Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kristnin í Kongó

Kongó er í dag mjög kristið land. Ötult kristniboðsstarf hefur gegnum árin gert það að verkum. En hverju hefur þessi kristilega innræting öll skilað fólkinu sem þarna býr?

Í Kongó ríkir mikið nornafár og þar benda menn aðallega á börn. Hinir innfæddu kristnu prestar sem þarna starfa halda þeim ömurlegu hindurvitnum á lofti að fjöldi barna séu nornir. Þeir sem lengst ganga segjast meira að segja sannfærðir um að annað hvert barn sé norn.

Þessir prestar fara um göturnar og reyna hvað þeir geta til að sigta þau börn úr sem eru grunsamleg. Oft nægir að krakkinn sé óvenju horaður, óvenju feitur, hafi líkamlega ágalla eða krossi fingur þegar hann talar. Þau börn sem grunur fellur á eru síðan hirt upp af götunum, tekin frá fjölskyldum sínum og búin undir særingaathöfn þar sem hið illa er rekið út af þeim. Og hjátrúarfullir foreldrar koma sjálfir í stríðum straumum með börnin sín til prestanna.

Hjá einum prestinum, Mama Gena, er þessi aðferð vinsælust: Barnið er til að byrja með svelt í kannski fimm daga í hálfgerðri einangrunarvist, til að auðveldara sé að ná til vonda andans inni í því. Hungruðu og veikburða barninu er á meðan innrætt það að það sé norn, allt þar til að það fellst á þá sjúkdómsgreiningu og viðurkennir á sig alls konar sakir.

Svo kemur að athöfninni sjálfri, sem gengur mest megnis út á óp og öskur særingaprestins, auk þess sem hann beitir barnið ýmisskonar ofbeldi. Pyntingar Mama Gena þykja vægar. Fjölmörg dæmi eru um að börn hafi slasast alvarlega og jafnvel látist við samskonar athafnir annarra presta.

Og fjölskyldan þarf að borga fyrir þetta. Hún á því ekki annarra kosta völ en særinguna, ellegar reka barnið að heiman. Og prestarnir græða feitan pening á öllu saman.

Okkur sem leggjum ekki trúnað í þessar nornafullyrðingar kemur þetta fyrir sjónir sem fáfræði og villimennska af verstu sort. Ef allar meiningar um innihald athafnarinanr eru lagðar til hliðar stendur eftir óhugnanleiki afkáralegrar hegðunar. Hegðun sem er þó ekki svo ólík apalátum kristinna kirkna hérlendis þegar betur er að gáð.

Niðurdýfingaskírnir, tungutal og andaútrekstur eru viðurkennd bjánalæti okkar eigin samborgara sumra. En sökum þess að þeir rýna í innihaldið en ekki hegðunina getur ekki nokkur maður sannfært þá um að seremóníur sem þessar eru vitleysisgangur af verstu sort.

Innihaldið kemur frá hinni kristnu kirkju. Þjóðkirkjan hér er með vægustu útgáfuna af þessum fávíslegu skrílslátum, altarisgöngu þar sem maður er étinn og drukkinn, ungbarnaskírn og fermingar þar sem hálfstálpuð börn eru látin „mæta augliti“ andans sem trúað er á. Þau krjúpa og hafa yfir undirgefnar játningar og halda að þetta hafi eitthvert gildi á eilífðarskalanum, reyndar aðeins þau sem ekki eru að þessu bara fyrir peningana.

Ástandið í Kongó er í raun bara ljót birtingarmynd af samskonar vitleysishegðun sem flestir landar okkar taka þátt í með einhverju móti. Við hér uppi á klaka vitum sem er að innihald þessara særinga þarna syðra er fullkomið kjaftæði. Getur verið að innihald særinga okkar eigin kirkna sé það líka?


Heimild: Útvarpsþáttur á BBC World Service í gærdag. Meira hér og hér.

Birgir Baldursson 26.08.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Finnur - 26/08/05 01:53 #

Spurning handa þér Birgir, hvort heldurðu að yrði árángursríkar í baráttu gegn þessari hindurvitni, að boða þessu fólki kristna trú eða kynna því tómleysishyggjuna þína?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/08/05 12:50 #

Þessi hindurvitni eru þarna fyrir kristna trú en ekki þrátt fyrir.


Finnur - 26/08/05 13:03 #

Fyrir?? Það má margt slæmt segja um kristna trúboða, en ég á bágt með að sætta mig við að þeir boði hefndir norna.


Peturty - 26/08/05 13:11 #

Síðan hvenær varð það ókristilegt að brenna nornir og særa illa anda úr fólki?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/08/05 13:33 #

Að særa anda úr fólki er komið beint frá Jesú sjálfum. Hann hélt að geðsjúkdómar og flogaveiki væru illir andar.

„Eigi skaltu láta galdrakonu lífi halda“ eru fyrirmæli frá hinum júdókristna guði, beint upp úr Biblíunni.

Kristnun Kongó varð til þess eins að skipta út heimasmíðuðum bábiljum fyrir aðfluttar. Mikið held ég að hagnýta tómhyggjan mín myndi geta laga ástandið þarna.


Finnur - 26/08/05 13:43 #

Þú getur gert það sem þér dettur í hug Peturty og borið biblíuna að sök, eða kristni.
Ég skildi greinina hans Birgis þannig að nornafárið í Kongó bitnar á börnum, og að þetta sé dæmigert fyrir ömurleg áhrif hindurvitna eins og kristni.
Spurningin sem ég hafði er hvort betra sé að beita kristnu trúboði eða kynningu á tómleysishyggju Birgis í baráttunni til verndar börnunum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 26/08/05 13:54 #

Spurningin sem ég hafði er hvort betra sé að beita kristnu trúboði eða kynningu á tómleysishyggju Birgis í baráttunni til verndar börnunum.

Tómleysishyggjan fær mitt atkvæði.


Finnur - 26/08/05 13:58 #

Það er athyglisvert að þú byrjar á því að vitna í jesús og síðan í biblíuna Birgir. Og síðan kemur verulega fátæklegt svar við spurningunni um hvernig tómleysishyggjan þín geti leyst vandamál Kongó.
Þú hlýtur að geta gert betur en þetta. Til að byrja með, telur þú að kristni eigi sök á þessu nornafári þarna?


Peturty - 26/08/05 15:03 #

Ef ég má blanda mér í þetta: Nei, kristni á ekki sök á nornafárinu, kristni er nornafárið þarna. Nornafár er sú mynd sem kristni í framkvæmd tekur á sig í þessu tiltekna samfélagi á þessu ákveðna augnabliki. Sem reyndar hefur verið bent á hér með öðru orðalagi. Lærdómurinn er þessi, ef ég skil BB rétt: Lofgjörðin í Krossinum og ritúöl í kirkjum landsins virðast ósköp sakleysislegar í menntuðu, þróuðu samfélagi þar sem þessu hefur verið ítt út í horn. Þá er þetta eins og leiksýning útí bæ. En þegar þessi ófögnuður leikur lausum hala í samfélaginu við aðrar aðstæður er það eins og í Kongó 2005 og fyrir fáum öldum í Evrópu. Hvað voru íslenskir prelátar og bauka fyrir svona þremur öldum síðan?


Finnur - 26/08/05 15:20 #

Getur verið að Peturty, danskurinn og mofi séu einn og sami aðilinn?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 26/08/05 15:22 #

Nei, hvernig dettur þér það í hug? Það er ekkert sambærilegt í málflutningi þeirra.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/08/05 15:29 #

Spurningin sem ég hafði er hvort betra sé að beita kristnu trúboði eða kynningu á tómleysishyggju Birgis í baráttunni til verndar börnunum.

Já, ég var að enda við að segja það.

Afhverju kallarðu þetta tómleysishyggju? Hvað er tómleysi? Tómhyggjan sem ég aðhyllist hefur heldur ekkert með tómlæti að gera.


Peturty - 26/08/05 15:31 #

...gleymdi reyndar einu. Sáuð þið ekki Kristinn Égmanekkihversson, prest í Flóanum í sjónvarpinu á menningarnótt? Þar tók hann þátt í sýningu Draugasetursins og lék prest sem kvað niður drauga. Hann var spurður af fréttakonu hvort prestar gerðu þetta enn og játti hann því og sagðist hafa verið kallaður í hús til að kveða niður eitthvað illt sem þar átti að vera á sveimi. Og vel að merkja, - prestar mega ekki grínast með svonalagað. Særingar eru veruleiki. Spurningin er bara hvar þær eru menningarlega viðeigandi.


Finnur - 26/08/05 15:34 #

Ekki annað en það að ég botna ekkert í því sem þeir eru að fara. Reyndar er mofi skástur vegna þess að hann þýðir bara vefsíður að vestan.
En danskurinn og Peturty koma mér gjörsamlega útí horn -- þetta er ekki Birgir að skrifa undir dulnefni?.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 26/08/05 15:40 #

Finnur, í þetta skipti liggur vandinn í kollinum á þér, það er ekkert torskilið við innlegg Peturty.


Finnur - 26/08/05 15:41 #

Afhverju kallarðu þetta tómleysishyggju? Hvað er tómleysi? Tómhyggjan sem ég aðhyllist hefur heldur ekkert með tómlæti að gera.
Fyrirgefðu Birgir, reynum aftur: Hvort telurður vænlegra í baráttunni geng nornunum í Kongó, Tómhyggja eða Kristni?


Finnur - 26/08/05 15:49 #

Nei Matti, ég er búinn að marglesa það sem Petury skrifar og ég bara botna ekkert í hvað hann er að fara frekar en þegar danskurinn mætir með sína dauðatrú.


Peturty - 26/08/05 15:53 #

"Ef væri ég söngvari syngi ég ljóð....." Hvað ef ég væri nú danskur Birgir í líkama mofis, kallaði mig Peturty og þættist vera þú Finnur, - hvað með það? Breytir það einhverju? Svo ég slái á aðra strengi, - því ekki vil ég þig útí horn. Ég held að valið í Kongó sé ekki milli kristilegs trúboðs og boðunar birgískrar tómhyggju. Fátækt og fáfræði er gróðrarstía hindurvitna þar sem mannfólkið í vanmætti sínum og myrkri örvæntingar telur handanheimaöfl rétt eins raunveruleg og skrælnað tré í jaðri eyðimarkarinnar og hungurtilfinninguna í máttvana skrokknum. Fallegar hugmyndir hafa aldrei upprætt slíkt, heldur fjöldahreyfingar vinnandi fólks (sem auðvitað hafa svo haft einhverjar hugmyndir til að réttlæta eða leiðbeina sér við verkið). Einhverjir fluttu kristni til Kongó. Ef til vill gekk þeim gott eitt til og eyddu miklum tíma og orku í að kenna litlum hópi fólks að lesa og búa til vin i eymdinni með hvítklæddu hjúkrunarfólki. Kannski höfðu þeir bóluefni með sér og vatnsdælur. En svo tóku hinar kristnu hugmyndir að lifa sjálfstæðu lífi í samfélaginu í hugum innfæddra í því menningarlega samhengi sem þarna er. Og þá fer sem fer.... það var sjálfsagt aldrei ætlunin. Vandin er sá að áður en þeir urðu kristnir töluðu kristnir menn um þá (þ.e. nornaveiðarana) sem villimenn sem trúðu á stokka og steina (eins og segir í ljóðinu um Abbalabbalá) en núna eru þeir Kristnir og stunda nornaveiðar. Ég held að veraldlegar hugmyndir, verkleg kunnátta og aukin réttur þessara þjóða í alþjóðahagkerfinu horfi til framfara fremur en Biblíusögur.


Finnur - 26/08/05 16:02 #

Það er einmitt það sem ég hélt, danskur Birgir í líkama mofa (ég tapaði þræðinum eftir það).


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/08/05 16:08 #

Fyrirgefðu Birgir, reynum aftur: Hvort telurður vænlegra í baráttunni geng nornunum í Kongó, Tómhyggja eða Kristni?

Ég er búinn að svara þessu tvisvar. Hvert er vandamálið?

En svo ég taki undir með peturty þá er þetta síður en svo val milli þessara tveggja hugmyndakerfa. Það sem skortir þarna er fyrst og fremst upplýsing og menntun. Það er aldrei nógu mikið af slíku, sbr. það að fólk í okkar eigin þjóðfélagi, sem á að heita upplýst, ástundar særingar og heldur að illir andar búi í fólki.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 26/08/05 16:08 #

Ég held að vandmálið sé hjá þér Finnur, við virðumst skilja hann ágætlega.

Hann mætti nota greinaskil oftar en annars ágætt.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/08/05 16:09 #

Já peturty, það þarf að gera tvöföld greinaskil til að þau komi fram, ýta tvisvar á Return/Enter.


Peturty - 26/08/05 16:18 #

Þakka ábendinguna. En Finnur er við sama heygarðshornið telur mig mofa andsetinn af klofnum persónuleika, mér, BB og danskinum. Ja hérna hér....


Finnur - 26/08/05 16:22 #

Ég var nú eiginlega að bíða eftir þessu svari frá þér Birgir.

Það sem skortir þarna er fyrst og fremst upplýsing og menntun.
Má þá ekki draga þá ályktun að menntakerfið hérna sinnir ekki skyldu sinni í baráttu við hindurvitni.
Og afsökunarbeiðni til Peturty, ég tek viðbrögð mín hér að framan um þín viðbrögð til baka.


Þórður Sveinsson - 26/08/05 17:25 #

En hverju hefur þessi kristilega innræting öll skilað fólkinu sem þarna býr?

Þessi andatrú á sér örugglega rætur í eldri trúarbrögðum Kongóbúa sem hafa blandast einhvern veginn saman við kristnina, en að því er einmitt vikið í þessari frétt sem þú vísar í, Birgir. En kristin trú gerir ráð fyrir að til séu illir andar (sjá til dæmis söguna um að Jesús hafi rekið anda úr svínum (Markúsarguðspjall, 5:1–20)) þannig að slíkt er alls ekki í mótsögn við hana. Og í stuttu máli sagt: Kristileg innræting í Kongó virðist ekki hafa skilað fólkinu þar miklu – ekki fremur en kristniboð sem slíkt yfirleitt. Það sem leysa myndi vanda þessa fólks væri að í landi þess yrði raunveruleg, efnahagsleg þróun og að stríðsátökum linnti. Kristin trú skilar engum árangri í þeim efnum. Það sem þarf er auðvitað pólitískur vilji í Kongó og meðal þjóða heims til að bæta ástandið, auk nauðsynlegra aðgerða til að framfylgja þessum vilja. Trúarbrögð munu ekki koma því til leiðar.

En til fróðleiks má geta þess að sá sem var forseti í Kongó frá 1997–2001, Laurent Kabila, er talinn hafa látið brenna allt að 2.000 manns á báli fyrir galdra árið 1979 á svæði sem maóísk skæruliðahreyfing hans réð yfir (um þetta er fjallað á bls. 215 í bók Howards W. French: A Continent for the Taking – The Tragedy and Hope of Africa).


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 26/08/05 19:59 #

Ekki er ástandið í Úganda gott http://www.vantru.is/2003/11/16/19.35/


Jón Frímann - 28/08/05 16:34 #

Þetta galdrafár í Nígeríu og fleiri löndum í Afríku er kirkjunni að kenna að mestum hluta. Enda boðar kirkjan svona rugl, en hún felur það bara mjög vel. En það kemur fleira til. Það er tildæmis staðreynd að þarna er fáfræði mikið vandamál, enda er menntakerfið í þessum löndum ekkert nema rjúkandi rústir. Og ekki bætir vera kaþólsku kirkjunnar þarna ástandið.

Einnig, eins og hefur komið fram hérna. Þá hefur kristnin blandast saman við eldri trúarbrögð ættbálka og það hefur flækt málin all svakalega.

Trúboð kristinna manna er vandamál, og það versta er að í dag. Í nútímaþjóðfélagi, þá er ennþá verið að stunda svona trúboð og neyða kristnina uppá fólk sem vill ekkert með hana hafa. Ég ætla einnig að minna á þá staðreynd að fólk hefur dáið af höndum kristninnar, enda drukknuðu tveir menn í Afríku fyrir nokkrum mánuðum, en þeir höfðu verið skírðir og töldu sig vera uppfulla af "heilögum anda" og óðu útí sjó, enda trúðu þeir því að "heilagur andi" mundi vernda þá.

Meiri vitleysan...

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.