Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Költ

Það virðist lifa með manninum sú þrá að tilheyra einhverju stærra og voldugra en sjálfum sér og fjölskyldu sinni. Á öllum tímum hafa menn yfirgefið ættingja sína og vini og gengið í söfnuði sem höndla hinn eina sannleika. Innan þessara söfnuða dansa menn svo á götuhornum, gelda sig jafnvel og taka þátt í fjöldasjálfsmorðum, sé þess krafist af hinum heilögu foringjum.

Hvað er það sem knýr fólk til að ganga költi á hönd? Víst er að ekki skiptir máli hver boðskapurinn er. Hann má vera hvers kyns aðsteðjandi hætta í náttúrunni eða bið eftir yfirnáttúruverum sem leggja heim okkar í rúst en bjarga fáeinum hræðum og hlúa að þeim. Það virðast engin takmörk vera fyrir trúgirni fólks í þessum efnum, en ástæða þess að menn ganga í dómsdagssöfnuði kemur boðskapnum afar lítið við.

Nei, fólk gengur í költ vegna þess að það er leitandi, veikt fyrir, hrætt, skortir tilgang í lífið, þráir að lúta valdi og aga, vill hreinsast og öðlast sáluhjálp, svo eitthvað sé nefnt. Og markmiðið er auðvitað að lifa af boðaðar hörmungar og verða þátttakandi í ríkinu sem sett verður á stofn eftir endalokin.

Ætla má að fyrir leitandi sálir sé viðurkenningin samt mest heillandi við dómsdagssöfnuði. Menn hætta að upplifa sig sem hinn almenna Jón á götunni og verða þess í stað regluriddarar með titla og tilgang, stundum jafnvel vopn Guðs sjálfs. Er hægt að biðja um nokkuð dásamlegra? Að auki bætist vitneskjan um hvað verður um alla þá sem smánað hafa og spottað trú safnaðarmeðlima. Þeir farast að sjálfsögðu í eldi og brennisteini, hljóta makleg málagjöld á sama tíma og meðlimurinn sest að veisluborði í allsnægtum eilífðarríkisins.

Gangi maður í költ þarf maður ekki heldur að hafa fyrir því að hugsa. Safnaðarforinginn er sá sem allt veit og á svör við öllum hlutum. Með því einu að vegsama hann og hlýða honum, treysta á úrræði hans og umbun höndlar költmeðlimurinn reglu og jafnvægi, í stað hins tætingslega veruleika utan safnaðardyranna, þar sem sífellt er gerð sú krafa að menn taki sjálfstæða afstöðu til allra hluta.

Tvísinni er bráðnauðsynlegur þáttur í öllu starfi dómsdagskölta. Í stað þess að gefa sig út fyrir að taka annan pólinn þegar kemur að hinstu rökum tilverunnar er betra fyrir költið að aðhyllast bæði viðhorfin á einhvern mótsagnakenndan hátt. Þannig er best að boða bæði miskunn og refsingu, hatur og ást, ótta og óttaleysi, helst með afgerandi hætti.

Költ heimsins eru mörg og margvísleg. Djöflasöfnuðir, gengi Charles Manson, regla Alister Crowley, vísindakirkjan, félagsskapur um flata jörð, félög um fljúgandi furðuhluti, Vottar Jehóva. En skoðum nú aðeins hvað sagt var hér að ofan. Gæti eitthvað af þessu öllu átt við um kristindóminn, jafnvel hina evangelísku lútersku kirkju, eða eru þessir hlutir allt annars eðlis? Svarið hlýtur að vera sláandi ef þetta er skoðað fordómalaust. Það kemur nefnilega í ljós að kristnin er hreinræktað dómsdagskölt, en svo gamalt, svo útbreitt og svo almennt viðurkennt að fáum dettur í hug að sjá hana í slíku samhengi.

Samkvæmt hinum heilaga texta költsins krafðist hinn elskaði þess af mönnum að þeir yfirgæfu fjölskyldur sínar og fylgdu honum. Á öllum tímum hafa menn skynjað einhverja fegurð í þessu og hafið lærissveina hans til virðingar fyrir þá ákvörðun að fylgja leiðtoganum. Enginn kristinn maður virðist nokkurn tíma spyrja sig að því hvernig þetta bitnaði á eiginkonum þessara manna og börnum. Fóru ekki tólf fjölskyldur á vonarvöl?

Kristnin boðar dómsdag, þar sem ranglátir farast en hinir dyggu sitja veisluborð með skaparanum. Kristnin krefst skilyrðislausrar hlýðni við foringjann og bókstafinn og öldum saman höfðu fulltrúar foringjans á jörðinni alvald yfir þegnum sínum og rökuðu af þeim fé.

En nútímamanninum ætti að vera ljóst að það felst ekki nokkur lausn í því að gangast költi á hönd, hvort sem það heitir Moon-söfnuður, flokkur Texas Jesú, Krossinn eða íslenska Þjóðkirkjan. Því fylgir engin upplýsing, viska eða lausn. Hvaða raunveruleg svör á t.d. Karl Sigurbjörnsson við spurningum um hinstu rök tilverunnar?

Nei, það hlýtur að vera affarsælast að leyfa sjálfum sér frjálsa óhefta hugsun og byggja heimsmynd sína á því sem sýnt hefur verið fram á. Skref í þá átt er skref frá ósjálfstæði, hópsálarskap og sjálfsniðurlægingu. Slíkt skref er í átt að þekkingu og fögru siðferði, byggðu á aldalangri reynslu manna. Költin hafa alla tíð hunsað hana og teflt fram geðþóttaskýringum í staðinn.

Hugsum sjálf.

Fyrir þá sem vilja kynna sér enn betur það sem liggur að baki dómsdagsköltum þá bendi á þessa bráðsmellnu grein hér.

---

Svipað: Hvers vegna ertu í söfnuði?

Birgir Baldursson 11.03.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Nýöld )

Viðbrögð


karl - 11/03/04 14:00 #

Djöfulsins trú hefur þú á vantrú


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/03/04 14:07 #

Jamm, ég hef tröllatrú á vantrú, en ekki síst Vantrú :)


guðný - 11/03/04 23:20 #

yo.. ég hef tröllatrú á trú.. þú getur lifað í eilífri vantrú.. but u will regret it..


guðný - 11/03/04 23:23 #

mig vantar ekki neitt í lífið. ég er ekkert ósjálfstæðari þótt að tilgangurinn með mínu lífi sé að lifa fyrir trú.. þú lifir þínu lífi fyrir það að trúa ekki.. ur fighting for ur own death..


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/03/04 23:26 #

"but u will regret it.."

Er þetta hótun?


jogus (meðlimur í Vantrú) - 12/03/04 09:41 #

guðný = leoncie?


Eygló (meðlimur í Vantrú) - 13/03/04 02:33 #

Ég leyfi mér að efast um að Birgir lifi fyrir að trúa ekki. Er annars hægt að lifa fyrir e-ð sem er ekki til staðar?


Úlfurinn - 13/03/04 15:43 #

re:u will regret it: Undirstaða kristninnar er hótun:Ef þú trúit ekki ,þá ferðu lóðbeint til Andskotans


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/02/05 23:54 #

Einmitt, þetta er nú einu sinni dómsdagskölt :)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.