Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hagnýt tómhyggja

Í grein minni Er tómhyggja slæm? ræði ég það hvernig tómhyggjan, sem sumir trúlausir finna fyrir annað slagið, getur virkað sem þroskandi og dýpkandi reynsla, fremur en að vera það hræðilega hyldýpi sem trúmenn sannfæra sjálfa sig um að hún hljóti að vera. En tómhyggja er ekki aðeins örvandi og gefandi hugarástand, heldur hef ég komist að því að hún er hin fullkomna upplifun á veröldinni.

Í sumar tók ég þátt í blúshátíð á Ólafsfirði og spilaði þar með mörgu góðu fólki. Einn þeirra var Jón Ólafsson bassaleikari, stundum nefndur hinn „lati“, til aðgreiningar frá Jóni „góða“ í Nýdönsk og svo Skífu-Jóni hinum „vonda“.

Jón lati er rólyndismaður og mikill húmoristi, svo ekki sé minnst á snilldina við bassaleikinn. Og þannig háttaði til að þar sem við sátum nokkrir félagar og biðum eftir að komast á sviðið til að sándtékka, þá lötrar þessi maður að borðinu okkar í hægðum sínum og opnar glottandi samræðuna með þessum orðum:

Þetta er nú meiri vitleysan allt saman.

Eitt andartak gat mig ekki órað fyrir hvað hann átti við. Var blúshátíðin bara vitleysa? Tónlistarsköpun yfir höfuð? Eða átti hann kannski við lífið sjálft, mannsævina eins og hún leggur sig?

Á innan við sekúndu varð ég fyrir opinberun. Hann átti væntanlega við tilveruna í heild sinni. Auðvitað! Við fæðumst og við drepumst, en allt sem gerist þar á milli er ein allsherjarvitleysa. Við leggjum alls konar merkingu í það sem fyrir augu ber og gerum hlutunum upp mikilvægi og tilgang, en eftir stendur að þetta er allt saman bara eitthvað rugl.

Þetta er tómhyggjan í hnotskurn. Og upplifunin af henni er ekki vitund hræðileg. Nei, mér þykir hún æðisleg! Þessi skoðun á veröldinni og vafstri okkar í henni veitir manni frelsi, frelsi frá niðurnjörvandi vanahugsun um hvað sé mikilvægt. Hún skapar mönnum sjónarhól þar sem þeir eru fullkomlega ósnortnir af öllu kjaftæðinu sem bindur líf manna á klafa. Trúa á guði? Eignast auðævi? Öðlast virðingu? Völd? Nei takk, ekkert frekar, því vafstur okkar er allt saman bölvuð vitleysa þegar upp er staðið. Maður getur allt eins lagt metnað sinn í að vera flækingur og auðnuleysingi, síðastur allra í goggunarröðinni. Skiptir ekki máli meðan maður býr að frelsinu til að sjá hlutina í þessu dásamlega samhengi.

Svo rétt.

Við erum frjáls að því að gera það sem okkur sýnist. Sú krafa samfélagsins að við hegðum okkur á einhvern tiltekinn hátt, komum okkur upp samanburðarhæfum lífsgæðum og rútínu, hún skiptir ekki nokkru einasta máli, enda kemur hún frá flokki fólks sem hefur ekki áttað sig á að þetta er allt saman bara vitleysa.

Eina siðferðisviðmið þessara nálgunar við lífið felst aðeins í því að tilvera manns rekist ekki á rétt annarra til sambærilegrar tilveru. Svo lengi sem athafnir manns í þessum óskapnaði eðlis- og efnafræðilegra lögmála sem við köllum veröld, bitna ekki á öðrum skiptir engu hvað við hugsum og gerum.

Hagnýta tómhyggjan hljóðar upp á fullkomið frelsi til orðs og æðis og um leið rúmar hún hæsta siðferðisþroska sem vitað er um. Tómhyggjan getur augljóslega leitt okkur til hamingju.

Enda er hamingjan ekki eitthvert stórt og heildstætt fyrirbæri sem eltast skal við, heldur aðeins safn lítilla nautna sem auðga líðan okkar - bóklestur, hjólreiðar, át og drykkja, íþróttir, kynmök, leikhús og hvað þetta nú allt heitir. Við ættum því, ef ætlunin er að höndla hamingjuna, að leitast við að gera sem mest af því sem veitir okkur ánægju, eltast við hamingjurnar.

Svo má náttúrlega bæta við þann pakka uppskrift minni að hamingjunni sem birtist í vor á blogginu mínu.

Ég hef verið í extragóðum fílíng upp á síðkastið og sé ekki betur en það muni halda áfram það sem eftir lifir. Og ég þakka það ekki síst Jóni lata, þessum mikla heimspekingi, fyrir að opna augu mín fyrir hagnýtingu tómhyggjunnar. Ekki það að ég hafi verið eitthvað vansæll fyrir.

Þið þurfið ekki sjálfshjálparbækur eða trúarbrögð, heldur einungis hugarfarið sem frelsar og nærir. Hagnýt tómhyggja er málið.

Birgir Baldursson 14.08.2005
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Þór Melsteð - 14/08/05 01:03 #

Velkominn í mína heimsmynd!

Gaman að sjá þegar fleiri uppgötva tómhyggjuna. Þar sem ég er ekki einn af þeim sem treð mínum skoðunum upp á aðra, þá gleður mig alltaf þegar einhver finnur þetta hjá sjálfum sér.

Þar sem tilveran er að öllum líkindum tóm tilviljun, getum við í raun ekki reynt að finna einhvern tilgang með henni. Formúlan mun aldrei ganga upp ef við reynum það, því þá erum við komin á sömu slóðir og Intelligent Design fólkið sem vill meina að einhver æðri vera hafi búið til heiminn og þ.a.l. hljóti að vera einhver æðri ástæða.

Það er alls ekki depressing að finna fyrir því hvað maður er lítill, það er í raun það hollasta sem maður getur orðið fyrir á lífsleiðinni, því það setur allt í svo svakalegt samhengi, auk þess sem maður hættir að taka sjálfan sig jafn alvarlega og áður.

Fyrir mér var það ekki flóknari hlutur en að sjá hringi Satúrnusar með eigin augum (í gegnum sjónauka að sjálfsögðu). Tilfinningin og smæðin var svo yfirþyrmandi að ég hef aldrei síðan litið á mannveruna eða tilveru okkar yfirhöfuð sem nokkuð annað en skemmtilega tilviljun sem svo merkilega vill til að við erum meðvituð um. Það er svo gaman að vera til þegar maður uppgötvar þetta - það er frelsandi, svo ég hætti mér nú út í orðalag sem jesúplebbarnir nota. Við njótum þeirra forréttinda að vera meðvituð um eigin dauðleika, sem vissulega er ein helsta ástæða þess að við (mannkyn) höfum jafn fjölbreytilega heimssýn og raun ber vitni. Sumt fólk einfaldlega þarf á því að halda að finna ástæðu fyrir öllu (tilveru heimsins líka), aðrir ekki. Ég hef enga þörf fyrir það. Mér finnst gaman að læra hvernig heimurinn virkar, en ég ætla ekki að eyða lífinu í leit að svari við spurningunni 'hvers vegna', vegna þess að það svar finnum við aldrei.

PS. þú minntist á sjálfshjálparbækur... þá datt mér í hug það sem Steven Wright sagði einu sinni: "If you buy a self help book, doesn't that defeat the purpose?"


Ásgeir - 14/08/05 13:44 #

Maðurinn sem hangir á krossinum vinstra megin við Brian í Monty Python-myndinni Life of Brian orðaði þetta vel: "You know, you come from nothing, you're going back to nothing. What have you lost? Nothing!"


ThorvaldurJo - 14/08/05 14:29 #

,, If the whole universe has no meaning, we should never find out it has no meaning´´ (Cs.Lewis)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 14/08/05 14:42 #

Afskaplega er þetta kjánalegt hjá Lewis. Hverju ert þú að reyna að koma á framfæri (aftur) Þorvaldur? Næst þegar þú sendir inn þessa sömu tilvitnun mun ég eyða henni og loka á þig tímabundið.


ThorvaldurJo - 14/08/05 16:26 #

Hvað meinaru? En allavegana þá er þetta snilldarsetning. Ef að lífið hefði engan tilgang og merkingu almennt in the first place þá myndum við sem tilgangslausar og tilviljunarkenndar og aumkunnarverðar lífverur aldrei vera í því að spá í tilgang og merkingu og tilviljunum yfirhöfuð. Að mínu mati sannar þessi setning,, Það er enginn tilgangur með þessu lífi´´ að það er einhver tilgangur með þessu LÍFI, þó að það sé hægt að rífast um þennan tilgang endalaust, til þess eru trúarbrögðin.


danskurinn - 14/08/05 16:46 #

“Þetta er nú meiri vitleysan allt saman” lýsir greininni ágætlega. Tilveran snýst ekki eingöngu um einstaklinginn sjálfan og skynjun hans á eigin egói eða safni lítilla nautna sem auðga líðan hans. Gleði og hamingja er miklu frekar fólgin í uppfyllingu drauma og hamingju ástvina okkar sem er óbrengluð skynjun á öðru fólki í tíma og rúmi. Sá sem þroskar ekki með sér þessa hæfileika er ólíklegur til að höndla með eigin hamingju, sama hvað hann hjólar mikið eða borðar mikið. “Hagnýt tómhyggja” þarf að ná yfir þessa skynjun og tilfinningu fyrir öðru fólki til að standa undir nafni


Matti (meðlimur í Vantrú) - 14/08/05 16:47 #

Ef að lífið hefði engan tilgang og merkingu almennt in the first place þá myndum við sem tilgangslausar og tilviljunarkenndar og aumkunnarverðar lífverur aldrei vera í því að spá í tilgang og merkingu og tilviljunum yfirhöfuð.

Það er nákvæmlega engin glóra í þessari "röksemdarfærslu"


ThorvaldurJo - 14/08/05 20:18 #

Komdu með rök Matti?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 14/08/05 20:51 #

Komdu með rök Matti?

Ég skil ekki alveg, er þetta spurning? (sbr, spurningamerkið í lok setningar). Ef svo, um hvað er spurt?

Það að: * Lífið hefur engan tilgang og merkingu

Kemur á engan hátt í veg fyrir að
* við sem tilgangslausar og tilviljunarkenndar og aumkunnarverðar lífverur spáum í tilgangi, merkingu og tilviljunum yfirhöfuð

Sú tenging þín og Lewis er órökstudd. Þú hefur ekkert hrakið í grein Birgis, engin rök sett fram, einungis frasa. Það er nóg fyrir mig að benda á það, ég þarf ekki að rökstyðja öndverða skoðun sérstaklega til að benda á rökleysi þitt.


Þór Melsteð - 14/08/05 21:05 #

Að mínu mati sannar þessi setning,, Það er enginn tilgangur með þessu lífi´´ að það er einhver tilgangur með þessu LÍFI

Reyndar sannar hún ekki neitt. Fyrir þér hefur hún ákveðna merkingu, en það er ekki það sama og sönnun.

Hvað er annars tilgangur? Tilgangur er í grófri útskýringu það sama og hlutverk. T.d. tilgangur hamars er að auka ásláttarmátt okkar þannig að við getum rekið inn nagla eða beygt eða brotið það sem lamið er. Það er s.s. hlutverk hamarsins að auka ásláttarmátt okkar. Ef við höfum þetta í huga, þá er aðeins ein leið fyrir okkur að komast að þeirri niðurstöðu að við gegnum hlutverki í heiminum: að æðri máttur hafi gefið okkur verkefni. Til þess að sanna tilgang, verðurðu því að sýna fram á tilvist æðri máttar og eitthvað 'grand plan' þess máttar fyrir öllu saman. Án þess að geta sannað það, geturðu aldrei sannað 'tilgang'.


danskurinn - 14/08/05 21:50 #

“Hvað er annars tilgangur? Tilgangur er í grófri útskýringu það sama og hlutverk. T.d. tilgangur hamars er að auka ásláttarmátt okkar þannig að við getum rekið inn nagla eða beygt eða brotið það sem lamið er. Það er s.s. hlutverk hamarsins að auka ásláttarmátt okkar.”

Þetta er rétt hjá Þór. Það gæti hins vegar verið varasamt að telja að hamar hafi tilgang á meðan mannskepnan hafi ekkert hlutverk. Það var jú maðurinn sem skapaði hamarinn. Gaman væri að lesa í grófri útskýringu hvar Þór setur mörkin, þ.e. hvað hefur tilgang og hvað hefur ekki tilgang.


Snær - 14/08/05 23:55 #

"Þetta er rétt hjá Þór. Það gæti hins vegar verið varasamt að telja að hamar hafi tilgang á meðan mannskepnan hafi ekkert hlutverk. Það var jú maðurinn sem skapaði hamarinn. Gaman væri að lesa í grófri útskýringu hvar Þór setur mörkin, þ.e. hvað hefur tilgang og hvað hefur ekki tilgang."

Hmm.

Ég tel það svo vera, að ef einhver hefur nægilega stjórn á einhverju, þá geti viðkomandi gefið því tilgang.

Ef ég á hamar, þá gæti ég notað hann í að hamra nagla, jafnvel eingöngu það, og þá væri það tilgangur hans. Tilgangur hamarsins verður það sem mér gengst til með notkun hans.

Hinsvegar sé ég enga ástæðu til þess að gefa sjálfum mér eða öðrum nokkurn tilgang, hvorki í eintölu né fleirtölu. Ég geri einfaldlega það sem mér sýnist að hverju sinni, og síðan er það ekki í mínum verkahring að stýra gerðum annara.

Svona sé ég málið:

Þrengsta skilgreining
  • Fyrirbæri hefur sem tilgang það hlutverk sem honum er gefið af vitrænni veru. - Fyrirbæri hefur sem tilgang þær afleiðingar sem það kemur til leiðar sem hlekkur í keðju orsaka/afleiðinga sem það sinnir (fyrir tilstuðlan náttúruafla (og/eða yfirnáttúru, ef slíkt kemur til greina).

Víðasta skilgreining

Ég held að Danskurinn noti víðari skilgreininguna


Þór Melsteð - 15/08/05 00:31 #

Þetta er rétt hjá Þór. Það gæti hins vegar verið varasamt að telja að hamar hafi tilgang á meðan mannskepnan hafi ekkert hlutverk. Það var jú maðurinn sem skapaði hamarinn. Gaman væri að lesa í grófri útskýringu hvar Þór setur mörkin, þ.e. hvað hefur tilgang og hvað hefur ekki tilgang.

Þú hittir þarna naglann á höfuðið (með hamri væntanlega), kannski án þess að vita af því. Hamarinn hefur einmitt hlutverk þar sem maðurinn skapaði hamarinn með ákveðinn tilgang í huga. Þar af leiðandi er útilokað að draga þá ályktun að maðurinn sjálfur hafi tilgang án þess að gefa sér að hann hafi verið skapaður með eitthvað hlutverk í huga. Sú ályktun felur einmitt í sér það álit að æðri máttur hafi skapað okkur og gefið okkur hlutverk. Þar sem útilokað er að sanna slíkar hugmyndir og engin sönnnunargögn eru til þeim til stuðnings, er það þannig að um leið og við höfnum tilveru guðs eða annarrar æðri veru, höfnum við hugmyndinni um æðri tilgang eða hlutverk mannkyns. Þessi heimsmynd er því í fullkomnu samræmi við trúleysi.

Svona sé ég málið: Þrengsta skilgreining

- Fyrirbæri hefur sem tilgang það hlutverk sem honum er gefið af vitrænni veru.
- Fyrirbæri hefur sem tilgang þær afleiðingar sem það kemur til leiðar sem hlekkur í keðju orsaka/afleiðinga sem það sinnir (fyrir tilstuðlan náttúruafla (og/eða yfirnáttúru, ef slíkt kemur til greina).

Víðasta skilgreining

Ég held að Danskurinn noti víðari skilgreininguna

Jamm, ég held það líka og ég er ánægður með þessar skilgreiningar hjá þér.
Ég skilgreini tilgang samkvæmt þrengri skilgreiningunni. Hlekkur í keðju hefur ekkert fyrirfram ákveðið hlutverk ef hann endaði þar fyrir eintóma tilviljun.
Til dæmis... ef golfkúla lendir í tré, fer þaðan á gangstíginn og skoppar svo í höfuðið á öðrum golfara, þá þjónuðu tréð og gangstígurinn hlutverki í þeirri atburðarrás, en það var ekki tilgangur þeirra.


Finnur - 15/08/05 06:30 #

Kúnstug grein hjá Birgi.
En ég má nú tilmeð að spyrja hvort birting hennar marki stefnubreytingu hjá Vantrú? Hlutlæg gagnrýni á hinar ýmsar kellingabækur víkur fyrir huglægri boðun á ágæti trúleysis. Og riðið er á vaðið með kerlingabókina hans Birgis.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 15/08/05 09:20 #

Ég held nú að við höfum aldrei forðast það að lýsa þeim lífsviðhorfum okkar sem tengjast trúleysinu. Til að fá áróður fyrir trúleysi þá er hægt að finna eina grein hér sem heitir Trúleysi er toppurinn.


danskurinn - 15/08/05 11:40 #

Þór skrifar: “Hamarinn hefur einmitt hlutverk þar sem maðurinn skapaði hamarinn með ákveðinn tilgang í huga. Þar af leiðandi er útilokað að draga þá ályktun að maðurinn sjálfur hafi tilgang án þess að gefa sér að hann hafi verið skapaður með eitthvað hlutverk í huga. …um leið og við höfnum tilveru guðs eða annarrar æðri veru, höfnum við hugmyndinni um æðri tilgang eða hlutverk mannkyns."

Þór nær því miður ekki að svara spurningunni um hvar hann setur mörkin milli tilgangs og tilgangsleysis. Af orðum hans má þó ráða að telji hann erfitt að útskýra tilgang hlutar eða fyrirbæris þá sé líklegast ekki um neinn tilgang að ræða, þ.e. að tilgangurinn helgist af getu mannsins til að skapa, skilja, útskýra og jafnvel hagnýta hlutverkið. Hamar sem enginn skilur hvernig á að nota, hefur engan tilgang og er í raun ekki hamar. Rétt eins og maður sem skilur ekki tilgang sinn og tilveru, hljóti að lifa tilgangslausu lífi og sé í raun ekki maður. Rétt eins og formúla hafi engan tilgang fyrr en hægt er að skilja hana og hagnýta. Rétt eins og maðurinn ákveði sjálfur tilgang eða tilgangsleysi veraldarinnar.

Snær skrifar: “Fyrirbæri hefur sem tilgang það hlutverk sem honum er gefið af vitrænni veru.” Spurt er: Hver er þessi vitræna vera? Eru öll fyrirbæri tilgangslaus þar til maðurinn hefur gefið þeim hlutverk?


Þór Melsteð - 15/08/05 18:14 #

Þór nær því miður ekki að svara spurningunni um hvar hann setur mörkin milli tilgangs og tilgangsleysis.

Ég tók það skýrt fram að ég aðhylltist þrengri skilgreiningunni. Fyrst þú náðir því ekki, þá er það þessi hérna: - Fyrirbæri hefur sem tilgang það hlutverk sem honum er gefið af vitrænni veru.

Allt annað er að mínu mati post hoc.

Eru öll fyrirbæri tilgangslaus þar til maðurinn hefur gefið þeim hlutverk?
Já og nei, ég held þú sért að misskilja þetta. Þau kannski þjóna hlutverki, eins og t.d. sem hlekkur í fæðukeðjunni, en það var ekki tilgangurinn með tilvist þeirra. Hlutir geta fengið hlutverk EFTIRÁ en það er ekki TILGANGUR þeirra. Tilgangur er UPPHAFLEGT hlutverk. S.s. það hlutverk sem hlutnum var ÆTLAÐ að gegna. Tré sjá okkur fyrir timbri (og súrefni), en það er ekki þar með sagt að það sé fyrirfram ákveðinn tilgangur þeirra. Tilgangurinn með hamri er alltaf sá sami, hvort sem sá sem horfir á hann veit af honum eða ekki, þar sem hann var skapaður með ákveðið hlutverk í huga. Þetta er það sem ég er að reyna að útskýra fyrir þér. Í rauninni má líta á þetta sem muninn á tilgangi og notagildi. Það má nota hluti til margs, en það þýðir ekki að þeir hafi verið skapaðir til þess - sem þýðir að notagildið var ekki tilgangur þeirra. Við mannkynið gegnum hlutverki á jörðinni, sem hluti af fæðukeðjunni (við étum dýr og plöntur og þegar við rotnum verðum við næring fyrir dýr og plöntur). En við vorum ekki sköpuð til þess. Við vorum ekki sköpuð með einhvern ákveðinn tilgang.
Til þess að draga þá ályktun verðum við að álykta að við höfum verið 'sköpuð' sem er hluti af trúarbrögðum og er nokkuð sem aldrei verður hægt að sýna fram á með nokkrum hætti. Þar sem allt bendir til þess að við séum tilviljun og rökrétt afleiðing þróunar, þá er enginn fyrirfram ákveðinn tilgangur. Við hins vegar getum gegnt því hlutverki sem okkur sýnist.


danskurinn - 15/08/05 20:44 #

Þór Melsteð skrifar: "Ég tók það skýrt fram að ég aðhylltist þrengri skilgreiningunni. Fyrst þú náðir því ekki, þá er það þessi hérna: - Fyrirbæri hefur sem tilgang það hlutverk sem honum er gefið af vitrænni veru."

Ég náði þessu ágætlega og spurði hvar mörkin væru. Hamarinn hefur verið nefndur sem dæmi um fyrirbæri með tilgang en maðurinn sem fyrirbæri án tilgangs. Mörkin þarna á milli virðast vera skilningur eða skilningsleysi þess sem skynjar. Hlutverk hamarsins er hægt að skilja og útskýra en hlutverk eða tilgangur mannsins er eitthvað sem "aldrei verður hægt að sýna fram á með nokkrum hætti" eins og Þór orðar það og er því dæmi um eitthvað sem hefur engan tilgang eða er tilgangslaust.

Samt sem áður er tilgangurinn með hamri "alltaf sá sami, hvort sem sá sem horfir á hann veit af honum eða ekki, þar sem [hamarinn] var skapaður með ákveðið hlutverk í huga", en maðurinn hefur engan tilgang á meðan ekki verður hægt að sýna fram á með nokkrum hætti hvort hann var skapaður með ákveðið hlutverk í huga eða ekki, ólíkt hamrinum.

Er ekki heimurinn alltaf sá sami hvort sem maðurinn sem horfir á hann veit af honum eða skilur hann? Mér sýnist að í þessari heimsmynd þar sem við "getum gegnt því hlutverki sem okkur sýnist", sé einstaklingurinn búinn að upphefja sjálfan sig í líki e.k. yfirnáttúru, þar sem skilningur hans eða skilnigsleysi á að ákvaðra gildi hlutanna og veraldarinnar allrar. Það góða við þessa heimsmynd er að hún getur verið breytileg eftir því sem hinni skynjandi veru vex skilningur og vit.

Þór skrifar: "Þar sem allt bendir til þess að við séum tilviljun og rökrétt afleiðing þróunar, þá er enginn fyrirfram ákveðinn tilgangur."

Aftur eru mótsagnakenndar og glannalegar fullyrðingar. Tilviljun og rökrétt þróun eru ekki endilega sitthvor endinn á sömu spýtu heldur hvor sín spýtan. Menn vilja í lengstu lög notast við rökrétta þróun en þegar skilningur brestur er kallað eftir blindri hendingu eða tilviljun, sem á þá væntanlega að standa utan við náttúrulögmál og hið skiljanlega og rökrétta. Þetta er það sem trúaðir hafa kallað "vegir guðs eru órannsakanlegir".

Þór skrifar: "Við hins vegar getum gegnt því hlutverki sem okkur sýnist."

Margir hafa farið flatt á því ;-)


Þór Melsteð - 15/08/05 21:53 #

Er ekki heimurinn alltaf sá sami hvort sem maðurinn sem horfir á hann veit af honum eða skilur hann? Mér sýnist að í þessari heimsmynd þar sem við "getum gegnt því hlutverki sem okkur sýnist", sé einstaklingurinn búinn að upphefja sjálfan sig í líki e.k. yfirnáttúru, þar sem skilningur hans eða skilnigsleysi á að ákvaðra gildi hlutanna og veraldarinnar allrar. Það góða við þessa heimsmynd er að hún getur verið breytileg eftir því sem hinni skynjandi veru vex skilningur og vit.
Heimurinn er reyndar síbreytilegur, þannig að ég skil ekki alveg hvað þú ert að fara þarna. Heimsmynd okkar er vissulega breytileg þar sem við erum sífellt að uppgötva meira og skilja meira. En ég fæ með engu móti botn í þá hugmynd að maðurinn sé að setja sjálfan sig í líki yfirnáttúru. Þú virðist þarna enn vera að tala um það sem ég leiðrétti hjá þér í síðasta pósti, muninn á tilgangi og hlutverki. Við getum sett hvað sem er í hvaða hlutverk sem er, sem viti bornar verur. En við getum einungis gefið þeim hlutum tilgang, sem við búum til sjálf. T.d. tilgangur klukku er að hjálpa okkur að fylgjast með tímanum. Þú getur notað klukku sem hurðarstopp ef þú vilt, en það er ekki tilgangurinn. Bara það hvernig við notum hlutina eða sjáum hlutina, hefur ekkert með tilgang þeirra að gera. Eins og ég sagði áður, þá er aðeins eitt fyrirbæri sem gæti gefið heiminum tilgang og það er meintur skapari hans. Þar sem skaparinn er enginn og verður aldrei hægt að sýna fram á að hann/hún/það sé til, verðum við að líta svo á að heimurinn sem slíkur hafi engan tilgang, þó allir hlutir í honum þjóni hlutverki.
Aftur eru mótsagnakenndar og glannalegar fullyrðingar. Tilviljun og rökrétt þróun eru ekki endilega sitthvor endinn á sömu spýtu heldur hvor sín spýtan. Menn vilja í lengstu lög notast við rökrétta þróun en þegar skilningur brestur er kallað eftir blindri hendingu eða tilviljun, sem á þá væntanlega að standa utan við náttúrulögmál og hið skiljanlega og rökrétta.

Alrangt. Að þú skulir halda þessu fram segir mér að þú veist ekki hvernig þróun á sér stað. Þetta er í raun sama spýtan... ekki einu sinni sitt hvor endinn, heldur sami endinn. Þegar talað er um rökrétta þróun, þá er verið að tala um það að þær lífverur sem henta aðstæðum best hverju sinni lifa af á meðan aðrar deyja út. Tilviljanakenndar breytingar í lífverunum getur gert þær betur eða verr til þess fallnar að lifa af. Þannig er það að tilviljun og rökrétt vinnur fullkomlega saman í þessu tilviki.

"Við hins vegar getum gegnt því hlutverki sem okkur sýnist."

Margir hafa farið flatt á því ;-)

Sé ekki alveg hvað þetta kemur umræðunni við.


danskurinn - 16/08/05 01:29 #

Danskurinn skrifar: "Er ekki heimurinn alltaf sá sami hvort sem maðurinn sem horfir á hann veit af honum eða skilur hann?" Þór Melsteð svarar: "Heimurinn er reyndar síbreytilegur, þannig að ég skil ekki alveg hvað þú ert að fara þarna."

Það er einmitt þannig sem hann er, síbreytilegur, hvort sem maðurinn sem horfir á, veit af þessu eða skilur þetta? Þú skilur það kannski seinna, að heimur sem er síbreytilegur, er alltaf sami heimurinn.

Þór skrifar: "Þegar talað er um rökrétta þróun, þá er verið að tala um það að þær lífverur sem henta aðstæðum best hverju sinni lifa af á meðan aðrar deyja út."

Við sjáum ekki aðrar lífverur en mannkyn þróast til sífellt meiri skynjunar á tíma og rúmi. Hundurinn er alltaf sami geltandi rasssleikjarinn á meðan maðurinn hefur breytt lífi sínu og lifað rökrétta þróun á átt til fullkomnari skynjunar á tíma og rúmi. Hundurinn lifir samt ágætu lífi og er ekkert á leið að deyja út, síður en svo. Hin rökrétta þróun er því miklu frekar framfarir mannsins á sviði hugsana, sköpunar og innsæis, miklu frekar en lífræðilegar eða efnislegar breytingar á líkama lífverana. Að þessu leyti er maðurinn alveg sér á parti.

Þór skrifar: "Tilviljanakenndar breytingar í lífverunum getur gert þær betur eða verr til þess fallnar að lifa af. Þannig er það að tilviljun og rökrétt vinnur fullkomlega saman í þessu tilviki."

Þetta eru bara tómar fullyrðingar hjá þér Þór. Hvar eru mörkin á milli tilviljunar og hins rökrétta? Eru mörkin kannski þar sem skilningur mannsins verður skilningsleysi?


Þór Melsteð - 16/08/05 05:11 #

Það er að verða mér ansi ljóst að þú virðist ekki alveg hafa skilning á því hvernig þróunin fer fram, né hvernig þróunarkenningin er framsett og hugsuð.

Þú spyrð hvar mörkin séu milli tilviljunar og hins rökrétta. Rökrétt framhald lífveru snýst engöngu um það sem hentar hverju sinni. Það er rökrétt að sú vera sem hentar best aðstæðum hverju sinni er sú sem er líklegust til að lifa af - ekki vegna þess að einhver ákvað það, heldur vegna þess að breytingar sem gerðu hana hentuga aðstæðum voru tilviljanakenndar breytingar í genauppröðun. Aðrar verur af sama stofni höfðu aðrar (eða mjög litlar) tilviljanakenndar breytingar sem gerðu það að verkum að þær hentuðu aðstæðum ekki eins vel og hinar verurnar og náðu því ekki að halda DNA keðju sinni á lífi með fjölgun og dóu smám saman út. Á sama tíma fjölgaði veran sem hentaði aðstæðum betur sér nægilega mikið til að halda sinni DNA keðju á lífi. Þetta er allt saman fullkomlega rökrétt. En þú virðist mistúlka þetta á þann hátt að tilviljun ein ráði því hvaða vera lifir af og því geti það ekki bæði verið tilviljun og rökrétt samtímis. Það er alröng túlkun á því sem ég sagði og alröng túlkun á þróunarkenningunni, sem er einmitt ástæða þess að ég tel þig ekki skilja kenninguna.

Auðvitað höfum við ekki séð hund verða eitthvað annað en hund í okkar líftíma... það segir sig sjálft. Þróun tekur þúsundir ára. Þú þyrftir að geta fylgst með ákveðinni dýrategund allan þann tíma til að sjá varanlegar breytingar... en bíddu við, við höfum gert það hingað til - með því að skoða steingerfinga og aðrar leifar. Hins vegar eru vafalaust smávægilegar breytingar sem hafa orðið á hundum frá því fyrir 5000 árum, ef við bara hefðum 5000 ára gamalt eintak til að skoða... en bíddu við, það höfum við einmitt. Eftir önnur 5000 ár, hafa frekari breytingar orðið á stofninum. Hver veit, hundar gætu verið útdauðir eftir 5000 ár. Hver veit nema aðstæður breytist nægilega á jörðinni á þeim tíma þannig að hundar verði ófrjóir. Þarf ekki mikið annað en breytingu á næringarefnum þeirra. En svo gæti líka verið ein tegund hunda sem er ónæm fyrir þeim breytingum og verður því eina tegundin sem lifir af. Þróunin er voðalega einföld í eðli sínu þegar maður skilur hana. Það er einmitt það skemmtilegasta við hana, hvað hún er einföld og rökrétt.

Annars er ég ekki sáttur við það að tala við fólk sem getur ekki sýnt almenna mannasiði. Setning eins og "Þú skilur það kannski seinna" er ekkert annað en hroki og niðurtal og er ekki viðeigandi.


Þór Melsteð - 16/08/05 05:19 #

Langaði aðeins að skjóta inn hérna einni hugsun sem mér hefur alltaf þótt skemmtileg og mér finnst passa ágætlega í þráð um tómhyggju.

Lífið er bandstrik.

Nú kann einhver að hvá...

Jú, sjáðu til. Kíktu á alla grafreiti sem þú finnur. Skoðaðu krossana og legsteinana. Á þeim öllum er skráður fæðingardagur og dánardagur. Hvað er á milli? Bandstrik!

Ergo, lífið er bandstrik, svona þegar upp er staðið (eða lagst niður eftir því hvernig þú lítur á það).


Karl G - 16/08/05 08:53 #

Þetta var með yndislegri greinum hér á Vantrú. Hugtakið hagnýt tómhyggja er ákaflega skemmtilegt og þarna var margt að finna sem ég kýs að reyna að lifa eftir.

Ég hef verið krafinn þess að ég þurfi eitthvað til að trúa á; einhvern tilgang í lífið. Það að ég vilji eyða lífinu í að upplifa hamingju í sjálfum mér sem lífveru í efnisheimi með skýrt mörkuðu upphafi (fæðingu) og enda (dauða) án æðri máttarvalda og hulins valds virðist bara ekki nógu gott fyrir sumt fólk.

Þá er spurning hvort ég eigi ekki að taka Gnarr-pólinn í hæðina: vorkenna þeim sem hafa ekki fundið hagnýta tómhyggju? Jæja. Þetta var ódýrt skot en ég fór bara allt í einu að velta fyrir mér hve erfitt það hlýtur að vera ef fólk þarf að flækja hlutina meira en hagnýt tómhyggja gerir ráð fyrir...

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.