Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Friðrik og séra Friðrik

Landsvirkjun hefur fengið heldur óblíða umfjöllun í fjölmiðlum að undanförnu vegna verkefnis, sem beint hefur verið til grunnskólana. Verkefnið er kynnt með eftirfarandi hætti í bréfi til skólana: "Nú stendur Landsvirkjun eins og alkunna er fyrir byggingu stærstu virkjunar Íslandssögunnar við Kárahnjúka. Þar verður lagður hornsteinn að virkjuninni næsta vor og hyggst Landsvirkjun bjóða fulltrúum ungu kynslóðarinnar að taka þátt í að leggja hann. Til að velja þessa fulltrúa mun Landsvirkjun efna til samkeppni þar sem nemendum verður boðið að vinna verkefni tengd orkumálum og verða þau sniðin að mismunandi aldursstigum grunnskólans."

Hér sér Landsvirkjun tækifæri til að koma fræðslu um stefnu sína í orkumálum til grunnskólabarna á hlutlausan og áhrifaríkan hátt. Eða hvað? Getur verið að með þessu framtaki sé Landsvirkjun, þ.e. stjórnvöld, að veita áróðri um umdeilda stefnu í orkumálum inn í grunnskólana, með það í hyggju að fegra hlut sinn og kæfa eðlileg skoðanaskipti? Er þetta ekki fullkomlega siðlaust? Svarið við þeirri spurningu hlýtur að vera; nei aldeilis ekki. Það er varla neitt við þessa háttsemi að athuga og ætti raunar að hrósa Landvirkjunarfólki fyrir liðlegheitin að taka þetta upp hjá sjálfum sér, grunnskólabörnum til fræðslu og upplýsingar. Því einmitt á þennan hátt hefur Þjóðkirkjan fengið óheft að stunda áróður sinn í grunnskólunum.

Þjóðkirkjan ber gamlar draugasögur á borð fyrir skólabörn með það fyrir augum að "fræða" þau um ágæti kristindómsins. Starfsmenn kirkjunnar skrifa námsefnið, reka fyrir því áróður og bjóðast til að kenna það. Krakkarnir eru svo virkjaðir í þágu kirkjunnar á ýmsan hátt, allt guðinum til dýrðar. Kirkjan spyrðir svo að jafnaði siðferðilegt viðhengi á boðskapinn, svo að þetta fyrirkomulag hlýtur að vera fyllilega eðlilegt og siðlegt. Stjórnvöld eru a.m.k. sátt við þetta fyrirkomulag, enda er Þjóðkirkjuástandið hornsteinn í stefnuskrám beggja flokka, sem nú sitja að völdum.

Kirkjan seilist í vasa skattgreiðenda til að reka sinn áróður, en Landsvirkjun er a.m.k. bjargálna þegar kemur að áróðrinum. Það væri fullkomin hræsni að fordæma vinnubrögð Landsvirkjunar, en láta Þjóðkirkjuna óáreitta. Það má þó Landsvirkjun eiga að þar véla áróðursmeistarar um hluti sem skipta landsmenn máli í tíma og rúmi. Prelátar Þjóðkirkjunnar boða á hinn bóginn samsull ranghugmynda og aldagamallar mannvonsku, sem ekki þjónar öðrum tilgangi en þeim að: "Ávinna menn fyrir Krist", svo notuð séu einkunnarorð Gídeon, en það er kristinn ofsatrúarsöfnuður, sem leikur lausum hala innan veggja grunnskólanna og sér til þess að öll tíu ára börn eignist kristna bókstafstrúar útgáfu af raunveruleikanum. Landsvirkjun á heiður skilinn fyrir framtak sitt. Því ef hægt er að hafna fræðsluframtaki Landsvirkjunar, hvernig getur kirkjan annað en hætt sínum áróðri í skólunum. Það væri jú gott siðferði, er ekki svo?

Ráðherra menntamála, Þorgerður Katrín, lýsti því yfir nýverið á Alþingi, aðspurð um verkefni Landsvirkjunar, að hún treysti grunnskólakennurum fullkomlega til að velja námsefni við hæfi nemenda sinna, en jafnframt að fyrirtæki og stofnanir yrðu að gæta hófs í því að senda skólum efni sem tengdist alfarið ákveðnu fyrirtæki eða vörumerki. Kirkjunnar menn treysta kennurum ekki jafn vel og ráðherra og hafa lagt umtalsverða vinnu í að auka áróðurinn með illa dulbúnum hætti. Slíkar "fræðsluáætlanir" eru lítt frábrugðnar markaðsáætlunum stórfyrirtækja, þar sem fyrirtækið Þjóðkirkjan ætlar sér augljóslega að gæta þess að vörumerkinu Jésú séu gerð góð skil.

Landsvirkjun hefur augljóslega sótt hugmyndir að sinni misskildu nálgun beint í smiðju Þjóðkirkjunnar. Tökum verkefni Landsvirkjunar með opnum huga og gleði í hjarta. Hver veit nema Kristur sjálfur mæti og líði yfir vatnsborðið þegar heilbrigðri skynsemi verður drekkt á öræfum Íslands áður en langt um líður.

Guðmundur Guðmundsson 11.11.2005
Flokkað undir: ( Skólinn , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Pó - 11/11/05 00:05 #

Það skiptir ekki máli hvort orkan er veraldleg eða yfirnáttúruleg, þarna eru hagsmunaaðilar að útbúa námsefni sem óhjákvæmilega verður stútfullt af áróðri. Hvorugur aðilinn á að vera að útbúa áróður fyrir grunnskólabörn að mínu mati.

En hvernig er það annars, ef ríki og kirkja yrðu aðskilin, mundi þá kristinfræðsla detta út úr skólakerfinu?


AndriÞ - 11/11/05 00:16 #

Auðvitað vonar maður það, hún ætti að vera færð undir almenna trúarbragðafræðslu og hætta að kenna hana sem einhverja óumdeilanlega staðreynd heldur frá fræðilegu og hlutlausu sjónarhorni. En persónulega finnst mér erfitt að spá fyrir um það, það er nóg af trúarnötturum í kerfinu þannig að það er ekki hægt að fullyrða um það sem koma skyldi. Kæmi ekki á óvart að kerfiskarlarnir myndu nota rökin um "menningaráhrif kristninnar" eða eitthvað þvíumlíkt.


Sævar Helgi - 11/11/05 00:17 #

En hvernig er það annars, ef ríki og kirkja yrðu aðskilin, mundi þá kristinfræðsla detta út úr skólakerfinu?

Vonandi ekki - kristinfræðin hjálpar mörgum við að missa trúna sem er auðvitað gott mál. Mér finnst að almenn trúarbragðafræði ætti að koma í staðinn.


Dipsí - 11/11/05 00:35 #

En af hverju er kristinfræðikennsla í skólakerfinu í dag? Ég gæti haldið að það væri vegna þess að ríkið á að styðja hina evangílesku... blabla...

Ef aðskilnaður verður, þá þarf ríkið ekki að styðja eitt né neitt og kristinfræðsla því í raun ekki á dagskrá lengur.

Ég er ekki sammála því að kristinfræði fæli fólk frá trúarbrögðum, hún er ein meginástæða þess að fólk trúir á yfirnáttúru yfir höfuð að mínu mati. Mínir krakkar fá umfjöllun um guð eins og tilvera hans sé bara sjálfsagður hlutur strax í 6 ára bekk t.d.
Það er strax innprentað að það sé eðlilegasti hlutur í heimi að tala við yfirnáttúrulegar verur.

Menn geta svosem rövlað um menningaráhrif og svoleiðis, en ef það er ekki hlutverk ríkisins að styðja ákveðin trúarbrögð, þá mundi ég halda að innrætingin mundi hætta. Það er allt annað að kenna trúabragðafræði en kristinfræði, ég efast einhvernvegin um að trúarbragðafræðsla feli í sér tilbeiðslu á skólatíma og tal um að tilvera yfirnáttúru sé sjálfsögð.

Svona fyrir utan jarðir, eignir og peninga, getur þetta verið ein af ástæðum þess að kirkjan vilji ekki aðskilnað? Ef innrætingin byrjar ekki strax í æsku, þá leiði það af sér fækkun meðlima seinna meir gæti ég haldið.

En svona til að tala um efni greinarinnar, þá er ég sammála því að Landsvirkjun er í það minnsta að tala um hlut sem skiptir máli, það virðist vera fullt af græningjum sem halda að rafmagnið búi í innstungunum virðist vera og svona... en það er kannski pólitík sem á ekki við á þessari síðu. Hinsvegar er Landsvirkjun ríkisfyrirtæki að mestu þannig að féð kemur svosem úr okkar vasa á endanum.

Mér finnst þetta plan hjá Landsvirkjun vera illa ígrundað en samt skiljanlegt þar sem það hlýtur að verða þreytandi til lengdar að hlusta á unglinga og listaspírur kalla mann níðing, hryðjuverkamann, barnaétara, svona svo maður endurtaki nokkur falleg orð sem náttúruverndarsinnar láta falla í fjölmiðlum.

Það breytir því samt ekki að hagsmunaaðilar eru ekki vel til þess fallnir að tala á hlutlausan hátt um sín mál, jafnvel þó viljinn sé fyrir hendi.


Sævar Helgi - 11/11/05 00:49 #

Í mínu tilfelli var það þannig alla vega. Kristinfræðin hjálpaði mér að missa trúna og ég veit um fleiri dæmi. Það er auðvitað ekkert þar með sagt að allir missi trúna, það væri algjör fjarstæða að halda því fram.


Lala - 11/11/05 04:19 #

En nú efast ég um að trú sé mikið rædd á heimilum fólks svona almennt. Kemur ekki yfirnáttúruhugmyndin og samþykki á tilveru yfirnáttúru frá kristinfræðinni.

Í það minnsta tala kennarar ekki um að sumir trúi því að til sé guð, þeir fara bara beint í að kenna bænir og láta lita myndir af Jesú og svona eins og tilvera guðs sé sjálfsagður hlutur. Þessu er síðan viðhaldið út skólatímann.

Sko... er heilinn í fólki ekki bara svo meðfærilegur ef út í það er farið? Ef þú segir "fólk" 10 sinnum og ert síðan spurður að því hvað beljur drekki, þá er líklegt að þú segir "mjólk" þar til svona 5 sek seinna að þú fattar að þær drekka vatn.

Þannig er hægt að manipúlera heilann á þér í 5 sek með 10 sek aðgerð skilurðu...

Hvað ef aðgerðin stendur yfir í áratug og er útpæld en ekki bara svona smotterísbull eins og beljudæmið?

Ég er ekki að kalla þig lygara eða neitt þannig, en á mínu heimili trúa börnin t.d. að til sé guð og það er ekki komið frá mínu heimili skilurðu, þar sem kennarinn, sem börnin líta upp til, talar af sannfæringu eins og ekkert sé eðlilegra, þá taka þau bullinu sem staðreynd. Ég held bara að þú hefðir orðið trúlaus hvort sem kennslunnar hefði notið við eður ei.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.