Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Prestar í hlekkjum hugarfarsins

Oft og mörgum sinnum hef ég lesið greinar og hlustað á ræður sóknarpresta þjóðkirkjunnar um að heimur versnandi fer. Þessum reiðilestri fylgir yfirleitt lýsing á nútímamanni í kreppu sem hefur láðst að meðtaka hinn kristna arf liðinna kynslóða. Auðvitað eru þetta oft brosleg taktík presta til gefa löngu úreltri þjóðkirkju framhaldslíf. En engu að síður er þessi fortíðardýrkun oft villandi lygi sem á fátt skylt við raunveruleikan.

Eitt af því góða við okkar samfélag er að það byggir á reynslu liðinna kynslóða. Sú dýrmæta reynsla hefur fært okkur þekkingu hvernig ekki á að byggja samfélag og hvernig ekki á að koma fram við náungan. Þessari staðreynd virðast prestar ávallt gleyma þegar þeir falla í sína alþekktu fortíðar- og kristilegu sjálfsdýrkun. Með þessari framkomu má líkja við að þeir stappi á grafreitum forfeðra sinna til að fela glæpi kirkju og kristni. Því þegar íslenska þjóðkirkjan var hve öflugust (1550 til 1874) hékk hún í pilsfaldi kristilegs konungsveldis. Kirkjan taldi að konungur tæki vald sitt frá Guði og því var bannað að efast um vald kóngs og kirkju. Í þessar samfélagsgerð var botninum náð í siðleysi, illsku og óréttlæti.

Kirkjan stundaði víðtækan þjófnað á eignum með svikum og andlegu ofbeldi. Stundað var þrælahald á íslenskum leiguliðum, prestar njósnuðu um almenning og það var glæpur að hafa nokkra aðra trú en þá kristnu. Kvennakúgun var alger, geðfatlaðir fengu oft verri meðferð en heimilisdýr, samkynhneigð var stórglæpur, hjónaskilnaðir útilokaðir o.s.frv. Refsigleðin sem fylgdi þessu var óréttlát og viðbjóðsleg, fólk tekið af lífi og því misþyrmt fyrir minnstu sakir samkvæmt boðum Biblíunnar í formi stóradóms. Öllu samfélaginu var þannig haldið í heljargreipum þar sem grasserandi vandamálum var sópað undir teppið. Þannig lifði heimilis- og kynferðisofbeldi góðu lífi í kristilegri þögn svo að gerendur gátu haldið heiðri sínum. Samfélagið var fast í kristilegri lágmenningu, öll skemmtun var í lágmarki og einsleitni daglegs lífs ömurleg. Aðeins bænakvak og biblíulestur var talið til æskulegar hegðunar utan vinnutíma.

Með einræði á himni sem og á jörðu hnignaði þannig íslensku samfélagi svo að landsmenn hafa aldrei þurft að þola jafn mikla niðurlægingu frá upphafi byggðar. Í eymd, hungri og tilgangleysi tókst kristinni yfirstétt að halda samfélaginu í andlegri eyðimörk. Á endanum flúðu þúsundir íslendinga til Vesturheims í von um betra líf. Um leið og Íslendingar fengu frelsi og áhrif þjóðkirkjunnar minnkuðu jókst velsæld og hamingja landsmanna. Nú þegar landsmenn skrá sig úr sjálfvirku skráningakerfi gamla kvalarans hefur þeim aldrei liðið betur félagslega sem efnahagslega.

Tökum gott dæmi um hegðun presta til að finna trú sinni tilgang. Reynt er að gera út á opna umræðu um þunglyndi að nútímaveiki á öld trúleysis. Talað er um einsemd og að fólki líði illa vegna skorts á Jesú Kristi í "hraða nútímans”. En sannleikurinn er sá að þunglyndi og aðrir geðsjúkdómar hafa ávallt fylgt manninum. Slíkt fólk var einfaldlega lokað inni og sett í hlekki af kristnum kærleik, enda talið samkvæmt boðun Jesú að illir andar orsökuðu slíkt. Í dag er reynt að hjálpa þeim sem eiga við slíkt að glíma og fjöldi manns vinnur við lausn slíkra mála. Opin umræða um þetta vandamál er nauðsynleg til að ná utan um vandamálið og eyða gömlum kristilegum fordómum. Samt reyna prestar að tala um þetta sem sérstakt nútímavandmál sem er ekkert annað en auðvirðuleg nálgun á málinu.

Nýjasta tískubylgjan hjá prestum er að gagnrýna sjálfstraust ungs fólks og að þau beri ekki lengur virðingu fyrir fullorðnum eins og gert var í gamla daga. Í gegnum aldirnar voru börn lamin til hlýðni og þau notuð sem vinnuþrælar í hinu kristna íslenska samfélagi. Með guðhræðslu og ofbeldi var þannig landanum haldið niðri frá barnsaldri í fullkominni undirgefni við kristileg yfirvöld. Sem betur fer hefur ungt fólk í dag meira sjálfstraust og þarf minna á andlegum þrælakistum kristninnar að halda. Auðvitað gengur mun verr að troða í börnin gömlum lygasögum fornaldar prestum til mikillar hrellingar. Andstyggilegt er því að heyra einstaka skapstygga presta, sem ekkert kunna með börn að fara, ákalla undirgefni barna fyrr á öldum. Það er einfaldlega mikil gæfa að hið gamla barnfjandsamlega samfélag heyri nú sögunni til þó að einstaka menn eigi erfitt skilja slíkar framfarir.

Þannig er hægt að finna ótal dæmi um hvernig sóknarprestar reyna að nýta sér opna umræðu í nútíma samfélagi og gera hana að vandamáli og kenna um skorti á kristinni trú. Því miður fyrir presta voru öll þessi vandamál og gott betur grassandi í rammkristnu samfélagi hér fyrr á öldum. Það er því er aumt að heyra presta reyna nýta sér þessa opnu umræðu með bera þá öfugmælavísu á borð að lausn málsins sé efling kristinnar trúar, sem þýðir fleiri presta og fleiri milljarða í fjárfreka þjóðkirkju. Af reynslu fengina kynslóða eigum við að loka eyrunum fyrir þessum áróðri og snúa okkur að því að halda áfram að hjálpa þeim sem þess þurfa. Heimur batnandi fer.

Frelsarinn 25.07.2004
Flokkað undir: ( Hugvekja , Klassík )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.