Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Var Jesús þá ekki sannkristinn?

"Ætlið ekki, að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið, heldur sverð. Ég er kominn að gjöra, son andvígan föður sínum, dóttur móður sinni og tengdadóttur tengdamóður sinni. Og heimamenn manns verða óvinir hans." Svo mælti Jesús Kristur (Matt 10:34-36).

Þetta er nokkuð hnitmiðað hjá Jesú. Beint að kjarna málsins, hann er ekki kominn að færa frið heldur sverð. Þetta útskýrir hvernig stendur á því að kristnir menn hafa í gegnum aldanna rás drepið í nafni trúarinnar. Þann 11. ágúst skrifaði Jón Gnarr Bakþanka Fréttablaðsins og kallaði þá Trúarstríð. Í pistli sínum heldur Jón því fram að trú og beiting ofbeldis séu í raun ósamrýmanleg. Hann segir líka "[a]llt ofbeldi stríðir gegn kenningum Jesú Krists". Það er því greinilegt að Jón hefur ekki lesið Nýja Testamentið sérstaklega vel eða allavega skautað framhjá óþægilegu köflunum. Sú ímynd sem hefur verið búin til af Jesú sem friðarpostula er ekki í samræmi við guðspjöllin.

Jón Gnarr reynir að gera sem minnst úr tengslum trúar og stríðs. Til þess að undirstrika þetta segir Jón: "Allir trúarleiðtogar heimsins fordæma stríð." Þessi alhæfing er bara stórundarleg, það finnast ótal trúarleiðtogar sem ekki fordæma stríð og jafnvel styðja það. Í Bandaríkjunum er predikarinn Jerry Falwell, stofnandi samtakana The Moral Majority (Siðferðislegi meirihlutinn), áberandi stuðningsmaður innrásarinnar í Írak.

Í raun fellur Jón Gnarr í þá gildru að nota rökvilluna "enginn sannur Skoti". Þessi rökvilla er oftast útskýrð með þessu litla dæmi. A segir: Allir Skotar borða haggis. B segir: Nei, ég þekki Skota sem borðar ekki haggis. A segir: Allir "sannir" Skotar borða haggis. Á sama hátt telur Jón Gnarr að enginn "sannur" trúmaður geti stutt stríð. Jón hefur skilgreint trúmenn út frá eigin hentugleika og afskrifar þá sem ekki falla undir skilgreiningu hans sem einhvers konar gervi-trúmenn. Þetta gerir hann þegar hann minnist á Hitler sem "þóttist [...] vera mjög trúaður". Þegar Jón talar um George Bush þá má segja að hann umorði einfaldlega lokalínuna úr dæminu um "sanna Skotann": "Enginn sannkristinn maður getur beitt annan mann ofbeldi eða stutt það." Þar höfum við það, milljónir kristinna manna sem hafa í gegnum tíðina beitt ofbeldi eða stutt ofbeldi eru afskrifaðir á þeim grundvelli að þeir hafi ekki verið sannkristnir. Af hverju voru þeir ekki sannkristnir? Af því að þeir beittu eða studdu beitingu ofbeldis. Þetta eru hringlaga rök sem ekki ganga upp.

Jóni finnst óþægilegt að aðrir trúaðir menn, sérstaklega aðrir kristnir menn, beiti ofbeldi. Hann reynir að útskýra muninn á sér og þeim með því að stimpla þá gervi-kristna eða gervi-trúaða. Raunverulegur munur liggur í öðrum siðferðislegum gildum sem tengjast því ekkert hvort menn séu trúaðir eður ei heldur hvernig gildi samfélagið og fjölskylda manns hefur náð að innprenta manni. Jón Gnarr er ekki á móti ofbeldi af því hann er kristinn enda er ekkert sem bendir til þess að hann yrði skyndilega stuðningsmaður ofbeldis ef hann missti trúnna.

Óli Gneisti Sóleyjarson 18.08.2005
Flokkað undir: ( Klassík , Kristindómurinn )

Viðbrögð


Jón Frímann - 18/08/05 04:26 #

Mér finnst þessi tilvitnun alveg stórmerkileg, en þarna er í raun verið að segja að kristnin sé í raun trú stríðs og hörmunga, ekki friðar eins og hefur verið látið í veðri vaka og það sem kirkjan segir fólki.

Saga kristninnar er sjálf blóði drifin, og það bætist við á hverju ári sem líður. Og ekki eru önnur trúarbrögð betri, en svona ofbeldi þekkist einnig hjá öðrum trúarbrögðum. Þar sem trú hinna er ekki hin rétta trú. Það er einnig vert að benda á það að í sögunni um Adam og Evu, þá er Evu bannað að borða epli af skilningstréinu, en þá má með sanni segja að henni hafi verið bannað að læra og afla sér þekkingar. Sú saga er dæmisaga að mínu mati og flytur með sér áhugaverð skilaboð, kristni er trú fáfræði og hörmunga, einnig sem hún flytur boðskap stríðs.

Er þetta þannig heimur sem fólk vill raunverulega búa við ?

(Þess má geta að kirkjan kallar trúboð í skólum allt annað að trúboð. Fólk virðist ekki átta sig á þessum mun.)


eggert egg - 18/08/05 16:08 #

Óli minn, þú ert alveg að miskilja þetta... lestu eftirfarandi karlinn minn:

“Sjá, ég sendi yður eins og sauði meðal úlfa. Verið því kænir sem höggormar og falslausir sem dúfur. Varið yður á mönnunum. Þeir munu draga yður fyrir dómstóla og húðstrýkja yður í samkundum sínum. Þér munuð leiddir fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna þeim og heiðingjunum til vitnisburðar. En þá er menn draga yður fyrir rétt, skuluð þér ekki hafa áhyggjur af því, hvernig eða hvað þér eigið að tala. Yður verður gefið á sömu stundu, hvað segja skal. Þér eruð ekki þeir sem tala, heldur andi föður yðar, hann talar í yður. Bróðir mun selja bróður í dauða og faðir barn sitt. Börn munu rísa gegn foreldrum og valda þeim dauða. Og þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns. En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða. Þegar þeir ofsækja yður í einni borg, þá flýið í aðra. Sannlega segi ég yður: Þér munuð ekki hafa náð til allra borga Ísraels, áður en Mannssonurinn kemur. Ekki er lærisveinn meistaranum fremri né þjónn herra sínum."

Matteus 10:16-24

Kristna fólkið er fólkið sem þarf að líða fyrir trú sína skv því sem þarna segir. Þú segir að þetta sé hnitmiðað og beint að kjarna málsins en þú hefur samt ekki alveg náð utan um það allt saman.

Það þarf að lesa allt í samhengi, ekki bara taka út eitt vers og tjúna það til eftir eigin höfði.


Þór Melsteð - 18/08/05 20:28 #

Það þarf að lesa allt í samhengi, ekki bara taka út eitt vers og tjúna það til eftir eigin höfði.

Væri þá ekki ágætt að þú sýndir gott fordæmi í þeim efnum? Þið mofi eruð meistarar í því að taka hluti úr samhengi.


Eggert egg - 18/08/05 23:28 #

Kanski valsa ég annað slagið úr einu í annað en lestu báðar þessar tilvitnanir úr Matteusi og segðu mér síðan hvor okkar, ég eða Óli Gneisti, er að slíta hlutina úr samhengi.

Ég efast samt reyndar um að Óli hafi ætlað sér að slíta þetta svona úr samhengi, það er auðvelt að rangtúlka þennan texta sem hann vitnar í.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 19/08/05 00:03 #

Þetta er satt best segja stórfurðulegt. Þú rökstyður að það sé hægt að taka einhvern kafla úr Matteusarguðspjalli úr samhengi einsog það sanni að hinn kaflinn sé tekinn úr samhengi. Kaflinn sem ég vitna í er ekki tekinn úr samhengi og hver sem er getur flett upp í Biblíunni og athugað það.


Jón Frímann - 19/08/05 00:16 #

Ég tel að það sé aðeins hægt að skilja þennan texta á einn veg.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 19/08/05 02:44 #

Samhengi hlutanna


eggert egg - 19/08/05 10:10 #

Óli þú segir : "Þetta útskýrir hvernig stendur á því að kristnir menn hafa í gegnum aldanna rás drepið í nafni trúarinnar"

Nei þetta gerir útskýrir það ekki, ekki ef þú lest hlutina í samhengi. Í þessum texta sem þú talar um er verið að segja að kristnir menn verði ofsóttir. Það er það sem Jésús er að segja þarna. Svo einfalt er það.

Þú segir aftur : "Það er því greinilegt að Jón hefur ekki lesið Nýja Testamentið sérstaklega vel eða allavega skautað framhjá óþægilegu köflunum."

Þú virðist ekki einu sinni hafa lesið þetta guðspjall, bara tekið út það sem þú hélst að þú gætir notað og breytt merkingunni með því að sleppa samhenginu...

Birgir á ég þá ekki að lesa þetta í samhengi : Matt 10:34-36 Matt 10:16-24

Á ég bara að taka einn hluta og túlka hann og gera það síðan við allt heila klabbið??? Þetta er skrifað í samfelldu máli, en samt viltu taka hluta úr, sleppa samhenginu og lesa út úr því það sem þú vilt... Ef þú tekur hluta úr því sem einhver segir og pælir ekki í samhenginu þá er auðvitað lítið mál að túlka það eins og maður vill.

Dan Barker : "Þú getur dregið fram hundruð ritningarstaða sem sýna að Guð Biblíunnar er blóðþyrstur einræðisherra en um leið og þeir ná að sýna þér tvo ritningarstaði sem segja Guð vera kærleika halda þeir fram að það sért þú sem takir hlutina úr samhengi!"

Birgir sjáðu staðsetninguna á þessum tilvitnunum...þetta er á sömu blaðsíðu...ertu að segja mér að hér sé ekki verið að taka hlutnina úr samhengi???


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 19/08/05 10:34 #

Þú ert bara að rugla Eggert, það tekur því ekkert að svara þessu. Komdu með rökstuðning fyrir máli þínu eða vertu úti.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 19/08/05 14:19 #

Hvert er það samhengi tilvitnunarinnar efst í greininni sem við komum ekki auga á. Ég spyr hvert það samhengi sé, það er ekki nóg að halda því bara fram að það sé þarna eitthvert samhengi sem fer framhjá okkur.

Með von um eitthvað skárra en grænsápu.


Hrafn - 22/08/05 01:33 #

Ég fæ gæsahúð þegar ég les svona hluti, Jesú sagðist koma með sverð og meinti það. Viti menn, enn er barist um hann. Ofursvalur...


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/08/05 02:16 #

Finnst þér svalt hjá þessum guði að láta fjöldaslátranir viðgangast og hreinlega styðja þær? Hefði siðrænn guð ekki búið svo um hnútana að öll þessi tilgangslausa eymd og sorg þyrfti ekki að eiga sér stað?


Hrafn - 22/08/05 03:34 #

Svalt að hann hafði rétt fyrir sér á svo massífum skala að fullorðnir menn árþúsundum seinna sjái ástæðu til að tala gegn honum á rafrænum línum og þannig halda þessu "sverði" á lofti...

Jesú verður ekki kennt um eymd og sorg nokkurs manns. Það meikar ekki sens frekar en að segja að George Bush sé að drepa saklausa íraka daglega þar sem það eru í raun hermenn sem eiga konur og börn og fá borgað fyrir þessi ódæðisverk í þágu eitthvers málstaðs sem þeim hefur verið "seldur" gegnum áralangan heilaþvott(þessu beittu kaþólikkar snilldarlega). Menn eru bara menn, vondir og gráðugir sama hver málstaðurinn er.

Heimurinn er fullur af andstæðum, eymd gerir gleðina eftirsóknarverða og sorg gæðir hláturinn lífi.- Hrafninn þakkar fyrir fljótt og gott svar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.