Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Guð nappaður á viðkvæmu andartaki

Það kannast allir við hina klassísku þversagnarspurningu: Getur Guð skapað svo stóran stein að hann geti ekki lyft honum?

Þetta er auðvitað bráðskemmtileg spurning og húmorísk. Ég man fyrst eftir að hafa verið spurður að henni af miklum spekúlant sem aðhylltist þá hugmyndafræði að heimurinn væri nákvæmlega eins og maður vildi að hann væri. Ef maður skipti um skoðun á heiminum myndi heimurinn sjálfur breytast um leið.

Ég elska svona vitleysu.

En er einhver vitræn leið að svara spurningunni um Guð og steininn? Ef ég væri t.d. prestur í útvarpsviðtali, myndi ég þá þurfa að tafsa mig út úr þessari lúmsku spurningu með einhverju þvaðri um að ekki gengi að meta almætti guðs á svo jarðneskan skala?

Ég held ég sé með ágætt svar, sem útskýrt gæti þetta almætti að einhverju leyti:

Já, hann getur það - en hann getur samt lyft honum.

Fyrst Guð er almáttugur hlýtur hann að geta skapað svona stein. En fyrst hann er almáttugur hlýtur hann líka að geta lyft honum. Það eina sem þarf að átta sig á er að frá því að Guð skapar steininn og þar til hann lyftir honum getur hann ekki lyft honum. En um leið og hann lyftir honum hefur hann unnið það afrek að lyfta steini sem hann getur ekki lyft.

Yndislegt. En það er í þessu eitt tvist. Á því andartaki sem Guð er að byrja að lyfta steininum er hann í vondum málum. Hann er nýbúinn að skapa stein sem hann getur ekki lyft og er því ekki almáttugur, en mun sekúndubroti síðar ekki hafa getað skapað stein sem hann getur ekki lyft. Guð er því fullkomlega vanmáttugur á nákvæmlega þessum tímapunkti eilífðarinnar, getur hvorki skapað né lyft.

Ég væri til í að sjá svipinn á honum þarna.

Birgir Baldursson 28.04.2004
Flokkað undir: ( Klassík , Vísindi og trú )

Viðbrögð


bjadddni - 29/04/04 20:52 #

Minnir mig á einhvern undarlegan hátt á kjánalegu heimspekispurninguna sem var einhvernveginn á þessa leið: "Ef tré fellur í skógi og engin nálægt til að heyra, verður til hljóð við fall þess?" Tengist samt trúa líklega á mjög fjarlægan hátt en þó einhvern, bara álíka djúpt.


Bjoddn - 29/04/04 21:34 #

Gott að sjá að fólk er farið að skrifa nafn sitt eins og það hljómar :)


Skúli - 30/04/04 10:49 #

Og kjarni kristinnar trúar er einmitt sá að Guð gerist maður. Hinn almáttugi Guð mætir okkur sem lítið barn á jólum, gengur í rykinu meðal manna, er negldur á kross sem hver annar svíðingur.

Allt í krafti þess máttar sem æðstur er og merkastur: Kærleikans.

Þarna sjáum við almættið í öllu sínu veldi.

Voruð þið ekki farin að sakna mín?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 30/04/04 15:54 #

Kjarni kristinnar trúar er að boða ríki útvalinna til handa þeim sem ástunda þrælslund og skriðkvikindishátt fyrir meintum ógnaröflum hin fasíska guðs þíns. Og kjarni guðfræðinnar felst í að verja þennan óverjandi málstað, finna leiðir til að breiða yfir ógeðið og til að telja fólki trú um að hatrið í Biblíunni sé kærleikur.

Þú ert eins og kollegar þínir orðinn mjög leikinn í þessu, en eftir stendur bókstafur Biblíunnar nakinn í óhugnaði sínum. Með því að túlka þetta eins og þú gerir ertu að gera lítið úr Biblíuskilningi fyrri alda og í raun að segja að öldum saman hafi kristin kirkja boðað rugl og bull. Ef þú aftur á móti myndir hitta fyrir eins og eitt stykki prest frá því fyrir 500 - 1000 árum, myndi hann aftur á móti segja fullum fetum að túlkun ykkar nútímaguðfræðinga væri bull.

Hvor hefur rétt fyrir sér? Eða getur verið að hvort tveggja sé bull? Eru ekki bara öll trúarbrögð bull?

Þetta tengist auðvitað ekki greininn hér að ofan baun. En jú, ég var farinn að sakna þín.


Skúli - 30/04/04 16:50 #

Hvaðahvaða?

"Ef þú aftur á móti myndir hitta fyrir eins og eitt stykki prest frá því fyrir 500 - 1000 árum, myndi hann aftur á móti segja fullum fetum að túlkun ykkar nútímaguðfræðinga væri bull."

Jafnvel þótt hitti guðfræðing frá því fyrir tæpum 2000 árum myndi hann nú vart andmæla þessu kærleikshjali mínu - hvað þá því að Guð hafi afsalað sér alveldi sínu og gerst maður. Þetta er kjarni málsins.

"Þetta tengist auðvitað ekki greininn hér að ofan baun."

Ég veit ekki með þitt svar en mínar hugleiðingar gera það. Þarna er Guði kristninnar teflt fram gegn guði heimspekinganna. Hinn fyrri er persónulegur og kærleiksríkur - hinn síðari apatískur og fjarrænn alheimsandi.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 30/04/04 17:57 #

Nei Skúli minn. Áður fyrr höfðu menn þá skýringu á niðurstigningu guðsins til krossfestingar að með því væri hann að taka á sig syndir mannanna. Í dag tala menn ekkert um slíkt heldur hamra á þessu með að guðinn hafi viljað prófa að deila kjörum mannsins, jafnvel glæpamannsins, til að geta betur staðið við hliðina á mönnunum í þjáningum sínum.

Þetta eru tvær ólíkar túlkanir á athæfi Guðs Biblíunnar. En af því að greinin hér að ofan fjallar um almætti Guðs, þá má velta fyrir sér hvort sá guð sé almáttugur sem ekki getur lifað sig inn í þjáningar mannanna án þess að gerast maður sjálfur. Og var hann þá fávís um mannlega reynslu áður en hann mætti á svæðið? Getur slíkur guð þá verið alvitur?


Skúli - 02/05/04 01:39 #

„Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi.“ (Filipp. 2:7-8.)


Arnar - 26/09/04 11:21 #

Getur maður safnað það miklu hári að það sé ekki hægt að klippa það


Kruistinn - 26/09/04 15:04 #

Guð sem búin er til af takmörkuðu ímyndunarafli, á auðvelt með að rata í alls kyns vanda. Hvernig þessi Guð stendur sig svo í þrautum er ekki mælikvarði á neitt annað en hugmyndaflug manna.


Lárus Páll Birgisson - 27/09/04 05:02 #

Skemmtilega pælingar með steininn :) Ég var svona að vellta því fyrir mér að ef að þessi tiltekni guð, í dæminu hér að ofan, er almáttugur, þá hlýtur hann að geta ákveðið sjálfur hvenær hann getur lyft steininum og hvenær ekki. Með öðrum orðum: almáttugur guð hlýtur að vera AL-máttugur og þannig ákveðið sjálfur hvort og hvenær, hann geti gert tiltekna hluti.

Getur einhver svarað mér þessari: Getur enginn guð skapað stóran stein?


Lárus Páll Birgisson - 30/09/04 17:13 #

Engin viðbrögð? Ekki segja mér að ég hafi verið að jarða þessa spurningu um steininn??


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 30/09/04 18:58 #

En getur þessi guð skapað burrito svo kryddaða að hann geti ekki étið hana sjálfur?


Snæbjörn - 30/09/04 23:53 #

Hahaha


Lárus Páll Birgisson - 02/10/04 00:00 #

Já, því ef hann er almáttugur þá ræður hann algerlega hvenær og hvaða eðli hann hefur.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 03/10/04 12:46 #

Það þýðir þá að hann getur ákveðið að hafa það eðli að éta burritoið = að hann geti étið það = að hann geti ekki skapað svo kryddað burrito að hann geti ekki étið það sjálfur => guð er þá ekki almáttugur.


Lárus Páll Birgisson - 03/10/04 18:49 #

Jú jú, hann getur bæði!... í raun og veru getur hann allt...það felst jú í eiginleikanum að vera AL-máttugur.


Kristinn - 03/10/04 19:48 #

Ef við reynum að heimfæra þetta “hugtak” almætti á eitthvað, hvað mundi það þá vera?

Hvað er almætti? (en það er væntanlega spurningin)

Ef við leiðum hugann að raunveruleikanum í kring um okkur, sem er líkt og umfang (alls?) í tíma og rúmi (eins og margir vilja sjá það fyrir sér), þá getum við væntanlega leitt hugann að spurningunni um “upprunann”, eða forsendum “sköpunarverksins” (raunveruleikans).

Hver er sá máttur sem leiðir af sér allt sem fyrir finnst?

Ef það er einhver máttur sem leiðir það af sér, þá er sá máttur (alla vega í vissum skilningi) ALMÆTTIÐ.


Kitty - 25/10/04 17:55 #

Ef þú meinar þetta svona táknrænt, þetta með hvort guð geti skapað svo stóran stein að hann geti ekki lyft honum, þú held ég að ég myndi segja já- hann, eða hún, er búin(n) að því.

Ég held að trúleysi gæti verið túlkað sem steinn, og enginn guð, hversu máttugur sem hann/hún er geti breytt hugum þeirra sem trúa ekki að hann geti það. Þar sem guð á að hafa skapað allt, hefur hann/hún skapað ykkur/okkur, og trúleysið og hann/hún getur ekki aflétt því(hvort sem hann/hún vill eða ekki.) Svo að Guð hefur nú þegar skapað stein svo stóran að guð getur ekki lyft honum

---bara pæling---


Kristinn - 06/12/04 12:38 #

Same old same old Þetta er alltaf spurningin um það hvort kom á undan. Hænan eða eggið. Getur Guð ekki lyft steininum af því hann ákveður að svo sé eða getur hann ekki lyft honum því steinninn er of stór og hann getur ekki tekið ákvörðun um það? Ef að maður trúir að Guð sé almáttugur, þá hlýtur hann að geta hvoru tveggja, skapað steininn og lyft honum. Þetta orð ef er mikilvægt hér. Nöldur.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 06/12/04 12:54 #

Kristinn, þú ert þá að samþykkja að guðshugtakið sé órökrétt?


Össi - 22/03/05 02:10 #

Þessar umræður eru komnar út í rugl. Það þarf ekkert að hugsa um hvað guð vill eða vill ekki. Þetta er þversögn sem sýnir að það er ekki mögulegt að vera almáttugur. Ég skil ekki hvernig menn geta rætt það eitthvað frekar. Þetta er álíka og að ræða það hvort banani geti verið ekki banani, hvort að Jói Fel geti verið ekki Jói Fel eða hvort X geti verið ekki X. Það væri bjánaleg umræða og tilgangslaus.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.