Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Geimverutrúarbrögð

ufoTil er fjöldi fólks sem efast ekki um að geimverur séu til og heimsæki jörðina reglulega. Það hefur nefnilega séð þær. Skoðanakannanir sýna að umtalsverður hluti jarðarbúa trúir á heimsóknir geimvera.

Hugmyndin um heimsóknir kynjavera af himnum ofan er ævagömul. Nútímaútgáfan varð til árið 1947 þegar kaupsýslumaðurinn Kenneth Arnold sagðist hafa séð einkennileg fyrirbæri á himninum úr flugvélinni sinni. Skyndilega sáust fljúgandi diskar alls staðar um Bandaríkin og fljótlega kom hugtakið „Fljúgandi furðuhlutur“ eða FFH fram.

Margir drógu strax þá ályktun (yfirleitt áður en þeir skoðuðu fleiri möguleika) að FFH væru geimskip frá öðrum hnöttum með geimverur við stjórnvölinn.

Af hverju ættu geimverur að heimsækja okkur?

Í kvikmyndum koma geimverur hingað nær eingöngu til að leggja jörðina í rúst eða hneppa mannkynið í þrældóm. Jörðinni hefur ekki enn verið tortímt og að því er við best vitum lútum við ekki stjórn geimvera.

Kannski eru þær hér til að æxlast með okkur. Til eru óteljandi sögur af fólki sem segir geimverur hafa komið geimverufóstrum fyrir í sér eða hvað það nú er. Þetta er ansi langsótt og ógeðfelld útskýring. Til að þetta sé hægt þyrftu geimverurnar að hafa nánast nákvæmlega eins DNA og við höfum. Menn geta ekki átt afkvæmi með simpönsum þrátt fyrir að þeirra DNA og okkar sé 98% eins.

Varla er það tæknin okkar sem heillar. Hvers vegna skyldu annars verur sem hafa næga tækni og þekkingu til að ferðast hundruð eða þúsundir ljósára að koma til jarðar í því augnamiði að stela „stórbrotinni“ tækni okkar? Myndi nokkur heilvita maður ferðast aftur í tímann til að stela tækniþekkingu hellisbúa? Að sama skapi, ef við reyndum að stela tækninni af þeim er ólíklegt að við getum áttað okkur á henni. Það er ólíklegt að Neanderdalsmaður sem fengi farsíma í hendurnar gæti áttað sig á tækninni.

Vel á minnst, tæknilegir yfirburðir. Stundum brotlenda geimverurnar einhvers staðar. Ef geimverur búa yfir svo stórkostlegri tækni að geta ferðast þúsundir ljósára milli stjarnanna án þess að verða fyrir skakkaföllum, hvers vegna ættu þær þá að brotlenda á jörðinni? Yrðu það ekki dapurleg örlög háþróaðra vitsmunavera að koma geimskipunum sínum ekki í gegnum lofthjúp jarðar eftir allt þetta ferðalag?

Þúsundir vitnisburða - engar sannanir

Þrátt fyrir aragrúa rannsókna á FFH eru ekki til næg sönnunargögn til að sannfæra flesta vísindamenn um að ljósin á himninum hafi verið eitthvað óvenjulegt eins og geimdiskar. Milli 1947 og 1969 rannsakaði bandaríski flugherinn næstum 13 þúsund sögur af FFH. Af þeim fundust náttúrulegar skýringar í 94% tilvika.

Kannski voru þessi 6% sem eftir eru geimverur? Ef lögreglan á Íslandi stendur sig vel leysir hún kannski 94% morðmála sem koma upp og í ljós kemur að morðinginn er mennskur í öllum tilfellum. Gætu morðingjarnir í hinum tilvikunum verið draugar, geimverur eða álfar? Ef lögreglan hefði yfir meiri mannskap, tíma og betri vísbendingum að ráða, kæmist hún að því morðinginn var mennskur í 100% tilvika.

Fólk hefur séð þúsundir FFH en lýsingarnar á fyrirbærunum eru oftast frekar slæmar og erfitt að þær. Vitnisburðir veita oft ekki nægar upplýsingar til að hægt sé að útskýra það sem sást. Þess vegna ætti það ekki að koma neinum á óvart að FFH eru til; þeir hafa bara ekki verið greindir.

Gervitunglin okkar finna aldrei neitt óeðlilegt og sömu sögu er að segja um ratsjárkerfi bandaríska hersins (en herinn er náttúrlega þátttakandi í samsærinu um að leyna geimverunum!). Af einhverjum ástæðum virðast geimverurnar stöðugt angra venjulegt fólk í úthverfum en birtast þó hvergi á ratsjám eða gervitunglamyndum.

Staðið andspænis geimverum

Samkvæmt skoðanakönnun í Bandaríkjunum frá árinu 1992 telur meira en þrjár milljónir manna sig hafa verið numið á brott af geimverum. Þeim brottnumda er komið fyrir í geimskipi og á honum gerðar óþægilegar og stundum dónalegar tilraunir. Ljótt er ef satt reynist. Ótrúlegt að vökulir nágrannar hafa ekki tekið eftir þeim!

Eins og svo oft áður er til miklu einfaldari skýring á reynslu af þessu tagi; reynslu sem vissulega getur verið afar óþægileg þeim sem fyrir verður og engin ástæða til að gera grín að. Það eru nefnilega til eldri sögur af svipuðum meiði.

Á miðöldum var algengt að fólk væri numið á brott í svefni af djöflinum en ekki geimverum, sögurnar voru a.m.k. algengar. Sálfræðingar eiga einfalda skýringu á óþægilegu fyrirbæri sem kallast svefnlömun (e. sleep paralysis) sem getur útskýrt stóran hluta af sögunum um brottnámið. Þegar við sofum, og jafnvel í skamma stund eftir að við vöknum, kemur heilinn líkamanum þannig fyrir að við eigum erfitt með að hreyfa okkur. Við þessar kringumstæður dreymir okkur stundum þannig að við getum ekki brugðist við eða svarað - og við vitum líklega öll að draumar geta verið ansi raunverulegir. Þá liggjum við frosin í rúminu og finnst sem einhver sé að fylgjast með okkur eða finnum fyrir nálægð og sumir eiga erfiðara með andardrátt.

Þessi skýring er miklu einfaldari og líklegri heldur en geimveruskýringin. Hún er studd af sönnunargögnum, hin ekki.

Þröngsýni efasemdarmannsins

Helsta ástæðan fyrir efasemdunum er skortur á haldbærum sönnunargögnum. Enginn sem segist hafa verið numinn á brott um borð í geimskip hefur hingað til gengið inn á rannsóknarstofu með óþekktan vef úr geimveru eða málmblöndu úr FFH, eitthvað sem hægt væri að greina og leysa ráðgátuna í eitt skipti fyrir öll.

Þeir sem trúa á geimverurnar beita venjulega fyrir sér tveimur röksemdum til að hrekja rök efasemdarmanna:

  1. Sönnunargögnin eru meira sannfærandi en vísindamenn gera sér grein fyrir, þeir eru bara of þröngsýnir og ekki nægilega opnir fyrir ýmsum möguleikum.

  2. Stjórnvöld (oftast bandarísk) halda bestu sönnunargögnunum leyndum.

Erfitt er að gleypa fyrri skýringuna. Í heiminum eru hundruð þúsunda vísindamanna sem eiga þann draum heitastan að finna líf á öðrum hnöttum.

Í öðru lagi eru það í raun og veru trúmennirnir sem eru þröngsýnir. Við vitum upp á hár hvað þarf til að sannfæra okkur um heimsóknir geimvera og það eru haldbær sönnunargögn. Þeir sem trúa á geimverur (og yfirnáttúrulega hluti) segja oft að við sem ekki trúum séum lokaðuð og höldum ekki neinum möguleikum opnum; þeir telja sig hafa uppgötvað eitthvað nýtt sem efasemdarmenn sjá ekki. Þeir vorkenna okkur fyrir að trúa ekki á það sem þeir trúa.

Sem efasemdarmenn getum við verið opnustu menn í heiminum. Við erum tilbúnir til þess að trúa öllu, svo lengi sem við fáum sannanir í hendurnar. Ef okkur yrðu sýndar sannanir fyrir heimsóknum geimvera myndum við tafarlaust skipta um skoðun.

Þeir sem trúa eiga afar erfitt með að segja skilið við trúna, jafnvel þótt sönnunargögnin segi aðra sögu. Þeir óska þess svo að þessir hlutir séu sannir að þeir neyðast til að vera þröngsýnir og segja síðan allan tímann að það séu við sem viljum ekki hlusta. Þeir kasta opinni gagnrýnni og heilbrigðri hugsun fyrir róða.

Sem efasemdarmenn reynum við að temja okkur ákveðna víðsýni. Við segjum að það séu ekki til neinar sannanir um heimsóknir geimvera og við viljum að lesendur sýni fram á að við höfum rangt fyrir okkur. Það er nefnilega ekki hlutverk efasemdarmannsins að færa fram sönnunargögn heldur þvert á móti. Við eigum þá ósk heitasta að vita hvort við erum ein eða ekki í alheiminum.

Við erum tilbúnir til að breyta skoðun okkar um leið og sannanir koma fram og þannig hugsa líka vísindamenn. Þessi aðferð vísindanna hefur sannað sig ótal sinnum. Þannig erum við alls ekki eins lokaðir og trúmennirnir sem aldrei er hægt að sannfæra, jafnvel þótt ekki sé fótur fyrir því sem hann trúir á. Hann trúir samt, jafnvel þótt sönnunargögnin segi annað. Hann er sá sem hefur lokaðan huga.

Seinni útskýringin um samsæri ríkisstjórna er einfaldlega allt of heimskuleg. Til þess að hún geti verið rétt, þyrftu allar ríkisstjórnir heimsins að taka þátt í yfirhylmingunni. Heimsækja geimverurnar einungis þau lönd þar sem stjórnvöld leyna tilvist þeirra?

Viljinn til að trúa

En eru allar sögurnar um brottnám lygi? Er fólkið einfaldlega kolklikkað? Af hverju ætti allt þetta fólk að ljúga?, er algeng spurning þegar rökrætt er við þá sem trúa þessum sögum. Eins og við höfum þegar sagt frá getum við öll orðið fyrir reynslu sem erfitt er að útskýra. Það er ekki þar með sagt að útskýringin þurfi að vera yfirnáttúruleg. Þótt fólk sé ekki að ljúga er miklu líklegra er að fólk hafi látið glepjast eða orðið fórnarlamb einhvers sem veit ekki betur. Sumir hafa orðið fyrir erfiðari reynslu og leitað sér aðstoðar á röngum stöðum. Miklu líklegra er að fólk geri mistök, muni vitlaust eða sé einfaldlega fórnarlamb gabba, heldur en að lögmál náttúrunnar hætti að virka. Sumir eru líka bara kolklikkaðir.

Á endanum munu sönnunargögnin veita svör við þessum spurningum. Hingað til hafa þau verið harla ómerkileg. En hvað vitum við, við erum hvort sem er svo þröngsýnir!

Ítarlegri umfjöllun um geimverutrú og fleira sem viðkemur lífi í alheiminum er að finna á Stjörnufræðivefnum

Sverrir Guðmundsson og Sævar Helgi Bragason 01.04.2005
Flokkað undir: ( Klassík , Nýöld )

Viðbrögð


uloop - 01/04/05 02:36 #

Hvað ef ég tel umtalsverðar líkur á lífi annarstaðar í alheiminum en á plánetunni Jörð?
Ég hef engar sannanir, engin rök nema líkindin.
Gerir það mig að "trúmannni"?

uloop


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 01/04/05 02:43 #

Þetta er spurning um hve upplýst sannfæring þín er. Ef líkurnar á þessu er sterkar, eða jafnvel yfirgnæfandi (sem þær eru ) er réttara að segja að þú teljir þetta vera svo. Sú sannfæring þín er upplýst í þeim skilningi að þú getur fært rök fyrir máli þínu.

Það er ekki hægt að færa rök fyrir trú, hún gengur út á að aðhyllast hluti sem engin rök eru fyrir.


Davíð - 01/04/05 08:41 #

Eitt sem small í hausnum á mér þegar ég las þetta yfir hversu lík geimverútrúin er þjóðtrú Íslendinga hvað varðar huldufólk. Bæði Huldufólk og Geimverur stunda það að ræna fólki oft vegna eigin hagsmuna. Það er til fólk sem segist hafa verið ,,tekið" höndum af báðum hópum og enn fleiri sem segjast hafa séð þá. Á Íslansdi fortíðarinnar var huldufólkið oftast auðugt og bjó í vellystingum á Íslandi sem var land hungurs og volæðist.
Þetta voru sögur sem fólk huggaði sig við þar huldufólkið þurfti ekki að hlýða sköttum konungs osf. Gæti ekki verið svipuð ástæða fyrir að geimverutrúin sé svo sterk sem raun ber vitni í Bandaríkjunum sem er sjálfskipuð heimslögregla að menn vilji hugsa sér einhverja sem er það voldugir að ríkistjórn þeirra ráði ekki við þá. (Bandaríkjamenn halda almennt að þeir ráði við allt, ég er ekki að segja að svo sé) Ekki veit ég? bara smá vangaveltur, eiga kannski ekki einu sinni heima á þessum vettvangi.


Sævar Helgi (meðlimur í Vantrú) - 01/04/05 08:50 #

Ég vil bara benda á viðtal við Frank Drake og umfjöllun um Drake-jöfnuna og þversögn Fermis á Stjörnufræðivefnum í sambandi við líkur á lífi annars staðar í geimnum.


frelsarinn@vantru.net (meðlimur í Vantrú) - 01/04/05 09:02 #

Mjög góð grein! Ég hef alltaf sagt að síðan rafmagnið komst í sveitir landsins þá yfirgáfu draugarnir bæina og skelltu sér í fljúgandi diska. Geimverurnar eru tæknivæddir álfar, huldufólk og draugar. Spurning að uppfæra hindurvitnin í version 2.0 til sig ekki að fífli á 21 öld.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 01/04/05 09:58 #

Þetta var skemmtileg og góð grein. Takk.

Fyrst líf gat kviknað á Jörð er ekkert ólíklegt að slíkt geti gerst annnarsstaðar í geimnum. Hvort slíkt líf hafi þróað af sér vitsmunalíf eins og hér eru bara vangaveltur, en að hoppa frá mögulegu bakteríulífi yfir í UFO og "sígarettumanninn" í X-Files, er tja..... bara rugl.


Guðjón - 01/04/05 13:18 #

Ég er í grundvallaratriðum sammála þessari grein. Ég hef enn ekki séð neinar sannfærandi vísbendingar um tilvist geimvera. Í andra sannrar efahyggju hlýt ég þó að viðurkenna að það þýðir ekki að geimverur séu ekki til. Ég hef aldrei nennt að kynna mér þessi mál að neinni alvöru. En þangað til að geimverur lenda á laugarveginum eða eitthvað álíka geri ég ráð fyrir að ástæður þess að fólk sér fjúandi diska eða telur sig brottnumið séu ýmist eðlilegar náttúrlega skýringar skýringar eða sálfræðilegs eðlis. Og ekki má gleyma því að sumir höfundar sem skrifa um þessi efni gera það til þess að græða á því.


ThorvaldurJo - 01/04/05 13:54 #

Trúin er fullvissa um það sem menn vona, og sannfæring um þá hluti sem eigir er auðið að sjá.


Sævar Helgi (meðlimur í Vantrú) - 01/04/05 15:35 #

Ég hef enn ekki séð neinar sannfærandi vísbendingar um tilvist geimvera. Í andra sannrar efahyggju hlýt ég þó að viðurkenna að það þýðir ekki að geimverur séu ekki til.

Þar erum við hjartanlega sammála. Við fullyrðum hvergi í greininni að geimverur séu ekki til, í raun sést það að við vonum innilega að þær séu til og láti að minnsta kosti heyra í sér fljótlega.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 03/04/05 00:36 #

Ef ég kem inn á einn annan punkt. Í greinini stendur að engin hefur

"hingað til gengið inn á rannsóknarstofu með óþekktan vef úr geimveru eða málmblöndu úr FFH, eitthvað sem hægt væri að greina og leysa ráðgátuna í eitt skipti fyrir öll."

Ég verð að minna á að þótt einhver getur komið með ókunnan vef eins og putta eða húðfrumur úr óþekktri lífveru mundi það ekkert segja um hvort það kæmi frá geimnum. Og það sama gildir um málmblöndu. Það gæti alveg eins verið eitthvað sem gæmi frá jörðinni. Þannig að lífsýni og málmblanda myndi líklega ekki leysa neina ráðgátu.

Það þarf eitthvað annað til. Það yrði náttúrulega frábært að fá fljúandi geimskip til að standa lausu lofti á Ingólfstorg, Austurstræti eða Lækjartorgi til að sýna sig og sanna fyrir þúsundir manna. Þetta yrði líklega eitt af því besta sönnunargagn fyrir utan að geimveru kæmu út úr þessum frartækjum í massa vís og læti rannsaka sig og snerta. En það er óraunsætt að einhver geimverusinni hafði það á sínum snærum að koma því fyrir þó svo ef að geimverur væru að heimsækja okkur 'on a regjúlar beisis'.

Aðal spurningin er sú hvaða kröfur eru sett á geimverusinnann. Og hvort þetta sé eitthvað sem hann getur hugsanlega haft vald á eða tækifæri til að gera og sína fram á.

Hins vegar er ég ekki að gefa i skyn að skortur á sönnunargögnun sé sönnun í sjálfum sér. Bara það að bein reynsla fólks er oft nóg sönnun fyrir það sjálft en ekki nóg fyrir aðra það þarf meira til en vitnisburði. En þetta 'eitthvað meira' þarf að vera sanngjarnt.


Sverrir og Sævar (meðlimur í Vantrú) - 03/04/05 01:17 #

Ég verð að minna á að þótt einhver getur komið með ókunnan vef eins og putta eða húðfrumur úr óþekktri lífveru mundi það ekkert segja um hvort það kæmi frá geimnum. Og það sama gildir um málmblöndu. Það gæti alveg eins verið eitthvað sem gæmi frá jörðinni. Þannig að lífsýni og málmblanda myndi líklega ekki leysa neina ráðgátu.

Það yrði reyndar mjög áhugavert í sjálfu sér ef einhver kæmi með putta úr ókunnri lífveru inn á rannsóknarstofu, hvort sem hún væri jarðnesk eða ekki.

Auðvitað eru sérkennileg lífsýni eða málmblöndur engin endanleg sönnunargögn fyrir tilvist og heimsóknum geimvera. Hins vegar er allt erfðaefni lífvera á jörðinni skylt. Ef fram kæmi vefur sem innihéldi allt annars konar erfðaefni (eða alls ekkert) yrði það þó mun sterkari vísbending en það sem borið á borð fyrir okkur af geimverutrúmönnum í dag.

Aðal spurningin er sú hvaða kröfur eru sett á geimverusinnann. Og hvort þetta sé eitthvað sem hann getur hugsanlega haft vald á eða tækifæri til að gera og sína fram á.

Við erum hjartanlega sammála orðum Carl Sagan sem eiga vel við í þessu tilfelli: „Stórbrotnar staðhæfingar krefjast stórbrotinna sönnunargagna.“ Við höfum ekki fundið líf utan jarðar ennþá og spurningin um líf í geimnum er ein stærsta spurning vísindanna. Svar við slíkri spurningu krefst stórbrotinna sönnunargagna sem hafa ekki verið lögð fram hingað til.

Fáar uppgötvanir myndu hafa jafn mikil áhrif í hugmyndasögu mannkyns eins og uppgötvun lífs utan jarðarinnar. Hún myndi gerbreyta því hvernig við hugsum um okkur sjálf og stöðu okkar í alheiminum.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 04/04/05 12:38 #

Já en þá spyr ég á móti hvernig stórbrotin sönnunargögn? Hvað eiga geimverusinnar að sína framm á? Ég hef verið að hugsa að kannski er verið að búa til það strangar kröfur eða það stórbrotnar sannanir að að það yrði aldrei hægt að koma því fyrir.


Sævar Helgi (meðlimur í Vantrú) - 04/04/05 16:01 #

Allar sannanir sem staðfesta tilvist geimvera eru stórbrotnar sannanir. Sama hversu "smávægilegar" þær kunna að vera. Þá erum við að tala um vefsýni úr líkamanum, skrítna málmblöndu, útvarpssendingar eða eitthvað slíkt. Við getum auðvitað ekkert sagt til um í hvernig formi þessi sönnun á að vera. Hún þarf bara að vera haldbær. Best væri auðvitað að taka í höndina á verunni fyrir framan gervallt mannkynið (ef þær eru þá með hendur!).

En hvers vegna er sönnunin stórbrotin? Jú, hún sannar einhverja merkilegustu uppgötvun mannsandans og hefði meiri áhrif á okkur sem tegund, menningu okkar, trúarbrögð o.s.frv., heldur en nokkur önnur uppgötvun.

Við erum ein eins og er, við vitum að minnsta kosti ekki betur. Þess vegna er það stórbrotin/stórkostleg staðhæfing ef við komumst að öðru. Svo áhrifarík krefst mjög haldbærra sönnunargagna.

Af hverju ættum við ekki að setja fram kröfur á geimverusinnan? Ég sé ekkert að því, enda væri þarna um að ræða eina merkilegustu uppgötvun vísindasögunnar.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 06/04/05 00:34 #

Ef við tökum einn geimverusinna sem segist hafa verið rændur af geimverum ( sama þótt han sé að ímynda það eða upplifa það í raun ) væri það nógu mikil sönnun fyrir hann. En ekki fyrir okkur því þetta gæti verið uppspuni sjúks heila. En þessi einstaklingur gæti ekki haft það á sínum stnærum að sína fram á það sama þótt það gerðist í raun eða í huganum á honum.

Málið er að ég óttast að ef sönnun t.d málmbútur liggur fyrir, eða hvað sem er, verði það aldrei nógu haldbært því svo stórkostlegar staðhæfingar krefjast haldbærar sannanir af svo miklum mælikvarða að ekkert dugi, nema kannski 'handa'tak fyrir framan allt mannkynið.

Ég verð aftur á móti að vera sammála þér að sönnunin þarf að vera haldbær. Ég nefni dami um eitt sem ég las einhverntíman frá geimverubókmentunum að sumt fólk hafði einhverja málma sem væru algörlega öðruvísi að gerð en málmar annarstaðar á jörðinni en þegar það var sent á rannsóknarstofur var ekki tekið við því ekki nógu vel að því gætt, það hafði tínst eða ef til vill verið stolið af dularfullri ríkistofnun. Þetta er náttúrulega eingin sönnun og hljómar frekar eins og mjög léleg afsökun hjá geimverusinnum á sönnunarskorti.

En til að efast efan hugsa ég hvað ef það er ríkissamsæri í gangi og ég reyndi að koma með málmbút sem vinaleg geimvera gaf mér á framfæri. Hvar gæti ég farið þar sem tekið væri á móti mér án þess að ég væri hunsaður sem annað hvort prakkari eða geðsjúklingur.

Væri maður til í að gefa svona fólki séns ef og þegar að því kæmi og gæti maður sagt það sama um aðra?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 06/04/05 00:55 #

Ef við tökum einn geimverusinna sem segist hafa verið rændur af geimverum ( sama þótt han sé að ímynda það eða upplifa það í raun ) væri það nógu mikil sönnun fyrir hann.

Já, en slíkar upplifanir án allra nothæfrasönnunargagna er ekki nóg fyrir okkur hin, frekar en aðrar trúarupplifanir. Guðlega návist má skýra með flogi í gagnaugablöðum heilans og geti menn ekki framvísað nægum sönnunum fyrir þessu brottnámi verður það að skoðast sem skrök eða ofskynjanir.

Í þessum efnum gildir að séu sönnunargögnin ekki ótvíræð fyrir alla eru þau engin sönnunargögn.


Sævar Helgi (meðlimur í Vantrú) - 06/04/05 09:30 #

Ef við tökum einn geimverusinna sem segist hafa verið rændur af geimverum ( sama þótt han sé að ímynda það eða upplifa það í raun ) væri það nógu mikil sönnun fyrir hann.

Sannfæringunni um brottnám er oft komið fyrir eftirá í gegnum dáleiðslu eða eitthvað slíkt, eins og við munum sýna fram á í annarri grein um geimverutrúarbröð. Eins og við nefnum í textanum leitar fólk sér oft hjálpar á vitlausum stöðum. Á þessum stöðum sannfærir annar geimverusinni það um að það hafi verið numið á brott af geimverum. Það finnst mér alvarlegt mál en það útskýrir líka að mörgu leyti hvers vegna hinn brottnumdi er svona viss í sinni sök. Ég hef þetta eftir mesta geimverusinnannum hér á landi, þótt hann meini vel með þessu. Sumir eru líka kolklikkaðir og ljúga af einhverjum ástæðum.


Sævar Helgi (meðlimur í Vantrú) - 06/04/05 09:34 #

Ef við tökum einn geimverusinna sem segist hafa verið rændur af geimverum ( sama þótt han sé að ímynda það eða upplifa það í raun ) væri það nógu mikil sönnun fyrir hann.

Sannfæringunni um brottnám er oft komið fyrir eftirá í gegnum dáleiðslu eða eitthvað slíkt, eins og við munum sýna fram á í annarri grein um geimverutrúarbröð. Eins og við nefnum í textanum leitar fólk sér oft hjálpar á vitlausum stöðum. Á þessum stöðum sannfærir annar geimverusinni það um að það hafi verið numið á brott af geimverum. Það finnst mér alvarlegt mál en það útskýrir líka að mörgu leyti hvers vegna hinn brottnumdi er svona viss í sinni sök. Ég hef þetta eftir mesta geimverusinnannum hér á landi, þótt hann meini vel með þessu. Sumir eru líka kolklikkaðir og ljúga af einhverjum ástæðum.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 06/04/05 15:43 #

Já ég skil, en þá skilar það eftir það fólk sem hefur séð eða verið tekin af fljúgandi furðuhluti og ekki farið til dávalds. Og segjast hafa sannfærst upp á egin rammleik. Ég á erfitt með að kyngja að fólk sé meðvitað að ljúga um svona hluti. Annað hvort hefur þetta fólk séð það sem það hefur séð,ímyndað það eða tekið öðrum trúanlegum. Og mér finnst að einhverju leiti að fólk geti ímyndað hluti svo sterkt jafn óliklegt og að það hafi séð það í raun. Nema þá að það sé einnig á undraverðan hátt að miskilja minnið sitt hroðalega.

Ég er nokkuð sammála þér um að Birgir að sönnun sé ekki sönnun fyrr en að hún er ótvíræð fyrir okkur öll (sem gerist sjaldan). Það ætti frekar að kalla þetta vísbendingu en sönnun fyrir einstaklinginn sjálfan því hann virðist sá eini sem hefur 'aðgang' að þessu kynni. Annað vildi ef til vill gilda ef við öll hefðum 'aðgang'? Ætli það sé ekki takmörkun sett að þetta eru ekki kynni sem neinn (nú er ég að alhæfa og giska) hefur vald á að endurtaka við stjórnaðar aðstæður?


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 06/04/05 15:58 #

Þetta mál virðist lenda í flokknum merkt: Möguleikar Vegna sönnunarskorts eða truflunum frá leynistofnunum:)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 06/04/05 17:34 #

Já, það er alltaf stutt í samsæirskenningarnar þegar geimverur eru annarsvegar :)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.