Á bloggi sínu hér rekur Matti Á. viðskipti sín við tölvuverslun sem að öllum líkindum er að beita sölubrellunni Bait and switch. Nú er það auðvitað eitt og sér alveg efni í Vantrúargrein og óð til skeptíkurinnar að láta ekki undirförla sölumenn ljúga að sér og blekkja. Þekkingin sigrar alltaf.
En það er eitt lítið komment við þessa færslu hjá honum, ritað af prestlærðum og kristnum einstakling, sem kom mér til að rita þetta greinarkorn.
Þar segir:
Þú átt rétt á að tilboðið eins og þeir auglýsa það standi. Þú getur einfaldlega bent á að þetta sé bindandi tilboð og ólöglegt að bakka út úr því.
Ef þú ert maður sem stendur fast við þína sannfæringu (sem ég veit náttúrlega ekkert um...) ættirðu þarna að geta eignast ferðatölvu á góðum prís. ;>)
Þarna talar kristinn kennimaður. Í siðfræði þeirri sem hann aðhyllist segir að maður skuli fyrirgefa náunganum, ekki sjö sinnum, heldur sjötíu sinnum sjö. Einnig segir að þegar einhver krefst þess að þú gangir með honum eina mílu skulir þú ganga með honum tvær. Ekki má svo gleyma þessu gamla góða, að rétta hina kinnina.
Samkvæmt kristinni siðfræði ætti kennimaður þessi bara glaður að láta sölumanninn selja sér eitthvað annað en tekið var fram í tilboðinu. En nei, hann leggur að mönnum að fara í hart, fyrirgefa ekki, ganga ekki þessar tvær mílur, rétta ekki hina kinnina framan í manninn sem gerði þeim rangt til.
Nei, kennimaðurinn stingur upp á því að menn reyni að hagnast á svindlinu, klekkja á náunganum sem reyndi að svindla á þeim.
Gott og vel, ég er alveg sammála guðsmanninum þarna. Það er ekkert athugavert við það að menn fái að súpa seyðið af undirferli sínu. En þetta er í raun rakin sönnun þess að kristið siðferði er ekkert siðferði. Það fer enginn heilvita maður eftir þessu Jesúbulli, þótt fallega hljómi.
Kommon Skúli, tilefnið er kannski lítið og tengingin langsótt en lengri og ómerkilegri prédikanir hafa nú verið samdar af minna tilefni ;-)
Er þetta ekki bara spurningin um að menn eigi að standa við það sem þeir segja? Ég held að það sé ekkert sérkristið við það. Heiður og heiðarleiki var t.d. ákaflega mikilvægt hjá norrænum mönnum til forna.
Ég vísa því auðvitað á bug að tilefnið sé lítið og tengingin langsótt :) Ætlun mín er einfaldlega að sína fram á tvískinnung.
Kjaftæði, Skúli? Útskýrðu fyrir mér, heimskum manninum, hvernig boðskapur frelsarans geti ekki átt við hér. Hvar á hann þá við? Káfar hann kannski hvergi upp á líf okkar í alvöru? Af hverju er þá verið að kenna þetta í kirkjum?
Kristur setur víða fram strangar kröfur til fylgjenda sinna. Orðin túlka ég sem skilaboð til þeirra sem telja sig af eigin mætti geta réttlæst frammi fyrir Guði. Skilaboðin eru skýr: ef þú vilt telja þig réttlátan þá nægir ekki að gjalda líku líkt - þú verður að gera miklu meira en það.
Þegar ég bendi ágætum pennavini á möguleika sem hann hefur í stöðunni þegar hann hefur hefur verið narraður inn í búð á fölskum forsendum er ég ekki að brjóta á þessum reglum. Hann hefur ákveðinn rétt í þessu máli og í krafti þess réttar getur hann fyrirgefið. Ef hann þekkir ekki rétt sinn er fyrirgefningin tómt mál.
Hans er valdið í þessu tilviki og ef hann t.a.m. bendir sölumönnum á hvar þeir hafa brugðist rangt við er það vitanlega þarft verk.
Hérna getur Matti kennt sjálfum sér um því hann fylgdi ekki orðum frelsaranns: "varist falsspámennina" ;)
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
skúli - 30/08/04 19:12 #
Hjálp! Hvar er kjaftæðisvaktin?