Nú um helgina fór ég á ráðstefnu í Háskóla Íslands sem bar nafnið Vísindamenning. Þar voru fluttir stuttir fyrirlestrar um hitt og þetta sem tengist vísindum og menningu. Ég hnaut um eitt atriði í fyrirlestri Páls Skúlasonar rektors, það hvernig hann skipti gæðum í veraldleg og huglæg.
Páll talaði um að þeir sem væru einungis að sækjast eftir veraldlegum gæðum væru á villigötum, huglægu gæðin skiptu í raun höfuðmáli. Páll nefndi síðan dæmi um þessi gæði. Huglægu gæðin voru hlutir einsog vinátta, ást og vísindin sjálf á meðan veraldlegu gæðin voru til að mynda frami, auður og frægð. Ég held að hér sé hlutunum snúið á haus.
Er frægð endilega veraldleg eða efnisleg? Er hún ekki frekar huglægt fyrirbæri? Gildi frama er að mestu leyti huglægt. Hvað með peninga sem flestir telja til veraldlegra gæða, er verðmæti þeirra ekki fyrst og fremst huglægt? Við vitum hvað gerist með gjaldmiðil sem almenningur trúir ekki á, hann verður einskins virði. Bankainnistæður og hlutabréfaeign eru bara orð og tölur á tölvuskjá nú orðið, er þetta ekki huglægt fyrirbæri? Að einhverju leyti allavega. En dótið, það er allavega efniskennt og veraldlegt, til dæmis listaverk, bækur, geisladiskar og svo framvegis. Allir vinir mínir eru veraldlegir, ástvinir mínir líka. Vísindin eru hins vegar huglæg en þeirra hlutverk er að mæla hið veraldlega, hið raunverulega.
Allir hljóta að sjá að tvískipting gæðanna í huglæg og veraldlega er handónýt, í raun og veru er merkingin sú að veraldleg séu ómerkileg og huglæg séu merkileg, svo einfalt er það. Eru einhver gæði óveraldleg? Svarið er augljóst, trúarleg gæði eru óveraldleg (og þar af leiðandi óraunveruleg). Við sjáum að þetta er í raun trúarleg orðræða þó að hér sé notað orðið huglægt á meðan prestarnir nota orðið andlegt.
Er ekki komin tími á að við leggjum til hliðar orðalag prestanna? Eigum við ekki að tala af meiri virðingu um veröldina? Um raunveruleikann? Er ekki komin tími á að við áttum okkur á því að einu raunverulegu gæðin eru veraldleg.
Sjá einnig: Efnishyggjumaðurinn ég
Eitthvað hefur þú misskilið pistil minn ef þú ætlar að túlka hann svona.
Orðið veraldlegt hefur í raun enga þýðingu í gæðamati þar sem allt sem er til er veraldlegt og orðið huglægt er sömuleiðis vonlaust þar sem allt er að vissu marki huglægt.
Þú virðist túlka huglæg gæði sem ómælanleg en veraldlega sem mælanleg, af hverju þá ekki að nota þau orð? Af hverju ekki að segja "Við ættum að líka að hugsa um það sem ekki verður mælt" frekar en "Við verðum að hugsa um huglæg gæði"?
Síðan má rífast um hvað er hægt að mæla og hvað ekki.
Fyrir utan það, að það er enginn að segja að það megi bara nota einn tommustokk til að mæla svona. Hvers vegna ekki að nota báða mælikvarða bara?
Ég hef grun um að Páll Skúlason hafi einmitt verið að benda á það.
Páll Skúlason er HUGvísindamaður. Hann þreytist ekki á því að benda á nauðsyn vísindastarfsemi á því sviði. Að leitað sé svara við spurningunum: Hvað er fegurð? Hvað er gott? osfv.
RAUNvísindin hafa ekki verið upptekin af þessum spurningum og hafa veigrað sér við því að svara þeim. Það þarf samt að velta þessum spurningum fyrir sér á skynsamlegan máta. Í skrifum sínum á undanförnum árum hefur Páll ítrekað bent á nauðsyn þess að hugvísindi og raunvísindi vinni saman. Dæmi um samstarfvettvang gæti t.d. verið: Á að klóna fólk? Eru verðmæti fólgin í náttúrfegurð?
Þú mátt kalla þetta mælanleg vísindi og ómælanleg ef þú vilt. Ákveðin venja hefur þó skapast fyrir hinu.
Kannski hef ég ekki skilið þig til hlýtar. Ég hef samt grun um að þú hafir kannski misskilið Pál aðeins.
Ég misskyldi Pál ekki neitt Ólafur, reyndu að skilja að ég er að gagnrýna orðnotkun, ekki málflutninginn sjálfan.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Ólafur Tryggvi - 03/11/04 16:15 #
Vandinn er þessi: Hvaða breytur skal hafa til viðmiðunar, þegar tekinn er ákvörðun um "veraldlega" framkvæmd? Við getum tekið virkjunarframkvæmdirnar sem dæmi. (Ég ætla ekki að taki afstöðu til þeirra hérna). "Náttúrufegurð" eru samkvæmt skilgreiningu þinni veraldleg gæði. Gott og vel. Í umræðu um virkjunarframkvæmdir flokka samt margir orðið "náttúrufegurð" sem tilfinningarök vegna þess að ´"náttúruFEGURÐ" er ekki mælanleg. Tilfinningarökum er síðan í framhaldinu ýtt út af borðinu í ákvörðunartökuferlinu. Ef öllu sem ekki er mælanlegt er ýtt út af borðinu þegar ákvarðanir eru teknar má þá ekki leggja niður alþingi og ráða verkfræðinga og tæknimenn til þess að taka bestu ákvarðannirnar?