Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kraftaverka-Karl

Á vefsíðu þjóðkirkjunnar er hægt að varpa spurningum til þjóðkirkjumanna. Nýjasta spurningin snýr að afstöðu kirkjunnar til kraftaverka og Karl Sigurbjörnsson, æðsti klerkur þjóðkirkjunnar svarar. Oftar en ekki eru svörin óttalegt froðusnakk, en á þessu svari sannast að oft ratast kjöftugum satt orð á munn:

Kraftaverk Guðs birtast í svo margvíslegum myndum. Oftast fer svo lítið fyrir þeim að við köllum það „tilviljanir”. Þannig vinnur Guð gjarna í kyrrþey.

Einmitt. Það sem trúmenn kalla kraftaverk eru einfaldlega tilviljanir.

Skrýtið að guðinn hans skuli allt í einu hafa tekið upp á því að halda sig við tilviljanir, áður fyrr var guðinn hans sannarlega ekki að framkvæma tilviljanir, heldur kraftaverk.

Skrýtið að þessi guð Karls skuli vinna í kyrrþey, alveg eins og hann væri bara alls ekki til. Heppilegt að þessi guð, sem áður var ekkert að fela kraftaverkin sín, skuli núna, þegar fólk er ekki jafn auðtrúa og áður fyrr, allt í einu fara að fela kraftaverkin sín. Er guð orðinn feiminn? Þorir hann ekki að sýna kraftaverkin sín? Eða er kannski ekki til neinn guð til þess að framkvæma kraftaverk?

Áfram heldur Karl:

Stundum ryður hann hindrunum úr vegi, læknar meinið, reisir á fætur. En stundum tendrar hann ljós svo við komum auga á leið framhjá hindrununum, og stundum gefur hann þrek, þolgæði og sálarstyrk til að bera byrðarnar og takast á við vandann.“

Ég verð að segja að þetta eru ótrúlega slöpp “kraftaverk” sem Karl talar um. Hvað þýðir eiginlega kraftaverk í huga Karls? Það að einhver “rísi á fætur”, “komi auga á leið framhjá hindrunum” eða öðlist “þrek, þolgæði...blablabla...”, eru ekki kraftaverk frekar en það að anda. Þessir atburðir gerast á hverjum einasta degi án þess að nokkur guð virðist hafa eitthvað með það að gera.

Skrýtið að þessi guð sem var áður fyrr alltaf að gera alvöru kraftaverk eins og að reisa menn frá dauðum, eyða borgum með eldi og brennisteini, gefa blindum sýn, skuli ekki lengur gera það heldur virðist einbeita sér að venjulegum atburðum sem enginn myndi detta í hug að kalla kraftaverk í daglegu tali. Ég hef að minnsta kosti aldrei heyrt fólk segja: “Maggi kom auga á leið framhjá hindrunum! Kraftaverk!”. “Sigga fékk þrek til þess að takast á við vandann! Guð er sannarlega máttugur!”

Skrýtið að eina fólkið sem gerir “kraftaverk” eins og sagt er að Jesús og félagar hafi framkvæmt í Nýja testamentinu eru loddararnir í kraftaverkahyskinu.

Áfram heldur Karl:

Stundum sendir hann ósýnilega, himneska engla. En oftar sendir hann bara gott fólk með hjálp og huggun.

Það er grátbroslegt að sæmilega upplýstur nútímamaður (gefum okkur að Karl sé það) trúi á “ósýnilega engla”. Mér finnst það í rauninni bara hæfa litlum börnum sem hafa enn ekki áttað sig á muninum á ævintýrum og raunveruleika. Því að hver er munurinn á “ósýnilegum englum” og tröllum og álfum?

En það er afar heppilegt að englarnir skuli vera ósýnilegir, hvers vegna er guð ekki að senda sýnilega engla? Einhvern veginn efast ég um að Karl geti bent á eitt einasta dæmi þar sem staðfest sé að “ósýnilegir englar” hafi verið að verki.

Skrýtið að guð skuli ekki lengur notast við sýnilega engla. Hvers vegna er þessi guð Karls að fela sig?

Áfram heldur Karl:

Bænin og trúin eru ætíð leyndardómur. Við getum aldrei skilið þann leyndardóm né skilgreint til hlítar.

Ef að allar afsakanirnar sem Karl kom með fyrr í svarinu duga ekki, þá kemur hérna aðal afsökun guðfræðinnar. Leyndardómur. Það er skrýtið að trúmenn viti svona mikið um bænina fyrst að bænin er svona mikill leyndardómur.

Karl endar svo á heilræði:

Og gott er að hafa í huga heilræði guðsmannsins forna: „Bið eins og allt sé undir Guði komið, og vinn eins og allt sé undir þér einum komið.”

Ég er með betra heilræði: “Bið ei, og vinn eins og allt sé undir þér komið.” En það er afar skrýtið að Karl skuli hvetja fólk til þess að hegða sér eins og bænin virki ekki.

Í staðinn fyrir að vera með þessar endalausu gengisfellingar á krafraverkum og afsakanir ættu Karl og aðrir trúmenn bara að viðurkenna að annað hvort er guðinn þeirra hættur að gera kraftaverk eða þá að hann er ekki til.

Hjalti Rúnar Ómarsson 28.11.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.