Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Réttnefndir og sætir sköpunarsinnar

Mér finnst sætt hvernig sköpunarsinnar leita logandi ljósi að hnökrum á þróunarkenningunni og öðrum kenningum um náttúrulegan uppruna heimsins og lífsins, og finna þeim allt til foráttu sem hugsast getur ... en þegar kemur að ævintýralegum þjóðsögum Biblíunnar um sömu mál vottar ekki fyrir gagnrýni. Það er eitt af því sem gerir málflutning sköpunarsinna ótrúverðugan spjaldanna á milli. Í sjálfu sér er rétt og gott -- og vísindalegt -- að gagnrýna vísindalegar kenningar. Sú gagnrýni verður þó að vera málefnaleg og þegar ein gagnrýni hefur verið hrakin á ekki að halda áfram að tyggja hana upp í sífellu. M.ö.o. ef einhverju er haldið fram sem svo kemur í ljós að er rangt, þá á ekki að halda áfram að halda því fram!

Dæmi um þetta eru allir þessir vísindamenn og fræðimenn sem er vitnað til, því til stuðnings að ýmsar vísindakenningar standist ekki. Ef 100 eða 150 ára gamlar vísindaniðurstöður eru teknar úr samhengi og slengt fram sigri hrósandi eins og þetta sé einhver keppni, þá grefur það undan trúverðugleika sköpunarsinna. Að halda því fram að rannsóknir Pasteurs á sjálfkviknun lífs komi uppruna lífsins á jörðinni við er bara vitleysa og sýnir best vanþekkingu þess sem heldur því fram. Það hefur verið sýnt þráfaldlega, að rannsóknir Pasteurs koma þessu ekki við nema í besta falli óbeint, enda snerust þær um annað. Það hindrar sköpunarsinna samt ekki í því að halda áfram að éta þetta upp hver eftir öðrum. Það sem þeir eru á höttunum eftir er nefnilega ekki sannleikurinn -- sem þeir telja sig nú þegar hafa í formi hinnar óskeikulu Biblíu -- heldur vilja þeir ekki sætta sig við að fornaldarheimsmynd þeirra hafi verið hrakin út í hafsauga. Það er óþægilegt að vita innst inni að maður hafi rangt fyrir sér, en mannshugurinn er nú fær um að fara rækilegar krókaleiðir til að sneiða framhjá þessari tilfinningu. Bókstafstrúarmennirnir láta staðreyndirnar m.ö.o. ekki þvælast fyrir sér!

Það sem mér finnst þó ennþá sniðugra er nafngiftin sem sköpunarsinnar hafa sjálfir valið sér á íslensku. Sjálft orðið „sköpunarsinni“ segir allt sem segja þarf. „Einhvers-sinni“ er sá sem er hlynntur einhverju, sem vill eitthvað. „Þróunarsinni“ er þannig rangnefni. Ég hef ekki heyrt að neinn samþykki þróunarkenninguna vegna þess að hann vilji að hún sé sönn. Hún er samþykkt vegna þess að öll rök hníga að því að hún sé það og sá sem leitar sannleikans getur einfaldlega ekki horft framhjá því. Sá sem samþykkir þróunarkenninguna væri réttar nefndur „þekkingar-sinni“. En orðið „sköpunarsinni“ er hins vegar réttnefni: Sá sem vill að allt hafi verið skapað. Það segir í raun allt sem segja þarf.

Vésteinn Valgarðsson 14.01.2005
Flokkað undir: ( Klassík , Vísindi og trú )

Viðbrögð


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 14/01/05 09:47 #

Góð grein. En ég er ekki alveg viss að ég skilji eða samþykki þetta með að maður vilji eitthvað ef maður er einhvers-sinni. T.d samkv. þessu þá ætti maður erfitt með að vera "vísindasinnaður einstaklingur" ef ég skil þig rétt.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 14/01/05 10:30 #

Tja, skyldi maður ekki geta verið hlynntur vísindalegri aðferð? Eða er vísindaleg aðferð kannski yfir það hafin að fólk þurfi að vera hlynnt henni?


urta (meðlimur í Vantrú) - 14/01/05 14:01 #

"...en þegar kemur að ævintýralegum þjóðsögum Biblíunnar um sömu mál vottar ekki fyrir gagnrýni."

Frábær grein! Gott að eiga þessa athugasemd í pokahorninu...


Antestor - 15/01/05 15:07 #

Vésteinn sagði: ,,Það er óþægilegt að vita innst inni að maður hafi rangt fyrir sér, en mannshugurinn er nú fær um að fara rækilegar krókaleiðir til að sneiða framhjá þessari tilfinningu."

Hér talar þú væntanlega af reynslu, þar sem innst inni þá veist þú að Guð er til, og þú reynir að sneiða fram hjá þeirri tilfinngu. (þetta er álíka sanngjörn fullyrðing í þinn garð, og fullyrðing þín hér að ofan í garð "sköpunarsinna".)

Vésteinn sagði: ,,Það sem mér finnst þó ennþá sniðugra er nafngiftin sem sköpunarsinnar hafa sjálfir valið sér á íslensku."

Íslenskir ,,sköpunarsinnar" hafa ekki valið sér þetta nafn, frekar en eitthvað annað. Flestir kalla þeir sig einfaldlega kristna. Takt þú eftir því að ekki kalla þeir sig kristsinna.

Vésteinn sagði: ,,Að halda því fram að rannsóknir Pasteurs á sjálfkviknun lífs komi uppruna lífsins á jörðinni við er bara vitleysa og sýnir best vanþekkingu þess sem heldur því fram."

Ef að þú værir lífefnafræðingur þá mundir þú vita að enn er ekki búið að útskýra hverning lífið kviknaði með náttúrulegum hætti. Það getur vel verið að það hafi gerst, og menn eiga að halda áfram að leita leiða til að sína fram á náttúrulega tilurð lífsins. Það er hinsvegar ekkert að því að kristnir bendi mönnum á að hingað til hefur ekki verið sýnt fram á að lífið kvikni að sjálfu sér, hvorki við þær aðstæður sem menn gætu ímyndað sér að hafi verið á jörðinni forðum, né í dag, og þeir mega jafnvel vísa í Pasteur í því samhengi. Það er ekki óvísindalegt eða rangt í sjálfu sér.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 15/01/05 16:42 #

Ef guð væri til, þá væri hann kominn í fangelsi fyrir löngu, sakfelldur fyrir glæpi gegn mannkyni.

Sá sem kallar sig sköpunarsinna hefur þar með valið sér þá nafngift sjálfur. Ekki hef ég heyrt sköpunarsinna andmæla því að vera kallaðir sköpunarsinnar. Með því að nota þetta hugtak hefur því verið greitt atkvæði. Að kalla sig einfaldlega kristna er allt of víðtækt, enda eru fáir kristnir sem ríghalda í sköpunarsöguna.

Ef að þú værir lífefnafræðingur þá mundir þú vita að enn er ekki búið að útskýra hverning lífið kviknaði með náttúrulegum hætti.

Aha, ef ég væri lífefnafræðingur? Þú ert semsagt lífefnafræðingur, fyrst þú veist þetta? Ég er ekki lífefnafræðingur en veit (samt) að mörgum spurningum er ósvarað varðandi tilurð lífsins. Eða hef ég heldið öðru fram? Spuringunni "Skapaði guð lífið?" er hins vegar ekki ósvarað.

Það er hinsvegar ekkert að því að kristnir bendi mönnum á að hingað til hefur ekki verið sýnt fram á að lífið kvikni að sjálfu sér

Þetta er rangt. Í fyrsta lagi kviknaði lífið. Í öðru lagi bendir ekkert til þess að önnur öfl en náttúrulögmálin hafi komið þar að máli. Í þriðja lagi er víst eitthvað athugavert við að rangfæra staðreyndir og kenningar til þess að láta fólk gleypa við ósannindum eða í misjöfnum tilgangi.


Ásgeir - 15/01/05 21:48 #

Hvað með sjálfkviknun Guðs?


Mofi - 09/02/05 14:00 #

Mjög sammála því að það er galli á heildar rökfærslum sköpunarsinna en... almennt séð þá viðurkenna þeir að þetta er þeirra trú. Að þeir trúa að þessar sögur eru sögulegar heimildir og eru sannar. Það sem er blekkjandi við þá sem trúa þróunarkenningunni er að geta ekki viðurkennt gallana og hve stór hluti af henni verður að vera tekin í trú. Þegar kemur að uppruna, efnis, lífs, dýranna þá er ekkert skothelt og þá ættu allir að sýna þá vitsmunalega heiðarleika að viðurkenna að í þessu málum eru allir trúaðir annað hvort á t.d. Krist, Alah, eða á tímann og tilviljanir.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.