Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kraftaverkahyskið

bhinn.jpg Reglulega flytja ýmis trúfélög inn til landsins einstaklinga sem fullyrt er að Gvuð lækni sjúka í gegnum. Næstum því undantekningarlaust fyllast salir af fólki sem á bágt andlega eða líkamlega. Fólki sem hefur misst vonina og er tilbúið til að prófa hvað sem er til að lina þjáningar sínar.

Að sjálfsögðu er ekki rukkað fyrir þessa þjónustu enda stangast það á við landslög en safnbaukurinn er látinn ganga og fólk er hvatt til að gefa rausnarlega til að styrkja framtakið. Sjúkir fara svo upp á svið þar sem kraftaverkahyskið þylur yfir því einhverja andskotans þvælu og lýsir því þarnæst yfir að fólkið hafi læknast, oftar en ekki fellur það aftur fyrir sig og er gripið af aðstoðarmönnum áður en það skellur í gólfinu.

Þeir sem sannarlega eru fársjúkir, koma t.d. á staðinn í hjólastól, er ekki hleypt á sviðið, helst ekki nálægt því. Það er átakanlegt að fylgjast með sannarlega helsjúku fólki sem ekki fær að komast nálægt loddaranum. Erlendis er það oft stundað að gamalmenni sem koma röltandi á samkomuna er boðið að setjast í hjólastól og svo er þeim rúllað fremst. Að sjálfsögðu gapa allir þegar sama fólk stendur upp úr hjólastólnum á sviðinu. Ef ykkur finnst eins og þið kannist við þetta atriði er það vegna þess að nákvæmlega þetta gerist í kvikmyndinni Leap of Faith. Sú mynd er vissulega skáldsaga en hún sækir mjög margt, þar með talið þetta atriði, til bókarinnar Faith Healers eftir töfra- og efahyggjumanninn James Randi. Þar lýsir Randi því meðal annars á átakanlegan hátt þegar hann er vitni að því að fólk haltrar á svæðið daginn eftir samkomu til að leita að hækjunum sem það hafði fleygt frá sér í æsingnum kvöldið áður, sannfært um að það væri læknað.

Í bókinni lýsir Randi ótal aðferðum sem þessir kraftaverkaskúrkar nota til að aðskilja fólk frá peningunum sínum. Allt frá hátæknibrellum til múgæsings er notað til að telja fólki trú um, í að minnsta kosti smá stund, að það hafi orðið vitni að kraftaverki.

Að sjálfsögðu eru kraftaverkin engin, þrátt fyrir fullyrðingar trúmanna um annað. Engin staðfest dæmi eru til um fólk sem hefur læknast af einhverju öðru en bakverk og þá iðulega tímabundið. Auðvitað geta menn tínt til dæmi af fólki sem hefur liðið betur eftir svona sirkus og margir segja frá ótrúlegum kraftaverkum en ekkert þeirra hefur fengist staðfest. Aldrei. Þetta virkar ekki og þó hægt sé að segja að þetta virki þar sem einhverjum líði betur hverfur það alveg borið saman við alla þá sem bíða skaða af þessu siðlausa athæfi. Bætta líðan má útskýra með hópsefjun, krankleikinn hafi átt sér andlegar skýringar eða venjulega sveiflu á einkennum.

Ekki er hægt að prófa þessa skúrka, þeir eru með svör við því. Maður má nefnilega ekki freista gvuðs. Ef t.d Gunnari í Krossinum er alvara með innflutningi á kraftaverkahyski ætti hann að sjálfsögðu að taka áskoruninni og sprauta sig með veiru sem veldur lifrabólgu C, láta svo staðfesta hjá lækni að hann sé sýktur og fá einhvern glæpamanninn til að lækna sig. En hann gerir það ekki vegna þess að hann veit að þetta er sjónarspil, svik og prettir.

Það er ekkert annað en roluháttur lögregluyfirvalda sem veldur því að þetta pakk er ekki sótt til saka fyrir að hafa fé af fólki. Sannarlega eru fáir fyrirlitlegri en þeir sem misnota sér neyð bágstaddra.

Það eru fáir fyrirlitlegri en kraftaverkahyskið.

Ég hvet lesendur til að verða sér úti um bókina Faith Healers og kynna sér aðferðir loddaranna.

Matthías Ásgeirsson 04.06.2004
Flokkað undir: ( Klassík , Siðferði og trú )

Viðbrögð


Hreinn Hjartahlýr - 04/06/04 18:46 #

Minnumst þess að Benny Hinn mætti með kraftaverk á klakann um árið. Fóru ekki mörg þúsund manns? Og allir læknuðust? Það hefur þá farið hljótt.


Þorkell - 04/06/04 19:40 #

Ég fór á Benny Hinn á sínum tíma og sá ekki nein kraftaverk. Sá hins vegar helling af loddaraskap.

Mér er sérstaklega minnisstætt þegar gömul kona kvartaði yfir því að henni væri illt í mjöðminni. Benny sagðir hafa læknað hana og spurði hana hvernig henni liði. Hún kvartaði enn yfir verkjum. Benny rak þá túlkinn í burtu og gætti þess að það heyrðist ekkert í konunni. Síðan "læknaði" hann hana aftur og spurði hvernig henni liði. Ég sat nógu nálægt til að heyra hana segja að hún væri enn með verki en um leið og hún hafði svarað (flestir heyrðu ekki svar hennar) hrópaði Benny upp: "Þetta er kraftaverk! Hún hefur hlotið bata!" og allir klöppuðu og heilluðust.

Líka merkilegt hve markvisst hann stjórnaði tónlistinni til að ná fram áhrifum. Var nánast eins og hljómsveitarstjóri á sviðinu.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 04/06/04 20:58 #

Ég fór líka á Benny Hinn einu sinni, aðallega af forvitni. Sat aftarlega og sá svosem ekki mikið af smáatriðum. Ég varð hins vegar var mið mikla múgsefjun í salnum og sjónarspilið sem var sett upp var svo sannarlega áhrifamikið. Eftir samkomuna sá ég talsvert margt fólk fara út í hjólastólum, dapurt í bragði.


Halldór E. - 05/06/04 00:06 #

Ég verð að taka undir með pirringi þínum Matti og finnst áhyggjuefni hversu sammála ég er orðum þínum þessa síðustu daga. Ég sakna þess að þú ráðist ekki meira að þjóðkirkjunni ;-) eða kristni almennt.


ketill - 05/06/04 00:45 #

ég hef lesið og heyrt , nokkuð áreiðanlegar heimildir, að "sjúku" fólki hafi verið gefnar hveititöflur og því snarbatnað. Því var að vísu sagt að þetta væri nýmóðins lyf. OK, því líður betur eftir á, og er það ekki hið betsa mál.

Eins með Benny, ef t.d. sálarsjúkn fólk fer til hans og telur sig vera læknað af honum, er það þá ekki líka bara hið besta mál.

Stundum þarf skrýtnar aðferðir og óhefðbundar á sumt fólk . Skiptir e.h. máli hvers vegna fólki líður betur í dag en í gær svo fremi að það saki engann.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 05/06/04 00:47 #

Það er ekki hið besta mál að láta fólk halda að það hafi náð bata ef það hefur ekki gert það í alvörunni.


Þorkell - 05/06/04 01:01 #

Einmitt. Það getur verið stórhættulegt fyrir fólk að hætta t.d. á lífsnauðsynlegum lyfjum.

Reyndar hvetja flestir kraftalækningarmenn fólk til að fá lækninguna staðfesta af lækni, en það eru líka til hópar sem hvetja fólk til að trúa og treysta hjálp Guðs (eða æðri máttarvalda) og hunsa ráðleggingar lækna.

Fjallað er um slíkt tilvik í kvikmyndinni Promised a Miracle. Falun Dafa (einnig þekkt sem Falun Gong) er annað slíkt dæmi (þótt þeir hafi ekki þorað að viðurkenna það þegar þeir komu til landsins).


Snær - 05/06/04 01:02 #

Það er ekki minnsti möguleiki á því að eitthvað aumingjalegt placebo-effect lækni varanlega eitt né neitt. Alveg sérstaklega ekki brotna limi, eða alvarlega djúpstæða geðsjúkdóma.

Lygi er næstum aldrei dyggð. Vegna grá-skala heims okkar eru þeir stundum nauðsynlegir, en þetta er hreinasta ljótt sjónarspil hjá þessum meintu 'heilurum'.


ketill - 05/06/04 01:04 #

Er þetta ekki bara andlegt fyllirí hjá þessu fólki. það hefur nú ekki þótt rosalegur löstur að detta í það nokkrum sinnum á ári.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/06/04 01:19 #

Andlegt fyllerí? Vel orðað hjá þér. Það eru reyndar fleiri á slíku trippi, a.m.k.um helgar, eins og ég benti á í þessari grein minni í Mogganum á sínum tíma.


Sigurður Ólafsson - 07/06/04 15:26 #

Má ég skjóta hér inn einni athugasemd? Mér fannst það gott hjá höfundi að setja mynd með greininni hér að ofan; það gerir hana áhugaverðari. Þið mættu gera meira af því að myndskreyta greinarnar og vefinn ykkar (en hann er að öðru leyti frábært framtak!). Vil nefna hinar ágætu síður á Deiglunni til eftirbreytni í þessu sambandi.


Ormurinn - 10/06/04 14:39 #

Það eru til svokallaðir "hypochondriacs" en það er fólk sem sannfært um að vera haldið hinum og þessum kvillum. Oftast er þetta fólk búið að þjást í áraraðir og leita upp fjölda lækna (sjá td. hér: http://www.uib.no/med/avd/med_a/gastro/wilhelms/hypochon.html)

Annar möguleiki er að um er að ræða persónum með svokallað "conversion disorder" þar sem fólk sýnir greinileg sjúkdómseinkenni (td. lömun eða blindu) ÁN þess að nokkur læknisfræðileg skýring sé fyrir því (sjá td. hér: http://www.intelihealth.com/IH/ihtIH/WSIHW000/9339/9759.html)

Það er mjög sennilegt að slíkir einstaklingar geti í raun læknast á samkomum kraftaverkamanna þar sem sjúkdómurinn er í raun eingöngu af sálrænum orsökum. Að sjálfsögðu er ekki um kraftaverk að ræða heldur bara breytingar á undirmeðvitund fólks.


Dóri - 14/06/04 00:49 #

Vá hvað ég er viss um að enginn ykkar vantrúuði sem skrifið hér hafið e-ð vit á trúmálum.

Ég mæli eindregið með því að allir drífi sig í Kirkjulækjarkot um verslunarmannahelgina. Þetta er kristinlegt mót sem er haldið á hverri verslunarmannahelgi í Fljótshlíðinni (rétt austan við Hvolfsvöll). Mætið með tjaldið og góða skapið og leitið Guðs eða "Gvuðs eins og sumir kjósa að kalla hann". Ef ykkur er alvera í leit ykkar þá munuð þið finna hann!

Og munið eitt: Drottinn elskar okkur öll :)


úlfurinn - 23/11/04 15:04 #

Dóri:Ef trúarfylliríið mundi klikka,er þá ekki í lagi að hafa með sér nokkra öllara?


Gunnar - 15/03/10 14:35 #

Já það er sorglegt að það sé enn til fólk á 21 öld sem heillast af þessum lygum og bulli.


Gilli - 29/12/10 18:56 #

Dóri:

Góð rök hjá þér, bara skella sér og finna gvuð.

Svipað eins og að segja þunglindum einstaklingi að skella sér bara í göngutúr eða í sund og hætta þessu væli.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 29/12/10 21:08 #

Þó við séum alltaf þakklát fyrir athugasemdir þá er rétt að nefna að innlegg "Dóra" er meira en 6 ára gömul.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.