Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Prestar ljúga að börnum

Þegar rætt er um fermingar, leikskólapresta og þess háttar þá hlýtur að koma upp sú spurning hvort prestum sé treystandi fyrir fræðslu barnanna. Svar mitt er einfalt: Nei, þeim er ekki treystandi fyrir fræðslu barna. Af hverju ekki? Vegna þess að þeir ljúga að börnum.

Skýrasta dæmið um lygar prestanna er það þegar þeir halda fram að Jesú hafi fæðst á jólunum. Prestarnir hljóta að vita að þetta er fjarstæða. Það er kannski hægt að rökræða fram og til baka um það hvort Jesús hafi verið til en fæðingarsaga hans er samin löngu seinna. Í raun eiga jólin uppruna sín í sólstöðuhátíðum. Kristni blandaðist öðrum trúarbrögðum og líklega var ekki farið að halda upp á fæðingu Jesú fyrr en á fjórðu öld. Ef Jesú var yfirhöfuð til þá eru líkurnar á að hann hafi fæðst 24. eða 25. desember einfaldlega 2 á móti 365 (ég myndi semsagt ekki veðja á það).

Hvað kemur þá til að langskólagegnir menn sem hafa sérhæfingu á þessu sviði taka sig til og ljúga blákalt að saklausum börnum? Þeir myndu væntanlega segja að í fæðingarsögunni sé einhver boðskapur sem þarf að koma til barnanna. Ég er gersamlega ósammála þessu. Fæðingarsagan hefur engan siðferðisboðskap. Í sögunni er til að mynda hræðilegur kafli um fjöldamorð á ungabörnum (þó ekkert bendi til þess að sá atburður hafi nokkurn tímann átt sér stað) sem er líklegur til að vekja óhug hjá börnum.

Það er nokkuð ljóst að þessar lygar villa töluvert um fyrir börnum, þau halda að jólin séu komin til út af Jesú og því hljóti Jesú að vera ægilega góður gæji. Staðreyndin er einfaldlega sú að það er nær ekkert kristilegt við þau jól sem eru haldin hér á Íslandi.

Ég held að prestarnir réttlæti þetta fyrir sér með því að hugsa til þess að þetta komi börnunum til Jesú sem þeir telja greinilega nauðsynlegt. Það að prestar stunda það að ljúga að börnum segir töluvert um hve lítils virði kristin trú er, þar sem sannleikurinn dugar ekki þá er lygin notuð.

Prestarnir eru gjarnir á að líkja þeim sögum sem þeir segja börnum við ævintýri. Þó ég sé sammála að Biblíusögurnar séu í raun ekkert nema ævintýri og þjóðsögur þá er ljóst að forsendur presta sem þylja upp Biblíusögur eru allt aðrar en forsendur leikskólakennara sem segir söguna af Mjallhvíti og dvergunum sjö.

Siðferðilega er prestum ekki stætt á að stunda þessar lygar. Þeir hafa sjálfir fjárhagslegan hag af því að fá sem flesta til að vera innan kirkjunnar. Þeir græða á því að ljúga.

Það eru ekki bara starfandi prestar sem fara svona frjálslega með staðreyndirnar, á Vísindavefnum má finna eftirfarandi við spurningunni "Hver fann upp Jesú?"

Það fann enginn Jesú upp nema Guð sjálfur sem sendi son sinn hingað sem lítið barn á jólunum fyrstu. Kristnir menn trúa því að Jesús sé sonur Guðs íklæddur holdi manns. Það fólk sem var með honum meðan hann lifði á jörðu, öðlaðist þessa trú og frá því hefur henni verið miðlað gegnum aldirnar til okkar.

Einar Sigurbjörnsson, prófessor í guðfræði við HÍ

Prófessorinn lætur einsog það sé staðreynd að Jesú hafi fæðst á jólunum, það verður að teljast afar slöpp fræðimennska. Það virðist reyndar vera að einhverjir hjá Vísindavefnum hafi verið sammála þessu mati mínu því nokkrum vikum seinna birtist annað svar sem er hlutlaust og fræðilegt.

Þekkir Einar Sigurbjörnsson ekki sögu kristinnar trúar? Eða er hann að hugsa um eitthvað annað. Stúlkan sem spurði þessarar spurningar var um 11 ára gömul þegar svarið birtist, tæpum þremur árum seinna hefur hún verið komin á fermingaraldur. Ef stúlkan hefur látið glepjast af svörum Einars þá hefur hún fermst og þá þurft að kaupa sér bók sem heitir Líf með Jesú sem er þýdd af Einari og Karli bróður hans. Fá barnið til að trúa og eftir innan við þrjú ár koma peningar í kassann?

Það að elta peningana er oft afar góð leið til að átta sig á því hvað liggur á baki verkum fólks. Mér sýnist sú leið allavega gefa okkur einhverja hugmynd í þessu máli. Ég fullyrði ekkert um hugsanaferli Einars, reyndar tel ég að hann hafi frekar hugsað að það væri bara gott fyrir krakkann að fá þessa sögu til að koma henni til fylgis við Jesú.

Eina niðurstaðan sem er möguleg þegar þessi mál eru skoðun er sú að prestar verða að vera heiðarlegir þegar þeir tala við börn. Þeir mega ekki leyfa sér að ljúga þó þeim finnist tilgangurinn helga meðalið vegna þess að þá verður trúverðugleiki þeirra að engu. Prestum er ekki treystandi fyrir börnum.

Óli Gneisti Sóleyjarson 21.12.2004
Flokkað undir: ( Klassík , Siðferði og trú )

Viðbrögð


Bjoddn - 21/12/04 03:32 #

Í sumar var ég að rökræða við pilt sem er í guðfræðinni. Talið barst að einhverju sem varðaði peninga og hvernig kirkjan blóðmjólkaði allt sem hún kæmist í tæri við. Var svarið þá eitthvað á þá leið að kirkjan hefði bara verið svona klók.

Það kom svolítið flatt upp á mig en er þetta ekki í rauninni eins og kerfið er í hnotskurn.

Þú spyrð af hverju prestar ljúgi blákalt að börnum þó svo að þeir viti betur. Það er bara til að koma þessari hugmynd um guð inn í hausinn á þeim svo þau séu móttækilegri fyrir hugmyndafræði kirkjunnar þegar að gjaldskyldualdri kemur.

Í mínum huga er hægt að summera hugtök eins og kristin trú og kristið siðferði og þvíumlíkt upp í eitt orð : eigingirni.

Um hvað snýst kristin trú annað en rassinn á fyrstu persónu eintölu?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.