Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kristsmessa

jólakúla Nú líður að jólum, þessari gömlu heiðnu hátíð ljóss og friðar. Haldið er í gamla (og ekki svo gamla) siði. Jólatré, jólaljós, jólagjafir, jólasteik og feita glaðlega eða hrekkjótta jólasveina.

Á þessum tíma minnumst við þess góða í lífinu, eyðum notalegri stundu með þeim sem okkur þykir vænt um og gerum vel við okkur í mat og drykk. Það gleður lítil sem stór hjörtu að fá góðar gjafir og víst er að mörg okkar sem ekki teljast lengur opinberlega börn hlakkar til að snæða jólasteikina, hvort sem á borð er borin rjúpa, kalkúni eða hangiket.

En við skulum ekki gleyma þeim sem minna mega sín, því skrítinn trúflokkur heldur líka hátíð á þessum sama tíma. Kristmenn nokkrir halda upp á fæðingu Frelsarans svokallaða, þó alveg öruggt sé að enginn frelsari fæddist á þessum árstíma (ef hann fæddist yfir höfuð). Kristmenn þessir telja meira að segja margir að allt þetta jólaumstang tengist hátíð þeirra. Það er náttúrulega firra.

Kristmenn mega halda sína hátíð fyrir mér. Fara í kirkju og fagna fæðingu einhvers hirðingja. Ég læt það ekki trufla mig. En það truflar mig svolítið þegar forsvarsmenn kristmanna koma fram og láta sem við hin séum að gleyma hinum sanna anda jólanna. Margur heldur sig mig. Hinn sanni andi jólanna kemur þessum blessaða upprisukrist ekki nokkuð við, jólandinn snýst um raunverulega hluti. Hann snýst um vini og ættinga. Jólin snúast um að fagna hinni raunverulegu tilveru okkar allra. Auðvitað má benda fólki á að draga úr spennunni, eyða minna og minnka stressið. En svarið er ekki það að jólin snúist um Jesús.

Hvers minnumst við á jólunum? Ég veit ekki með ykkur, en ef það er eitthvað sem ég minnist þá er það ekki uppskáldaður (en aðallega stolinn) eyðimerkurprédikari. Nei, ég minnist þeirra sem mér þykir vænt um. Ég minnist látinna ástvina sem ég hef eytt jólum með. Ég lít fram á veginn, gleðst með fjölskyldunni og nýt þess að vera til. Bráðum fer daginn að lengja, skammdegið hopar. Það er hinn sanni jólafögnuður. Margir heimsækja leiði ástvina, skreyta þau með kertum og hugsa til þeirra. Það er viðeigandi í skammdeginu.

Kristmenn mega leita sér fróunar í kristshúsum sínum á Kristmessunni. En ekki láta ykkur detta í hug að þetta lið sé að halda upp á jólin. Það er að halda upp á kristsmessu sem er allt annað fyrirbæri.

Veltið því annars fyrir ykkur hverju það myndi breyta þó við myndum kippa öllum kristmessuatriðunum út úr jólahátíðinni og halda einungis eftir því sem ekki tengist kristni. Við hefðum ennþá jólagjafir, jólaskraut (meira að segja aðventukransinn kemur frá heiðnum sið þó kertin hafi fengið kristileg nöfn) og jólaljós. Við hefðum jólamatinn og samverustundir með fjölskyldunni. Englaskrautið væri sennilega ekki til staðar, útvarpsmessunni þyrfti að fórna og textarnir við sum lögin væru ekki jafn skelfilega lélegir. Margir hafa kveikt á útvarpinu þegar jólamessan er í gangi en hlustar einhver á rausið í raun? Fáir myndu sakna jólagvuðsspjallsins enda sú saga í raun grautleiðinleg.

Ég óska kristmönnum gleðilegrar kristmessu og vona svo að þeir njóti jólanna líka eins og við hin.

* Jóla hvað?
* Þegar Jesús stal jólunum

Matthías Ásgeirsson 02.12.2005
Flokkað undir: ( Jólin )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 02/12/05 00:29 #

Flott grein. Löngu orðið tímabært að setja þetta allt í rétt perspektíf. Kristsmessuhjörðin er fremur fámenn í samfélagi okkar.


Sævar Helgi (meðlimur í Vantrú) - 02/12/05 00:45 #

Yndisleg grein. Lýsir mjög vel minni sannfæringu í þessu.

Heima hjá mér er það siður að kveikja á útvarpsmessunni á Rúv klukkan 6 á aðfangadag. Enginn er að hlusta á messuna. Mamma að leggja lokahönd á matinn og flestir að gera sig klára að öðru leyti. Foreldrum mínum þykir þetta bara "eitthvað svo jólalegt" en í æsku þeirra var þetta líka alltaf gert.

Enginn hérna myndi þó sakna messunnar neitt sérsaklega enda er enginn að hlusta.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 02/12/05 01:17 #

Hvað þýðir; Margur heldur sig mig. ?


Björn Friðgeir - 02/12/05 07:51 #

Tja, ég sem hélt alltaf að hinn sanni andi jólanna sé að halda upp á sólstöðurnar og bjartari tíð. Það er allavega það sem ég held upp á!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/12/05 09:12 #

Hvað þýðir; Margur heldur sig mig. ?

Það er ráðgáta :-)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/12/05 10:32 #

Björn, það er rétt hjá þér. Ég vildi ekki hafa þetta sem aðalatriði en sagði þó:

Bráðum fer daginn að lengja, skammdegið hopar. Það er hinn sanni jólafögnuður.

Fyrir mér er þetta söguleg ástæða hátíðarinnar - en ég kýs að einblína frekar á fjölskyldu og vini þegar ég fjalla um jólin, þó sólstöður séu rót fagnaðarins.


Björn Friðgeir - 02/12/05 10:39 #

Matti: úps! Yfirsást þetta. Var auðvitað aðeins að grínast, en þetta er hárrétt hjá þér, jólin eru fyrir langflesta hátíð fjölskyldu og vina (og gjafa, þó við viljum ekki minnast á það á hátíðarstundum). Það er hið besta mál.


Óskar - 05/12/05 23:40 #

Ef marka má orð Drottins var hann ekkert sérlega hrifinn af jólunum í den, sem er væntanlega ástæða þess að hann kaus að láta son sinn eingetinn* fæðast á sama degi og sólin.

Jeremías, 10. kafli:

2 Svo segir Drottinn: Venjið yður ekki á sið heiðingjanna og hræðist ekki himintáknin, þótt heiðingjarnir hræðist þau.

3 Siðir þjóðanna eru hégómi. Menn höggva tré í skógi, og trésmiðurinn lagar það til með öxinni,

4 hann prýðir það silfri og gulli, hann festir það með nöglum og hömrum, svo að það riði ekki.



*reyndar er ættartala Jesú rakin til Jósefs í Mattheusarguðspjalli, þannig að deila má um hvort Jesús hafi verið eingetinn, hafi hann á annað borð verið til.

Mattheusarguðspjall 1. Kafli:

1 Ættartala Jesú Krists, sonar Davíðs, sonar Abrahams.

2 Abraham gat Ísak, etc.

...

16 og Jakob gat Jósef, mann Maríu, en hún ól Jesú, sem kallast Kristur.


Ísleifur - 21/12/05 00:52 #

Reyndar minnast bæði Egypskir og Rómverskir samtímamenn Jesús á hann í skrifum sínum en annars er þetta hárrétt hjá þér.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 21/12/05 01:00 #

Ísleifur: Nei, þetta er rangt hjá þér. Enginn samtímamaður Jesú minnist á hann.

Enginn Egypti sem ég veit af minnist á hann. Fyrsti Rómverjinn sem minnist á hann (ef umrædd setning er ekki síðari tíma innskot) var Takítus og hann var ekki samtímamaður, heldur var uppi löngu eftir dauða Jesú og umrædd bók sem þessi tilvitnun er í var ekki skrifuð fyrr en 115 e.o.t.

En greinin fjallar ekki um tilvist Jesú þannig að þetta á frekar heima á spjallinu


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 21/12/05 05:18 #

Smá viðbót. Innan NT minnist auðvitað Páll á Jesús, en hann er samtímamaður. En ég efast um að hann hafi haft kraftaverkamann frá Galíleu í huga þegar hann talar um Jesú.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.