Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Það er ljótt að plata

Í gær var fyrsti apríl. Sú hefð hefur myndast að á þeim degi megi plata náungann og reyna að láta hann hlaupa 1. apríl. Við á Vantrú tókum þátt í leiknum að þessu sinni og lugum því að lesendum að síðunni væri lokað vegna hótana frá lögfræðingum Þjóðkirkjunnar.

Einhverjir féllu fyrir gabbinu, aðrir föttuðu strax að um plat væri að ræða. Við ritskoðuðum athugasemdir, svo ekki væri flett ofan af gabbinu, en að sjálfsögðu eru allar athugasemdir komnar í loftið núna. Sumum þykir það kannski frekar ósanngjarnt að bloggfærslan sem vísað er á var dagsett 31/3, en staðreyndin er sú að hún fór ekki í loftið fyrr en eftir miðnætti 1. apríl. Dagsetningin var semsagt hluti af gabbinu.

Flestir er sammála um að yfirleitt sé rangt að ljúga, þó til séu undantekningar, atvik þar sem siðlaust væri að segja sannleikann. Samt látum við ljúga að okkur afar reglulega. Fjölmiðlar dæla yfir okkur "fréttum" af kjaftæði án þess að minnsta tilraun sé gerð til að komast að sannleika málsins. Draugafréttir síðustu viku eru gott dæmi, þar var engin tilraun gerð til að komast að sannleikanum í málinu heldur var boðið upp á klassískar draugasögur í helstu fréttamiðlum þjóðarinnar. Það er eins og allir dagar séu 1. apríl hjá sumum fjölmiðlum, nema hvað, hina dagana játa þeir ekki neitt.

Þó það hafi óneitanlega verið óþægilegt að ljúga að dyggum lesendum er tilgangur aprílgabbsins að stuðla að gagnrýnni hugsun. Tilefnið er göfugt og við höfum lengi vel staðið í því að vara fólk við að taka hlutum sem sjálfsögðum og gefnum. Þetta er alls ekki meint í illu því svona dagar virka sem nauðsynlegar bólusetningar gegn trúgirni. Margir þeirra er létu blekkjast lýstu yfir stuðningi og við erum afar þakklátir fyrir það. Ef við lendum í þessari aðstöðu vitum við að við höfum breiðan hóp stuðningsmanna. Vonandi tekur enginn þessu illa, hér eftir sem áður munum við á Vantrú leggja okkur fram um að segja ekkert gegn betri vitund og rembast við að fara rétt með. Menn geta svo huggað sig við að Vantrúarsinnar eru alls ekki ónæmir fyrir svona plati og hlupu einhverjir þeirra 1. apríl í dag.

Þó um grín hafi verið að ræða í þessu tilviki er það ekki alveg tilhæfulaust. Hér á landi eru við gildi lög um gvuðlast og nýleg dæmi sýna að þeir sem reka vefsíður geta átt von á hótunum frá lögfræðingum af litlu tilefni. Við hér á Vantrú munum þó ekki gefa svona auðveldlega eftir ef til þess kemur að okkur berst slík hótun eða kæra. Það má reyndar velta því fyrir sér af hverju Þjóðkirkjan hefur ekki þegar gert eitthvað álíka. Staðreyndin er sú að þar á bæ reyna menn skipulega að hundsa okkur þrátt fyrir að vera sífellt að kvarta undan skorti á umræðu um trúmál.

Svo er bara að vona að ekki fari fyrir okkur eins og ódæla drengnum sem kallaði úlfur úlfur.

Ritstjórn 02.04.2006
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Halldór E. - 02/04/06 00:05 #

Um leið og ég hrósa ykkur fyrir frábært gabb og skemmtilegt þá verð ég að benda á að kirkjan getur gert lítið í guðlastinu í ykkur, slíkt er á verksviði ríkissaksóknara. Hins vegar eins og gabbið gekk út á væri helst hægt að kæra ykkur fyrir meiðyrði og ég held að allflestir séu sammála um mikilvægi slíkrar löggjafar. Hvort sem þið séuð sekir eður ei.


Frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 02/04/06 00:19 #

Sem fyrr vil ég benda Halldóri og öðrum að Vantrú stendur ekki í persónuníð eða ærumeiðingum. Slíkt er ósæmandi og ólöglegt. Til dæmis er reglulega hent út persónuníð sem kemur á spjallkerfið okkar. Hins vegar gagnrýnum við hart embættisverk, stofnanir og hugmyndakerfi. Slík skoðanaskipti eru varin af mannréttindasáttmála Evrópu og verða aldrei skert með valdboði hér á landi. Þannig varð 125 gr. (guðlastarlögin) hegningarlaga dauður bókstafur þegar ríkisstjórn íslands undirritaði mannréttindasáttmálann árið 1994.

Ég skora bara á trúmenn að standa í fæturna og þola slíkar umræður, hversu særandi sem þeim finnast þær. Ég minni nú bara á orð biskups til okkar trúleysingjana sem hafa aldeilis fengið að heyra það frá herra Karli.

http://www.vantru.is/2005/10/24/00.01/


Halldór E. - 02/04/06 00:32 #

Ég var alls ekki að halda því fram að þið hefðuð gerst sekir, ætlaði alla vega ekki að gera það. Ég var hins vegar að benda á að það væri eina leið kirkjunnar til að beita lögfræðingum sínum á ykkur. Líkt og Birgir benti á í ummælunum á orvitinn.com.


Gunnar - 02/04/06 00:37 #

Falla eftirfarandi ummæli ekki undir persónuníð eða ærumeiðingar:

Biskup er fullur af skít.

Mér er spurn.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/04/06 00:43 #

Finnst þér það?

"Fullur af skít" er augljóstlega þýðing á enska orðatiltækinu "full of shit".

Á erfitt með að túlka það sem ærumeiðingar eða persónuníð.


Frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 02/04/06 00:52 #

Það er hægt að kæra allt en það er allt spurning um árangur. Ég hef áður bent á að Kirkjan sjálf sem stofnun getur ekki farið í mál fyrir ærumeiðingar eða opinbera gagnrýni. Hins vegar geta einstaklingar farið í mál. Þannig gæti einstaka prestur farið í mál vegna ærumeiðinga. En þar verða menn að átta sig á að öll embættisverk sem prestar eða aðrir ríkisstarfsmenn framkvæma má gagnrýna á alla mögulega vegu. Málsókn er aðeins möguleg á mjög þröngt svið persónulegra athafna (friðhelgi einkalífs) viðkomandi sem koma embættisverkum eða umræðum tengdum þeim ekkert við.

Það gleymist oft í svona umræðu að menn eru frjálsir af öllum skoðunum samkvæmt dómi mannréttindadómstólsins í Evrópu. Meiri segja var sænskur prestur sýknaður fyrir að kalla samkynhneigð krabbamein og öllum öðrum illum nöfnum. Ég get lofað ykkur að mál samtaka 78 gegn Gunnari í Krossinum eru algjörlega vonlaust mál. Það er möguleiki að einstaka dómarar og þá í héraðsdómi látist glepjast til að dæma. Hæstiréttur mun dæma á sama hátt og sá Sænski, annað væri stórslys. Það er allavega alveg ljóst hvernig slíkt mál færi hjá mannréttindadómsstólnum.

Svona er staðan hvort sem mönnum líkar....


Gunnar - 02/04/06 00:54 #

Ég veit það sosum ekki, hef ekki menntun til að meta hvort þetta telst vera persónuníð, en ég myndi a.m.k. segja þetta vera á gráu svæði.

Mikið vildi ég að þið væruð eilítið orðvarari almennt og yfirleitt. Carl Sagan varð ágætlega ágengt með sínu kurteislega dissi. Ég tel það þjóna málstaðnum betur. En þið viljið "kalla hlutina sínum réttu nöfnum".

Oh well.


Frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 02/04/06 00:59 #

Það má kalla biskup hvaða nafni sem er. Gagnrýni á embættismanninn biskup er 100% lögleg hér á landi sem betur fer.

Maður nokkur var kærður fyrir að kalla lögregluna öllum illum nöfnum, þræla og hvað eina. Dómstólar hér hlupu á sig og dæmdu samkvæmt gömlum lögum um sérstaka vernd ríkisstarfsmanna. man ekki nákvæmlega hvaða ár þetta var c.a. 1990. Mannréttindadómstóll Evrópu flengdi íslenska ríkið svo illa að það náði engri átt. Alþingi varð að henda þessum lögum út enda voru þau frá þeim tímum að embættismenn Danakonungs þóttu heilagir hér á landi. Biskupinn er ekki heilagur embættismaður og það má kalla hann hvaða nafni sem er. Það fer enginn í fangelsi fyrir að hafa skoðun á biskup, skárra væri það nú.


Khomeni - 02/04/06 01:18 #

Þið náðuð mér algerlega í þessu máli. ég átti erfitt með svefn vegna gremju í garð Þjóðkirkjunnar.

Prik fyrir Vantrú.is

Khomeni er glaður að Vantrúin hans er ennþá live and kicking.

Áfram vantrú!!!

......Helvítis illyrmin ykkar.


Gunnar - 02/04/06 01:20 #

Ef DV myndi birta tilhæfulausa forsíðufrétt "Forsætisráðherra er barnaníðingur", væri það ekki persónuníð? Hvað með "Forstjóri KB banka er dópsali"? Ég á svolítið bágt með að trúa því að hægt sé níða menn með því að nefna eitthvert séreinkennandi hlutverk þeirra í stað þess að nafngreina þá. En vel má vera að þú sért mér lögfróðari.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 02/04/06 01:37 #

He he he, þetta var nú meira prakkarastirkið.


Frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 02/04/06 01:39 #

Slíkur hryllings verknaður er ekki hluti af embættisverkum forsætisráðherrans, þannig að málið verður þá sjálfkrafa persónulegt. Ef um lygi væri að ræða, Þá færi hann í mál við blaðið sem persóna en ekki sem embættismaður.

Ef fyrirsögn blaðsins væri gagnrýni á verk forsætisráðherrans. Til dæmis að hann vildi banna skólamáltíðir, væri slík fyrirsögn fullkomlega leyfileg ef að útskýring fylgdi með fréttinni á forsíðu. Virkilega smekklaust en algjörlega löglegt.

Nú ef hann væri barnaníðingur væri málið að sjálfsögðu frétt.


Sveinbjörn Halldórsson - 02/04/06 02:27 #

Já, maður sefur betur vitandi þess að þarna úti eru staðfastir, glaðsinna og vökulir varðmenn Sannleikans.


Bragi - 02/04/06 04:24 #

Jahá. Ég féll algerlega fyrir þessu, gott gabb. Hef mér það kannski til málsbóta að 1. apríl var ekki ennþá kominn hjá mér þegar ég sá gabbið, þótt maður hefði samt auðvitað átt að skilja þetta.

En eruð þið ekkert hræddir um að þessi brandari verði einhvern tíma að veruleika?


Bóas Valdórsson - 02/04/06 08:18 #

Fattaði þetta of seinnt. Lét platast. Fyndið hvað manni finnst vera búið að drulla yfir mann þegar maður er tekinn svona í bólinu. Takk fyrir mig, mjög hressandi í alla staði.

Vekur sjálfan mig til umhugsunar um hversu næm þessi málefni eru i huga mér. En ég hef líka verið bombardaður með málfrelsis umræðum um trúmál síðustu mánuði vegna búsetu minnar hér í Danmörku og teikningamálsins. Þar finnst mér niðustaðan vera að ekki sé réttlætanlegt að segja allt um alla í nafni málfrelsis. sbr jótlandspósturinn er aðeins til í að birta skrípómyndir í tengslum við sum trúarbrögð og ekki mega allir segja hug sinn sbr ekki imanar á fyrirlestrar "áróðurs" ferð.

En aftur, góður jókur.

Ég sé á móti að ritskoðunar bannerinn er enþá yfir auglýsingunni á nýju bókinni hans Hugleiks á mbl.is. Taldi að það væri líka aprílgabb en kannski er það bara þaulhugsuð póstmódernísk auglýsingabrella.


Sævar Már - 02/04/06 10:50 #

Þið náðuðuð mér alveg. Mjög vel skipulagt gabb. En það er eitt sem ég er að velta mér upp úr sambandi við 1. apríl göbb.

Eiga þau að snúast um að gabba fólk til að fara einhvert?

Var að rökræða um þetta við félaga minn og ég hafði alltaf upplifað 1. apríl bara sem plein gabb, ekki endilega gabba einhvern til að fara fíluferð. En félaginn var nú algjörlega á öndverðu meiði.

Vonandi geta einhverjir frætt mig betur um þetta.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/04/06 11:04 #

Margir eru á því að fólk þurfi að fara eitthvað til að um alvöru aprílgabb sé að ræða. Mér finnst það dálítið gamaldags :-)

Upphaflega var hugmynd okkar að fá fólk til að skrifa nafn á undirskriftarlista til að mótmæla þessari aðför, en okkur þótti það dálítið augljóst. Því ákváðum við að setja þetta svona upp og vonuðum að fólk myndi "hlaupa fyrsta apríl" með því að kommenta á bloggið og eða blogga um þetta sjálft. Það tókst.

Ef þetta hefði verið betur planað hefði kannski verið sniðugt að skipuleggja fjöldamótmæli fyrir framan Biskupsstofu eða eitthvað álíka, en satt að segja höfðum við ekki bara tíma til þess.

Þetta var nefnilega afgreitt á síðustu stundu, rétt fyrir miðnætti 1. apríl.


Snær - 02/04/06 11:52 #

Samkvæmt eðli netsins, snúast göbb þar oft frekar út á að láta fólk gera eitthvað, frekar en að fara eitthvað. En fýluferð er það samt sem áður.

Í þessu tilfelli fóru þeir fýluferðina sem sendu svör inn á bloggið hans Matta Á. Ja, eða a.m.k. þeir sem ekki áttuðu sig á því að þetta væri gabb.


Halldór Berg - 02/04/06 11:55 #

Haha, ég hljóp apríl. Voðalega lélegur svona með dagsetningarnar. Þetta hefði bara verið svo dæmigert. Ég gat vel ímyndað mér kirkjuna gera eitthvað þessu líkt.


Snæbjörn - 02/04/06 16:47 #

Þið náðuð mér algjörlega. Ég var farinn að safna undirskriftalistum og skipuleggja mótmæli. Ég sendi email á moggan, fréttablaðið og DV, svo fór ég líka að safna fólki á undirskriftalista og mælast til þess að fólk skrifaði biskup bréf á svipaðan máta og Amnesty International.


logo - 02/04/06 18:33 #

Það er út af fyrir sig bænasver að vefnum var lokað í einn dag, og hver veit nema að það komi fleiri dagar eftirá.


Flóki - 02/04/06 19:18 #

Flott gabb, ég lét algerlega gabbast :) En já, það er talað um að hlaupa 1. apríl og það telst ekki gabb með göbbum nema sá gabbaði þurfi að fara yfir allavega einn þröskuld á leið sinni.

En ég held að með svona netgöbbum þá verði það að teljast gott og gilt að fólk eyddi tíma í að commenta á þetta, og þá er commentið væntanlega þröskuldurinn :)

Ég fór þá allavega yfir einn :)


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 03/04/06 04:50 #

Samkvæmt mínum kokkabókum þurfa þröskuldarnir að vera tveir.

Úff, mér lá við andköfum af hlátri þegar ákveðinn góðkunningi Vantrúar hringdi áhyggjufullur í mig til að spyrja hvort þetta væri eitthvað grín!


Eggert Egg - 03/04/06 11:41 #

Ég hélt líka að skv skilgreiningum um aprílgabb þá þyrfti það að gerast 1.apríl, ekki 31.03.2006 23:55 eins og þetta gerði...Þannig að í raun var þetta 31.Mars gabb hjá ykkur strákar þó ekki hafi skeikað nema nokkrum mínútum


Matti (meðlimur í Vantrú) - 03/04/06 11:58 #

þá þyrfti það að gerast 1.apríl, ekki 31.03.2006 23:55 eins og þetta gerði.

Hver segir að þetta hafi gerst 31.03.2006? Trúir þú öllu sem þú lest? Staðreyndin er sú að dagsetningin var hluti af gabbinu, þetta fór á vefinn eftir miðnætti 1. apríl. Mér þótti þetta bara of augljóst ef dagsetningin var 1. apríl.


Nonni - 03/04/06 14:04 #

Sosum ekki nýtt á þessari síðu. Lýgi á lýgi ofan.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 03/04/06 14:07 #

lol :-)


SJ - 03/04/06 15:48 #

Gott að vita að þið mynduð ekki gefast svona auðveldlega upp! :)


Oskar - 03/04/06 20:01 #

Hehe jæja maður hljóp þá 1. apríl eftir allt saman, en eins og þið sögðuð þá er gott að þið sjáið að þið eigið stóran hóp stuðningsmanna sem hægt er að leita til ef þörf er á.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.