Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Um barnaníðinga hugans

Með nýrri stefnumótun ríkiskirkjunnar streyma nú þjónar hennar út til að níðast á óhörðnuðum börnum. Engu er eirt í þessari sókn kirkjunnar í barnsálir og allt er lagt undir. Leikskólabörn og grunnskólabörn, og nú vill æstur her guðfræðinga einnig ólmur komast í framhaldsskólana. Allt þetta fólk vill þvinga með öllum sálartæknilegum ráðum óþverra og einvaldssögum upp á krakkana í krafti gamallar hefðar. Úr miklu er að moða enda kistur biskupstofu fullar fjár svo milljörðum skiptir og framtíð viðhafnarlífsins liggur trúgirni komandi kynslóða.

Þessi barnakrossferð kirkjunnar er farinn að fara í taugarnar á mörgum. Þau sem voga sér að mótmæla þessum aðförum hafa fengið það óþvegið samanber meðferð kirkjunnar á hófsamri framgöngu Siðmenntar í þessu máli. Þjónar kirkjunnar virðast svo vanir því að ljúga að litlu skiptir þó einni sögu sé bætt í safnið. Hvað eftir annað er með bolabrögðum reynt að gera jafnvel hófsömustu og málefnalegustu gagnrýni tortryggilega. Andstæðingar trúboðs í grunnskólum hafa verið grafnir lifandi, á þá er klínt allskonar fordómum svo að mestur tími þeirra fer í að neita söguburðinum. Eftir að hafa fylgst með aðförum þræla ríkiskirkjunnar er það alveg ljóst að þessu fólki er ekki treystandi fyrir kristnifræðslu barna okkar.

Atvinnutrúmenn vilja með öllum ráðum gera kristnifræðsluna að grípandi gleðiboðskap. Með öllum ráðum á að ljúga að krökkunum að þetta sé allt sannleikur frá góðmenninu Móses til upprisu guðsins Jesú. Með fræðslu um þessar goðsögur þá fái börnin betri skilning á íslenskri sögu og menningu. Svo vill til að ég var sjálfur í grunnskóla og lærði þessar biblíusögur. Satt best að segja bæði sem barn og unglingur gat ég aldrei tengt þessar sögur við Íslandssöguna. Það var ekki fyrr en löngu síðar við lestur biblíunnar að ég sá loks tengsl kristni við sögu landsins. Staðreyndin er sú að sótthreinsaða trúboðsútgáfan sem kennd er í grunnskólanum er án allra tengsla við sögu Íslands og meira að segja er kaflinn um Lúther sótthreinsaður til verja heiður kirkjunnar.

Ekki hafði ég hugmynd fyrr en með lestur Rómverjabréfs eftir meintan Pál postula og skrif Lúthers að yfirvöld þeirra tíma sóttu vald sitt frá guði. Að yfirvöld máttu höggva borgarana í búta ef þeim sýndist svo. Ekki vissi ég að Móseslög voru grunnurinn að Stóradómi og hvers vegna fólk var brennt, fyrr en eftir lestur á biblíunni. Ekki vissi ég heldur hvers vegna réttindi kvenna voru jafn smánarleg fyrr en ég las biblíuna. Sama gildir um samkynhneigða því hina aulalegu meðferð kirkjunnar á þeim má skilja nákvæmlega ef biblían er lesin. Það er sama hvar borið er niður, allt frá ekkjum til meintra galdramanna þá eru örlög þeirra í sögu okkar tengd kristni. Illskan og hið mannfjandsamlega bændasamfélag, valdhrokinn, smánin og brjálæðið, allt var réttlætt með biblíunni. Skal engan undra að Hannes Hafstein hafi tapað guði við horfa á meðferðina á landsmönnum.

Í staðinn fyrir að horfast í augu við örlög og eymd íslenskrar þjóðar sem mátti dúsa í bænakjökri og sálmalestri í kristilegu samfélagi vill ríkiskirkjuherinn ljúga, fegra og upphefja þessa heimsku sem nútímasannleik og kærleiksboðskap. Sambærilegt væri að hleypa nasistum í skólanna til að fræða börnin um Hitler, sem var stakur bindindismaður og grænmetisæta, byggði upp iðnað og samgöngur ásamt því að útrýma atvinnuleysi í Þýskalandi o.s.frv. Um leið myndi Göbbelsfélagið dreifa Mein Kampf til allra 10 ára grunnskólabarna. Gefðu svo framúrskarandi börnum kross að gjöf eins og þann sem sjá má hér fyrir ofan. En hann var gefinn út af kristilegu Hitlersæskunni árið 1933.

Starfsmenn ríkiskirkjunnar taka ekki málefnalegri gagnrýni og blindaðir af trú ganga þeir gróflega fram til að gæta hagsmuna guðsveldisins. Það er kominn tími til að veita stefnumótunarvinnu ríkiskirkjunnar alvarlega áminningu. Nú virðist sem starfsmönnum kirkjunnar hafi verið gefið veiðileyfi á rödd hófseminnar í þessum málum. Hafin er rógsherferð gegn þeim sem staldra vilja við til að greina á milli trúaráróðurs og fræðslu í skólum. Lygi og skeytingarleysi gagnvart þeim sem ekki eru samferða ríkiskirkjunni virðist vera að ná hámarki. Prestar og djáknar hafa fengið veiðileyfi á börnin okkar svo að þau gangi í hinn heilaga upprisusöfnuð, læri að lúta valdi þúsundaáraríkis Yahweh og sonar hans.

Guðfræðiprófessor við Háskóla Íslands segir að lengra verði ekki gengið í að afkristna þjóðina og leiðin liggi bara upp á við fyrir kirkjuna. Staðreyndin er samt sú að Íslendingar og Færeyingar standa öðrum Norðurlöndum langt að baki í guð- og kirkjuhræðslu. Við vorum kúgaðar nýlendur þar sem kristni var misnotuð til að koma böndum yfir samfélögin. Rödd skynseminnar hefur verið þögguð niður hér landi með öllum ráðum þannig að umbreyting samfélagsins er rétt að byrja. Örvænting kirkjunnar manna ber þess merki að senn er dagur kristni að kveldi kominn.

Frelsarinn 20.11.2005
Flokkað undir: ( Hugvekja , Skólinn )

Viðbrögð


Páll - 20/11/05 12:55 #

Það leiðinlegasta sem ég geri er að vera í kristinfræði í skólanum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 20/11/05 20:57 #

Djöfull er þetta hressandi grein :-)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.