Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúarjátning trúleysingjans

Ég var skírður þegar ég var vanviti árið 1979 í litlum bæ út á landi. Ég gerði heimaverkefni mín í kristinfræði er ég var krakki í barnaskóla og litaði myndir af goðsögu sem kallaður er Jesús Kristur Jósepsson. Ég fékk gefins Nýja testamentið er ég var 12 ára. Ég gerði tilraun til að lesa það rit. Ég fór í fermingarfræðslu og var látinn lesa valda kafla úr Nýja testamentinu þegar ég var á frekar viðkvæmum aldri. Ég var fermdur til þess að staðfesta fyrrgreinda skírn mína. Ég var þrettán ára og rúmlega 6 mánaða. Ég á afmæli 25. september.

Þessir atburðir eru í dag með öllu merkingarlausir fyrir mér. Inná milli þessara atvika var mér sagt frá fljúgandi englum, uppvakningum, heimsflóði, vélarbrögðum og vitaskuld almáttugum, algóðum og alvitrum guði sem hafði víst nauðgað konu fyrir einum tvöþúsund árum til að verða mannlegur og til þess að láta hýða sig og krossfesta til að bæta upp fyrir hina upprunalegu synd sem má rekja til táknrænnar sögu um Adam og Evu, par sem ekki var til. Af því má dæma að ekki aðeins var þessi vera al-alltsaman þá var það líka afar ímyndunarveikt og haldið alvarlegum kvalarlosta.

Í þessu litla bæjarfélagi sem ég ólst upp í var einhvernmeginn búist við því að allir mundu trúa á eitthvað kriststengd, þannig að þessi smábær var sem betur fer ekki útungunarstöð fyrir kristna og blóðheita bókstafstrúarbrjálæðinga. Þetta tiltekna kristilega sinnuleysi var hrein blessun, ef mér leyfist að nota það orð, en einnig stend ég í þakkarskuld við foreldra mína sem ólu mig alls ekki upp undir guðsótta og kristnum siðum, gildum eða venjum. Þó voru þau samt föst í viðjum hins kristilega hefðarréttar, þ.e. að kristindómur hafi eitthvað óskorað einkaleyfi frá ríkinu til að fylla hugi barna á öllum aldri af alveg hreint stórkostlegu bulli. Þó svo að trúboðið var ekki starfrækt af miklum móð, þá skildi hin kristilega "kennsla", eða öllu heldur kristileg ítroðsla, ýmis ummerki í mínum hugsunarhætti.

Mér fannst yfirnáttúran og hið ótrúlega ekki vera svo ólíklegur veruleiki; jólasveinar, geimverur, andar, draugar, grýlur, álfar, tröll, guðir og aðrar forynjur auk ýmis afbrigði sem þessu fylgdi svo sem hugsanaflutningur, örlög, spá í framtíð, lófa og bolla, kraftaverk á borð við að fljúga, gera sig ósýnilegan og hvaðeina þetta var allt "til" í mínum huga. Það sem meira er, einu sinni var himnaríki og helvíti raunverulegur staður, sem leiddi einnig til þess að ég trúði á þann möguleika að aðrir ævintýralegir staðir væru til líka, stútfullt af drekum, svartálfum, galdraköllum og þess háttar. Vissulega átti frjótt ímyndunarafl drengsins sem ég var stóran þátt í að bæta ofaná ævintýraheim kristninnar, en það var annað og stærra vandamál sem fylgdi þessu.

Er ég byrjaði að velta fyrir mér þessari hálf-kristilegu uppeldissögu finnst mér það einna athyglisvert að engin önnur lífsskoðun eða heimsmynd var á boðstólnum í bænum sem ég ólst upp í. Ég man ekki eftir því að rætt var alvarlega um Búddisma, Hindúisma, Gyðingdóm, Íslam eða önnur trúarbrögð og hvað þá efahyggju, heimspeki, gagnrýna hugsun, guðleysi né trúleysi í barna- eða gagnfræðiskóla nema sem einhverjar undirmálsgreinar, varla það. Um yfirnáttúru og ævintýri, goðsagnir og lygar, byrjaði ég ekkert að efast um fyrr enn alltof seint á ævinni og það er ekki svo langt síðan að ég náði að losa mig algjörlega undan þeirri hugsanavillu að einhverskonar yfirnáttúra og ótrúlegheit sé til, þó það sé ekki nema bara smá vottur, oggupínupons, nanódropar af hinu fjarstæðukennda. Og þvílíkt fargan! Og þvílíkt kjaftæði!

Í dag get ég sagt með stolti að ég trúi ekki á þríeinan gvuð, ég trúi ekkert að einhver Jesús Kristur hafi verið til og hvað þá að viðkomandi hafi verið krossfestur fyrir eitthvað slæmt sem ég á að hafa gert, að hann hafi verið upprisin og flogið svo upp í himingeiminn án nokkura hjálpartækja og hvað þá að þessi maður birtist aftur. Ég trúi ekki að einhver 2000 ára gömul þverstæðukennd, kreddufull og hrottaleg bókarskrudda sem notuð hefur verið sem afsökun fyrir ógeðslegum ódæðisverkum innihaldi svörin við öllum lífsins gátum. Ég trúi þessu ekki, því þetta er kjaftæði. Ég viðurkenni þó, og þetta er mín trúarjátning, að ég trúði þessu einu sinni. En það var ekki mér að kenna, heldur þeim sem sáðu þennan óskunda í minn óþroskaða svampheila er ég var krakki, en sem betur fer varð ekki varanlegur heilaskaði af en nógur var samt skaðinn. Efalaust hafa fleiri lent í þessum ósköpum en ég.

Þó er einn hlutur sem ég vill trúa og bind vonir við. Að búið sé að klippa á hinn óhefta aðgang presta, preláta og djákna að skólabörnum.

Þórður Ingvarsson 24.01.2006
Flokkað undir: ( Klassík , Kristindómurinn )

Viðbrögð


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 24/01/06 12:04 #

Amen, brother! Frábært.


Árni Árnason - 24/01/06 12:39 #

Því miður grunar mig að þessi óhefti aðgangur gufuheilanna sé enn við líði, og það sem meira er, daglegt starfsfólk skóla og leikskóla leggur þeim gjarna lið við innrætinguna, enda eru það ekki bara prestar,djáknar og slíkir sem enn trúa þessum óendanlega fáránlegu bábiljum.

Hvenær skyldi koma að því að þessi trúarinnræting í skyldunámsskólum verði bönnuð?

Það yrði vætanlega uppi fótur og fit ef einhver fengi sama tækifæri til að segja saklausum börnum allar "sönnu" sögurnar af guðinum Gúrglebúbb og afrekum hans.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 24/01/06 12:45 #

Ég fullyrði það að það þyrfti ekki nema múslimskan klerk til að gera allt brjálað hérna. Ef einn leikskóli myndi bjóða klerk að lesa yfir börnunum þá yrði sá sami fjarlægður með lögregluvaldi!


Haukur - 24/01/06 15:09 #

[Athugasemd færð á spjallið þar sem hún tengist ekki efni greinarinnar. Matti Á.]


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 24/01/06 16:12 #

Já ég sé það fyrir mér. "Allah Akhbar börnin mín góð. Endilega hyljið stelpurnar aðeins betur eða bara helst alveg. Svo þær freisti ekki körlunum um of. Ekki viljum við að þær verði nauðgaðar vegna frjálslynds klæðnaðs. Vissuð þið að til var æðislegur spámaður sem hét Múhammad; hérna eru myndir sem þið getið litað í; en ekki lita andlitið, það á að vera alveg autt af trúalegum ástæðum."


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 24/01/06 21:24 #

Ég er viss um að það yrði allt brjálað ef ég í skólastarfi mínu (já, ég kenni skólakrökkum á trommur) færi að halda því fram að fullyrðingar hinna um guði og Jesúsa væru kjaftæði. Af einhverjum ástæðum passar maður sig vel að halda engu í þessa veru á lofti innan þessara veggja, enda finnst manni í sjálfu sér vera ofstækisfnykur af slíku og (og takið nú vel eftir) svo vill maður sýna þessu fólki þá virðingu að vera ekki að predika lífsskoðanir sínar yfir því.

En þetta gera samt kennarar alla daga í skólum landsins. Láta krakkana biðja, halda fram Biblíusögum sem sannindum og þar fram eftir götum.

Af hverju mega þeir en ekki ég?


Henrik - 24/01/06 22:24 #

Nú spyr ég sem leikmaður: Er "guðleysingi" ekki hentugra í þessu samhengi en "trúleysingi"?


Margrét E. - 25/01/06 16:29 #

Ég man eftir því þegar ég var í grunnskóla og kristnifræðin var að gera mig vitlausa.. ég hreinlega skildi ekki þá og geri það ekki ennþá, af hverju það er verið að leggja á litla krakka að læra svona þvælu og hvað þá af hverju bara um kristni. ég minnist þess alls ekki að hafa orðið vör við nein önnur trúarbrögð fyrr en í 10.bekk og þá af svo skornum skammti að ekki er hægt tala um það sem virka kennslu. svo var ég núna um daginn að lenda í því að litla systir mín, aðeins 9 ára, kvartaði undan þessari sömu "kennslu" og hrjáði mig. Svo eru líka farnar ferðir í kirkjuna í kringum jól og páska og meiru troðið inn í hausinn á vesalings litlu krökkunum

heimur versnandi fer...


Matti (meðlimur í Vantrú) - 25/01/06 16:37 #

Nú spyr ég sem leikmaður: Er "guðleysingi" ekki hentugra í þessu samhengi en "trúleysingi"?

Tja, guðleysingi er þrengra hugtak. Maður getur verið gvuðleysingi en samt trúað á álfa (svo glórulaust dæmi sé tekið), en ekki trúlaus og trúað á álfa. Allir trúleysingjar eru guðleysingjar en ekki allir guðleysingjar eru trúleysingjar.

Í þessari grein talar Þórður ekki bara um gvuð heldur einnig líka önnur hindurvitni, sbr.

Mér fannst yfirnáttúran og hið ótrúlega ekki vera svo ólíklegur veruleiki; jólasveinar, geimverur, andar, draugar, grýlur, álfar, tröll, guðir og aðrar forynjur auk ýmis afbrigði sem þessu fylgdi svo sem hugsanaflutningur, örlög, spá í framtíð, lófa og bolla, kraftaverk á borð við að fljúga, gera sig ósýnilegan og hvaðeina þetta var allt "til" í mínum huga.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 25/01/06 18:10 #

Það er nefnilega það, til þess að þessi steypa eigi sem greiðasta leið inn í hugarheiminn þarf að ná þeim meðan þau eru ung. Fullorðin manneskja sem hefur mótað sinn hugarheim meira og minna hristir bara hausinn yfir því þegar henni er ætlað að taka svona þjóðsögur trúanlegar.


Árni Árnason - 26/01/06 13:39 #

Athyglisverð pæling í þessu sambandi.

Ef J.K.Rawling, höfundur Harry Potter, eða einhver með álíka frjótt ímyndunarafl kæmi fram með ný trúarbrögð með aðalpersónuna eingetna af æðri máttarvöldum, með yfirnáttúrulega hæfileika til að vekja látna frá dauðum, ganga á vatni o.s.frv. myndi væntanlega fáum detta í hug að taka það alvarlega og stofna söfnuði og kirkjur í kring um slíka fabúlu.

Eru lygasögur eitthvað skárri eða trúverðugri fyrir það að vera gamlar?


ónefndur - 04/12/07 23:57 #

Ef þetta er sá Þórður Ingvarsson sem ég held að þetta sé get ég frætt ykkur um það að ég er alin upp í sama smábæjarsamfélagi og hann. Og hefur það batnað stórlega frá því sem hann lýsir og fram til þeirrar barnæsku sem ég upplifði u.þ.b. 10 árum seinna.

Þegar ég var að alast upp fór kristinfræði kennslan eiginlega alveg forgörðum og er ég mjög fegin. Í dag er ég trúlaus og verð eiginlega að viðurkenna að ég hálf sé eftir því að hafa fermt mig og hef gert það síðan í júlí árið sem ég fermdist (ég fermdist í júní) kanski stafar trúleysið einungis af uppeldinu sem ég fékk en ég held að aðeins eitt ár í kristinfræði hafi líka haft sín áhrif. Mér var aðeins kennd kristinfræði í einn vetur og var kennarinn ekki sá besti svo að það eina sem ég man eftir að hafa lært í kristinfræði er að teikna kindur þannig að ég held að megi segja að enginn hafi lært neitt af honum.

Persónulega er ég ánægð með að hafa fengið svo litla kristinfræðslu í skólum. En mér finnst samt að það hefði mátt mennta okkur meira í almennum trúarbrögðum, svo sem Búddisma, Hindúisma, Gyðingdóm, Íslam eða önnur trúarbrögð og jafnvel efahyggju

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.