Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þurfa grunnskólanemendur á trúaráróðri að halda?

Sigmundur Ernir skrifar í Fréttablaðinu þann 3. apríl grein sem ber heitið Af sjálfsmynd þjóðarinnar. Með greininni bætist Sigmundur í hóp þeirra manna sem er einbeittur í að mistúlka málstað þeirra sem gagnrýnt hafa form kristinfræðikennslu í íslenskum skólum. Orðrétt segir hann:"Það væri álíka gáfulegt að kenna ekki þessa kristnu sögu í skólum landsins og að leggja niður íslenskukennslu." Hann lætur eins og það séu einhverjir að berjast gegn því að kennt sé um kristna trú og sögu kristni á Íslandi í skólum. Svo er ekki.

Umræðan fór af stað vegna þess að of mikið er um að kristinfræðikennsla í íslenskum skólum sé einfaldlega kristniboð. Það er til dæmis ekki eðlilegt að bænahald sé í opinberum skólum. Slíkt hefur meira að segja verið stöðvað í hinum ofurkristnu Bandaríkjum. Það er ekki heldur eðlilegt að sagan af upprisu Jesú sé kennd eins og um sagnfræðilega staðreynd sé að ræða. Síðan eru til dæmi um að kennarar hafi niðurlægt nemendur sem ekki eru trúaðir.

Persónulega hef ég ekkert á móti því að kennt sé um kristna goðafræði í skólum, ekki frekar en að kennt sé um ásatrú. Málið snýst um að námsefnið sé sett upp á heiðarlegan hátt í stað þess að um áróður sé að ræða. Ég hef á tilfinningunni að Sigmundur hafi lítið sem ekkert kynnt sér málflutning okkar sem gagnrýnt höfum fyrirkomulag kristinfræðikennslu.

Sigmundur fjallar mikið um hve kristni er rótgróin í þjóðinni. Í raun mætti segja að þjóð sem væri jafn gegnsýrð af kristinni trú og Sigmundur heldur fram þyrfti ekki á kristinfræðslu að halda. Annars má skilja hann svo að enginn sé alvöru Íslendingur nema hann aðhyllist kristna trú. Þetta er makalaus þröngsýni hjá manninum. Það kemur samt málinu lítið við hve trúuð þjóðin er.

Fræðsla um kristni er hiklaust af hinu góða. Sömuleiðis fræðsla um önnur trúarbrögð og trúarskoðanir. Fræðslan þarf hins vegar að vera heiðarleg og hún þarf að byggja á staðreyndum. Grundvallaratriðið er að trúfrelsi á að vera á Íslandi og því á trúaráróður ekki heima í skólum hér á landi. Þetta grundvallaratriði ætti jafnvel að gilda þó 100% þjóðarinnar aðhyllist ákveðna trú.


Þessi grein var send Fréttablaðinu fyrir viku og birtist loks í dag.

Óli Gneisti Sóleyjarson 11.04.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Skólinn )

Viðbrögð


Egill - 11/04/05 21:22 #

Ef kenna skal kristni er það staðreynd að Jesú reis upp. Ef kenna skal Íslamfræði þá er það staðreynd að fjallið kom til Múhameðs. Staðreyndir eru afstæðar og skal fara með þær sem slíkar. Sérstaklega í trúmálum.

Það ætti auðvitað að tryggja fjölbreytta trúarabragðafræði en að öllum öðrum trúarbrögðum ólöstuðum þá er kristni mikilvægust í sögulegu og menningarlegu samhengi fyrir okkur Íslendinga. Því er ekki hægt að neita. Trúboð í skólum hef ég aldrei orðið var við eða heyrt um nema úr ykkar munni. Ég er sannfærður að þetta er bundið við eitthverja staka kennara og með nýjum tíðaranda útrýmist svona fornaldarvinnuhættur úr þessu samfélagi.


Þórður Örn - 11/04/05 21:56 #

Er það staðreynd, að staðreyndir séu afstæðar?


Þórður Sveinsson - 11/04/05 22:34 #

Það er eiginlega alveg með ólíkindum hversu margir virðast bókstaflega neita að horfast í augu við staðreyndir. Þess eru raunveruleg dæmi að í almennum grunnskólum fari beinlínis fram trúariðkun í upphafi hvers skóladags – já, bænahald. Auðvitað eiga börn ekki að vera sett í þá stöðu að þurfa að taka þátt í slíku ef það brýtur gegn grundvallarlífsviðhorfi foreldra þeirra. En það er einmitt nokkuð sem gera má ráð fyrir að oft gerist. Þannig er að þó að í orði sé gert ráð fyrir undanþágum getur verið mjög erfitt að tryggja þær í framkvæmd, sérstaklega þar sem börn eiga oft erfitt með að ganga gegn hópnum.

Ég spyr þig, Egill. Varst þú látinn biðja bænir á hverjum degi þegar þú varst í grunnskóla? Ég get sagt fyrir mitt leyti að ég gerði það ekki og að mig rak í rogastans þegar ég sá frétt þar sem fram kom að þetta væri raunverulega gert einhvers staðar. Af hverju finnst svo mörgum þetta sjálfsagður hlutur þegar þetta er eitthvað sem ekki hefur almennt tíðkast? Af hverju vilja menn beita sér fyrir trúarvæðingu skólanna? Biðum við, sem ekki fórum með bænir daglega, einhvern skaða af því?

Ég leyfi mér að benda enn og aftur á grein sem ég hef skrifað um þetta mál. Þar er reifuð niðurstaða mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 3. nóvember 2003 – sem ég rakst á við lestur ágæts fyrirlesturs sem Sigurður Hólm Gunnarsson flutti hinn 19. febrúar sl. á ráðstefnu á vegum Vinstri-Grænna um trúfrelsi. Í þessari niðurstöðu nefndarinnar kemur skýrt fram að hún telur það brjóta gegn trúfrelsi að trúariðkun fari fram í almennum grunnskólum nema frá slíkri iðkun trúar séu virkar og raunhæfar undantekningar.

Þeir sem vilja að börn séu látin iðka trú í skólum ættu að kynna sér þetta álit.


Þórður Sveinsson - 11/04/05 22:37 #

Rétt skal vera rétt. Álitið er frá 3. nóvember 2004 – sem sagt: nánast glænýtt.


Egill - 12/04/05 13:37 #

Ekki var stundað trúboð í mínum skóla, ef eitthvað þá hötuðu krakkarnir kristni fyrir að þurfa að sitja í þessum leiðinlegu tímum útaf henni. Ég er ekki að segja að ég sé sáttur við trúboð í skóla, alls ekki. En það sem ég er að segja að þetta er vandamál sem myndi ekki vera til í upplýstu samfélagi. Og við stefnum hraðbyri á upplýst samfélag þar sem gamlir/gamlar fornaldarkarlar/konur geta ekki neitt upp á mann trú í skólum.

Þeir kennarar sem ég hef talað við útaf þessu máli vita flestir af línunni á milli fræðslu og trúboðs . En það er greinilega frávik í eitthverju brotarbroti af öllum tímunum sem eru kenndir í kristinfræði á Íslandi. Þetta leysist af sjálfu sé fyrst þetta er komið í dagsljósið.


Þórður Sveinsson - 12/04/05 19:03 #

Það sem er gagnrýnisvert ber að gagnrýna. Að segja sem svo: „Þetta lagast allt af sjálfu sér,“ er hættulegt. Til þess að mannréttindi, t.d. trúfrelsi, séu virt verðum við að bera virðingu fyrir þeim og vera tilbúin til að berjast fyrir viðgangi þeirra – já, alltaf. Annað er sinnuleysi sem leiðir til þess að unnt verður að skerða mannréttindi smátt og smátt – án þess að nokkur æmti eða skræmti – þar til í óefni er komið.

Þeir sem gagnrýna fólk fyrir að hafa skoðun á því að börn séu látin taka þátt í bænahaldi í almennum grunnskólum virðast vera haldnir þessu hættulega sinnuleysi. Ef einhver leyfir sér að hafa ákveðnar skoðanir á einhverju þá líta hinir sinnulausu á hann sem einhvers konar ofstækismann sem kann ekki að halda kjafti. Þetta sé nú óþarfa rekistefna þar sem allt horfi nú til framfara og við stefnum hraðbyri inn í upplýst samfélag. En hvernig getur samfélag kallast upplýst ef helstu grundvallarmál eru ekki rædd? Er það ekki einmitt vegna umræðunnar sem samfélagið er upplýst?

Já, sumir vilja kannski kalla hugsunarhátt hins sinnulausa yfirvegun. Réttara er hins vegar að kalla þetta það að fljóta sofandi að feigðarósi.


Þórður - 12/04/05 23:00 #

Hvers vegna er óðelilgt að ríkistrúnni sé kennd í skólum landsins sem reknir eru af ríkinu..... jaaa mér er spurn???


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/04/05 00:45 #

Svo lengi sem um hana er kennt en hún ekki innrætt er ekkert óeðliegt við það. Af hverju sjá trúmenn upp til hópa ekki muninn á þessu tvennu?


Óli Gneisti Sóleyjarson (meðlimur í Vantrú) - 13/04/05 00:48 #

Doddi, þú virðist hafa sleppt því að lesa greinina en ákvaðst samt að tjá þig um hana.

Það er annars fyrst og fremst óeðlilegt að það sé einhver ríkistrú.


Egill - 13/04/05 18:21 #

Þórður ég sagði aldrei að þetta lagaðist allt saman. Heldur að þetta lagaðist AFÞVÍ að þetta væri komið upp á yfirborðið. Það er ekki sinnuleysi.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 13/04/05 20:29 #

Hvers vegna er óðelilgt að ríkistrúnni sé kennd í skólum landsins sem reknir eru af ríkinu..... jaaa mér er spurn???

Heyrðu já, þetta er alveg rétt.

A. Ríkið rekur skóla. B. Ríkið hefur stjórnarskrárbundna trú. C. Ergó, Ríkið boðar sína trú í sínum skólum.

Þetta er málflutningur sem aldrei verður hrakinn.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 14/04/05 00:42 #

Það er annars fyrst og fremst óeðlilegt að það sé einhver ríkistrú.

Rétt, en ég get alveg fallist á þau rök biskupsins að fyrst þetta hugmyndakerfi hefur litað hugsanagang þjóðarinnar öldum saman, smitað út í bókmenntirnar og hvað eina, þá er nauðsynlegt að fólk þekki til þess.

En það afsakar ekki boðun.


Þóra - 14/04/05 12:31 #

Sem foreldri grunnskólabarna get ég ekki annað en verið sammála þessari grein og glaðst yfir því hvað vantrúarmenn eru duglegir að halda þessari umræðu gangandi.

Til að útskýra hvers vegna mér líkar illa við núverandi kristinfræðikennslu (sem er langt frá því að geta talist trúarbragðafræðsla) langar mig að taka dæmi:
Í grunnskólunum er líka boðið upp á kynfræðslu; flestir virðast sammála um að gott sé að börnin séu upplýst um líffræðilegar og félagslegar hliðar kynlífs. Þau eru frædd um möguleika getnaðarvarna og hvött til að taka meðvitaðar ákvarðanir. Ekki hef ég hins vegar frétt af neinum skóla þar sem iðkun kynlífs þykir sjálfsagður hluti af skólastarfinu.

Þó má fastlega gera ráð fyrir að 100% þeirra sem eiga börn í grunnskóla iðki, eða hafi a.m.k. einu sinni iðkað kynlíf...

Fræðsla um hin ýmsu trúarbrögð heimsins (þ.m.t. kristni) og lífsskoðanir á vissulega heima í grunnskólunum. Sú fræðsla á hins vegar ekki að heita "kristinfræði" og byggjast á því að láta sex ára börn læra sköpunarsögu biblíunnar eða að láta ellefu ára börn læra hin tíu boðorð kristinna manna utanað.

Trúin er nokkuð sem börnin ættu sjálf að taka ákvörðun um þegar þau hafa aldur og skilning til, skólinn á ekki að gegna hlutverki trúboðans -- hann ætti að fræða þau um hvað trúarbrögð ganga út á, kynna þeim fjölbreytileikann, og líkt og í kynfræðslunni, hvetja þau til að láta ekki undan hópþrýstingi, heldur taka vel upplýstar og meðvitaðar ákvarðanir.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.