Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Um góðu verkin hans Lúthers IV: Lúther gegn góðu siðferði

>Fjórða boðorðið er heiðra skaltu föður þinn og móður þína. Vér lærum af þessu boðorði, að engin verk eru til betri eftir hin háleitu verk hinna þriggju boðorða en hlýðni og þjónusta við alla þá, sem yfir oss eru settir. Því er og óhlýðni meiri synd en morð, óskírlífi, þjófnaður, svik og allt, sem í því getur falist" (47 - Feitletrun mín)

Þegar Lúther fer að vinna út frá fjórða boðorðinu þá sést ákaflega vel hve siðferðisvitund hans er ótengd því sem við getum kallað almennt siðgæði á Íslandi. Þegar þessi boðskapur Lúthers er skoðaður þá skilst manni hvernig hann gat fengið af sér að hvetja til fjöldamorða á þeim sem tóku þátt í bændauppreisninni nokkrum árum eftir að þetta rit hans kom út, bændurnir voru óhlýðnir og því verri en morðingjar.

Það að hugsa sér að óhlýðni sé verri synd en morð er á skjön við allt sem okkur finnst eðlilegt í dag, menn einsog Gandhi, Martin Luther King (sem var svo óheppinn með nafna) og allir þeir sem hafa tekið þátt í að mótmæla ranglæti stjórnvalda sinna eru í augum Lúthers verri en morðingjar.

En Lúther gengur lengra:

"Því að hverjum manni verður að stjórna, og skal hann vera öðrum mönnum undirgefinn." (48)

Það er nokkuð ljóst að Lúther átti fleira sameiginlegt með nasistum en bara gyðingahatrið. Það er greinilegt að sú einstaklingshyggja sem margir hafa viljað kenna Lúther við ristir ekki djúpt ef hún er þá yfirhöfuð til staðar.
Lúther hafði líka sínar hugmyndir um hvernig best væri að ala upp börn:

"Foreldrar geta á hinn bóginn ekki unnið til helvítis með auðveldara móti en börnum sínum" (51)
"Hvað er það annað en að fórna sínu eigin barni til hjáguðsins og brenna, þegar foreldrarnir ala börn sín upp fremur heiminum til geðs en Guði," (49)
"Án þessarar trúar er hvert verk lífvana og hvorki gott né Guði þóknanlegt. Því að margir heiðingjar hafa alið börn sín vel upp, en allt er það til einskis vegna vantrúarinnar" (51)

Það er ljóst að þeir foreldrar sem voga sér að ala börn sín upp í vantrú munu uppskera helvíti, það er í raun jafn slæmt og að fórna barni sínu til dýrðar hjáguði. Það skiptir ekki nokkru máli hvort börnin séu að öllu öðru leyti vel upp alin, Guð mun ekki taka neitt tillit til þess.

Líklega er þetta byltingakenndasta framlag Lúthers til uppeldismála:

"Það ætti að vera til sú skipan mála að gifta pilta og stúlkur í tíma og koma þannig í veg fyrir slík vandræði." (57)

Vandræðin sem Lúther er að tala um er að sjálfsögðu girnd, til að koma í veg fyrir hana vill Lúther bara gifta ungmenni svo þau geta uppfyllt þarfir sínar heima við. Því miður tekur Lúther ekki fram hve gömul ungmennin ættu að vera.

Lúther hefði ekki verið hrifinn af verkalýðshreyfingunni:

"Nú er mest kvartað í heiminum um hjá og verkafólk, hve það sé óhlýðið, ótrútt, óprúttið og hugsi ekki um annað en eigin hag. Það er plága frá Guði. (...) Þau hafa samt nóg að gjöra, ef hjarta þeirra beinist að því að gjöra það, sem þau vita að húsbændum þeirra fellur, og allt í einfaldri trú. Þau eiga ekki að sækjast eftir að afla sér mikillar verðskuldunar með þessum verkum, heldur gjöra það allt í trausti til náðar Guðs," (58)

Augljóslega ættu allir Íslendingar að hafa þessi orð í huga þegar þeir eru að kvarta yfir leiðinlegum yfirmönnum og erfiðri vinnu, þeir ættu að gleðjast yfir því að engum dettur í hug að hlusta á Lúther.

Lúther gat að sjálfsögðu ekki fjallað um hlýðni án þess að taka fyrir þá veru sem honum fannst hvað verst á jarðríki, konuna:

"eiginkona á að vera manni sínum hlýðin og undirgefin sem yfirbjóðanda sínum, láta undan, þegja og láta hann hafa rétt að mæla" (59)

Þjóðkirkjan hefur af einhverjum ástæðum ekki verið að halda þessum boðskapi mikið á lofti undanfarið, þetta var þó hluti af kristinni trú fyrir ekki svo löngu síðan.

Um fyrstu fjögur boðorðin hefur Lúther þetta að segja:

"þau taka manninn höndum, stjórna honum og leggja hann undir sig: hann á ekki að telja sig góðan, heldur að þekkja sjálfan sig í auðmýkt og láta að stjórn." (60)

Hlýðniboðskapur Lúthers er sem betur fer fjarri flestum Íslendingum. Við erum nefnilega einstaklingar en ekki hjarðdýr.

Um góðu verkin var þýdd af Magnúsi Runólfssyni og gefin út árið 1974 af Kristilega Stúdentafélaginu.

Óli Gneisti Sóleyjarson 17.03.2004
Flokkað undir: ( Lúther , Siðferði og trú )

Viðbrögð


Kvistur - 17/03/04 12:34 #

Mig langar að setja inn smá athugasemd. Í Bíblíunni segir; Kallaðu engann mann föður þinn á jörðu því einn er faðirinn og hann er á himnum. Ef svo er, hvaða föður eigum við að heiðra samkvæmt boðorðunum.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 17/03/04 15:42 #

Það að Biblían sé ósamkvæm sjálfri sér er ekkert nýtt.

Mér sýnist Lúther túlka þetta sem heiðrun á líffræðilegum föður en les í leiðinni út úr þessu að við eigum almennt að heiðra þá sem eru okkur æðri.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?