim lögum sem við lifum eftir (landslögum). Lög okkar samfélags byggja á kristnum gildum hvort sem betur líkar eða verr.
Hvers vegna ætti t.a.m. að banna illa meðferð á dýrum? Hafa þau sál? Eða er það vegna þrýstings frá samfélaginu (hinum trúaða meirihluta)? Eru þau eins og við mennirnir eða skilur eitthvað á milli? Af hverju ríkir ekki slíkt siðferði meðal dýra ef þau eru eins og við menn nema hvað við séu eitthvað þróaðri að gerð? Er það bara viska okkar og hæfileiki tengdur heilastarfsemi sem býður okkur að virða það að eitthvað finni til? Erum við góð við dýrin vegna þess að það lætur okkur líða betur? Eða er það vegna þess að við teljum að okkur verði hegnt ef ekki? Eða hámarkar það hamingju okkar á einhvern annan hátt? Af hverju ætti maður að finna til með skepnu sem er lógað eða pínd? Að mínu viti tengist þetta því að vera góður (í hjarta sínu ... :)) og byggir á þeim kristnu gildum sem ég tel mig lifa eftir óháð trú minni. Okkur er innrætt skv. þeim gildum (og líkast til í mörgum fleiri trúarbrögðum) að virða þau og fara vel með, en þau eigum við þó að nýta okkur til ,,matar" þó það sé mikið tengt afþreyingu í dag. Eitthvað í ætt við það að læra samkennd og um leið að finna til með öðrum og sjá frá fleiri sjónarhornum en okkar eigin. Samfélagið byggir á því almennt að virða náungann og vera ekki að óþörfu að traðka á þeim sem á vegi manns verða. Ég tel að það sé eitthvað meira tengt trúarbrögðum en vantrú (trúleysi) og á þessu byggi ég mest - ég kem fram við aðra eins og ég vil að komið sé fram við mig. Ekki bara vegna þess að ég telji að ég græði á því í formi góðmennsku á móti. Heldur þannig að ég tel mig hafa í því samfélagi, sem er að meirihluta kristið í einni eða annarri mynd, bundist með öðrum sem slíkt aðhyllast samningi um að koma þannig fram. Þannig geti samfélag einungis virkað. Þann tel ég tilgang míns lífs (hversu trúaður sem ég er) að virða þann samning og miðla honum áfram til barna minna og annarra í kring um mig. Bæta sig og sína.
En er þetta æðri tilgangur? Veit það svo sem ekki.


Kári Rafn - 15/04/06 10:01 #

Við erum góð við dýr vegna þess að það er orðinn hluti af siðferði okkar vegna þrýstings frá m.a. dýraverndunarsinnum. Það kemur málinu nákvæmlega ekkert við hvort þessi meirihluti sem beitir þrýstingnum sé trúaður eða ekki. Siðferði er ekki einskorðað við trúarbrögð. Það er eins hægt að segja að við séum góð við dýr vegna þrýstings frá Liverpool aðdáendum... (eru þeir ekki annars stærsti hópur fótboltaáhugamanna hérlendis?)

Svo ég orði þetta aðeins einfaldar: Siðferði er eitthvað sem við öll höfum (ef frá eru taldir siðblindir og annað álíka veikt fólk), trú er það ekki.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.