Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þverstæða og rangfærslur séra Írisar Kristjánsdóttur

Á einni af heimasíðum Þjóðkirkjunnar, www.tru.is, bar Katla Björg Kristjánsdóttir upp þrjár góðar og gildar spurningar:

  1. Finnst ykkur ekki aðeins of snemmt að fermst 14 ára?
  2. Er hægt að affermast?
  3. Hvernig segir maður sig úr kirkjunni? Þarf samþykki foreldra?

Íris Kristjánsdóttir, sóknarprestur í Hjallakirkju, varð fyrir svörum. Svarið við fyrstu spurningunni er á þessa leið:

  1. Finnst ykkur ekki aðeins of snemmt að fermst 14 ára?

Sumum finnst það of snemmt, öðrum ekki. Ég er viss um að þú fengir ólík svör frá okkur prestunum um þetta en ég ætla að segja þér mína skoðun. Mér finnst þetta góður aldur. Ástæðan er sú að krakkar á þessum aldri eru að mörgu leyti miklu móttækilegri fyrir ýmsum hlutum heldur en þau sem eldri eru. Þau eru líklegri til að taka við boðskap kristninnar á jákvæðan hátt og þannig að hann geti haft mótandi áhrif á þau. Ég er á þeirri skoðun að þau séu orðin nógu þroskuð til að velja sjálf að taka þátt í fermingarfræðslu og fermast af eigin hvötum og áhuga, og meini það sem þau segja á fermingardag þegar þau eru spurð hvort þau vilji gera Jesú Krist að leiðtoga lífsins. Auðvitað taka krakkar þessu misalvarlega en rétt þeirra til að velja ber að virða og styðja. Hvað finnst þér um þetta?

Íslensk lög um fermingar segja og rökstyðja að „prestar megi eigi taka börn til fermingar, þau er fermast eiga, fyrr en þau eru orðin fullra 14 eða 15 ára“. Séra Íris er því sammála konungum vorum Friðriki V og Friðriki VI um að 14 ára sé heppilegur (lágmarks)aldur. Að vísu mun það vera svo að flest íslensk börn séu hreint ekki orðin 14 ára, enda fara fermingar yfirleitt fram á vordögum fyrir þau börn sem verða 14 ára á árinu. Ætla má að um það bil tvö af hverjum þrem fermingarbörnum hafi ekki náð tilskildum aldri. (Taka ber fram að skeika má allt að hálfu ári, samkvæmt undanþágu frá lögunum, og getur biskup gefið sérstaka heimild ef barnið er dauðvona eða á förum til heiðinna landa). Ef séra Íris telur 14 ár vera heppileg, þá vona ég að hún fari eftir lögunum og fermi ekki börn nema þau hafi náð fullum 14 ára aldri. Ef hún fer eftir þeim er hún sjaldgæft fordæmi öðrum prestum landsins, því fæstir hirða um að fara eftir þessum lögum. Barn sem er fermt 13 ára er ólöglega fermt.

„Ástæðan er sú að krakkar á þessum aldri eru að mörgu leyti miklu móttækilegri fyrir ýmsum hlutum heldur en þau sem eldri eru“ segir Íris. Að barn sé „móttækilegt“ mundi í þessu samhengi vera réttar nefnt að það sé varnarlaust. Í fyrsta lagi er gagnrýnin hugsun í mótun á unglingsárunum og börn misjafnlega fær um að taka upplýsta afstöðu í trúarmálum. Í öðru lagi hafa fæst börn kynnst öðrum lífsskoðunum til jafns við kristni og því ósanngjarnt að láta þau velja án þess að hafa handbærar upplýsingar fyrirliggjandi. Í þriðja lagi hefur skólakerfið innrætt þeim kristin fræði, en minna fer fyrir því að gagnrýnin hugsun sé örvuð eins og bæri að gera. Í fjórða lagi eru börn á árunum 13-14 ára að byrja að brjótast undan valdi foreldra sinna og því eru áhrif félagahópsins mjög sterk á þessum árum og hópþrýstingur hefur mikið að segja. Þetta viðurkennir kirkjan líka í Námsskrá fermingarstarfanna (María Ágústsdóttir, 1999) - og bætir því við að áhrif hópþrýstings sé „mikilvægt að nýta sér“ í fermingarstarfinu. Er ég einn um að finnast þetta orðalag óviðfelldið?

Áfram heldur Íris: „[Fermingarbörnin] eru líklegri til að taka við boðskap kristninnar á jákvæðan hátt og þannig að hann geti haft mótandi áhrif á þau.“ - Einmitt, sá sem hefur ekki öðlast gagnrýna hugsun eða þekkingu á öðrum möguleikum er einmitt líklegri til að taka jákvætt í boðskap kristninnar, einkum og sér í lagi þegar vinsað er úr allt sem ekki fellur nútímafólki í geð. Íris „er á þeirri skoðun að [börnin] séu orðin nógu þroskuð til að ... fermast af eigin hvötum og áhuga“ - eigin hvötum og áhuga á því að fá fullt af gjöfum og vera eins og hinir krakkarnir ætti að standa þarna.

Spurningu númer tvö svarar Íris á þennan veg:

2 Er hægt að affermast?

Nei, það er ekki hægt að “affermast”, ekki frekar en “afskírast”.

Þetta er álitamál. Kirkjan á enga athöfn í pússi sínu til þess að afskíra eða afferma - en þó má vera að hvort tveggja sé vel mögulegt. Skírn á ungbarni er markleysa vegna þess að ungbarn er ekki kristið. Þess vegna er fermingin staðfesting á skírninni. Ferming sem er ólöglega framkvæmd hlýtur sjálfkrafa að vera ógild. Það ætti ekki að þurfa annað en úrskurð þaraðlútandi úrskurðarvalds, með tilheyrandi plaggi, til að staðfesta að fermingin sé ógild, og þar með skírnin líka. Getur slíkt ekki kallast afferming og afskírn í senn? Þetta á vitanlega ekki við nema um þá sem fermast 13 ára.

Þriðju spurningunni svarar séra Íris svo:

3 Hvernig segir maður sig úr kirkjunni? Þarf samþykki foreldra?

Hægt er að segja sig úr kirkjunni með því að útfylla eyðublað sem Hagstofa Íslands gefur út. Þau sem eru undir 18 ára aldri þurfa samþykki foreldra.

Þetta er beinlínis rangt. Fólk sem er undir 16 ára aldri þarf samþykki foreldra. Sjá heimasíðu Hagstofu Íslands.

Maður skyldi ætla að háskólamenntað fólk ætti að geta gefið betri svör en þessi, en guðfræðideildin virkar, skilst mér, ekki alveg eins og aðrar deildir háskólans þegar kemur að rökfestu. Þótt svör séra Írisar haldi illa, þá verð ég samt að gefa henni plús fyrir að telja 14 ár vera hæfilegan aldur fyrir fermingar. Ég skil að vísu ekki hvers vegna barn er hæft til að ganga Jesú á hönd þegar það er 14 ára en er ekki hæft til að hætta við fyrr en tveim árum seinna (eða fjórum, skv. Írisi), og eins skil ég ekki hvers vegna manneskja sem má ekki gera fjárhagslegar skuldbindingar telst hæf til að selja kirkjunni sál sína í skiptum fyrir gjafir. En ég vona samt að Íris verði samkvæm sjálfri sér í vor og fermi engin börn sem ekki eru orðin fullra 14 ára. Látum það liggja milli hluta að lögin gætu sett markið of lágt, en það er altént góð byrjun ef prestar fara eftir landslögum.

Vésteinn Valgarðsson 16.12.2005
Flokkað undir: ( Fermingar , Kristindómurinn )

Viðbrögð


Þór Melsteð - 16/12/05 01:43 #

Ég fæddist 12. maí 1972. Ég fermdist 29. mars 1986 (eingöngu fyrir gjafirnar, þó ég hafi nú ekki viðurkennt það á þeim tíma).
Ég var því ekki fullra 14 ára og get því litið á fermingu mína sem ómerka. Svalt.

Það stakk mig þarna notkun hennar á orðinu "móttækileg" um fermingarbörnin, því mér finnst þarna koma út það sem ég hef lengi haldið fram, að kirkjan sæki í að "fræða" börn þar sem þau vita ekki betur og því auðveldara að fylla vitund þeirra af vitleysu og þ.a.l. móttækilegri fyrir "heilaþvætti" kirkjunnar. Það er víst líklega það sem hún á við með notkun orðsins þarna. Hún segir líka að þau séu jákvæðari, sem í raun er annað orð yfir "trúgjarnari" eða "laus við gagnrýna hugsun" (ég hef nógu oft verið sakaður um að vera neikvæður þegar ég rek bibliukvabbið ofan í kok á fólki þegar það kemur upp).


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 16/12/05 12:19 #

Þar liggur einmitt hundurinn grafinn, þessi "móttækileiki" 13-14 ára barna er það se í daglegu tali nefnist trúgirni.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 16/12/05 12:26 #

Það væri áhugavert að sjá viðbrögð fólks við því ef einhver stjórnmálaflokkur myndi hegða sér svona. Myndi einblína á börn vegna "móttækileika".


Árni Árnason - 16/12/05 13:35 #

Maður gæti hreinlega gubbað. Það er bara eitt orð yfir þetta, og það er MISNEYTING. Skv. lögum er refsivert að notfæra sér trúgirni og þroskaleysi fólks sér til hagnaðar. Það sem vantar er ekki annað en að menn komi auga á viðskiftahagsmunina sem kirkjan er að sópa til sín með fermingunni. Skv öllum öðrum lögum er fólk undir 16 til 18 ára aldri ekki talið þess bært að gangast undir framtíðarskuldbindingar. Það hentar kirkjunni að fá óheftan aðgang að börnum á viðkvæmasta aldri til að tryggja sér tekjurnar sem þeim fylgja ævilangt. Ég er svo reiður að ég ætla að sleppa lausu orði sem ég veit að gæti valdið hörðum viðbrögðum. BARNANÍÐINGAR.


jogus (meðlimur í Vantrú) - 16/12/05 13:52 #

Það er bara eitt orð yfir þetta, og það er MISNEYTING.

Mér detta nú mörg önnur orð í hug...


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 16/12/05 15:12 #

13-14 ára barni er óheimilt að kaupa áfengi en því er heimilt að selja sál sína.


Páll - 16/12/05 16:02 #

ég hlakka til að ferma mig ekki :)


Eva - 16/12/05 21:56 #

Það er nú einmitt þessvegna sem tóbaksframleiðendur og fíkniefnasalar beina markaðssetningu sinni að þessum aldurshópi. Þau eru nefnilega svo móttækileg og líkleg til að taka við boðskap þeirra á jákvæðan hátt. Ætli Írisi finnist 13-14 ára unglingar nógu þroskaðir til að ákveða sjálfir hvort þeir hlýða á röksemdafærslu fíkniefnasalans og taka ákvörðun um það hvort þeir drekki og dópi af eigin hvötum og áhuga? Ætli henni finnist kannksi að rétt barna til að kynna sér boðskap dópsalans og ganga í götuklíkur beri að virða og styðja?


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 17/12/05 14:41 #

Það er góð spurning.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 17/12/05 17:26 #

Hér hefur prestum stundum verið líkt við dópsölumenn og verða þeir gjarna óskaplega sárir þegar það er gert. En staðreyndin er einfaldlega sú að samlíking þessi hittir beint í mark.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 17/12/05 18:16 #

Sannleikanum verður nefnilega hver sárreiðastur.


Telma - 18/12/05 15:12 #

Þegar að maður er 14 ára þá hefur maður alveg vitsmunalegt bolmagn til að ákveða hvort maður fermist eður ei. Ég fermdist t.d. Borgaralega og það var fínt. Ég þurfti ekki að játa trú á neitt sem ég trúi ekki á. Aftur á móti trúi ég á guð og tel sjálfa mig kristna þótt ég kjósi að tilheyra ekki kirkjunni.

14 ára krakkar eru ekkert allir heimskir. Og þeir sem eru það, þá aðlega litlar smápíkur og strákar sem eru að reyna að vera svo töff að þeir taka ekki eftir neinu öðru, eru ekkert að fara að breytast í bráð og myndu ábyggilega fremast líka þótt að það yrði gert seinna.

Þeir sem pæla eitthvað í þessu eru þegar byrjaði að því að mínu mati. Þegar að ég fermdist þá voru flest allir í bekknum sem höfðu eitthvað í hausnum búin að pæla í því að fermast ekki, en kusu að gera það.

Aftur á móti finnst mér að það ætti að kynna trúleysi í skólum og það að það er hægt að sleppa því að fermast eða fermast borgaralega.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 19/12/05 00:49 #

Þegar að ég fermdist þá voru flest allir í bekknum sem höfðu eitthvað í hausnum búin að pæla í því að fermast ekki, en kusu að gera það.

Fórnarlömb hópþrýstingsins. Á þessum aldri er fólk viðkvæmt fyrir því að skera sig úr hóp, þessir krakkar eru áhirfagjarnir. Það er ekki verið að halda því fram að 14 ára unglinga skorti vitsmuni, eins og þú virðist halda.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 19/12/05 16:48 #

Almennt séð eru börn ekki heimsk, heldur ekki þau sem eru 14 ára. 14 ára aldur er reyndar mun betri en 13 ára aldurinn, þegar flestir fermast. Það væri umtalsverð framför ef 9. bekkingar væru fermdir í stað 8. bekkinga.


Þórður Örn - 19/12/05 21:06 #

Þegar leið að fermingu hjá mér var mér sagt að annað hvort fermdist ég í kirkju eða fengi enga pakka. Á þeim tíma fannst mér ekki valkostur að fá enga pakka.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 20/12/05 00:33 #

Einhvern veginn efast ég um að þú sért einn um að hafa verið settir þeir kostir...


Kalli - 20/12/05 00:51 #

Mér voru settir mun betri kostir. Í fyrsta lagi ákváðu foreldrar mínir að láta ekki skíra mig. Þegar kom að fermingu sagði faðir minn að það skipti ekki hvort ég fermdi mig eða ekki hvað varðaði gjafir frá honum og mömmu.

Því miður var það minn vilji þá að ferma mig. Ég er samt þakklátur fyrir að foreldrar mínir hafi sett mér í sjálfsvald hvort ég yrði skírður og fermdur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.