Því er oft haldið fram að kristin trú sé einn af hornsteinum menningar okkar og liggur þessi athugasemd til grundvallar þeirri miklu áherslu sem lögð er á kristna fræðslu í grunnskólum landsins. Á dögunum ræddi ég við nokkra 14 og 15 ára unglinga um nám þeirra gegnum árin og er kristinfræðsla barst í tal lýstu þau yfir frekar litlum áhuga á þeirri fræðslu. Það kom mér í sjálfu sér ekkert á óvart en mig rak í rogastans þegar á daginn kom að enginn þessara unglinga vissi hver Charles Darwin var. Sama var uppi á teningnum þegar ég spurði þau um önnur stórmenni vísinda og hugmyndasögu liðinna alda. Þetta er að mínu viti vísbending um að menntun grunnskólabarna sé á villigötum. Lítum nánar á málið.
Þegar horft er á sögu Vesturlanda undanfarin 200 ár hefur afhelgun samfélagsins, þ.e. minnkuð áhrif trúar á vísindi og samfélag, verið einn mikilvægasti þátturinn í mótun þess þjóðfélags sem við búum við í dag. Þetta er staðreynd sem yfirvöld menntamála hér á landi virðast ekki hafa áttað sig á. Kristinfræðslan, sem er öðrum þræði hugmyndasaga, skyggir alfarið á aðra og að ýmsu leyti mikilvægari þætti í hugmyndasögu vesturlanda.
Jesú og boðskapur hans hefur vissulega haft mikil áhrif á líf Vesturlandabúa, en ofuráherslan á hann í grunnskólum landsins verður þess valdandi að börnin okkar fá ranga mynd af mikilvægi trúarbragða fyrir samfélagið í dag. Ekki bætir úr skák að þessari fræðslu er stjórnað af Þjóðkirkjunni sem eðli málsins samkvæmt er alltaf í hlutverki trúboðans, sem reynir að blanda trúnni, oft ranglega, inn í alla þætti tilverunnar. Þetta má berlega sjá í þeim ummælum biskups Íslands að andi Jesú „og áhrif haf[i] reyndar gert mikilvægasta andlegt afrek okkar tíma kleyft, nefnilega raunvísindin ... Einmitt vegna þess að frumforsenda tilverunnar er ekki ... hringrás náttúrunnar, heldur hugur, vit, vilji og skynsemi sem að baki býr allri tilveru“. Heimsmyndin sem biskup lýsir í ummælum sínum heyrir fortíðinni til, enda endurspeglar hún hugarfar sem kemur fram í vithönnunartilgátunni umdeildu, sem er í mótsögn við grunnforsendur raunvísinda samtímans.
Ef horft er á kristnifræðsluna sem kennslu í hugmyndsögu ætti hverju manni að vera ljóst að núverandi áhersla gengur ekki upp. Af hverju læra börnin okkar ekkert um þá einstaklinga, s.s. Adam Smith, John Stuart Mill, Charles Darwin og marga fleiri, sem lögðu grunninn að þeirri heimsmynd og þeim lýðréttindum sem við búum við í dag. Það ætti ekki að reynast erfitt að útbúa námsefni um þessa einstaklinga sem, eins og í tilfelli kristnifræðslunnar, hentaði börnum frá 6 ára aldri og upp út. Núverandi ofuráhersla á kristna hugmyndsögu gengur hreinlega ekki upp í nútíma afhelguðu lýðræðissamfélagi og er kominn tími til þess að börnin okkar læri eitthvað um þá einstaklinga sem sannarlega mynda hornstein menningar okkar, eins og hún er í dag.
Sr. Sigurður Pálsson semur sjálfur allt námsefnið fyrir grunnskólabörnin og hefur mikilla hagsmuna að gæta. Það er því ekki furða að karlinn er sífellt að tala um mikilvægi þessarar námsgreinar. Í framhaldinu vil ég benda á þessa grein um Jesú og siðinn í landinu.
Góð grein, Steindór.
Þetta rifjar upp fyrir mér verkefni sem strákur sem ég þekki fékk í 6 ára bekk fyrir örfáum árum. Þar átti hann að teikna myndir í 4 síðna hefti út frá sköpunarsögu biblíunnar. Ekkert við framsetninguna benti til þess að um skáldskap væri að ræða. Ekki veit ég á hvaða aldri er fyrst boðið upp á kennslu um uppruna og þróun lífsins og alheimsins en er hræddur um að það sé mun síðar. Þetta er enn eitt dæmið um það þegar kristniboði er troðið fram fyrir vísindin. Eins og þú segir ætti að vera hægðarleikur að koma inn á þessi grundvallaratriði vísindanna á fyrstu árum skólagöngunnar og ég get ímyndað mér fátt sem myndi vekja jafnmikinn áhuga á raunvísindum.
Syni mínum , 7ára, var gert að semja bæn til gvuðs. Það er augljóslega hluti af trúariðkun en ekki hlutlausu námi um trúarbrögð. Svona er endalaust níðst á börnunum. Þetta er barnaníð og hana nú!
Getur verið að þessir unglingar sem þú ræddir við séu fremur áhugalausir um nám almennt en ekki bara kristin fræði? Ég trúi því nú varla að ekki hafi verið eitthvað komið inn á Darwin á 8 ára skólagöngu.
Eva, ég get staðfest a.m.k. einn þessara unglinga er stjörnunemandi, sem alltaf fær 9 eða 10.
Þetta er barnaníð og hana nú!
Sjá enn fremur hér.
Kirkjunnar menn taka gjarna í aðra röndina undir það að ekki eigi að stunda trúboð í skólunum (sjá t.d. síðustu predikun í Hallgrímskirkju), en áður en varir eru þeir byrjaðir að tvinna þessu saman. Þeir sjá ekki muninn, eins og sést best þegar Siðmennt og Vantrú gagnrýna trúboð í skólum, þá kemur ætíð upp sá misskilningur hjá þeim að Siðmennt og Vantrú vilji úthýsa kristinfræðikennslu.
Þetta ber vott um ótrúlega þokukennda hugsun.
Kannski rétt að benda á að prediku Sigurðar Pálssonar er komin á tru.i. Síðan er til á netinu afar fróðlegt yfirlif yfir sögu kristinfræðinnar á Íslandi eftir Sigurð: Kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræðsla í skyldunámi
En varðandi greinina og gagnrýni Sigurðar Pálssonar, þá langar mig að vita hvað Steindór á við með því að Þjóðkirkjan stjórni kristinfræðikennslunni. Það er ef til vill rétt að Þjóðkirkjan hafi mikið um kennsluna að segja, td kenna allmargir prestar fagið og síðan samdi auðvitað einn prestur kirkjunnar (Sigurður sjálfur) kennslubækurnar, en það er líklega ónákvæmt að segja að hún stjórni þessu.
Kannski rétt að fjalla meir um predikunina hér, þar sem það er ekki hægt að koma með athugasemdir við hana á trú.is og hún er flutt til höfuðs þessari grein. Sigurður segir:
Í núgildandi námskrá fyrir kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði er skýrt tekið fram að kristinfræðikennslan sé ekki trúboð heldur fræðsla, upplýsing, þekkingarmiðlun, svo sem er um önnur trúarbrögð sem kennd eru.
Þó svo að það standi í kennsluskránni þá er ekki þar með sagt að þannig sé kennslunni háttað.
Þau trúarbrögð sem kennd eru í skólum bæði hér á landi og hvarvetna í kringum okkur eru kennd á eigin forsendum, það er, þau eru látin tala fyrir sig sjálf, svo nemendur geri sér betur grein fyrir hver sé mergurinn málsins.
Hvað ætli hann eigi við með orðunum "að kenna á eigin forsendum"?
En hitt er sjaldnar nefnt að þekkingarskortur á eigin trú (yfir 90% þjóðarinnar er kristinn), getur einnig valdið fordómum gagnvart henni og orsakað að menn verði berskjaldaðir fyrir áróðri þeirra sem ýta vilja kristinni fræðslu út í horn.
En sú kaldhæðni að Sigurður skuli tala um þekkingarskort í sömu setningu og hann heldur því fram að yfir 90% þjóðarinnar sé kristinn. :D
Það er skólans að fræða, mennta. Það er kirkjunnar að boða. Þetta tvennt á að vera aðgreint. Um það er ekki að vera ágreiningur.
Þessi lokaorð hljóma vel. Ég held að vandamálið felist í því að trúmenn átti sig betur á muninum á trúboði og menntun.
Ég var helst til ónákvæmur þegar ég sagði að Þjóðkirkjan stjórnaði trúabragðakennslu í grunnskólum landsins. Það sem ég átti við er að hennar menn sjá um menntun kennara og ritun námsefnis.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Svanur Sigurbjörnsson - 20/02/06 09:44 #
Góð grein Steindór. Eftir ábendingu frá þér hlustaði ég á messu Sr. Sigurðar Pálssonar prests í Hallgrímskirkju sem finna má á dagskrá rásar 1 í gær sunnudag á www.ruv.is
Ég hjó eftir eftirfarandi í messu Sigurðar sem flutt var af valdsmannslegri röddu.
Hann kallaði greinina þína "klausu" Steindór og nefndi þig ekki á nafn. Hins vegar nefndi hann á nafn erlendan höfund sem lofaði kristnina.
Rök hans fyrir því að kristinfræði ættu að fá þetta mikla vægi í trúarbragðafræðslu var að kristinin væri stærst, í 8% aukningu árlega á heimsvísu, hefði fylgt þjóðinni frá árinu 1000 og hefði mótað þjóðina meira en menn hafa grunað (ekki rökstutt frekar). Þá taldi hann að Jesú hefði haft meiri áhrif en Mill, Adams og Darwin allir til samans. Ég velti fyrir mér hvaða mælikvarða hann hafi til hliðsjónar og hvort að stærð og aldur skipti mestu máli þegar kemur að mikilvægi hugmyndakerfa.
Þá talar hann um að kirkjan hafi ekki stýrt kristinfræði skólanna frá 1926. Hvers vegna hafa því prestar oft kennt hana og haft mikil áhrif á stefnumótun og orðalag í Námsskrá?
Þá segir Sr. Sigurður að kristinfræði eigi að byggjast á fræðslu en ekki boðun og slíkt eigi að vera "aðgreint en ekki endilega aðskilið!" ?????? Hvað á hann við??? I am lost.
Þá segir hann að kristindómurinn hafi sett einstaklinginn fram á sjónarsviðið. Það væri gott að fá frekari útskýringar á því hvar slíkt kemur fram í kristinni kenningu. Ég spyr án fordóma.
Það er augljóst að skrif þín hreyfa við klerkunum og það er gott að þeir fá eitthvað heilbrigt til að hugsa um.
kv. Svanur