Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Siðlaust trúboð

Ég hef aftur og aftur heyrt fólk gera grín að meðlimum sértrúarsafnaða sem ganga í hús til að reyna að lokka fólk til liðs við trúarbrögð sín. Ég verð að játa að mér finnst bara allt í lagi að þetta fólk gangi í hús og reyni að frelsa fólk. Trúboðar mega ganga í hús en þeir mega líka eiga von á því að skellt verði á nefið á þeim, þetta er trúfrelsi. Ég veit ekki um neinn sem hefur fallið fyrir svona heimsóknum en líklega gera það einhverjir. Þetta er augljóst trúboð, þetta er ekki í dulargervi, þetta er heiðarlegt.

Það eru önnur trúboð sem mér þykir verri, trúboð undir fölsku flaggi. Í grunnskólum landsins fer fram trúboð. Kristinni trú er troðið upp á grunnskólanemendur undir því yfirskyni að hér sé verið að fræða nemendur um menningararf þjóðarinnar, svo er ekki. Í kristinfræði er ekki kennt að kristnir menn trúi hinu og þessu heldur er sagt að veröldin sé eins og kristin trú segir okkur að hún sé.

Nú er ljóst að trúboð í grunnskólum hefur ekki skilað neinum árangri, í könnunum hefur komið fram að minnihluti Íslendinga lítur á Jesú sem frelsara sinn. Þjóðkirkjan hefur brugðist við þessari ógn með því að herða áróðurinn, grunnskólabörn hafa of þjálfaða rökhugsun til að falla fyrir kristniruglinu þannig að kirkjan er farin í leikskólana með trúboð sitt.

Nú geta foreldrar tekið börn sín út úr þessum trúboðsstundum en það verður þá yfirveguð ákvörðun um að stimpla börnin öðruvísi í augum félaga þeirra. Þegar foreldrar taka börn úr kristniboðstímum þá eru þeir að taka ákvörðun sem gæti orðið til þess að barnið lendi í einelti og barnið fyllist gremju í garð foreldranna.

Það er grimmilegt að neyða foreldra til þess að taka þessa ákvörðun og þeir sem komu þessu kerfi á vita hve erfitt þetta er, þeim er bara sama. Þetta er bara hluti af því siðleysi sem einkennir þetta kristniboðskerfi. Það er siðlaust að reyna að troða boðskap kristninnar í óhörðnuð börn, það er siðlaust gera þetta í nafni menntunar og það er siðlaust að láta grunnskólakennara taka þátt í þessu.

Svívirðilegasta trúboðið er í dulargervi hjálparstarfs. Það er örugglega til fullt af fólk sem gefur kristilegum hjálparsamtökum pening í þeirri trú að allir peningarnir fari í raunverulegt hjálparstarf þegar staðreyndin er sú að peningarnir eru oft líka notaðir í trúboð. Þessir trúboðar eru blindir á eigið siðleysi, þeir skilja ekki að það að blanda saman hjálparstarfi og trúboði sé á nokkurn hátt rangt, þeir halda að kristni eigi eftir að koma fólki að jafn miklum notum og matur og heilsugæsla. Það er bara rangt og sýnir hve heimsmynd þessa fólks er brengluð.

Óli Gneisti Sóleyjarson 18.03.2004
Flokkað undir: ( Siðferði og trú , Skólinn )

Viðbrögð


Bjoddn - 18/03/04 01:04 #

Ég ætla ekki að vera sammála þér með sértrúarsöfnuði sem banka uppá hjá fólki. Í mínum huga eru þetta hrægammar sem eru að leita sér að fólki sem er varnarlítið einhverra hluta vegna. Ef menn hafa lent í einhverjum hremmingum eru þeir tilvalin skotmörk fyrir svona söfnuði og það er hið versta mál.

Ég hef horft upp á einn svona söfnuð halda vikulegt námskeið í því hvernig er best að fá fólk inn í trúna. Það virkar svosem ekkert vel hjá þeim en þó að einhverju leiti. Eins og þegar ég gef gjafir, þá er það ekki endilega hversu mikið um er að ræða heldur hugarfarið á bak við :)

Fyrir þig skiptir þetta kannski litlu því þú ert bara í góðum gír. Það er hinsvegar ekkert verið að stíla á þig heldur er verið að herja á veiklundaða til að gera þá að þrælum, fá úr þeim frjáls framlög undir yfirskini trúar sem stenst enga gagnrýni. Þessir söfnuðir taka til sín fólk sem kannski ætti frekar að fá einhverskonar faglega þjónustu, fylla það af ranghugmyndum og mjólka síðan úr því frjál$ framlög og vinnu.

Eitt er ég þó sammála þér með. Trúmenn miða lágt þegar þeir eru að lokka til sín meðlimi. Ýmist herja þeir á veiklundaða eða börn, þ.e. fólk sem auðvelt er að ráðskast með og það er bara ljótt.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 18/03/04 01:30 #

Mitt álit er nú samt sem áður en þetta sé nú skárra heldur en leikskóla/grunnskóla/hjálparstarfstrúboð vegna þess að þau form trúboðs eru á fölskum forsendum og taka einnig til hópa sem eru viðkvæmir fyrir en hafa ekki þann valmöguleika á að skella hurðinni á trúboðana.


Bjoddn - 18/03/04 08:58 #

Skárra kannski... en hreint ekki allt í lagi.

Mér sýndist nú á mogganum um daginn að tillögur væru uppi um að herða á trúboði í skólum frekar en hitt. Yfirskriftin er sú að krakkar beri svo litla virðingu fyrir öðrum kristnum trúsöfnuðum en enginn talar um fækkun í þjóðkirkjunni og minnkandi virðing fyrir henni sem er hin raunverulega ástæða. Það vita það allir að rúmir 3 milljarðar í styrk á ári er eitthvað til þess að berjast fyrir, að ég tali nú ekki um eignir og þvíumlíkt að auki, þannig að ekki snýst þetta um trú eða eitthvað andlegt heldur beinharða peninga.


jogus (meðlimur í Vantrú) - 18/03/04 09:05 #

Punkturinn hans Bjoddns virtist einmitt vera sá að hurðartrúboð sé ekki til að finna mig og þig, heldur þá sem eru veikir fyrir og hafa ekki (andlegan) styrk til að skella hurðinni á trúboðana. Ljótt ef satt er.

Ég held við getum verið sammála að það þurfi að fara varlega með trúboð þegar verið er að reyna að draga í söfnuð fólk sem hefur ekki mótstöðuafl (forsendur til að meta það sem matað er ofan í það), svo sem börn eða einstaklinga sem veikir eru fyrir.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 18/03/04 09:54 #

Við skulum bara kalla spaða, spaða. Trúboð ríkiskirkjunnar í leikskólum og kennsla "fræða" þeirra í grunnskólum er BARNANÍÐINGSHÁTTUR og ekkert annað (afsakið hrópin).

Ég hef persónulega reynslu af málinu og hef verið niðurlægður, svívirtur og svo kúgaður, bara af því ég vildi ekki láta kenna og innræta barninu mínu yfirnáttúruþvaður frá því það var 4 ára gamalt.

Í leikskóla var 5 ára barninu mínu komið fyrir í bleyjubarnadeildinni á meðan sóknarpresturinn kom í sínar reglulegu heimsóknir með gítar til að kenna börnunum Jesúsöngva og segja þeim skemmtisögur úr Biblíunni. Og þegar hann bauð þeim í heimsóknir í kirkjuna varð barnið mitt að hanga á kaffistofu fóstranna í umsjón skúringarkonunnar. Svo híaði vígreifur og heilagur skarinn á barn mitt og veifaði Jesúmyndum. Gubb.

Í grunnskóla gafst ég upp þegar mér var sagt að ég yrði að taka frí úr vinnu til að sækja barn mitt í alla kristinfræðitíma og koma því út úr skólanum því enginn væri til að passa og það mætti ekki hanga á ganginum!!!!!!!!!!!!! Það er bara eitt orð yfir þetta : FASISMI. Barnið fylltist óhug þegar það sá fyrir sér eineltið og hláturinn sem því fylgdi að láta pabba koma og draga sig út úr skólastofunni þegar ALLIR hinir væru að læra um góða Jesú og englana. Kúgunin var fullkomin og barnið lærir nú allt helvítis kjaftæðið. Uppgjöf.

93


Bjoddn - 18/03/04 11:14 #

En hvernig ætli það sé með þá krakka sem alast upp við önnur trúarbrögð? Þegar ég var í skóla, þá fengu krakkar sem ólust upp með sænsku sem annað tungumál að taka kúrsa í henni í stað dönsku, líklega á þeirri forsendu að um einhvern fjölda slíkra barna væri að ræða. Ætli eitthvað svipað eigi við um trúabragðadæmið? Fá búddistar kennslu í slíkum fræðum eða eru allir bara settir beint í kristinfræðina? Það er nefninlega ekki hægt með góðri samvisku að hafa sama kerfi á nú og var í gamla daga þegar allir voru aldir upp í sömu vitleysunni, það hlýtur að þurfa að gera ráðstafanir fyrir þá sem vilja ala upp börn í annarskonar vitleysu þar sem fjöldi þeirra er nú orðinn þónokkur. Á meðan ríkið vill ekki treysta foreldrum fyrir að ala börn sín upp með þá hugmyndafræði sem þeir vilja, þá erum við í furðulegum málum verð ég að segja.

Líng Píng má svosem hafa sína skoðun á hlutunum en við viljum samt hreinsa þessar skoðanir úr hans börnum og koma okkar að í staðinn því ef það ekki trúir á ríkisguðinn, þá verður það aldrei alvöru íslendingur.

En ætli nokkur breyting verði á... kristin trú er milljarða bisness hér á landi og það er erfitt að fá menn til að hlusta á eitthvað sem kemur til með að kosta þá fé.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 18/03/04 11:25 #

Bjoddn, Karl biskup er þegar búinn að afgreiða þetta dæmi út af borðinu. Á síðasta Kirkjuþingi tilkynnti hann að eftir nákvæma skoðun (ríkiskirkjunnar) þá væri komið í ljós að á Íslandi væri bara hreint ekkert fjölmenningarþjóðfélag og því væri allt tal um að breyta skipan kristnifræðikennslu bara rugl. Yeah right. Reyndar taldi hann þó enn ríkari ástæðu nú en áður að tvíefla kennsluna og aðkomu kirkjunnar í skólana. Sennilega til að kristna nú þessi heiðnu Búddabörn.

Þessi fasismi mun ekki breytast nema með byltingu hugarfars og grundvöllur fyrir slíkt verður ekki fyrr en búið er að aðskilja ríki og kirkju sem ég tel mesta réttlætismál okkar í dag.

93


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 18/03/04 13:30 #

Einnig var skrifað um kristniboða hér á Vantrú í greininni Kristniboðsdagurinn


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 18/03/04 17:56 #

Mér þykir sýnt að ákvæði stjórnarskrár um trúfrelsi halda ekki vatni þegar á hólminn er komið, enda er botninn suður í Borgarfirði! Þetta minnir nú aðeins á samband shí'íta og súnní múslima: Þeir eru jafnir og jafnréttháir að nafninu til og halda því friðinn. Í reyndinni halda þeir friðinn svo fremi að shí'ítarnir reyni ekki að notfæra sér réttindi sín. Með öðrum orðum, friðurinn helst svo lengi sem hinn undirokaði möglar ekki. Líkingin er vitanlega sú að þótt kristni og þjóðkirkja séu að nafninu til jafnrétthá öðrum trúfélögum eða lífsskoðunum, þá er ekki lognmolla nema vegna þess að þeir sem eru ósammála leggja ekki í þursinn.

Hvað "door-to-door" trúboð varðar, þá held ég að ásatrúarmenn hafi hitt naglann á höfuðið, með þeirri ákvörðun sinni að stunda einfaldlega ekki trúboð. Sá sem kemur til þeirra gerir það af eigin hvötum og á eigin forsendum. Þetta er eins og með símasölu. Ef mig langar að kaupa einhverja bók eða gerast áskrifandi að einhverju blaði er ég fullfær um að gera það sjálfur. Heimatrúboð er ekkert annað en sölumennska. Ef ég hef áhuga á að kynna mér hindurvitni er ég fullfær um að gera það sjálfur eða leita sjálfur eftir aðstoð við það, þótt því sé ekki troðið upp á mig, blásaklausan manninn!

Ég get nú ekki neitað því, að stundum hef ég nú lúmskt gaman af að rökræða við t.d. Votta Éhóva. Trúarbrögð geta vel verið áhugavert umræðuefni þótt maður aðhyllist þau ekki og rökræður um þau styrkja mig bara í trúleysinu. Mig. Það gildir ekki sama máli um aðra, endilega. Mér finnst það vera hrein svívirða að gera út á þá sem eru veikir fyrir og ginna þá með gylliboðum. Mín kynni af þessu eru talsverð; með skólanum vinn ég á geðdeild Landspítalans. Þar er stöðugur gestagangur af allra handa fíladelfíufólki, kaþólskum nunnum og þjóðkirkjuprestum og keppast menn hver um annan þveran að breiða út "fagnaðar"erindið. Heilu tylftirnar af sálmabókum og stillt á Ómega a.m.k. 10 klst á dag. Þeir sem eru veikir á svellinu andlega - halda sig jafnvel heyra í guði og fá fyrirmæli eða boð að handan - eru settir í vonda stöðu. Ég þekki til nokkurra dæma um að fólk hafi verið haft að ginningarfíflum og plataðir út úr því peningar, veiku, inni á sjúkrahúsi. Jafnvel að það hafi verið LÆÐST framhjá starfsfólki til að komast að sjúklingi. Er þetta boðlegt?


Kordelia - 19/03/04 12:10 #

Ég er svo sammála með þessi trúboð, þetta er bara bull og árás á fólk! Af hverju er líka e-ð meira mál fyrir börnin að fá að sleppa kristinfræðikennslu heldur en dönskukennslu? Ég minnist þess ekki að það hafi verið svo mikið mál þegar ég var í skóla (allavega ekki í mínum bekk) og að vera með kristinfræðiheilaþvott á leikskólum og geðsjúkrahúsum og að blanda honum saman við hjálparstörf finnst mér svo ósiðlegt og lágkúrulegt. Auðvitað eiga presturinn og nunnurnar ekkert með að vera að koma á sjúkrahús nema beðið sé um það, af sjúklingnum sjálfum. Hjálparstarf á heldur ekkert skilt við trúarbrögð, finnst fólkinu sem hjálpað er ekki það bara vera skyldugt til að hlusta á bullið þegar búið er að klæða það og fæða?


Úlfurinn - 27/03/04 17:00 #

Þegar ég var í barnaskóla fyrir margt löngu var ég látinn stagla í gegnum biblíusögur,sálma og annað sem tilheyrir þessum kreddum.En hvað ég væri betur staddur ef tímanum hefði verið eytt í eitthvað hagnýtt,td stærðfræði.Með mér í skóla var strákur hvers faðir bannaði að hann lærði kristinfræði.Hann varð fyrir verulegu aðkasti,bæði frá skólafélögum og þó sérstaklega frá skólastjóranum.Í dag væri þetta kallað einelti,en þá var ekki búið að finna upp þetta orð


Bjoddn - 27/03/04 18:01 #

Kannski mætti koma upp valáföngum fyrir krakkana bara. Valið gæti staðið á milli t.d. kristinfræði, heimilisfræði, smíðakennslu, vélvirkjunar, bókmennta og þvíumlíks. Þannig væri fólk ekki lengur kúgað eins og Aiwaz hérna að ofan og einelti vegna trúarskoðana yrði minna en nú. Persónulega vildi ég frekar að mín börn tækju aukaáfanga í smíðum eða vélvirkjun í stað kristinfræðikennslu sem kennir þeim ekki neitt. Þá geta heittrúaðir veifað sínum biblíumyndum á meðan vantrúaðir veifa hillum eða kökum og þá ættu allir að verða ánægðir bara.

Mér þætti gaman að sjá hvernig færi ef fólk gæti valið á milli kristinfræði og hanýts náms fyrir sín börn. Mig grunar að kristinfræðikennsla mundi leggjast af fljótlega með þessu fyrirkomulagi.


Eva - 28/03/04 18:23 #

Ég heforðið vitni að því hvernig sértrúarsöfnuður notfærði sér fólk sem var andlega veik niðurlækt í sjónvarpinu om. það eru talið trú um að það verði að borga tíund og að auki betlað í baukinn. Að öðrum kosti er það bannfært fólk er óttastlegið það er hrópað á það að öðrum kosti fer það til helvítis allt er þetta undir rós og allir taka það til sín. Það er oftar hrópað á djöfulinn en almættið Fólk er dáleitt og kennt að tala tungum. Hvað sem það á að túlka? er ekki kominn tími til að banna þessa sértrúarsöfnuði Þá á ég við alla trúarsöfnuði.


jogus (meðlimur í Vantrú) - 29/03/04 09:20 #

Ég held að það sé helvíti hart að banna svona, miklu eðlilegra væri að setja einhverjar siðareglur sem þyrfti að fylgja. Oxymoron?


urta (meðlimur í Vantrú) - 25/10/04 14:28 #

Af öllu slæmu sem trúaðir taka sér fyrir hendur er svokallað trúboð sennileg verst. Að nýta sér veikar hliðar og/eða aðstæður fólks til þess að koma inn hjá því eigin hugmyndum er vægast sagt siðlaust.

Þetta líkar trúuðum - að foreldrar þori ekki að taka börnin sín út úr trúarítroðslutímum til þess að þau verði ekki stimpluð öðruvísi! Eina lausn þeirra er sem sagt að öll börn verði pínd til veru í þessum tímum - ekki að trúin sé frjáls val.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.